Tröllin í netheimum – árásir á konur á veraldarvefnum

Höfundur: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Pistillinn birtist fyrst í 62. tölublaði 19. júní og birtist hér, nokkuð styttur, með góðfúslegu leyfi höfundar.

17. maí 2012 setti Anita Sarkeesian auglýsingu á bandarísku fjáröflunasíðuna Kickstarter og óskaði eftir stuðningi netheima við heimildamynd sem hún vildi gera, „Tropes vs. Women: Video Games“, eða „Staðalmyndir og konur í tölvuleikjum“. Sarkeesian er þekktur feministi vestan hafs en hún heldur úti vídjóblogginu Feminist Frequency, þar sem hún fjallar um birtingarmyndir kvenna í afþreyingarmenningu samtímans. Í heimildamyndinni ætlaði hún að fara í saumana á því hvernig konur birtast í tölvuleikjum, hvaða staðalmyndum leikirnir
halda við (konur í vídjóleikjum eru oftar en ekki blóðug fórnarlömb og/eða léttklæddar með stór brjóst) og hvernig hægt væri að breyta þeim*.

sarkeesian lamin

Skjáskot úr „tölvuleik“ þar sem notendum var boðið upp á að lúberja Anitu Sarkeesian

Það tók tröllin í netheimum innan við sólarhring að finna beiðni Sarkeesian um stuðning. Hugtakið tröll, sem er íslensk þýðing á enska orðinu „troll“, hefur seinustu árin verið notað til að lýsa einstaklingi sem situr fyrir framan tölvuskjáinn, smellir á athugasemdatakka við grein eða vefsíðu og spýr út úr sér hótunum, móðgunum, blótsyrðum og viðbjóði við þá grein eða síðu, falinn á bak við nafnleynd veraldarvefsins. Undanfarin fimm ár hefur orðið æ ljósara að veraldarvefurinn hefur getið af sér samfélagsplágu tröllaskaps, múgæsingu netverja sem nýta sér nafnleynd veraldarvefsins til að segja hluti sem þeir myndu aldrei segja augliti til auglitis við aðra manneskju.

Múgurinn réðst á Sarkeesian fyrir að vilja skrifa um konur í tölvuleikjum. Þúsundir athugasemda voru gerðar við verkefnið þar sem Sarkeesian var kölluð öllum illum nöfnum, henni var hótað nauðgunum, líkamsárásum og morði, ljósmyndum var breytt í myndvinnsluforritum til að gefa Sarkeesian glóðaraugu og blóðtauma niður andlitið. Tröllin fóru á vefalfræðiorðabókina Wikipedia til að breyta síðu Sarkeesian þar, fundu hana á Youtube og öðrum samfélagsmiðlum og níddust á henni þar.

Kerfisbundnar árásir á konur í netheimum

Jessica Laney

Jessica Laney

Þessar árásir á Sarkeesian voru ógnvekjandi en því miður ekkert einsdæmi í netheimum. Tröllin sem réðust á Sarkeesian ráðast reglulega á aðra netverja og þá sérstaklega konur. Árásirnar snerust minnst um það hvað hún vildi gera en mest um það að hún, sem kona, dirfðist að fara á veraldarvefinn og þykjast ætla að hafa skoðanir og hafa rödd. Konur um allan heim hafa lent í múgæsingu netverja, árásum fyrir hvað þær segja, hvernig þær klæðast, hvernig þær líta út, eða bara fyrir það hreinlega að vera til. Veraldarvefurinn er útópískur vettvangur. Á veraldarvefnum getur hver sem er skrifað hvað sem hann vill. Þessi vettvangur er tækifæri fyrir hópa, sem hafa verið kúgaðir í aldanna rás, til að sitja við sama borð og ráðandi samfélagshópar. Þetta gerir veraldarvefinn auðvitað stórhættulegan ríkjandi ástandi og tröllin gera sitt allra besta til að færa vefinn aftur í ásættanlegt form, breyta honum aftur í vettvang þar sem sumar raddir eru betri en aðrar, þar sem karlaraddir eru merkilegri en kvennaraddir.

Þessar árásir eru ekki léttvægar. Þær eru kerfisbundin árás samfélagsins á konur sem fikra sig áfram á veraldarvefnum og segja þar skoðanir sínar og þær geta einnig haft alvarleg sálræn og líkamleg áhrif á fórnarlömb þeirra. Konum sem lenda í árásum á netheimum líður að sjálfsögðu ekki vel. Sumar hafa jafnvel framið sjálfsmorð. Jessica Laney, 16 ára, hengdi sig eftir margra ára einelti á veraldarvefnum. Það gerði einnig hin sextán ára Amanda Todd. Todd hafði skömmu áður hlaðið upp myndbandi á YouTube þar sem hún sagði sögu sína af eineltinu, „My story: Struggling, bullying, suicide and self harm“. Fyrirsætan Claudie Boerner, sem hafði tekið þátt í matreiðslukeppnum í sjónvarpinu, framdi sjálfsmorð eftir að hafa lent í stormi árása á veraldarvefnum.

Ofsóknir á Íslandi

Múgæsingur og tröllaskapur á sér einnig stað í íslenskum netheimum. Hildur Lilliendahl fær reglulega að heyra það í athugasemdakerfum fjölmiðla og á Facebook. Tröllum hefur tekist að láta loka Facebook-síðu hennar oftar en einu sinni, en það var ekki fyrr en í maí á þessu ári sem Facebook lét loksins undan þrýstingi og breytti opinberri stefnu sinni og skilgreindi kvenhatur sem hatursorðræðu. Hingað til hefur það nefnilega verið allt í lagi að hóta konum ofbeldi á Facebook og breyta myndum af þeim svo þær líti út fyrir að hafa verið lamdar. Facebook hefur, þar til nýlega, talið þetta vera hluta af frjálsri orðræðu á netinu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, lenti illilega í því þegar henni „varð það á“ að segjast vilja kaupa hvítvín með humrinum sínum í matvöruverslun í maí á þessu ári. Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi lendir enn í árásum fyrir að hafa fyrir nokkrum árum sagt í rælni sagt að það hefði verið áskorun að eignast son þar sem hún ólst eingöngu upp með stelpum.

Í lok ágúst 2012 birtist pistill í Fréttablaðinu eftir Tinnu Rós Steinsdóttur sem bar heitið „Ósjálfbjarga og elska það“ þar sem Tinna velti vöngum yfir kvenréttindabaráttunni á Íslandi og hefðbundnum kynhlutverkum. Þessi pistill olli miklu fjaðrafoki, en með honum tókst Tinnu einhvern veginn að koma við kauninn á öllum samfélagshópum, allt frá fúllyndum andfeministum í úthverfunum yfir í fjöllynda über-feminista í 101. Pistillinn birtist á laugardegi og næsta mánudag var Tinna Rós mætt á lögreglustöðina við Hlemm til að tilkynna formlega þær hótanir sem henni höfðu borist.

Reynsla Tinnu Rósar er ekki einsdæmi. Árásir á veraldarvefnum verða sífellt algengari og alvarlegri og erfitt hefur reynst að koma í veg fyrir þær eða ná böndum yfir þá sem lengst ganga. Tinna Rós hefur bent á að lögreglan hefur fá verkfæri til að bregðast við þvílíkum árásum, en ljóst er að ef hún hefði lent í svipuðum árásum í raunheimum hefði lögreglan getað brugðist við. Tækninni fleytir ógnarhratt áfram, en við búum enn í sama samfélagi. Við þurfum öll að taka höndum saman og hefja umræðu um hvernig samfélagi við viljum búa í, bæði í raunheimum og í netheimum. Hve langt megum við ganga í málfrelsinu? Hve langt megum við ganga, sem einstaklingar og sem samfélag? Næst þegar við sitjum fyrir framan tölvuskjáinn með fingurna reiðubúna á lyklaborðinu skulum við draga djúpt andann og velta fyrir okkkur hvort þetta sé eitthvað sem við myndum einnig segja við manneskjuna ef við sætum yfir kaffibolla fyrir framan hana.

 

*(Athugasemd frá ritstjórn: Knúzið hefur fjallað um konur í tölvuleikjum. Þá grein má lesa hér: Stúlkur í neyð í tölvuleikjum)

5 athugasemdir við “Tröllin í netheimum – árásir á konur á veraldarvefnum

  1. Tröll skilgreiningin er röng. Tröll er einhver sem spýr hatri og móðgunum og slíku til þess að fá athygli.
    Þetta er oftast þannig að einstaklingurinn reynir að vekja viðbrögð og tilfinningar hinu meginn skjásins en er í raun bara hlægjandi sín meginn.

    Tröll hegðar sér með þeim hætti til þess akkurat að vekja upp viðbrögð sem þessi og síðan hlær tröllið að fjaðrafokinu.

  2. Smá úr wikipedia.

    In Internet slang, a troll (/ˈtroʊl/, /ˈtrɒl/) is a person who sows discord on the Internet by starting arguments or upsetting people,[1] by posting inflammatory,[2] extraneous, or off-topic messages in an online community (such as a forum, chat room, or blog), either accidentally[3][4] or with the deliberate intent of provoking readers into an emotional response[5] or of otherwise disrupting normal on-topic discussion.[6]
    This sense of the word troll and its associated verb trolling are associated with Internet discourse, but have been used more widely. Media attention in recent years has equated trolling with online harassment. For example, mass media has used troll to describe „a person who defaces Internet tribute sites with the aim of causing grief to families.“[7][8]

  3. Allar tilraunir til að þrengja tjáningarfrelsið geta verið mjög hættulegar, jafnvel þótt þær séu oft góðra gjalda verðar og settar upp til að vernda einstaklinga. Hættan er sú að móðgunargjörn stjórnvöld og stórfyrirtæki nýti sér það einnig til að hefta alla gagnrýni á sig og aðgerðir sínar.

    Að því sögðu finnst mér þetta ekkert svo flókið mál. Því miður er ekki hægt að skylda fólk til betri hegðunar þannig að fólk með skoðanir þarf að þola svívirðingar. Ef hins vegar það er byrjað að hóta því líkamsmeiðingum, nauðgunum eða jafnvel lífláti auk þeirra ástvina þá er það lögreglumál. Það á ekki að vera hægt að fela sig á bak við tjáningarfrelsið þegar út í það er komið.

    Að lokum vil ég hrósa greinarhöfundi fyrir að koma Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur til varnar. Það er ákveðin vinstri slagsíða á knúzinu og þögnin meðal femínista þegar Þráinn Bertelsson kallaði Þorgerði Katrínu fasistabelju var ærandi.

    sa
    2sa
    s

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.