Orðsending til íslenskrar umræðuhefðar

Höfundur: Erla Elíasdóttir

 

mjaxmi1mntlhnmewmzayothmyjjmUpplýst umræða ætti með réttu að vera kjörlendi fyrir hugmyndaþróun og samræðu um ólík sjónarhorn okkar á samfélagið sem við byggjum. Umræða um femínísk málefni virðist hins vegar oft líða fyrir það að vera markvisst beint frá kjarna málsins (viðvarandi misrétti í samfélaginu, þrálátum rembukúltúr sem normalíserar ofbeldi og yfirgang, úreltum staðalímyndum sem hafa alltof mikil áhrif á viðhorf alltof margra) og fókusinn í stað þess settur á að rýna í einstök innlegg í umræðuna, rífa þau niður og helst höfundana með. Það er sjálfsagt að taka femínískri orðræðu með eins gagnrýnu hugarfari og hverju öðru sem fólk les eða heyrir. Hins vegar finnst mér þessi tiltekna tegund gagnrýni oft helst til þess fallin að gera lítið úr umræðunni eins og hún leggur sig (hún sé óþörf, því fullu jafnrétti hafi verið náð) eða þá að misst sé sjónar á henni í smásálarnöldri yfir hugtakanotkun („er femínismi nú ekki frekar villandi og kvenrembulegt hugtak? og hvað er eiginlega þetta feðraveldi?“).

Því fer fjarri að ég sé alltaf sammála öllum hinum femínistunum eða myndi endilega setja eigin sannfæringar fram á sama hátt, en þegar upp er staðið erum við sammála um að fullu jafnrétti; frelsi undan mismunun á grundvelli kyns, kyngervis og/eða kynhneigðar, hefur sannarlega ekki verið náð, og líka um nauðsyn þess að gangast við misbrestinum. Normalísering kynbundins ofbeldis í samfélaginu er raunveruleg og óásættanleg og þar skiptir vitundarvakning miklu, en hún er einmitt eitt af markmiðum opinnar femínískrar umræðu.

 

Ofsinn og hefðin


Oft er í besta falli dapurlegt að fylgjast með þeim ofstopa og mannfyrirlitningu sem sumir þátttakendur þessarar mikilvægu umræðu hafa í farteskinu, en nærtækt dæmi eru viðbrögð sem Hrafnhildur Ragnarsdóttir hefur mætt undanfarið fyrir að skrifa grein í fjölmiðil og segja frá reynsluheimi sínum, mörkuðum af stöðu hennar sem eilíflega mögulegs þolanda innan menningar sem lítur markvisst fram hjá kynbundnu ofbeldi. Mörgum hefur fundist framsetning Hrafnhildar villandi og óforskömmuð og fullyrða að þeirra eigin heimsmynd sé nú aldeilis-sem-betur-fer ekki á þennan veg. Eiginlega er afar einkennilegt að þessir sömu aðilar skuli þá ekki geta unnt öðrum þess að lýsa eigin upplifun af heiminum, heldur sjái ástæðu til að gera lítið úr viðkomandi með því að beina athyglinni að sjálfum sér og láta eins og hér sé fyrst og fremst á ferðinni persónuleg móðgun við hina óttalausu, upplifun þeirra og sjónarhorn. Að sjálfsögðu er besta mál að sum okkar skuli ekki hafa upplifað kynbundna áreitni og ofbeldi með tilheyrandi skerðingu lífsgæða, en jafnframt hlýtur að vera sjálfsögð krafa að viðkomandi átti sig á að slíkt telst hreinlega til forréttinda í þessum heimi.

Tilfelli Hrafnhildar er síst einsdæmi um hamslaus viðbrögð í umræðunni um kerfislægni kynbundins ofbeldis. Einnig má nefna ofsann sem enn er ausið yfir Hildi Lilliendahl fyrir að hafa haldið kvenfjandsamlegum ummælum á netinu til haga og í Svíþjóð braust út tiltölulega almenn reiði og vandlæting á síðasta ári í kjölfar umræðu um kynhlutlausa fornafnið hen, sem sumir kjósa að nota í stað kvenkyns og karlkyns fornafna (einnig má benda á þennan pistil eftir Öldu Villiljós þar sem stungið er upp á hán sem samsvarandi fornafni á íslensku). Það var engu líkara en sumir tækju því hreinlega persónulega að annað fólk hugsaði sér að ala upp barn án þess að klifa stöðugt á því við barnið og aðra nærstadda hvort það væri nú strákur eða stelpa.Ashley-Judd-on-Patriarchy-quote

Margir hafa gagnrýnt Hrafnhildi fyrir alhæfingar um karla; hún gefi í skyn að þeir séu allir af sama sauðahúsi. Frá mínum femínísku bæjardyrum séð er það síst til eftirbreytni að alhæfa á grundvelli kyns, en jafnframt tel ég ósanngjarnt að afskrifa orð Hrafnhildar með þeim hætti. Hún var nefnilega ekki bara að ávarpa karla, heldur fyrst og fremst menninguna sem þeir og við öll erum hluti af. Í þessari menningu býr ótalmargt sem reynir sífellt að segja okkur að karlar og konur séu eða eigi að vera svona eða hinsegin og þetta sjá femínistar sem stórt vandamál, ávísun á alls konar samskiptabresti, fyrirstöðu sem torveldi öllum að blómstra á eigin forsendum.

Mig grunar að á vissan hátt hafi fólk af öllum kynjum einfaldlega vanist því að talað sé til kvenna sem einhvers konar hjarðar en karla aftur á móti frekar á einstaklingsgrundvelli, og taki það því nær sér en ella. Til dæmis eru konur – allar konur – stöðugt ávarpaðar sem hugsanlegir brotaþolar kynbundins ofbeldis, en þó þykir algjört tabú að tala um hugsanlega gerendur sama ofbeldis. Eins og þeir séu bara dularfull skrímsli sem byggi myrkvaða almenningsgarða og hvort sem er engin leið að ná til þeirra gegnum upplýsta umræðu.

Capture

Fyrirsögn með frétt á vef Aftonbladet, 9. febrúar 2013.

Ekki er heldur óalgengt að fólk setji fram svokölluð hefðarrök fyrir viðhaldi tiltekins kerfis; hlutunum hafi „alltaf“ verið háttað svona og skuli því vera það áfram. Þannig telja margir að málvenjur, sem dæmi, hafi nú ekki endilega neina dýpri þýðingu í hugmynda-fræðilegum skilningi; að orðfæri eins og kerling í merkingunni kjarklítill karlmaður (orðabókarskilgreining) sé „bara“ til merkis um vana og hefð.

Það áhugaverða við hen-uppnámið er að á yfirborðinu snýr ágreiningurinn fyrst og fremst að málfræði og málnotkun, en rétt eins og kerling í neikvæðu samhengi skírskotar hann til annars og meira: hann opinberar að hefðir samfélagsins hafa nægilegt vald yfir málnotkun okkar til að samþykkja sumt en hafna öðru. Fólk sem stendur gegn hen-tillögunni af ofsa gengst þannig við því, sem allir vita innst inni, að orðaforði okkar og málvenjur eru hluti af tungumálskerfi sem í hefðbundnum skilningi er ofurselt feðraveldinu eins og það leggur sig. Þannig jafngildir uppreisn gegn kynjuðu málkerfi uppreisn gegn kynjamisrétti í samfélaginu.

 

Hefðin og hlutleysið

Fólk gerir ýmislegt til þess, að því er virðist, að þjóna hefðum. Fjölskylda mín heldur til dæmis jól án þess að trúa á fæðingu frelsarans. Þótt jólahald og feðraveldi séu svo sem gerólík fyrirbæri er samnefnarinn sá að fólk tekur þátt í afgömlu kerfi af aldagömlum vana, vegna þess að það er þægilegra en að sleppa því, og ennfremur virðast sumir líta svo á (rétt eins og um málvenjurnar) að hægt sé að viðhalda ytri einkennum og venjum hvors tveggja án þess endilega að samþykkja hugmyndafræðina sem býr að baki.

Bakland jólanna er kristin trú. Flest erum við sammála um að trú sé einkamál hvers og eins. Trúleysi er það val að standa utan við skipulögð trúarbrögð (sem sumir kunna að vilja kalla hlutleysi þótt aðrir sjái í því skýra hugmyndafræðilega afstöðu). Feðraveldið, aftur á móti, getur ekki verið einkamál neins. Þar sem varanleg undirskipun tiltekinna þjóðfélagshópa er samgróin innviðum þess hlýtur það að varða okkur öll og á endanum að skaða okkur öll, beint eða óbeint (nú kýs ég semsagt að líta svo á að yfirburðastaða í kúgunarkerfi sé heldur ekki sérlega eftirsóknarverð; að kerfisbundin kúgun sé skaðleg öllum hlutaðeigendum yfirhöfuð). Það er ekki hægt að standa utan við feðraveldið; það sem á yfirborðinu kann að hafa yfirbragð hlutleysis – einhvers konar hugmyndafræðilegs trúleysis – er í þessu tilfelli afdrifaríkt afstöðuleysi, og fólk sem samþykkir þannig feðraveldið skipar sér um leið í lið með því. Vilji fólk standa með jafnrétti og frelsi gegn kúgun og ofbeldi er því tæpast hugmyndafræðilega stætt á öðru en að taka afstöðu gegn þessu margnefnda feðraveldi, og gæta um leið að því að orð þess og gjörðir endurspegli það sem því sjálfu finnst frekar en það sem hefðinni finnst. Með öðrum orðum, taka afstöðu gegn hefðinni.

 

Vald tungumálsins

Af ofangreindum ástæðum geta umræða og meðvituð málnotkun verið mikilvæg tól í femínískri baráttu (hér er tilvalið að benda á pistil Hildar Knútsdóttur frá því fyrr á þessu ári). Umræðuhefðina má nýta sér í vil með því að snúa upp á hana, helst með því að fara yfir ósýnileg strik og segja það sem þarf þótt margir vilji ekki heyra það. Til dæmis gengur það gegn hefðinni að tala til karla sem hóps og í umræðu um ofbeldi höfum við vanist því að biðlað sé til mögulegra fórnarlamba um að gæta að sinni hegðun, frekar en til mögulegra ofbeldismanna um að beita ekki ofbeldi. Einmitt þess vegna hefur sá snúningur á hefðinni sem til dæmis kemur fram í pistli Hrafnhildar Ragnarsdóttur möguleika á að hafa áhrif: við höfum gott af því að vera minnt á, umbúðalaust og til tilbreytingar, að flestir gerendur eru bara „venjulegt“ fólk. Jafnvel vinir, ættingjar eða elskhugar þolenda. Ég vil ganga svo langt að fullyrða að manneskja sem hefur alvarlega hugleitt þann möguleika að einhvern daginn kunni hún að standa í sporum ofbeldismanns og hugleitt um leið hvaða afleiðingar það kynni að hafa, sú manneskja sé jafnvel síður líkleg til þess að beita ofbeldi seinna á lífsleiðinni. Við erum almennt hneigð til vantrúar á að nokkuð slæmt geti snert okkur sjálf. Þess vegna er sjálfsskoðun mikilvæg, og pistill sem hreyfir óþægilega við lesandanum er betur til þess fallinn að hvetja til slíkrar skoðunar en pistill þar sem sett eru fram prúð og hefðbundin „selvfølgelighed“ sem skoðanasystkinin samsinna, en sem ná ekki athygli annarra.

 

Velviljaður sexismi og tillitssemi á röngum stöðum

Keep-Calm-and-Subvert-PatriarchyHeimurinn er stútfullur af velviljuðu fólki af öllum kynjum sem viðheldur feðraveldinu án þess að hugsa út í það. Sumt nýtur forréttindastöðu sem kann að byrgja sýn á undirskipun annarra og enginn áfellisdómur yfir viðkomandi felst í því að benda á það, enda hljóta flest okkar að hafa gerst sek um slíka villu í einhverju samhengi að meira eða minna leyti. Þess vegna er líka auðvelt að telja sér trú um að hinum ómeðvituðu en velviljuðu þurfi að sýna tillitssemi í umræðunni, jafnvel þeim sem telja sig í fullum rétti að afvegaleiða hana með þeim hætti sem bent hefur verið á. Markmið femínískrar umræðu er hins vegar fyrst og síðast að stugga við feðraveldisskútunni svo um muni og það verður ekki gert án þess að stjaka um leið við þeim sem styðja við hana.

Við deilum félagslegu umhverfi sem er sumum kerfisbundið óvinveittara en öðrum, og í raun er það fáránleg krafa að hin heppnu okkar eigi að fá að vera í friði án þess að þurfa að vita af öllu því ljóta og leiðinlega sem margir lifa við að staðaldri. Auk þess hlýtur afdankað kerfi sem þráast við að halda tilteknum hópum niðri, jafnvel þótt engin hugsandi manneskja telji forsendurnar fyrir því gildar lengur, á endanum að vera skaðlegt samfélaginu í heild.

7 athugasemdir við “Orðsending til íslenskrar umræðuhefðar

 1. Vil benda á að í hugum sumra eru jólin ágætis ljósahátíð í mesta skammdeginu og vilja þess vegna halda í þau, þótt að trúlausir séu. Ég skil svo sem að þú sért ósátt við að fjölskylda þín haldi upp á fæðingarhátíð krists þegar trúlaus eru, en þú gætir farið að halda upp á sólstöðuhátíðina Jól án nokkurs samviskubits. Hentugir frídagar til þess, góður matur, skrautljós, jólatré og samvera með fjölskyldunni. Eina sem breytist er að þú ert að halda upp á að nú fari að birta að nýju og sólin að hækka á lofti 🙂 Fyrir mér er það alveg þess virði að halda upp á.
  Að öðru leyti, mjög fínn pistill, takk.
  Kv. trúlaust jólabarn

 2. Sæl og takk fyrir athugasemdina. Ég átti nú ekki við að ég væri ósátt við jólahaldið, tek virkan þátt í því sjálf, en tiltók það sem dæmi um aðstæður sem bjóða upp á að gamalli hefð sé viðhaldið á tiltölulega meinlausan hátt, annað en í tilfelli feðraveldisins þar sem slíkt er ekki í boði.
  Og það er rétt að hækkandi sól er fullt tilefni til fagnaðar 🙂 Gleðileg jól!

 3. Sæl Erla og takk fyrir pistilinn.

  Ég er hvítur karlmaður sem býr á Vesturlöndum. Það veldur því að ég tróni á toppnum í þessari veröld sem við búum í. Ég réð því ekki að ég fæddist sem hvítur karlmaður á Vesturlöndum og því skammast ég mín ekki fyrir það, enda væri það masókismi og sjálfshatur. Hins vegar er okkur, sem erum hvítir karlmenn á Vesturlöndum, sérstaklega hollt að leggjast í sjálfsskoðun reglulega og athuga hvort við tökum okkar forskoti sem sjálfsögðum hlut og hvort við eigum því erfitt með að setja okkur í spor annars fólks sem stendur lægra. Því vil ég þakka þér fyrir það sem þú sagðir um sjálfsskoðunina í pistlinum.

  Eitt væri ég samt sem áður til í að fá betur á hreint í femíniskri umræðu og það er skilgreiningin á feðraveldinu. Nú efast ég ekki um að það sé raunverulegt fyrirbæri. En hvað er það nákvæmlega?
  Það sem ég er að fara með þessu er að margir pennar finnst mér tönlast á orðinu og telja það vera nægilega útskýringu í sjálfu sér, þ.e. að nefna orðið. Það veldur því að orðið verður einhvers konar catch-all fyrir allt það sem hefur, er og mun verða að í samfélaginu. Feðraveldið sem alfa og omega alls, svipað eins og kapítalisminn var í lenínískri hugmyndafræði.

  Það sem útskýrir allt útskýrir jafnframt ekki neitt. Nánari útlistun á Feðraveldinu væri því kærkomin.

  Góðar stundir

  • Þér er velkomið Sveinbjörn að einfaldlega gúgla „patriarchy“. Það er alveg gríðarlega mikið efni um þetta á netinu. Ég efast um að Erla hafi tíma til að útlista það hér.

   • Sæl Elísabet

    Jú, ég hef vissulega gúglað „patriarchy“ og ég veit að það er hafsjór af fróðleik um það á netinu og víðar.

    Hins vegar hef ég áhuga á því að vita hvernig Erla skilgreinir það, út frá greininni sem hún skrifaði hér að ofan.

 4. Bakvísun: Karlar sem hata konur – nú er nóg komið | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.