Að vera eða vera ekki… með bolta? Um viðhorf íþróttafréttamanna til íþróttakvenna

Höfundur: Steinunn Rögnvaldsdóttir

Aníta Hinriksdóttir verður Evrópumeistari í 800 metra hlaupi 19 ára og yngri í Rieti á Ítalíu s.l. sumar

Aníta Hinriksdóttir verður Evrópumeistari í 800 metra hlaupi 19 ára og yngri í Rieti á Ítalíu sl. sumar

Þann 28. desember 2013 útnefndu Samtök íþróttafréttamanna íþróttamann ársins í 58. sinn. Titilinn hlaut Gylfi Þór Sigurðsson, liðsmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham. Í öðru sæti í kjörinu varð ung frjálsíþróttakona sem varð á árinu heimsmeistari og Evrópumeistari í sinni grein (800 metra hlaupi), Aníta Hinriksdóttir. Ljóst er að margir eru óánægðir með kjörið og hafa verið stofnaðar síður á Facebook til stuðnings Anítu, t.d. stuðningssíðan „Til hamingju með að vera Íþróttamaður ársins, Aníta“ (yfir 2.400 læk á innan við sólarhring).

Ljóst er að mörgum þykir réttast að Aníta hefði hampað titlinum í krafti þeirra afreka sinna að verða bæði heimsmeistari og Evrópumeistari á árinu. Margir hafa auðvitað komið valinu á Gylfa til varnar og sú eftiráskýring er vinsæl að Aníta sé ung og að keppa í unglingaflokki og það séu rök fyrir að hún fái ekki titilinn. Vert er að hafa í huga að Aníta er, eins og aðrir í kjörinu, að keppa við jafningja sína og því er hægur leikur að bera árangur hennar saman við t.d. árangur karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar það mætir öðrum landsliðum. Ef aldur Anítu er hindrun er líka full ástæða til að velta fyrir sér hvers vegna hún var hluti af valinu til að byrja með. Hún var á lista yfir tíu efstu kandídatana, sem birtur var félagsmönnum í Samtökum íþróttafréttamanna að morgni Þorláksmessu, og því ljóst að hún þótti kjörgeng.

En þessi umræða er reyndar dæmd til að leiða okkur í ógöngur. Það blandast nefnilega engum hugur um að Gylfi Þór er frábær íþróttamaður. Eins og Aron Pálmarsson og Heiðar Helguson og Alexander Peterson og allir hinir karlarnir sem hafa hlotið titilinn á undan honum. Vandinn er nefnilega ekki að Gylfi eigi ekki titilinn skilið. Vandinn er þessi: Í Samtökum íþróttafréttamanna eru bara karlar. Íþróttamaður ársins 2013 er fótboltamaður. Þetta er í sjötta sinn í röð sem karl er valinn íþróttamaður ársins. Aðeins tvær konur voru í topp tíu í valinu á íþróttamanni ársins í ár. Konur hafa alls fjórum sinnum unnið titilinn frá árinu 1956. Lið ársins er karlalandslið (og ber sigur af tveimur kvennalandsliðum sem náðu lengra á stórmótum). Þjálfari ársins er karl sem þjálfar karlalið.

Íþróttamenn ársins 2014 - 1., 2. og 3. sæti

Íþróttamenn ársins 2013: 1., 2. og 3. sæti

Þau sem sjá ekki mynstrið hér hljóta að vera ansi forhert. Valið á íþróttamanni ársins er nefnilega augljóslega bara enn ein staðfesting á því að íþróttafréttamönnum þykja afrek karlkyns íþróttamanna merkilegri en kvenkyns íþróttamanna. Ef nú á enn og aftur að byrja á söngnum um að verðlaunin falli þeim í skaut sem er best að þeim kominn þá verður fólk að átta sig á að þar með er verið að segja að karlar séu nánast alltaf betur að þessum verðlaunum komnir en konur.

Ég hef líka tekið eftir umræðu um hvort eigi að útnefna íþróttamann og konu ársins, en slíkt fyrirkomulag er nokkuð algengt í ýmsum íþróttafélögum og á öðrum sviðum einnig – t.d. má nefna Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Í mínum huga er það slæmur kostur, ekki vegna þess að það sé svo glatað fyrirkomulag, heldur vegna þess hve aðstæðurnar eru glataðar. Að búa til kvennaflokk í kjöri íþróttamanna ársins gæti verið jákvætt að því leyti að þannig er hægt að beina kastljósinu frekar að afrekum íþróttakvenna. Hinn stóri galli er að það er alger uppgjöf fyrir því viðhorfi íþróttafréttamanna að kvennaíþróttir séu minna merkilegar en karlaíþróttir, og festir það viðhorf í sessi ef eitthvað er.

Það sem ég vildi helst sjá og það sem ég bind vonir við, er að íþróttakonur láti í sér heyra. Að þær gagnrýni þessi vinnubrögð og krefjist þess að vera metnar til jafns við karlkyns íþróttamenn. Það er engin von til þess að þetta breytist annars. Hægt væri að halda því fram að það væri ekki sérstaklega femínískt að setja ábyrgðina á konur þegar að vandinn er karllægur – en satt best að segja hef ég litla sem enga trú á því að íþróttafréttamenn sjái nokkuð athugavert við sín vinnubrögð. Sagan kennir okkur að jafnrétti kemur hvergi af sjálfu sér, það kemur þegar konur krefjast þess. Áður en Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna voru stofnuð á sínum tíma (þau eru ekki starfrækt lengur) máttu konur ekki spila á takkaskóm á grasvöllum því það mátti ekki sóa grasinu í þær (umfjöllun um það mál og fleiri tengd jafnréttisbaráttu knattspyrnukvenna má m.a. finna hér), og trekk í trekk kom fyrir að dómarar mættu ekki til að dæma leiki vegna þess þær þóttu ekki nógu merkilegar. Þessi viðhorf breyttust ekki af sjálfu sér, þau breyttust í kjölfar baráttu.

Óskandi væri að íþróttakarlmenn væru með í þeirri baráttu, að ég tali ekki um þjálfara kvenna sem ættu að vilja vera metnir til jafns við þjálfara karla. Óskandi væri líka að umræðan verði ekki afvegaleidd og fari að snúast um hvers boltastrákar þessa lands eigi að gjalda, þetta snýst nefnilega ekki um Gylfa, Alfreð, Óla Stef eða aðrar persónur. Þetta snýst um stóru myndina og hvað það hefur í för með sér fyrir okkur öll, að afrek íþróttakvenna séu metin minna virði en afrek íþróttakarla.

37 athugasemdir við “Að vera eða vera ekki… með bolta? Um viðhorf íþróttafréttamanna til íþróttakvenna

 1. VIðbjóðslegur pistill. Gylfi vann þetta verðskuldað. Mikið hlýtur að vera erfitt að vera svona bitur og sjá það vonda í öllu saman. Ég bið fyrir þér.

  • Að hvaða leyti viðbjóðslegur? Athugaðu að hér er verið að gagrýna valnefndina, ekki Gylfa. Eins og Steinunn segir í greininni: „Það blandast nefnilega engum hugur um að Gylfi Þór er frábær íþróttamaður. Eins og Aron Pálmarsson og Heiðar Helguson og Alexander Peterson og allir hinir karlarnir sem hafa hlotið titilinn á undan honum. Vandinn er nefnilega ekki að Gylfi eigi ekki titilinn skilið.“

   • Af því að þessi pistill er ekkert annað en rakk á Gylfa. Af því að kona vann ekki. Heldurðu virkilega að maður sjái ekki í gegnum þetta? Það voru íþróttafréttamenn sem völdu hann. Ef ykkur er svona annt um þetta, af hverju í ósköpunum gerist þið ekki íþróttafréttamenn? Heiftin og reiðin í þessu samfélagi er orðin ógnvekjandi.

    Ykkar vegna, hættið þessu endalausa væli um allt og ekkert.

   • Nú skil ég ekki, hvað er það sem þú sérð í gegnum? Þetta er umræða sem verður til vegna þess að hún er þörf. Greinin gagnrýnir á engan hátt Gylfa heldur framkvæmdina á valinu og tölfræðilegar staðreyndir um kynjahlutfall, bæði meðal tilnefndra og kjósenda.

    Að spyrja hvers vegna við gerumst ekki bara öll íþróttafréttamenn er naívt. Það er eins og spyrja af hverju við gerumst ekki öll forsetisráðherrar eða seðlabankastjórar ef við höfum eitthvað út á þeirra störf að setja.

    Þú minnist ítrekað á heift, biturð og reiði sem virðist að mestu krauma í þér sjálfum. Það undrar mig að þessi grein særi þig svo mikið sem raunin er, ef þú ert svo óbilandi í þinni trú. Hvað er það sem málefnanleg umræða getur illt af sér leitt?

   • Vegna þess að þú getur ekki ætlast til þess að einhver breytist fyrir þig. Ef þú ert ósátt við íþróttafréttamennsku, þá geturðu gerst slík sjálf, það bannar þér það enginn, það er snilldin við frelsið.

    En æi já, femínistar eru á móti frelsinu, var búinn að gleyma því 🙂

    Áfram forræðishyggja og femínismi!

 2. Kæri Kalli, ég á ansi erfitt með að skynja hina minnstu biturð í þessum pistli, þvert á móti finnst mér hann mjög málefnanlegur. Það vottar heldur fyrir sterkri biturð úr annarri átt og heilsu þinnar vegna ættir þú kannski heldur að biðja fyrir sjálfum þér en Steinunni sem ég þykist vita að er bara nokkuð vel stæð án þinna afskipta. Þetta snýst heldur ekki um „að sjá það vonda í öllu saman“ heldur að taka upp mjög þarfa umræðu, það er erfitt að ímynda sér að framfarir verði með öðrum hætti.

  • Því miður er staðreyndin sú að það eru miklu fleiri karlar en konur í heimsklassa í sínum íþróttum eins og staðan er í dag á Íslandi. Ég gæti vel trúað að hlutfallið sé eitthvað í kringum 20/80 eða 25/75.Þetta er vissulega ekki vandamál íþróttafréttamanna sem kjósa það íþróttafólk sem skarað hefur fram úr á árinu heldur íþróttahreyfingarinnar sem hefur ekki stutt nógu vel við bakið á íþróttum kvenna nema þegar þær eru að nálgast heimsklassa.

   Reyndar fannst mér Alfreð eiga að sigra en Aníta stutt á eftir.

   • Sem sýnir afrek karlaalandsliðsins í fótbolta og kvennalandsliðsins í sömu grein. Hmmm? hvort liðið náði betri árangri á árinu?

    Eigum við svo að minnast á Gerplu? Hvaða árangri náðu karlar í samanburði við þessi tvö lið kvenna?

 3. Hér er verið að blanda saman tveimur hlutum.
  Heiti greinarinnar er „Að vera eða vera ekki með bolta“ en síðan fjallar hún um konur vs. karla í íþróttum. Eitt er að bera saman boltaíþróttir (sem by the way bæði kynin stunda) og aðrar íþróttir (s.s. einstaklingsíþróttagreinar) og annað að skoða íþróttir og íþróttaafrek út frá kyni iðkenda. Þá kemur í greininni fram vanþekking á fyrirkomulagi kjörs íþróttamanns ársins. Það var og er að ég held eftirfarandi:
  Þeir 10 efstu sem nefndir voru á nafn áður en kjörinu var lýst eru ekki kandidatar sem íþróttafréttamenn áttu að kjósa um. Það eru í raun allir íslenskir íþróttamenn kandidatar og hægt að greiða þeim atkvæði, en hefð er fyrir því að tilkynna fyrir athöfnina hvaða 10 íþróttamenn fengu flest atkvæði í kjörinu sem þegar hafði farið fram. Eftir athöfnina hefur verið birtur listi yfir alla íþróttamenn sem atkvæði fengu, ekki bara topp 10.
  Bara svo að því sé haldið til haga. Það er ekkert að því að skoða breytingu á því fyrirkomulagi sem verið hefur við valið á íþróttamanni ársins á Íslandi í rúmlega hálfa öld, en eina breytingin sem ég sé koma til greina er að fela ÍSÍ, Íþrótta- og Ólympíusambandinu, framkvæmdina og valið. Annað fyrirkomulag mundi fljótlega rýra gildi þessarar viðurkenningar fyrir íþróttamenn og íþróttaáhugamenn (öðrum er slétt sama og það er bara í fína lagi) og ganga af henni dauðri innan fárra ára.

 4. Aníta er það besta sem að komið hefur fyrir íslenskt íþróttalíf í langan tíma. Hún er stórefnileg og vonandi á hún eftir að ná alla leið. En vanvirðingin sem að Gylfa er sýnd með þessari umfjöllun er óréttlætanleg. Hvers á hann að gjalda fyrir að vera spilandi fótbolta í bestu deild í heimi sem að hundruðir milljóna drengja dreymir um að spila í, samhliða því að leiða landsliðið í þeirra besta árangri frá upphafi ? Ég ætla ekki að gera lítið úr Anítu og hennar afrekum en íþróttin hennar er ekki einu sinni á top 10 yfir vinsælustu íþróttir í heimi á meðan fótboltinn er í fyrsta sæti. Hún er að keppa í unglingaflokki og fyrir tveimur árum var Gylfi aðalsprautan í unglingalandsliði Íslands sem að fór í úrslitakeppni evrópumeistaramótsins í fótbolta og hann var ekki einu sinni tilnefndur það ár. Eins og Aníta er frábær er ekki alveg það sama að vera efnilegur og góður. Unglingamót eru ekki sambærileg keppni í fullorðinsflokkum.

  Svo er allt í lagi að benda á það að þetta eru samtök íþróttamanna skipað 23 félagsmönnum en ekki lýðræðissamtök skipuð kosnum fulltrúum þjóðarinnar. Þeir geta valið einhvern boccia leikmann ef því er að skipta.

  • Ef unglingamót eru ekki sambærileg við keppni í fullorðinsflokkum hefði ekkert átt að tilnefna Anitu. Fyrst hún var tilnefnd í topp 10 falla þau rök niður og meta verður afrek hennar til jafns við aðra á listanum. Svo einfalt er það.

   • Það var enginn „tilnefndur í topp 10“ í þessu vali – lesið hvernig þetta val fer fram áður en þið farið að rífa kjaft um það.

 5. Ég er alveg sammála því sem „jæja“ segir. Aníta er að keppa í unglingaflokki, sama og íslenska U-21 landslið karla og íslenska U-19 landslið karla gerðu. Bæði þessi lið komust á lokamót EM, líkt og íslenska kvennalandsliðið, öll þessi lið komust í 8-liða úrslit. Þess vegna finnst mér skrýtið að þið talið um að íslenska kvennalandsliðið hafi átt að vera lið ársins vegna þess að þessi 2 lið gerðu alveg það sama, nema í unglingaflokki og ekki voru þau tilnefnd í fyrra. Enginn af leikmönnum þessarra liða voru heldur á topp 10 og hlýtur það að útskýra vægi þess að keppa í unglingaflokki og í hæsta gæðaflokki.

 6. Eru þetta ekki líka bara fótboltafréttamenn sem standa að þessu? Annars vel skrifaður pistill og vel að sér kominn í umræðuna.
  Annað er að búa til fáránlegt afskræmingarmyndband og facebook síðu, ekkert sem réttlætir það. Svo seinna fylkir fólkið sér, sem skráir sig á síðuna sem mótmælir kjörinu, á leiki landsliðsins og klappar fyrir Gylfa

 7. Áhugaverður pistill og fínt innlegg í umræðuna (sem satt að segja virðist stundum komin svolítið út í móa). Það sem mér finnst einna áhugaverðast við þessi verðlaun (fyrir utan kynjavinkilinn) er það sem kemur í ljós þegar maður skoðar lista yfir verðlaunahafa í gegnum tíðina. Á heildina litið dreifast verðlaunin að því er virðist nokkuð jafnt á íþróttagreinar. Frjálsíþróttir hafa oft orðið fyrir valinu, sömuleiðis kraftlyftingar og sund, auk handbolta og knattspyrnu. Jú, mjög fáar konur (áhugavert að sjá þó að árið 1964 hlaut Sigríður Sigurðardóttir titilinn fyrir afrek sín í handknattleik), sem er vont. Hins vegar er athyglisvert að handknattleiks- og knattspyrnumenn hafa ekkert fengið viðurkenninguna það oft, a.m.k. ekki oftar en afreksmenn í öðrum íþróttagreinum. Fyrr en 2002. Frá 2002 hafa einungis leikmenn í handknattleik eða knattspyrnu hlotið hnossið. Ég væri til í að sjá einhverja sem eru mun fróðari en ég fara í saumana á þessu. Breyttist samsetning íþróttafréttamanna í kringum 2002, þar sem fækkaði fréttamönnum sem höfðu áhuga á öðrum greinum en fótbolta og handbolta? Gríðarlegt peningaflæði í fótbolta er t.d. ein ástæða fyrir mikilli ofuráherslu á þá íþróttagrein í umfjöllun fjölmiðla. Er það ein ástæðan? (ástæðan fyrir handboltanum er kannski eðlilegri, þar sem það helst í hendur við mikla velgengni landsliðsins á þessum árum). Það er fínt að rifja upp þegar Eiður fékk titilinn eitt árið, í raun fyrir að vera leikmaður Barcelona (er það íþróttaafrek að láta kaupa sig fyrir mikinn pening?). Rökstuðningurinn var m.a. sá að Eiður hefði sigrað í Meistaradeildinni með liði sínu, sem vissulega var mikill árangur, en sömuleiðis gleymdist að geta þess að Eiður tók sáralítinn þátt í leik liðsins og átti því í sjálfu sér ekki mikinn þátt í sigrinum. Það er líka áhugavert að benda á að í mekka fótboltans, Bretlandi, velur almenningur á hverju ári íþróttamann ársins hjá BBC, og þegar rennt er yfir listann yfir vinningshafa (hér: http://www.bbc.com/sport/0/sports-personality/19587151) vekur athygli að tiltölulega fáir knattspyrnumenn hljóta titilinn. Vissulega eru þeir þarna á milli (Beckham, Gascoigne, o.fl.), en almenningur í Bretlandi virðist hafa áhuga á íþróttum á mun fjölbreyttara sviði en íslenskir íþróttafréttamenn.

 8. Pistillinn finnst mér góður að mörgu leyti þó ég sé ekki sammála öllu sem þar kemur fram. Hann er málefnalegur þó að mér líki ekki þessi tengill inn á þessa síðu tileinkaður Anítu enda finnst mér sú síða vanvirðing við Gylfa sem hefur verið kjörinn í þetta skiptið. Allra síst ætla ég þó að tjá mig um hver átti titillinn „Íþróttamaður ársins“ mest skilið.

  Það er samt ein spurning sem mig langar að beina til höfundar þessa pistils. Það er spurning sem ég hef áður hent fram í svipaðri umræðu við aðrar konur sem eru ósáttar með litla umfjöllun kveníþrótta. Og spurningin er: af hverju sækjast ekki fleiri konur eftir störfum íþróttafréttamanna?

  Mér finnst nefnilega oft í jafnréttisumræðu sem þessari að það gleymist að beina ljósinu á þá/þær sem gagnrýna sem í þessu tilfelli eru konur. Af hverju gera þær ekki eitthvað róttækt til þess að breyta þessari þróun? Af hverju sækjast þær ekki eftir þessum störfum? Af hverju taka þær sig ekki til og stofna minni fjölmiðla sbr. fotbolti.net, karfan.is og sport.is til þess að auka umfjöllun um kvennaíþróttir? Af hverju sækjast þær heldur ekki eftir vinnu á þessum minni miðlum?

  Það væri nefnilega óskandi að fleiri konur sæktust eftir því að vinna þessi störf. Á síðasta ári var nefnilega aðeins EIN kona sem vann sem íþróttafréttamaður á Íslandi en henni var sagt upp í síðasta niðurskurði hjá Rúv. Núna er engin.

 9. alltaf þarf að snúa þessu uppí eitthvað kvenréttindabaráttu kjaftæði…það er bara staðreynd sem konur verða að horfast i augu við, að karlmenn eru betri á öllum sviðum í fótbolta og handbolta.
  það er líka hægt að nefna að Aníta keppti á demantamótinu i ár og endaði þar næst seinust, þar var hun að keppa við fullorðna.
  á meðan Gylfi t.d er að keppa við marga af bestu fótboltamönnum heims

  • Hvað með að veita titilinn fyrir hópíþróttir sér og einstaklings sér!?

   Að minu mati er ekki hægt að bera saman fótboltalið og t.d stangastökk eða sundsprett.

   Gylfi átti þetta fullkomlega skilið, mjög góð fyrirmynd fyrir alla.

   Aníta er ekkert smá efnileg stúlka og ég veit að hún bætir sig bara og gerir ennþá betri hluti á næstu árum og nælir sér í titilinn! 🙂

   • Það er hreint ótrúlegt hvað fólk á erfitt með að ná þessu og segir að stúlkan sé ung og efnileg. Hvað var hún að gera í vali þessara íþróttafréttamanna ef hún átti aldrei möguleika? Var hún þarna upp á punt?

    Aníta varð íslandsmeistari, norðurlandameistari, evrópumeistari og síðan heimsmeistari í sinni íþrótt í sínum aldursflokki sem er svoleiðis magnaður árangur.

    Svo er fótboltamaður valinn íþróttamaður ársins, sem þýðir bestur í sinni íþrótt á árinu af öllum hinum íþróttamönnunum sem tilnefndir voru í ár. Gylfi er frábærlega góður en var virkilega hægt að sniðganga árangur Anítu? Þúst common krakkar. Alveg að Gylfa ólöstuðum þá varð Aníta heims- og evrópumeistari í sinni íþróttagrein.

   • „Hvað var hún að gera í vali þessara íþróttafréttamanna ef hún átti aldrei möguleika? Var hún þarna upp á punt?“

    Ég held að þetta sé ekki neins konar short listi sem er birtur. Þeir sem hafa atkvæðisrétt geta valið ALLA íþróttamenn sem gjaldgengir eru (innan vébanda ÍSÍ), síðan er topp 10 listinn einfaldlega birtur eftir niðurstöðu þess vals.

    Einhver má endilega leiðrétta mig ef þetta er rangt.

    Ég þekki íþróttaheiminn fantavel og mínir félagar á Sport.is völdu Anítu t.d. íþróttamann ársins hjá þeim vef. Ég er alls ekki ósammála því, held að ég hefði raunar sett hana í efsta sæti ef ég hefði haft atkvæðisrétt í sjálfu kjörinu. Ef þessi arfek – sem eru frábær afrek! – hefðu ekki verið unnin í unglingaflokkum, hefði hún gjörsamlega rústað þessu vali, það fullyrði ég kinnroðalaust.

    Góðar stundir og gleðilegt ár! 🙂

   • Kæra Linda
    Í frjálsum íþróttum erum við svo heppin að hafa tölur og þessar tölur er hægt að bera saman við tölur annara keppenda, hvort sem að keppandinn er í unglingaflokk eða ekki. Eftir því sem ég kemst næst þá er Aníta í 44. sæti yfir konur í 800m hlaupi(Ensdilega leiðréttið ef að ég fer með rangt mál) sem er nú bara þokkalegur árangur. Ég sé það svoleiðis að það sé verið að tilnefna hana fyrir þann árangur en ekki vegna einhverja unglingatitla. Þú hlýtur að sjá hvað það er asnalegt að tala um þá bikara. Af öllum kvenkynshlaupurum er lítið hlutfall af þeim 800m hlauparar og af þeim eru enn þá færri sem eru gjaldgengar í u17 eða u19. Er Gylfi þá bara óheppinn vegna þess að það er ekki sérdeild fyrir 24 ára leikmenn? eða bara 24 ára miðjumenn?

    En burt séð frá þessu þá óska ég Gylfa til hamingju og að sjálfsögðu Anítu líka, mjög gott fyrir 17 ára stúlku að ná 2. sætinu og ég efast ekki um það að hún hreppi ekki 1. sætið seinna meir.

   • Einning vil ég taka það fram að ef að Aníta hefði verið valin þá hefði ég fagnað því líka, er bara að benda á það að þessir unglingabikarar segja ekki alltaf alla söguna. Enda hafa margir orðið heims- eða evrópumeistarar í sinni grein í unglingaflokkum en koma og komu ekki til greina, t.d. Konráð Valur, 17 ára og tvöfaldur heimsmeistari í hestaíþróttum og einn þeirra titla er í fullorðinsflokki svo er Auðunn er líka heimsmeistari í kraftlyfringum, ekki er talað um það.

   • Það er búið að koma fullt fullt af rökum á móti því að Aníta hefði ekki átt að vinna. Hún er ennþá bara unglingur og hefur allan tíman í heiminum til þess að vinna þennan titil og mun klárlega gera það í framtíðinni. Það er ekki hægt að kvarta yfir því að hún hafi verið á blaði yfir topp 10 íþróttamenn ársins af því það sýnir bara líka hversu magnað þetta afrek hennar var, að ná svona langt í unglingaflokki og verða í 2. sæti og toppa fullt af mun eldri íþróttamönnum sem voru líka vel að valinu komnir.
    Eins og einhver sagði fyrir ofan þá tala konur oft um misrétti þegar það kemur að því að það séu meirihlutinn karlmenn í mörgum atvinnugeirum í landinu. Það skapast oft mikil umræða um þetta en samt vilja mjög fáar konur verða íþróttafréttamenn einfaldlega af því þær hafa bara ekki áhuga á því. Það eru konurnar sem eiga að breyta þessu ekki karlmennirnir. Ef ykkur langar til þess að verða íþróttafréttamenn og breyta hlutfallinu þá verðið þið að reyna verða íþróttafréttamenn í stað þess að tala bara um að þetta sé svo óréttlátt.
    Ég er ekki alveg nóg hrifinn af þessum pistli þar sem er verið að dæma þessi verðlaun þar sem þetta eru meira og minna sjálfskipaðir íþróttafréttamenn og í raun engin íþróttasambönd sem veita þessi verðlaun. Mér finnst að það ætti að hafa Kven-íþróttamann ársins, Karl-íþróttamann ársins og Unglinga-íþróttamann ársins. Þá yrðu allir sáttir og það þyrfti ekki að vera neitt vesen með það að það sé verið að taka karlmenn fram yfir kvenmenn eða fullorðna yfir unglinga.
    Með bestu kveðjum og von um að enginn hafi tekið þessu commenti neitt illa, ,,Jón“.

 10. Sammala sumu i thessari grein. Thad er mikid kynja og vinsælda ojafnvægii vali sem thessu, og mun alltaf vera, og thad ma yta meira undir vægi kvenna i ithrottum og vidurkenningum ut fra thvi, en, og stort en, vid islendingar hofum adur att heimsmeistara unglinga i odrum ithrottum, kraftlyfingum, skak og hestaithrottum. Their adilar voru af badum kynjum og unnu ekki verdlaun sem ithrottamadur arsins. Undirliggjandi astæda fyrir thvi er ad sjalfsogdu vegna thess ad thetta er a unglinga leveli. Gott dæmi um islenskan ungling sem hefur unnid thessi verdlaun er Orn Arnarson sundmadur, hann vann thessi verdlaun fyrst 16/17 ara gamall 1998 eftir ad na ad komast a olympiuleika og svo vinna gull a EM. Thetta gerdi hann allt i fullordins flokkum! Arin a undan vann hann gull a olympiuleikjum unglinga og nordurlanda motum unglinga og fleira en ad sjalfsgodu er thad ekki nægur mælikvardi til ad vinna ithrottamadur arsins. thar sem thad var allt a unglina leveli. Thessi verdlaun um ithrottamadur arsins eru ad sjalfsogdu ad sumu leiti halfgerd vinsældar kosning, en thau eru lika mælikvardi a getu og frammistodu islensks ithrottafolks. Og kvenmenn eiga og hafa alltaf haft fullan moguleika a ad vinna til thessara verdlauna og thegar Anita tekur stokkid uppi fullordins flokk og mun vonandi halda afram med ad na godum arangri tha mun hun vera næsta islenska konan til ad vinna til thessara verdlauna. Hysterian i kringum thetta val er lika a top leveli, oft illa igrundud og orokrett sokum æpandi kynjamisrettis sem allir hropa. Thessi grein einkennist sma af thvi en er samt vel skrifud, en betra er ad radast ad rot vandans og reyna ad byggja betur undir ithrottastarf ungmenna og kvenna heldur en ad pissa upp i vindinn a einhverja verdlauna kosningu. Og Gylfi var klarlega ithrottamadur arsins i ar, keppandi a top leveli vid tha bestu i heiminum og lykilmadur i frabæru arangri islenska karla landslidsins alveg eins og Annie mist var klarlega ithrottamadur arsins i fyrra(en ekki vidurkennd ithrottagrein hja isi). Og ef adal astædan fyrir ollu thessu ojafnvægi kynjana er karlremban i islenskum ithrottafrettamonnum tha er einfold lausn vid thvi ad einhver snidugur eda snidug kona komi i gang kosningu a ithrottamanni/konu arsins thar sem hinn islenski almugi fai ad kjosa hver er bestur 😉 en eg thori alveg ad leggja pening undir a thad ad nidurstadan ur theirri kosningu yrdi nanast alltaf su sama og hja ithrottafrettarembunum okkar ;).

  • En hvað finnst ykkur um að skipta verðlaununum í tvennt jú hópiþróttir ser og svo einstaklings

   Fyrir mer er bara ekki hægt að bera þetta saman

 11. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

 12. Mér finnst stór galli á þessum pistli að talað sé um að Aníta sé heims og evrópumeistari, en ekki tekið fram fyrr en síðar í pistilinum að hún hafi verið að keppa í aldursflokki. Þetta tvennt er ekki sambærilegt. Að tala um að þetta sé það í raun vegna þess að hún sé að keppa við „jafningja sína“ er svo bara barnalegt. Þannig talar enginn af alvöru um það að Stefán Hallgrímsson eigi að vera íþróttamaður ársins. Því hann varð jú „heimsmeistari“ á árinu eins og Aníta (reyndar í öldunga en ekki unglingaflokki). En ykkur finnst þessi afrek eflaust sambærileg vegna þess hann er líka að keppa við „jafningja sína“? Í alvöru krakkar?

 13. Við hverju býstu Sigurgeir, þetta eru „femínisk rök“. Við þeim er bara ekkert hægt að segja, femínistar hafa alltaf rétt fyrir sér 🙂

 14. Ef feministar telja sig og staðhæfa að það sé barist fyrir jafnrétti, er þá ekki góð byrjun að skoða kynjahlutfall hjá jafnréttisstofu, jafnréttisnefndum flestra opinberra fyrirtækja og þar eftir götunum….

  Eða er það sem skiptir jafnréttisbaráttu íslendinga máli að einhver hópur af karlmönnum valdi uppáhalds fótbolta spilaran sinn……… Það er auðvitað það sem er útaf kortinu…
  Og skulum velta okkur meira upp úr því að þeir gerðu það útaf þeir og hann eru allir með sameiginileg kynfæri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.