Femínískur áramótaannáll

Á árinu sem er að líða hefur jafnréttisumræðan hérlendis óneitanlega verið sýnileg og virk og er um auðugan garð að gresja á vettvangi femínismans þegar litið er um öxl. Ritstjórn Knúzins leitaði til vel valinna femínista og óskaði eftir uppástungum um mikilvægustu og áhugaverðustu feminísku uppákomur ársins. Það er vitanlega óvinnandi vegur að skrifa tæmandi lista um slíkt. Sömuleiðis getur fólk haft ólíkar skoðanir á því hverjir hafi verið há- eða lágpunktar ársins, en hér verður tæpt á þeim viðburðum, tíðindum og málefnum sem eru okkur hvað efst í huga þegar við lítum yfir árið 2013.

Janúar

Eitt stærsta feminíska fréttamál ársins 2012 var dómur Hæstiréttar Íslands í máli 521/2012. Þar var snúið við dómi héraðsdóms sem hafði sakfellt fyrir kynferðisbrot. Ákærði Elías Valdimar Jónsson var fundinn sekur um að stinga fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemma þar á milli. Í hinum áfrýjaða dómi var verknaðurinn talinn varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar segir:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Meirihluti Hæstaréttar Íslands taldi brotið ekki falla undir þessa grein og voru rökin þau að þessi háttsemi Elíasar „hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræðis eða annarra kynferðismaka“. Ingibjörg Benediktsdóttir skilaði sératkvæði þar sem hún kvaðst sammála meirihluta réttarins að öllu leyti öðru en þessu; enda væri þarna vegið að kynfrelsi þolandans og hvatir gerandans ættu ekki að stýra niðurstöðu dómsins.

Þetta reyndist ekki síðasta skipti á árinu sem Ingibjörg var á öndverðum meiði við karlana í Hæstarétti. Viðbrögð samfélagsins við dómnum voru harkaleg. Knúzið lýsti yfir vantrausti á Hæstarétt og bauð almenningi að skrifa undir yfirlýsinguna. Hátt í þrjú þúsund manns skrifuðu undir á örfáum dögum. Á Knúzinu birtum við svo líka hugleiðingar Rúnar Knútsdóttur í kjölfar dómsins.

Álitsgjafi okkar sagði þetta um málið:

Svívirðilegur dómur Hæstaréttar innifelur bæði fábjána ársins og hetju ársins. Karlarnir sem töldu það ekki kynferðislega árás þegar níðingar réðust með ofbeldi inn í leggöng konu eru vitaskuld fábjánarnir og Ingibjörg Benediktsdóttir, sú sem skilaði sératkvæði og stendur ein gegn stöðnuðu karlveldi dómstólanna, er réttnefnd hetja ársins.

faduja

  Fáðu já var frumsýnd í janúarlok. Tveir nemendur í Laugalækjarskóla lýstu viðbrögðum sínum fyrir lesendum okkar. Síðar á árinu rifjuðum við upp gamla grein um tungumál og já og nei. Um myndina sögðu álitsgjafar okkar þetta:

Besta kynfræðslumynd sem ég hef séð, mynd sem fullorðnir og unglingar geta horft á saman. Mynd sem hefði átt að gera fyrir löngu. Fáðu já – forvarnir gegn kynferðisofbeldi er nýjung sem er löngu tímabær og merkileg.

Vilborg-Arna-Gissurardóttir3

Vilborg Arna hörkukvendi, útivistargarpur og ævintýrakona.

Vilborg Arna Gissurardóttir, varð fyrsti Íslendingurinn til að ganga ein á Suðurpólinn.  Í grein á Knúzinu var gagnrýnt að fjölmiðlar hefðu ekki sýnt afreki Vilborgar þann sóma sem eðlilegt hefði verið. Álitsgjafi okkar sagði þetta um Vilborgu:

Hún hefur líka klifið marga hæstu tinda heims á árinu. Vilborg Arna er frábær fyrirmynd fyrir bæði karla og konur hvað varðar kraft, seiglu , úthald og jákvætt hugarfar.

Febrúar

fjoruverdlaun_0

Við afhendingu Fjöruverðlaunanna 2013. Fjöruverðlaunin verðlaun konur fyrir ritstörf.

Á V-daginn dönsuðu femínistar saman í Hörpu undir yfirskriftinni Milljarður rís upp til að mótmæla ofbeldi gegn konum í heiminum.

Seth MacFarlaine gekk fram af mörgum feminískum gestum og áhorfendum Óskarsverðlaunanna í febrúar. Ein grein birtist á Knúzinu um málið, og svo voru mörg okkar dugleg að rífast í kommentakerfum hér og þar um smekklegheitin í Seth.

Auður Jónsdóttir rithöfundur flutti magnaða ræðu þegar hún tók við Fjöruverðlaununum þann 24. febrúar. Við fengum vitanlega leyfi til að birta ræðuna.

Mars

365 Steinunn

Steinunni var sagt upp. Kvenkynsritstjórar á Íslandi eru eins og hvítir hrafnar. Því þarf að breyta.

Miklar breytingar urðu hjá 365-miðlum, einu stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins í mars. Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og ein reyndasta konan í íslenskum fjölmiðlum var látin fara af blaðinu og Mikael Torfason ráðinn yfirritstjóri miðlanna. Elva Björk Sverrisdóttir fjallaði um málið á Knúzinu, en í grein hennar var m.a. haft eftir Steinunni að fréttamat fjölmiðla væri mótað af gömlum karllægum gildum.

Álitsgjafi okkar sagði um þetta mál:

Ömurlegar uppsagnir á stærstu fjölmiðlum landsins, þar sem menntaðar konur með mikla starfsreynslu voru reknar með ógeðfelldum hætti. Í sumum tilvikum til að koma að ómenntuðum körlum sem voru innundir hjá helstu eigendum fjölmiðlanna.

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti þann 8. mars stóðu kvenna- og friðarhreyfingarnar fyrir árlegum fundi í Iðnó. Þar fluttu knúzararnir Steinunn Rögnvaldsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir báðar erindi. Erindi Steinunnar birtum við á Knúzinu nokkrum dögum síðar.

Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivandamál, var stofnað þann 8. mars. Talsvert hafði gengið á í innstu hringjum SÁÁ eftir stofnun Kvenfélags SÁÁ árið áður (útsendari Knúzins var staddur á stofnfundi þess félags og fjallaði um aðdraganda og markmið félagsins hér), og sú ólga leiddi að lokum til þess að nokkrar konur sáu sér þann kost vænstan að stofna sitt eigið félag, utan vébanda SÁÁ. Markmið Rótarinnar eru m.a. að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Um Rótina segir álitsgjafi okkar:

Stofnkonur Rótarinnar gera sér grein fyrir því að konur með fíknisjúkdóma þurfa önnur meðferðarúrræði en karlar. Margar þeirra kvenna sem koma í meðferð hafa verið misnotaðar af körlum sem þær eiga síðan að sitja með í grúppum sér til hjálpræðis. Konur eiga að geta farið í afeitrun án þess að þurfa að horfa framan í mögulega kvalara sína á viðkvæmustu stigum meðferðar.

Apríl

Guðný Jóna Kristjánsdóttir ræddi í Kastljósi í eftirminnilegum þætti um reynslu sína frá vorinu 1999. Bekkjarbróðir hennar nauðgaði henni eftir próflokafögnuð á Húsavík. Nauðgarinn var sakfelldur en bæjarbúar risu margir hverjir upp gegn Guðnýju, áreittu hana í fjölmiðlum og birtu stuðningsyfirlýsingu við nauðgarann í bæjarblaðinu. Guðný flutti úr heimabæ sínum og hefur ekki enn snúið aftur.

gudny_jona_husavik

Guðný Jóna hafði hugrekki til að rjúfa þögnina og skila skömminni þangað sem hún á heima. Á Húsavík og til gerenda eineltis og ofbeldis.

Í greininni Okkar eigin Steubenville á Knúzinu sagði Sigríður Guðmarsdóttir um málið:

Og síðan tóku 113 bæjarbúar sig til og birtu í bæjarblaðinu Skráin stuðningsyfirlýsingu við hinn dæmda unga mann, nafngreindu hann, slógu því upp að þeir vonuðu og trúðu því að réttlætið næði fram að ganga, „vegna þess að mæður eiga líka syni“.

Ef „móðirin“ í þessu tilfelli er Húsavík, samfélagið og heimkynnin sem stóðu að þessum tveimur ungu manneskjum á ógæfukvöldi árið 1999, hvers vegna skipta þá aðeins hagsmunir, tilfinningar og afdrif sonanna máli?

Álitsgjafi Knúzins segir:

Vitnisburður Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur í Kastljósi um Húsavíkurmálið árið 2000 sýndi mikinn kjark og minnti okkur á að þöggun og kúgun í litlum samfélögum er enn til staðar.

Maí

ný ríkisstjórn

Hér er aldeilis kallafjör í Stjórnarráðinu.

Ný ríkisstjórn tók formlega við völdum á Íslandi í maí. Þá lét Jóhanna Sigurðardóttir, fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra, af embætti og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var mynduð. Í sjö ráðherraembætti var körlum raðað og svo konum í þrjú. Þess má geta að í ríkisstjórninni sem fór frá völdum gegndu alls átta karlar ráðherraembætti á kjörtímabilinu og sjö konur. Kynjahlutföllin hjá nýju stjórninni eru enn óbreytt nú á áramótum, karlarnir eru meira en tvisvar sinnum fleiri. Forsætisráðherra var spurður út í hlutföllin þegar tíðindin lágu fyrir. Hann sagði á einum vettvangi að það væri „auðvitað alltaf skemmtilegast“ að hafa kynjahlutföllin sem jöfnust en spurði á öðrum vettvangi á móti:

Er það ekki gott fordæmi í jafnréttismálum ef maður gerir ekki upp á milli manna út frá kyni?

Álitsgjafi knúzins gerði nýja ríkisstjórn að umræðuefni í ársuppgjöri sínu:

Ný ríkisstjórn tekur við. Verk ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum eiga flest eftir að koma í ljós en það lofar ekki góðu að annars vegar hallar verulega á konur í ríkisstjórinni og hins vegar hafa mjög góðar breytingar á fæðingarorlofinu (lenging þess í 12 mánuði og jafnari skipting mánuða milli foreldra) verið afturkallaðar.

wow air

Fínn litur. En af hverju er karlinn ekki líka í bleiku? Eða annars … Af hverju eru ekki allir í jogginggöllum? Svo miklu þægilegri vinnuföt.

Stóra-WOW-air-málið var einnig eitt fyrirferðarmesta femínistamál maímánaðar. Flugfélagið auglýsti ferðir til Amsterdam á heimasíðu sinni undir fyrirsögninni Hass og hórur. Í auglýsingatextanum sagði:

Í þessu alræmda lastabæli, sem allt sómakært fólk forðast eða þykist forðast er stunduð ein elsta atvinnugrein í heimi. Með fram Warmoesstraat, Oudezijds Voorburgwal, Oudezijds Achterburgwal og Zeedijk má finna hvern gluggann á fætur öðrum þar sem gleðikonur stilla sér upp og bíða eftir næsta kúnna.  Margar hverjar gamlar og lúnar en aðrar ef til vill ferskari. Já strákar mínir, grasið er sko ekki alltaf grænna hinum meginn.

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir birtu opið bréf á Knúzinu þar sem þær tóku sér það bessaleyfi að endurskrifa auglýsingatexta WOW á þolendavænan hátt. Fyrirtækið brást við á fremur vandræðalegan hátt með því að gera breytingar á textanum eins og rakið er í viðbót við Knúzgreinina. Svo barst heldur kauðsleg afsökunarbeiðni og undarlegt yfirklór. Frekari upprifjun á málinu finnst á Facebook-síðu WOW hér og svo í frétt Vísis og athugasemdum við hana hérna.

Í maí var líka vakin athygli á umtalsverðum muni á dómgæslulaunum í karla- og kvennabótbolta en dómarar á karlaleikjum fá greiddar 39.450 krónur á meðan dómarar á kvennaleikjum fá 15.400 krónur.  Ragnheiður Elín Árnadóttir lýsti óánægju sinni með þetta í útvarpsviðtali og Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, svaraði fyrir sig. Halla Gunnarsdóttir reifaði málið í knúzgrein.

Júní

Nýtt Alþingi var ekki með puttann á jafnréttispúlsinum þegar kom að því að skipa í nefndir þingsins. Athygli vakti m.a. að engin kona var skipuð í efnhags- og viðskiptanefnd þingsins

Þetta var mikið gagnrýnt og allarmargar fréttir birtust í fjölmiðlum um málið.

Screen Shot 2013-12-30 at 3.41.16 PM

Nokkrum dögum síðar brugðust stjórnarflokkarnir við með því að skipa hvor um sig eina konu í efnhags- og viðskiptanefnd og færa karla úr þeirri nefnd yfir í aðrar.

bleikir steinar

Bleiku steinarnir. Hvatningaverðlaun Femínistafélags Íslands.

Á kvenréttindadaginn 19. júní afhenti Femínistafélag Íslands að venju hvatningarverðlaun sín, bleiku steinana, en Femínistafélagið hafði einmitt fagnað tíu ára afmæli sínu fyrr á árinu með ýmiss konar uppákomum. Verðlaunin eru afhent fólki sem er í lykilstöðu til að hafa áhrif til góðs á jafnrétti kynjanna. Í ár hlaut kvikmyndagerð á Íslandi verðlaunin.

Verðlaununm fylgdi hvatning í þremur liðum:

  1. Að gerðar verði fleiri bíómyndir með konum í aðalhlutverki. Konurnar mega að auki gjarnan vera á öllum aldri og allskonar að útliti, vexti og uppruna.

  2. Að handritshöfundar og leikstjórar skoði með hvaða hætti konur eru sýndar í kvikmyndum sínum og gæti þess að þær hafi eigin langanir, þrár og markmið, en þjóni ekki eingöngu þróun karlkyns söguhetja.

  3. Að kvikmyndaiðnaðurinn í heild skoði eigin menningu með það að markmiði að kvenkyns leikstjórar, framleiðendur, leikarar, klipparar og annað kvikmyndagerðarfólk finni að það tilheyri kvikmyndaiðnaðinum og geti starfað af gleði innan hans.

Miss World 1974 Helen Morgan

Helen Morgan var kosin Ungfrú heimur 1974. Hún var látin segja sig frá titlinum þegar upp komst að hún ætti 18 mánaða gamlan son.

Það vakti einnig athygli að í júní fengu femínistar nýjan og annars konar áhuga á fegurðarsamkeppnum. Þeir kepptust við að skrá sig til leiks í ungfrú Ísland keppnina og forsvarsmenn hennar höfðu ekki undan að taka við skráningum kvenna og karla  sem ólm vildu hreppa fegurðartitilinn. Þrátt fyrir óumdeilanlega fegurð og þokka femínista fór það því miður ekki svo að þeir hlutu brautargengi í keppninni sem var öllu lágstemmdari í ár en áður hefur tíðkast. Gagnrýnisraddir hafa meira að segja gengið svo langt að segja að femínistum hafi tekist að eyðileggja fegurðarsamkeppnir. Það skyldi þó ekki vera að femínískt óhlýðið fegurðarstönt á Íslandi yrði til þess að úreltar hugmyndir um staðalímyndir kvenna og fráleitir fegurðarstaðlar um allan heim hyrfu af sjónarsviðinu?

Júlí/ágúst

Ef þið komið á fimmtudegi drífið þið ykkur að sjálfsögðu á húkkaraballið og reynið að húkka ykkur eitthvert hágæða ílát. Ef þið tímið ekki að fara inn á ballið sjálft get ég samt upplýst ykkur um að ég þekki menn sem hafa orðið lucky bara með því að hanga fyrir utan.

Þetta skrifaði Egill Einarsson, oft nefndur Gillz, í bók sinni Biblía fallega fólksins sem kom út fyrir nokkrum árum. Í júli bárust þau tíðindi frá Vestmannaeyjum að Gillz hefði verið fenginn til þess að stýra húkkaraballi Þjóðhátíðar í Eyjum. Eftir að þessar fregnir bárust tók hópur fólks sig saman og sendi bréf á Þjóðhátíðarnefnd, helstu samstarfsaðila Þjóðhátíðar og Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyja. Þar var hvatt til þess að skipt yrði um plötusnúð. Ekki var orðið við þessu. Við upphaf verslunarmannahelgar þ. 1. ágúst, birtist grein á Knúzinu sem vakti mikla athygli. Þar rakti María Hjálmtýsdóttir nokkur korn úr áðurnefndri bók Egils og setti í samhengi við þá ákvörðun að fá hann til að halda uppi skemmtun á Þjóðhátíð. Meðal þess sem hún fann í bókinni var þetta:

…dömurnar elska dickheads, þannig að ekki reyna að vera hressi gæinn. (bls. 98).

Tvær öflugar greinar um nauðgunarmenningu birtust svo á Knúzinu í ágúst.

Við lifum í samfélagi þar sem maður gaf út bækur uppfullar af kvenhatri og mannfyrirlitningu og síðan fóru foreldrar með börnin sín í Kringluna að fá eiginhandaráritun hjá honum.

skrifaði Guðný Elísa Guðgeirsdóttir  m.a. í grein sinni Kurteisa byltingin.

En það er ýmislegt sem gerist í lífi brotaþola áður en hann talar. Í mörg ár var ég óvirk í samfélaginu því ég gat varla farið út úr húsi og líf mitt stjórnaðist af stöðugum ótta. Ég var hrædd við allt, minnstu hljóð, fólk, aðstæður, sjálfa mig og eigin viðbrögð, og sá ekki hvernig ég ætti að geta fótað mig í framtíðinni með þessa reynslu í farteskinu.

sagði m.a. í grein Önnu Bentínu Hermansen.

Álitsgjafi Knúzins taldi ákvörðun Þjóðhátíðarnefndar meðal lágpunkta ársins:

Að skipuleggjendur Þjóðhátíðar í Eyjum skuli hafa valið Gillzenegger til þess að stýra Húkkaraballinu. Fyrir örfáum árum ráku þeir Stígamót frá hátíðinni með skömm og í ár réðu þeir í ábyrgðarstöðu mann sem hefur lagt það til á prenti að konum verði nauðgað til þess að hægt sé að þagga niður í þeim. Og á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er konum nauðgað. Það er staðreynd.

drusluganga 2013

Í druslugöngunni tóku bæði karlar og konur þátt enda snertir kynbundið ofbeldi okkur öll. Karlar eiga að segja nei við nauðgunum og leggja sitt að mörkum til að uppræta nauðgunarmenningu.

Þann 27. júlí var haldið í druslugöngu á einum mesta blíðviðrisdegi ársins. Brynhildur Björnsdóttir hélt ræðu í göngunni og lýsti eftir talsmönnum nýrrar karlmennsku:

Karlmennsku í merkingunni að taka alla eiginleika þess sem er líkamlega sterkari og nota þá með sæmd. Karlmennsku sem segir að nauðgunargrín sé ekki fyndið, að það eigi að hætta ef einhver vill ekki halda áfram, að það sé kúl að kúra, jafnvel þótt maður vilji eitthvað meira, sem hringir á leigubíl fyrir dauðu stelpuna í partíinu og hjálpar henni heim til pabba síns og mömmu. Þessa tegund karlmennsku þarf að setja á stall og gera eftirsóknarverða.

Í tilefni druslugöngu stóð DV sömuleiðis fyrir öflugri umfjöllun þar sem þolendur skiluðu skömminni þangað sem hún á heima.

Ágúst

Fréttablaðið og visir.is sögðu frá því 23. ágúst að Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, myndi á haustönn kenna á námskeiði við Háskóla Íslands um smáþjóðir og hvernig þeim farnast í alþjóðakerfinu. Ekki var í fréttinni vikið að því að einungis rúmlega hálft annað ár liðið var liðið frá því að upplýst var um alvarlegt ósæmilegt athæfi Jóns Baldvins Hannibalssonar gagnvart stúlku undir lögaldri.

Haskolinn

Í Háskóla Íslands eiga þolendur kynferðisofbeldis, eins og allir aðrir sem þangað sækja nám og vinnu, að finna til öryggis.

Þessi mál voru rakin í grein á Knúzinu sem vakti mikla athygli. Í greininni Háskóli Íslands – griðastaður dónakarla? bentu þær Helga Þórey Jónsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir á að fimm dögum eftir að tilkynnt var um þessa ráðstöfun, hefði enginn gagnrýnt hana. Í grein þeirra sagði m.a.

Er eðlilegt á 21. öld að maður sem hefur komið fram gagnvart börnum með þeim hætti sem hér er lýst, fái griðastað í ellinni innan stofnunar sem vill komast í hóp hinna hundrað bestu? Eigum við kannski að gera það oftar? Kemst Háskóli Íslands þá loksins á topp 100?

Við förum fram á að Háskóli Íslands og Félagsvísindasvið svari fyrir þessa ráðningu. Okkur þykir hún lítilsvirðandi fyrir þolendur Jóns og þolendur kynferðisofbeldis um heim allan. Við ætlum ekki að taka henni þegjandi.

Grein Helgu Þóreyjar og Hildar rauf sannarlega þagnarmúrinn í málinu. Umræður um greinina og málið í heild sinni í samfélaginu stóðu í margar vikur. Yfir hundrað sinnum var minnst á málið í fjölmiðlum  eftir birtingu knúzgreinarinnar en fréttaumfjöllunin stóð fram í október.

Í þessum pistli koma fram sjónarmið sem við þurfum nauðsynlega að taka tillit til og ræða.

Hafði Vísir eftir Daða Má Kristóferssyni, forseta félagsvísindadeildar Háskólans, daginn sem greinin birtist á Knúzinu.

Síðar sama dag féll Háskólinn frá því að fá Jón Baldvin til að kenna námskeiðið.

Áhugavert var að sjá viðbrögð ýmissa, þar á meðal fyrrverandi innanríkisráðherra, sem sagði að brotið hefði verið á mannréttindum Jóns Baldvins. Helga og Hildur máttu sæta fordæmalítilli gagnrýni frá ritstjórum og rithöfundum og stjórmálamönnum, háskólakennurum og allskonar spariköllum sem töluðu um fasista, nasista, talíbana, gægjufíkn, hefndarfýsn og kvalalosta, svo fátt eitt sé nefnt.

Álitsgjafi okkar sagði eftirfarandi um málið:

Femínistar bentu á það sem allir áttu að vita en vildu ekki kannast við, að maður sem hefur skrifað barnungri stúlku klámbréf (sem voru lýðnum ljós) á ekki að hafa neitt yfir ungum konum að segja. Hvað þá að vera í þeirri yfirburðarstöðu að geta gefið þeim einkunnir. Feðraveldið trylltist, en réttlætið hafði sigur.

Meiðyrðamál og aðrar tilraunir til þöggunar komu ekki í veg fyrir að Guðný Rós Valdimarsdóttir segði sögu sína af samskiptum við Egil Einarsson. Tvö ár voru þá liðin frá því að hún kærði Egil og Guðríði Jónsdóttur, kærustu hans,  fyrir nauðgun. Þá var hún átján ára gömul.

guðný rós

Guðný Rós í viðtali Nýs lífs um nauðgunarkæruna og tildrög hennar.

Mér líður eins og þetta geti hvort eð er ekki orðið verra. Fólk hefur allstaðar tekið undir með honum. Ég hef setið undir lygum og tali um mína persónu í fjölmiðlum, án þess að hafa viljað vera þar sjálf. Þá get ég kannski prófað að segja mína sögu.

Sagði Guðný Rós  í viðtali sem birtist í lok ágúst í Nýju lífi.

Álitsgjafar okkar sögðu eftirfarandi um þá ákvörðun Guðnýjar Rósar að stíga fram og segja sögu sína:

Guðný Rós er hugrökk kona.

Meiðyrðamál í kjölfar viðtalsins með tilheyrandi sektum vöktu hörð viðbrögð almennings og á einum sólarhring var safnað fyrir greiðslunum og gott betur.

September

Tilkynnt var að karlmaður skyldi prýða nýjan tíuþúsundkrónaseðil. Tekið var á þessu máli í Knúzgrein Lífar Magneudóttur þar sem sagði meðal annars:

Annars er kannski óþarfi að hafa áhyggjur af rýrum hlut kvenna á peningaseðlum Íslendinga. Á fimmþúsundkróna seðlinum er jú kona (þessi með barðastóra hattinn). Ekki nóg með að þar sé kona heldur er maðurinn hennar í bakgrunni með tveimur fyrri eiginkonum sínum.

Lög um kynjakvóta í stjórnum tóku gildi 1. september.

Samtök kvenna í atvinnulífi lýstu ánægju sinni með gildistöku laganna. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, hafði áður lýst sig hlynntan þeim, enda hefði setning laganna þegar þegar skilað miklum og jákvæðum breytingum.

Landssamtök lífeyrissjóða voru hins vegar ekki sátt og mæltust til að nýju lögin yrðu „aðlöguð“ starfsemi lífeyrissjóðanna. Þau tilmæli fengu sem betur fer engan hljómgrunn.

Í sama mánuði var ákveðið að innleiða einnig kynjakvóta í keppnislið framhaldsskólanna í Gettu betur. Undirtektir voru misjafnar, eins og vænta mátti. Fjallað var um málið í tveimur greinum sem birtust á Knúzinu.

Margir gagnrýndu af kappi og líflegar umræður urðu um kvótann á málþingi í Menntaskólanum í Hamrahlið.

Október

staðganga 2

Líkamar kvenna eru ekki söluvara.

Staðgöngumæðrun var eiginlega mál málanna í október – enda lýsti Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, því yfir í byrjun mánaðar að hann byggist við að frumvarp um að heimila staðgöngumæðrun yrði lagt fram seinna um veturinn. Þá hafði starfshópur á vegum ráðuneytis hans verið að störfum í rúmt ár. Knúzið fjallaði að sjálfsögðu um þetta veigamikla og flókna mál.

Ég er þreytt á því að konum sé sífellt sagt hvað þær eigi að gera við sinn eigin kropp og ég er líka þreytt á því að það þyki eðlilegt að biðja konur um að nota líkama sinn í þágu annarra. Er einhver lausn í sjónmáli? Ég er þeirrar skoðunar að staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni sé allt of flókin til að hægt sé að lögleiða hana. Ég er samt sem áður ekki á móti þeim sem vilja lögleiða hana, og ég er heldur ekki ósammála þeim að öllu leyti.

Sagði í einni af greinum á Knúzinu. En greinarnar um málið voru fleiri, t.d. hér og hér. Þetta var raunar ekki í fyrsta sinn sem efnið var reifað á Knúzinu, því tæpum tveimur árum áður hafði sænsk grein um málið, í þýðingu Drífu Snædal, birst hér og vakið mikið umtal.

Nóvember

Lífstílssíðan Smartland á mbl.is, hefur um nokkurt skeið haft sérstaka umfjöllun um lýtalækningar, þar sem fólki gefst kostur á að senda tilteknum lækni spurningar. Knúzið fjallaði um þetta Smartlandsefni í nóvember en þar var m.a. að finna þessa hugleiðingu:

Skemmst er að minnast stóra brjóstapúðamálsins sem enn eimir af í samfélaginu og það gæti næstum hvarflað að manni að velta lýtalækna hefði minnkað vegna þess vandræðamáls, fyrst þessi þjónusta er nú kynnt og henni haldið að lesendum á vinsælu vefsvæði.

sjalfstaedisfolk

Þorbjörg Helga, Halldór, Júlíus Vífill og Hildur bíða eftir niðurstöðum prófkjörs.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt prófkjör í Reykjavík þar sem valdir voru fulltrúar flokksins á framboðslista fyrir borgarstjórnarkosningar  sem verða í vor. Útkoma kvenna í prófkjörinu var ekki góð. Engin kona komst í þrjú efstu sætin, þótt reyndar konur hefðu gefið kost á sér. Athygli vöktu orð Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings og fyrrum frambjóðanda flokksins um niðurstöðurnar, sem  hún sagði koma sér þægilega á óvart. Í Knúzgrein Hildar Lilliendahl Viggósdóttur um málið segir m.a:

Konurnar stefna hærra en karlarnir og enda neðar. Og Stefanía Óskarsdóttir fagnar. Þetta er svo fínt. Við erum svo nægjusamar. Kynjahlutföllin í útkomu prófkjörs Sjálfstæðisflokksins koma henni þægilega á óvart. ÞÆGILEGA Á ÓVART. Þið verðið að fyrirgefa hástafanotkunina en HVAÐ ÞARF EIGINLEGA AÐ GERAST til að Ástu Möller og Stefaníu Óskarsdóttur og öllum hinum konunum sem fagna þessum svaðalega árangri geti mögulega þótt útkoma kvenna úr prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum vera slæm?

Því skal svo haldið til haga að nokkrum dögum eftir að niðurstöður prófkjörsins urðu ljósar, tilkynnti Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, sem hafnaði í fjórða sæti í prófkjörinu en stefndi á það fyrsta, að hún ætlaði ekki að taka sætið. Í yfirlýsingunni sagði hún m.a:

Ég vona sérstaklega að hann beri gæfu til að ná til ungs fólks og kvenna, eins og ég lagði mikla áherslu á í baráttu minni fyrir að leiða listann.

Líf Magneudóttir velti fyrir sér konum og prófkjörum og rannsóknum á efninu og sömuleiðis orsökum fyrir dræmri þátttöku kvenna í stjórnmálum og því þær veljist síður til forystu.

Niðurstöður prófkjara, sem eru oft undanfari framboðslista fyrir kosningar, hljóta að vekja spurningar um stjórnmálamenningu og birtingarmyndir kynjanna í stjórnmálum. Það er ekki ásættanlegt að karlar raðist sjálfkrafa í „öruggu“ sætin en konur séu settar skör lægra, þrátt fyrir yfirlýstan áhuga þeirra á forystusæti og óumdeilda hæfileika til að leiða lista.

Desember

verðlaun Stígamót

Knúzverjar ásamt öllum hinum verðlaunahöfunum í athöfn Stígamóta. Takk fyrir okkur!

Í desember voru jafnréttisverðlaun Stígamóta veitt og á meðal vinningshafa var vefritið knuz.is fyrir þátt sinn í að halda jafnréttisumræðunni á lofti. Knúzverjar eru að sjálfsögðu stoltir af viðurkenningunni en það eru margir virkir í umræðunni og gróska og vakning hjá ungu fólki sérlega mikil. Það má meðal annars sjá á fjölda femínistafélaga sem hafa verið stofnuð í skólum landsins, bæði á framhalds- og háskólastigi á árinu. Vonandi heldur sú þróun áfram á því næsta. 

Á allra síðustu dögum ársins komu Samtök íþróttafréttamanna saman og völdu íþróttamann ársins. Margir höfðu búist við því að afrekskonan Aníta Hinriksdóttir yrði fyrir valinu fyrir frábær afrek sín, en hún varð á árinu heimsmeistari og Evrópumeistari í sinni grein, sem er 800 metra hlaup. Aníta hafnaði þó í öðru sæti. Steinunn Rögnvaldsdóttir skrifaði á Knúzið um þetta og sagði m.a.:

Vandinn er þessi: Í Samtökum íþróttafréttamanna eru bara karlar. Íþróttamaður ársins 2013 er fótboltamaður. Þetta er í sjötta sinn í röð sem karl er valinn íþróttamaður ársins. Aðeins tvær konur voru í topp tíu í valinu á íþróttamanni ársins í ár. Konur hafa alls fjórum sinnum unnið titilinn frá árinu 1956. Lið ársins er karlalandslið (og ber sigur af tveimur kvennalandsliðum sem náðu lengra á stórmótum). Þjálfari ársins er karl sem þjálfar karlalið.

Álitsgjafi okkar segir:

Aníta Hinriksdóttir var krýnd heims- og Evrópumeistari í frjálsum íþróttum 19 ára og yngri. Þessi hörkuduglega, unga íþróttakona á framtíðina fyrir sér, en einhverra hluta vegna mætti forsetinn ekki út á flugvöll og gaf henni fálkaorðuna eins og handboltaliðinu forðum og íþróttafréttamenn sáu ekki ástæðu til að gera hana að íþróttamanni ársins. Sigrar Anítu á árinu segja þannig sína sögu um afrek stelpna á íþróttasviðinu og samfélag sem er ekki beinlínis að lyfta þeim upp í samræmi við strákana.

Knúzið þakkar lesendum sínum fyrir samfylgdina á árinu.  Við vonum að 2014 verði enn femínískra en undangengin ár og að það færi okkur jafnrétti í orði og á borði. Við sjáumst í baráttunni á nýju ári!  

nyttar

GLEÐILEGT NÝTT ÁR! MEGI 2014 VERÐA ÁR FULLKOMINS JAFNRÉTTIS OG JAFNSTÖÐU, SIGURGÖNGU FEMÍNISMA OG ÓSIGURS FEÐRAVELDISINS.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.