Karlar sem hata konur – nú er nóg komið

Höfundur: Magnea Marinósdóttir

global gender gap

Ísland í efsta sæti í jafnréttismálum? Úr skýrslu World Economic Forum

Við áramót er vaninn að líta bæði yfir farinn veg og horfa fram á veginn. Árið 2013 fögnuðu Íslendingar, fimmta árið í röð, fyrsta sætinu í alþjóðlegum samanburði á stöðu jafnréttismála skv. könnun World Economic Forum. Í fyrsta sinn síðan mælingar á afstöðu Íslendinga til afbrota hófust fyrir 24 árum þykir kynferðisbrot vera alvarlegasta afbrotið á Íslandi. Það er mikið stökk á milli ára en árið 2012 þótti einungis 13% viðmælenda kynferðisbrot vera alvarlegasta afbrotið samanborið við 36% árið 2013. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og upphafsmaður rannsóknarinnar, vísar til umræðunnar sem átti sér stað á fyrri hluta ársins um kynferðisbrot og áhrif hennar sem hefur m.a. skilað sér í meiri gagnrýni á dóma í nauðgunarmálum, sbr. eftirfarandi afstöðu til nýlegra dómsmála sem er að finna í rannsókninni:

23 ára karlmaður sem ekki hefur áður hlotið dóm hefur samræði við 22 ára konu er hún liggur í áfengisdái á heimili hans. Myndir þú segja að refsivist í fangelsi í 18 mánuði og miskabætur til þolanda upp á 600 þúsund krónur sé: Hæfilegur dómur, of vægur eða of harður.

Of vægur 75%
Hæfilegur 21%
Of harður 4%

Það kemur jafnframt fram í rannsókninni að konur hafa alltaf meiri áhyggjur af kynferðisbrotum en karlar. Það þarf ekki að koma á óvart, enda meirihluti fórnarlamba kynferðisbrota konur. Á þessa staðreynd var m.a. bent á í 16 daga átakinu gegn kynbundu ofbeldi sem haldið er árlega frá 25. nóvember (alþjóðlegadegi til afnáms ofbeldis gegn konum) og til 10. desember (alþjóðamannréttindadagsins). Einkum vakti grein eftir Hrafnhildi Ragnarsdóttur sem ber yfirskriftina „Orðsending til íslenskra karlmanna“ mikil viðbrögð, en í henni ávarpar hún karlmenn og vísar til þeirra eigin ábyrgðar við að gera samfélagið öruggara fyrir konur.

Greinin, sem fjallar um fjallar um ótta kvenna við að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi, vakti sterk viðbrögð. Margar konur þökkuðu Hrafnhildi fyrir greinina, enda lýsir hún veruleika kvenna almennt, eða þeim ótta og óöryggi sem margar konur upplifa. Því miður. Hættan á kynferðisofbeldi er enn til staðar og staðreyndin er sú að í meirihluta tilvika beita karlar konur ofbeldi þótt dæmi séu um undantekningar frá því þar sem karlar beita aðra karla kynferðislegu ofbeldi og konur beita karla kynferðislegri ofbeldi. Það sem undantekningarnar staðfesta er að kynferðislegt ofbeldi felur fyrst og fremst í sér valdbeitingu þar sem einstaklingar notfæra sér yfirburðastöðu eða tækifæri gagnvart fórnarlambinu, sem getur ekki varist eða á erfitt með að verjast misnotkuninni og ofbeldinu.

Athugasemdakerfi visir.is undir grein Hrafnhildar Ragnarsdóttur

Nokkur dæmi um athugasemdir við grein Hrafnhildar Ragnarsdóttur

Það sem vakti mesta athygli greinarhöfundar hins vegar voru fjandsamleg viðbrögð sumra sem virtust taka ávarpinu persónulega og í stað þess að fordæma kynferðisofbeldi fór sami hópur í vörn og túlkaði greinina sem árás á karlmenn almennt. Það er nokkuð merkilegt í ljósi þess að varla getur nokkur maður réttlætt misnotkun og ofbeldi, eða hvað? Nema kannski hópurinn sem finnst „að refsivist í fangelsi í 18 mánuði og miskabætur til þolanda upp á 600 þúsund krónur“ sé hæfilegur dómur (21%) eða of harður (4%) þegar um er að ræða 23 ára karlmanns sem ekki hefur áður hlotið dóm og hafði samræði við 22 ára konu þar sem hún lá í áfengisdái á heimili hans, sbr. dæmið að ofan. Þetta er hugsanlega hópurinn sem Hildur Lilliendahl hefur afhjúpað sem „karla sem hata konur“ vegna ummæla þeirra í garð kvenna og viðhorfa gagnvart kynferðisofbeldi, sem virðist ekki vera skilið og fordæmt sem misbeiting valds, andleg og líkamleg pynting og eitt alvarlegasta afbrot á man(n)helgi.  Þvert á móti er eins og karlmönnunum í þessum hópi finnist þeir eiga tilkall til kvenna og að það geti m.a. réttlætt ofbeldi gagnvart konum. Að mati greinarhöfundar væri það næsta skrefið í jafnréttisbaráttunni að eiga við „karla sem hata konur“. Eitt skref í þá veru væri að færa almenn hegningarlög til samræmis við Samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum, sem Ísland hefur staðfest með lögum; stjórnarskrá Íslands, grein 65, sem segir að „[a]llir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna“; lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lög um fjölmiða, grein 27, sem leggur bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi og hljóðar svo:Fjölmiðlum er óheimilt að hvetja til refsiverðar háttsemi. Bannað er að kynda undir hatri í fjölmiðlum á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis, skoðana [eins og í tilviki feminista] eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.“

Sem stendur er „kynferði“ ekki einn þeirra þátta sem er tilgreindur í þeirri grein almennra hegningarlaga sem snýr að hatursglæpum, þ.e. grein 233.a, en þar segir:

Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann [einstakling] eða hóp manna [einstaklinga] vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Með því að bæta við „kynferði“ væri hægt að lögsækja þann hóp karlmanna sem konum stafar í raun og veru ógn af. Það eru „karlar sem hata konur“ sem vaða uppi með hatursáróður og hótanir um ofbeldi (nauðganir) í garð kvenna almennt, þó einkum í garð kvenfrelsis- og jafnréttissinna (femínista) og nafngreindra kvenna í þeim hópi, og sem „karlar sem hata konur“ kalla „öfgafemínista“.

Eins og staðan er núna þá geta „karlar sem hata konur“ látið hvaða orð falla án þess að það hafi nokkrar afleiðingar fyrir þá – orð án ábyrgðar. Þeir sem benda á meinsemdina sbr. Hildur Lilliendahl eru kallaðar „öfgafemínistar“ eins og fyrr segir, sem þykir jú skammaryrði. Sjálf varð Hildur fyrir nauðgun eins og hún hefur greint frá opinberlega sjálf í viðtali í DV. Karlmaður sem nauðgar konu(m) er vissulega „karl sem hatar konur“, enda fremur enginn slíkan glæp nema til staðar sé undirliggjandi hugmynd um að eiga nokkurs konar „guðlegt“ tilkall til kvenna, í bland við kvenfyrirlitningu. „Karlar sem hata konur“ eru í raun einhvers konar öfgafeðraveldissinnar sem trúa einlæglega á yfirburði og forréttindi karla. Það eru þeir karlmenn sem konum stafar raunveruleg ógn af.

patriarchyÁstæðan er sú að „karlar sem hata konur“, eins og allir aðrir öfga- og ofstækismenn, eru yfirleitt ofbeldismenn í þeim skilningi að þeir réttlæta árásir í orði og æði á einstaklinga eða hóp einstaklinga, sem eru öðruvísi (minna virði) en þeir eða hafa aðrar skoðanir en þeir. Þeir líta niður á aðra (konur, kvenfrelsis- og jafnréttissinna, þ.m.t. karla) og fyrirlíta aðra (konur, kvenfrelsis- og jafnréttissona, þ.m.t. karla).

Sem dæmi um einstakling sem hefur, undir yfirskini gríns, kynt undir hatri og hvatt til ofbeldis  í garð kvenna, einkum kvenfrelsis- og jafnréttissinna, er Egill Einarsson í gervi Gillzeneggers. Það ætti að vera „refsiverð háttsemi“ í skilningi laganna en er það ekki eins og staðan er í dag. Það má segja að Egill Einarsson, í gervi Gillzeneggers, sé opinber holdgervingur „karla sem hata konur“. Fyrir utan árásir á konur almennt hefur hann einnig ráðist á karlmenn sem eru ekki á sömu skoðun og hann og kallað þá „menn með leggöng“.  Meðal þeirra „brandara“ sem hann hefur reytt af sér eru tilmæli um að senda „tvo harða“ á nafngreinda þingkonu sem mælti fyrir tillögu á þingi sem var honum ekki að skapi. Hér er að finna fleiri dæmi.

Þetta er grín að mati öfgafeðraveldissinna. Vandamálið er að hingað til hefur ekki verið hægt að „þagga“ niður í körlum sem hata konur með sama hætti og eins tókst að gera í tilviki þjóðernisöfgafélagsins Félags íslenskra þjóðernissinna árið 2001, þegar varaformaður þess var dæmdur á grundvelli greinar 233a almennra hegningarlaga til fésektar af héraðsdómi Reykjavíkur, sektar sem var þrefölduð í kjölfar áfrýjunar til Hæstaréttar. Varaformaðurinn var dæmdur fyrir ummæli sem hann lét falla í forsíðuviðtali við DV um einstaklinga á grundvelli kynþáttar þeirra, þ.e. fyrir niðrandi ummæli um hörundsdökka einstaklinga. Fordæmisgefandi dómur. Það hefur ekki heyrst í félagsmönnum Félags íslenskra þjóðernissinna síðan.

Fyrirheit í upphafi árs eru ávallt fögur. Sum verða að veruleika og önnur ekki. Tökum höndum saman um að taka næsta skref í átt að samfélagi sem byggir á gildum kvenfrelsis- og jafnréttissinna, bæði karla og kvenna. Það er samfélag þar sem konur þurfa ekki að óttast um öryggi sitt. Næsta skref er að láta „karla sem hata konur“ bera ábyrgð á orðum sínum og hótunum á opinberum vettvangi með því að bæta „kynferði“ inn í grein 233a. almennra hegningarlaga. Það er svo sannarlega kominn tími til.

8 athugasemdir við “Karlar sem hata konur – nú er nóg komið

  1. Það má gleðja greinarhöfund með því að það er sannarlega hægt að lögsækja hvern þann mann sem hótar öðrum einstaklingi eða hópi ofbeldi, en í 233. gr. (ekki a) Almennra hegningarlaga segir:
    „233. gr. Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 2 árum.“
    Þannig að á grundvelli þessarar greinar má lögsækja hvern þann mann sem hótar að berja eða nauðga einstaklingi eða hópi.
    233. gr. a. mismunar hins vegar þegnum þessa lands, þ.e. gefur ákveðnum hópum hærri réttarstöðu en öðrum, og mætti því missa sín, frekar en að auka við. En meginreglan í réttarríki á jú að vera að allir séu jafnir fyrir lögunum.

    • Rétt og þarf að láta reyna á grein 233 í þeim tilvikum sem að nafngreindum konum er hótað nauðgun. Það var látið reyna á grein 233.a. árið 2001 þegar formaður félags íslenskra þjóðernissinna var ákærður en það kom til vegna ábendinga þáverandi framkvæmdastýru Mannréttindaskrifstofu Íslands til ríkissaksóknara sem síðan gaf út ákæru eftir því sem ég best veit. Varðandi meinta mismunun þá er tilgangur greinarinnar 233.a. sá að vernda hópa sem meiri líkur eru á að verði fyir mismunun eða aðkasti að hálfu þeirra sem eru í meirihluta og/eða með völdin í okkar samfélagi.

      • En þá skýtur skökku við að menn vilji setja kynferði inn í grein 233a, enda verður annað kynið varla í teljanlegum minnihluta í fyrirsjáanlegri framtíð! Og bæði kynin fara nú með völdin í landinu. Kvenkyns forsætisráðherra nýhættur o.s.frv.

        Skemmtilegt annars að hvítur karl eða kona hafi séð ástæðu til þess að kæra kjánaleg ummæli um blámenn með prik. Alltaf gaman þegar menn fyllast réttlátri reiði fyrir hönd annarra. Það er svo gott fyrir eigin upphafningu. En þannig að það er alls endis óvíst að nokkur blámaður hafi tekið þetta rugl alvarlega eða sárnað?

  2. Ég er sammála flest öllu sem kemur fram í þessari grein. Jú, hatursáróður fellur ekki undir málfrelsið. Jú, sum þeirra ummæla sem hafa fallið af vörum manna eins og Gillz eru beinar ógnanir og geta því ekki talist falla undir málfrelsið.

    En eigum við ekki að taka slaginn um það hvað telst vera málfrelsi og hvað ekki? Það er tvíeggja sverð oft á tíðum og er einnig viðkvæmara en margan myndi gruna. Ég vil aftur vekja athygli á grein 233.a almennra hegningarlaga þar sem segir:

    „Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann [einstakling] eða hóp manna [einstaklinga] vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

    Þetta er of víð skilgreining. Sérstaklega þegar kemur að háðinu. Og sérstaklega þegar kemur að háðinu og trúarbrögðum því trúarbrögð, ólíkt þjóðerni, litarhætti, kynþætti (sem eru reyndar ekki til), kynhneigð–og nú núna kynferði–er val.

    Það tók gríðarlega baráttu og blóðsúthellingar að fá réttinn til að tjá skoðanir sínar. Við verðum að gæta mjög vel að því að fleygja þeim rétti ekki fyrir róða því hann er mun viðkvæmari heldur en fólk gerir sér grein fyrir.
    Fólk á Vesturlöndum tekur málfrelsinu of mikið sem sjálfsögðum hlut, ekki einhverju sem þarf að berjast fyrir.

    Mér finnst þetta vera mjög einfalt mál. Ég vil vernda málfrelsið eins og ég get. Ég vil vernda það upp að þeim punkti að ég er ósammála þeim dómi sem varaformaður Félags Íslenskra Þjóðernissinna fékk á sig. Það sem hann sagði var rasískt og ógeðslegt en það var ekki bein ógnun við neinn einstakling. Svo ef málfrelsið verndar hann og hans draslskoðanir verndar það okkur líka.

    Málfrelsið endar þar sem einstaklingur er byrjaður að ógna öðrum einstaklingi. Ummæli Gillz um að „senda tvo harða“ á nafngreinda þingkonu er bein ógnun og flokkast því ekki undir málfrelsi. Ef ég vil hins vegar kalla einhverja manneskju „drullusokk, hálfvita, tussu“ o.s.frv. þá veitir málfrelsið mér leyfi til slíks (ég vona þó að ég yrði dæmdur sem ósmekklegt fífl)

  3. Ljómandi fínt… Verandi einn þeirra sem „sem tók ávarpinu persónulega“og „sýndi fjandsamleg viðbrögð“ – þá er ég semsagt einn þeirra sem „finnist þeir eiga tilkall til kvenna og að það geti m.a. réttlætt ofbeldi gagnvart konum“??

    Ég sé reyndar ekki neinn óhróður í viðbrögðum við greinina sem höfundur linkar á og stimplar „fjandsamleg“ – ég er kannski að misskilja.

    Ég er örugglega að berja hausnum við stein, en „fjandsamleg viðbrögð“ mín eru þau að ég kvitta ekki uppá þá heimssýn að ég beri ábyrgð á ofbeldisverkum annarra. Svo má auðvitað diskútera það og rökræða fram á lokadægur.

    En það er auðvitað mun smekklegra að tengja mig (og aðra) við ofbeldisfólk og gefa í skyn að ég líti á konur sem eign karlmanna. Það er mjög gott fyrir umræðuna. Er ég kannski að taka þessu of persónulega… eða er höfundur full brött í yfirlýsingum?

    En svona án djóks, þá er sjálfsagt að fólk komist ekki upp með að hóta ofbeldi – hvort það er á netinu eða annarsstaðar. En verða þau sem fyrir hótunum þá ekki að kæra? Hefur það verið reynt?

    • Ég tók umræddum pistli að minnsta kosti ekki þannig að ég beri ábyrgð á ofbeldisverkum annarra. Ég tók því frekar þannig að við (allir, en þó líklega sérstaklega karlar) berum sameiginlega ábyrgð á menningunni. Sjálfum finnst mér ömurlegt að konur óttist mig og saklausa kynbræður mína og sárast er að sá ótti sé ekki óskynsamlegur. Þess vegna sé ég pistilinn frekar sem ákall til karlmanna til þess að gera eitthvað í málinu, að karlar sendi öðrum körlum skýr skilaboð um að nauðganir séu óásættanlegar.

      • Hvaða menningu? Ofbeldismenn (og konur) fremja ofbeldisfulla glæpi – það jafngildir því ekki að það sé kúltúr fyrir því. Þvert á móti hefur samfélagið fordæmt slíkt með því að gera ofbeldisglæpi refsiverða. Okkur hefur hinsvegar ekki tekist að finna leið til að koma kynferðisglæpum í þannig farveg að líklegt sé að gerendur hljóti dóm (erfið sönnunarfærsla og allt það) – það þýðir ekki að hér sé „nauðgunarmenning“ og því síður að samfélagið umberi slíkt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.