Höfundur: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir.
**VV**
Orðið harmleikur er í hugum flestra tengt einhverju hörmulegu, sorglegu og dapurlegu. Þetta magnaða og dramatíska orð færðu leikritaskáld forngrikkja okkur með sínum frægu harmleikjum þar sem söguhetja þurfti ýmist að þola skelfilegar hörmungar eða orsakaði af einhverjum ástæðum hræðilega atburðarás (sjá nánar til dæmis hér). Þessar sögur vörpuðu fram áleitnum heimspekilegum spurningum um tilvist mannsins, mannlegar þjáningar, baráttu góðs og ills, sannleik og svik, frelsi og nauðsynjar. Sköpum við sjálf eigin þjáningar? Er orsökin illska annarra, reiði guðanna eða bara tilviljanir? Í harmleikjum fléttaðist örlagahyggjan saman við mannlegan breyskleika og hetjudáðir. Upplifun áhorfenda á verkinu var frá upphafi mikilvægur þáttur harmleiksins, sem er markvisst settur fram til að spila með tilfinningar áhorfandans og skapa hughrif með dramatískum senum og merkingarhlaðinni orðanotkun.
Nú bregður svo við að það er orðin lenska að tala um glæpsamlega atburði í raunveruleikanum sem harmleiki. Fjölmiðlar slá upp æsifréttafyrirsögnum um margvíslega glæpsamlega harmleiki og á kaffistofum andvarpar fólk yfir hinum og þessum harmleikjum sem ólánsamar sálir verða fyrir, hvort sem hlutskipti þeirra var að vera gerendur eða þolendur.
Maður drepur mann: harmleikur; barnaníðingur nauðgar stúlku: harmleikur; karlmaður beitir barnsmóður sína ofbeldi og heldur henni og barninu nauðugum í marga klukkutíma: harmleikur. Já, meira að segja súkkulaðifjárkúgarinn er harmleikur.
En hvers vegna fer það svona í taugarnar á mér að fólk kjósi að nota orðið harmleikur yfir glæpi og þá sérstaklega ofbeldi? Hvað kemur það mér við? Jú, það kemur mér við þegar það hefur áhrif á samfélagsleg gildi og orðræðu um ofbeldi. Með því að nota tiltekna bókmenntagrein sem myndlíkingu yfir ofbeldisverknað færum við atburðinn í ákveðin leiktjöld sem firrir gerandann að einhverju leyti ábyrgð og gerir hann að nokkurs konar leiksoppi, sem fyrir samspil mannlegs breyskleika og gráglettni örlaganna lendir í því að orsaka harmleik. Harmleikir eru þá orðnir tiltekið fyrirbæri í raunveruleikanum og hafa fengið ákveðinn sess í samfélaginu sem eitthvað sem óhjákvæmilega gerist af og til. Það er þá bara spurning um örlög hver verður fyrir því að framkvæma atburðinn í hvert skipti og gerandinn verður ólánsöm hetja sögunnar, líkt og Hamlet, sem var algjör drullusokkur en samt hetja í sínum harmleik.
Málvísindakonan og heimspekingurinn Julia Penelope hefur einnig bent á, þá sérstaklega í orðræðu um kynbundið ofbeldi, að það sé skaðlegt að tala um glæpi með hlutlausu orðalagi. Þegar við tölum um ofbeldi á hlutlausan hátt tökum við fókusinn af gerendunum og setjum hann yfir á þolendur. Þannig verður ofbeldið vandamál þolandans. Dæmi um þetta er þegar talað er um hversu mörgum konum var nauðgað í fyrra eða þær drepnar. Ofbeldið er þá eitthvað sem kom fyrir þær en ekki eitthvað sem einhver gerði þeim. Andstæðan við þetta væri þá að segja hversu margir karlar nauðguðu konum í fyrra eða myrtu konur.
Jackson Katz er bandarískur aktívisti sem hefur beitt sér í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Hann starfar sem kennari, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður og hefur þróað forvarnar- og upplýsingakerfi gegn kynbundnu ofbeldi sem kallast Mentors in Violence Prevention eða Leiðtogar í forvörnum gegn ofbeldi, sem hefur verið notað innan bandaríska hersins og hjá ýmsum íþróttafélögum. Katz styðst við kenningar Juliu Penelope og gefur dæmi um áhrif orðræðu á viðhorf til gerenda og þolenda ofbeldis:
Við byrjum á einfaldri setningu: Jón barði Maríu. Þetta er góð og gild setning. „Jón“ er frumlagið, „berja“ er umsögnin og „María“ andlagið. Í næstu setningu er sami hluturinn sagður: María var barin af Jóni. En nú hefur áherslan færst frá Jóni yfir á Maríu og Jón er kominn aftast í orðaröðina. Í þriðju setningunni er Jóni alveg sleppt og þá segjum við: María var barin. Nú er þetta farið að snúast alfarið um Maríu. Jón er ekki einu sinni með í leiknum. Í fjórðu umferð verður til setning sem er svona: María er kona sem var barin. Og þá erum við búin að skilgreina Maríu alfarið út frá því sem Jón gerði í fyrstu setningunni. En eins og sjá má er Jón löngu á bak og burt.
Eins og Katz spyr í Ted-fyrirlestri sínum: hvað varð um Jón? Hvert fór hann og hvers vegna spyrjum við einskis um hann? Þegar talað er um þolendur nauðgana, ofbeldis og morða innan ríkjandi orðræðu dregur það úr skynjun okkar á gerendaábyrgðinni.
Með því að tala um ofbeldi sem harmleiki eða jafnvel fjölskylduharmleiki erum við búin að bæta við fimmta stiginu, en þá er gerandinn ekki aðeins á bak og burt heldur einnig þolandinn. Þá færum við atburðinn af almenna sviðinu og yfir í einkarýmið. Ofbeldi verður einkamál og fellur undir friðhelgi heimilisins. Við afgreiðum ofbeldisglæpi sem harmleiki og höfum þá sinnt borgaralegri skyldu okkar til að dæsa hæfilega og sýna þannig vandlætingu okkar á heimsins ósóma og hörmungum. Að því loknu getum svo snúið okkur að afgöngunum af jólakonfektinu og klárað nýjustu bók Arnaldar. Við spyrjum ekki spurninga og við setjum ekki fókusinn á gerandann. Atburðurinn verður fjarlægur, líkt og eitthvað sem gerist í bókum og bíómyndum. Eitthvað sem gerist hjá öðrum og ekki fólki eins og okkur.
Það að taka meðvitaða afstöðu gegn ofbeldi, og ekki bara segja það sem við höldum að sé nokkurn veginn pólitískt rétthugsunarsvar, er ekki á okkar ábyrgð. Já og almættið og allar vættir forði okkur frá því að virkir í athugasemdum væni okkur um að tilheyra dómstóli götunnar. Nei, við erum sko betri en það.
Svo við tölum um ofbeldisharmleiki eins og náttúruhamfarir. Shit happens, what are you gonna do?
Kæra Guðný
Þetta er svo sannarlega þörf umræða og ég er hjartanlega sammála þér. Mér hefur einmitt fundist tilhneiging til að búa til dramatík og taka fókusinn af gerandanum og voðaverkum hans. Líklega ein gerð þöggunar og kannski í einhverjum tilfellum ómeðvituð hjá fjölmiðlafólki sem alið er upp við þessa nálgun, þ.e. að gerandinn og verk hans séu á hliðarlínunni. Mál til komið að breyta fréttaflutningi og umræðum. Takk kærlega fyrir þörf orð og hlýjar kveðjur til ykkar allra sem standið í víglínunni.
Ingunn
Sæl. Get að mörgu leiti tekið undir þennan pistil.
En hvernig er þegar móðir deyðir barn sitt? Er það þá ekki harmleikur? Á þetta einungis við um glæpi sem karlmenn fremja?
http://www.visir.is/harmleikur-a-hotel-fron–modirin-neitar-sok/article/2011111119948
En harmleikur er ekki bara bókmenntagrein – það er líka orð yfir hryggilegan atburð. Fyrir utan svo hitt að sá sem heldur að klassíska harmleiki – í bókmenntaskilningnum – skorti gerendur og þolendur ætti að prófa að lesa nokkra harmleiki.
Ég er ekki sammála. Það hjálpar oft skilningi á erfiðum upplifunum að setja þær í samhengi við hið skáldaða.
„Andstæðan við þetta væri þá að segja hversu margir karlar nauðguðu konum í fyrra eða myrtu konur“
…ha? Er þetta grín?
Nú skil ég ekki alveg. Af hverju ætti þetta að vera grín?
Er eitthvað eðlilegra að taka saman að svo og svo mörgum var nauðgað heldur en að svo og svo margir nauðguðu?
Eina ástæðan sem mér dettur í hug er að það getur verið erfiðara að átta sig á því hversu margir gerendur eru, ef sumir gerendur brjóta á fleiri en einum einstaklingi.
Mér finnst þessi grein öll snúast um orðhengilshátt.
„Dæmi um þetta er þegar talað er um hversu mörgum konum var nauðgað í fyrra eða þær drepnar. Ofbeldið er þá eitthvað sem kom fyrir þær en ekki eitthvað sem einhver gerði þeim.“
Finnst mönnum (og konum) það t.d. vera óáhugaverð tölfræði hve mörgum konum er nauðgað, sérstaklega í ljósi þess að oft er gerandinn ekki þekktur?
Það er greinarmunur á glæp og harmleik. Það er greinarmunur á sorglegum atburði og harmleik. Hvaða orð vill greinahöfundur nota yfir harmleik?
Maður keyrði of hratt og var sektaður. Þetta er t.d. glæpur en ekki harmleikur.
Amma mín dó 98 ára. Það var sorglegur atburður en ekki harmleikur.
Geðsjúk kona drepur eigið barn. Það er glæpur og harmleikur.
Börn falla í Barnafoss og drukkna á meðan fullorðnir eru í kirkju á Gilsbakka. Það er harmleikur en ekki glæpur.
Hverju er eiginlega ætlað að ná fram í umræðunni? Er það einlæg trú margra sem skrifa pistla á þennan vef að samfélagið sé þrungið af nauðgunarmenningu sem að ásaki allar konur í stuttum pilsum og hvetur stráka til þess að taka í stelpurnar? Og að eina leiðin til þess að berjast gegn því sé að einblína alltaf á geranda en ekki atburð eða fórnarlamb óháð því hver sé tilgangur umræðunnar, þ.e. hvað skal greina?
Að ekki megi tala um atburð sem í huga flestra er harmleikur, sem harmleik út frá pólitískri rétthugsun virðist nú vera „tilraun til þöggunar“ svo ég grípi til vinsæls frasa á þessum síðum.
Hvar er eiginlega allt þetta fólk (þegar Húsavík sleppir) sem finnst í lagi að nauðga og að þetta sé meira og minna gærunum að kenna? Ég man ekki eftir að hafa hitt neinn? Hvar er Hæztaréttardómurinn þar sem pilssídd var talin geranda til refsilækkunar? Ég man ekki eftir honum. Getur verið að þetta sé einhver nútímaflökkusaga sem hver feministinn lepur eftir öðrum þar til að allar hafa heyrt þetta frá svo mörgum að þetta hljóti að vera satt? Mér finnst alla vega eins og að ég sé alltaf að lesa þessa sögu á þessum vef. Það gerir hana hins vegar ekki sanna.
Ég skal viðurkenna að mér gremjast fyrirsagnir eins og „Barn varð fyrir bíl“ eða jafnvel „Barn hljóp í veg fyrir bíl“. Fyrirsögnin „á“ auðvitað að vera „Bílstjóri ók á barn“, hann bar jú ábyrðina. En stundum verður samt ekki komist hjá því að tala um „slys á börnum“. Samt samþykkir samfélagið ekki að börn séu keyrð niður. Það sem er undirliggjandi í þessari orðanotkun er auðvitað að við erum flest bílstjórar og við gætum flest „lent í “ að barn hlypi í veg fyrir bílinn okkar, einhvern tímann þegar við keyrðum aðeins of hratt og vorum með aðeins og litla athygli á veginum. Því hættir okkur til þess að koma „ökumanninum“ til varnar með því að sýna fram á að hegðun barnsins var nú ekki alveg til fyrirmyndar. En það lendir enginn í því að nauðga (a.m.k. m.v. hvernig ég skilgreini nauðgun). Hún er framin af fúsum, frjálsum og illum vilja. Og samfélagið er alveg jafn mikið á móti gjörningunum og samsvarar sig alveg jafn lítið með gerandanum hvort sem að maður nauðgaði konu eða konu var nauðgað af manni.