Áhorfendur eftir nauðgun

Fólk virðist eiga auðvelt með að hrósa og styrkja manneskju sem gerir það „rétta“ eftir nauðgun.

„Vá, þú ert svo sterk að hafa kært“
„Hann er skepna og þú sigrar hann með því að gera þetta“
„Svona stendurðu með sjálfri þér“

En svo er kæran felld niður. Og þá þynnist hópur aðstandendanna, sem ég vil kalla „áhorfendur“. Eins og þá sé þetta bara liðin tíð og þeir tími ekki að eyða sinni dýrmætu orku í að hugsa meira um þetta. Af því nú sé þetta búið.  Hjá þolandanum er þetta hins vegar bara rétt að byrja.

Hugsaðu þér að standa í þeim sporum að vera eina manneskjan úr ógnarstórum hóp sem þorði að stökkva niður stóra fossinn. Allir keppast við að hvetja þig og dást að þér fyrir að vera sú sem ætlar að stökkva, en eru í raun að setja þá pressu á þig af því að núna, ef þú stekkur ekki, ertu aumingi og ótrúverðugur áhættutakari og minni manneskja fyrir vikið. Svo tekurðu stökkið, sem tók allt hugrekki sem þú áttir og allan þinn styrk svo þú streittist ekki á móti, og býst við því að allir þeir sem hvöttu þig áfram muni grípa þig og fagna með þér eftir þessa erfiðu og hræðilegu lífsreynslu. En þá lendirðu á steini og meiðist og þá labba allir í burtu af því að þú varst ekki nógu kúl í lendingunni.

Þetta er að mínu mati væg lýsing á því hvernig viðbrögð „áhorfenda“ reynast vera eftir að „meintur þolandi“ hefur kært nauðgun og málið síðan verið fellt niður.

**VV** // **TW**

Reyndu núna að ímynda þér að svarta ljóta skepnan sem bjó í martröðunum þínum þegar þú varst barn komi og yfirbug þig og segi við þig að það sé engin leið að sleppa frá því sem kemur næst. Líkaminn þinn slekkur á sér og þú getur ekki lengur hreyft þig, einhver hefur hrifsað fjarstýringuna af líkamanum þínum og þú ræður ekkert hvaða takka verður næst þrýst á. Ímyndaðu þér að það eina sem þú finnir sé hræðslan við vondu skepnuna og hitinn af tárunum sem leka niður kinnarnar þínar.

Þegar hver sekúnda virðist eins og klukkutími og þú nærð að hugsa upp hundrað flóttaleiðir á þessum „klukkutíma“ en nærð ekki að fylgja neinni þeirra af því líkaminn þinn hlýðir þér ekki.

Reyndu svo að ímynda þér að þú hafir kannski smá smugu, smá tíma, til þess að koma þér út úr þessu og þú reynir að gera það „kurteislega“ af því þú vilt reyna að vingast við þennan óttamann svo hann gefi þér örlítið svigrúm til eigin ákvarðana og svo ertu komin hálfa leiðina í burtu, rétt svo til að kveikja smá vonarneista, þegar hann hlær og dregur þig aftur inn í hryllinginn. Hann gefur þér örlitla von bara til þess að hrifsa hana í burtu. Og píningin byrjar aftur.

Ímyndaðu þér svo að sleppa loksins og það sem þú myndir kannski í fyrstu halda að væri léttir reynist svo aðeins vera örlítið adrenalín sem rétt nægir til að flýja og svo missir þú allan mátt. Allt í einu er aftur einhver komin með valdið á fjarstýringunni og þú missir alla stjórn.

Ég veit – það ætti ekki að vera nein orka eftir til þess að geta mögulega staðið upp og barist við þessa skepnu eftir þetta. En fyrir suma er barnsleg trú og örlítil von eftir á að ná fram einhverju réttlæti gagnvart þessari skepnu og þú rétt nærð að skríða fram að örygginu (réttarkerfinu) sem á að bjarga þér. Svo tekur það þig að sér og segist ætla að rétta þetta ranga og að allt verði í lagi núna, en svo glottir það og tekur af sér grímuna og hryllingurinn byrjar aftur.

Þarna lýsti ég nauðgun og niðurfelldri kæru í framhaldi sem er veruleiki svo margra þolenda.

Ég veit að þeir eru margir sem vilja ekki heyra svona af því það er svo óþægilegt. Það gæti skemmt daginn þeirra, eða klukkustundina þeirra, þar sem þeir voru að hugsa um sumarið eða afmælið sem þeir voru að fara í eða jafnvel hvað þeir voru spenntir að bíða eftir pítsunni sem þeir voru að panta. Sorrí að ég skemmdi mómentið ykkar með upplifuninni minni.

Svo kemur hlutinn þegar fólkið sem ekki stendur þér næst missir áhugann og labbar í burtu. Í sumum tilvikum hefur skepnan talsvert meira vald en þolandinn í opinberum fjölmiðli og er með „stórt“ fólk í baklandi sínu og skepnan er jafnvel talsverð fjárfesting fyrir það fólk. Þá virðist sem fólk bíði eftir því að skepnan komi fram með aðra útskýringu á atburðinum – sína lýsingu. Til dæmis á því hvernig gögn um sms sem hinn svokallaði þolandi hafði talað um, þar sem hann hafði átt að ógna fórnarlambi sínu, eða hvernig símtöl sem þolandinn segist hafa hringt til móður sinnar eftir hjálp, hafi ekki einu sinni fundist. Hvernig gæti þá allt þetta sem hún segir í raun og veru verið satt? Þá anda áhorfendurnir aðeins léttar og hugsa með sér að það sé gott að svona hræðilegir hlutir gerist þá ekki eftir allt saman. Af því að það er svo ótrúlega fráleitt að sama skepna og gat verið ábyrgur fyrir svona martröð gæti mögulega falsað svoleiðis upplýsingar.

Fyrir utan að ef hann væri að falsa svona upplýsingar þá myndi hreinskilinn „meintur” þolandi auðvitað kæra hann fyrir meiðyrði til að sýna fram á að fullyrðingar hans væru ekki sannar. Af því að sjálfsögðu ætti hún að leggja traust sitt aftur á réttarkerfið – því er alltaf treystandi til að gera alltaf allt rétt…

En svona ofbeldisfull skepna myndi hvort eð er aldrei gera neitt svona ljótt og hún myndi aldrei ganga svo langt að reyna að láta eins og manneskjan sem hún hafði brotið á með þessum hætti væri að ljúga. Af því ef hún væri þegar búin að gera svona mikið ljótt þá myndi hún aldrei þora að gera eins ljótan hlut og að ljúga.

Þá var það pottþétt manneskjan sem er með áfallastreitu og áverka, sú sem eyðir tveimur árum af lífi sínu hjá sérfræðingum til að laga sig að lífinu á ný, sem er að ljúga þessu öllu. Pottþétt til þess að ná sér í peninga og athygli. Pottþétt til þess að fá á sig eins fallegar lýsingar og: „fíkniefna hóra“, „mannorðsskemmari“ og „handrukkara drusla“. Pottþétt bara til þess að fá fría sálfræðiaðstoð til að læra að láta ekki skoðanir annarra á sér brjóta sig niður.

Já, þið hafið pottþétt rétt fyrir ykkur! Lífið getur ekki verið svo ljótt. Manneskjur sem kæra „frægt“ fólk eru pottþétt bara að reyna að öðlast frægð og frama með því að allir í samfélaginu fái að vita í smáatriðum um allt það ógeðslega sem var gert við þær. Þá bara til þess að geta horft á næsta mann sem starir á þær í búðinni og hugsað – ég ætti kannski að bjóða honum eiginhandaráritun: „MÉR VAR NAUÐGAГ. Nema náttúrulega að hann skelli síðan skoðunum sínum í andlitið á mér um hvað honum finnst um þetta allt saman út frá því sem hann las á DV eða Vísi.

Ein athugasemd við “Áhorfendur eftir nauðgun

  1. Einstaklega raunsönn lýsing á upplifun nauðgunar og kæruferli sem oftar en ekki endar með niðurfellingu kærunnar. Réttarkerfið sem við treystum á að verndi okkur, gerir það ekki. Fólk hins vegar trúir því að óreyndu að lögin verndi okkur og kynfrelsi okkar. En í raun standa þau frekar í vörð um gerandann. Það er í það minnsta upplifun og reynsla þeirra fjölmörgu sem kæra og fá ekki einu sinni áheyrn dómstóla. Þolandinn verður vitni í eigin máli og hefur enga lögsögu eða rétt til að kæra niðurstöðu niðurfellingarinnar.
    Hvernig á þolandi að leita aftur til réttarkerfis þegar hann hefur þessa reynslu.
    Þessi grein ætti að vera skyldulesning.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.