Íþrótt eða fegurðarsamkeppni

Höfundur: Elín Pjetursdóttir

Bree Lind, bíkínífitnesskeppandi frá Bandaríkjunum

Bree Lind, bíkínífitnesskeppandi frá Bandaríkjunum

Hvað eru íþróttir?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna sumir flokka skák sem íþrótt. Skákfólk situr einfaldlega á rassinum, hugsar ósköp stíft, og hreyfir litla trékalla á köflóttu borði. Mér hefur alltaf þótt hæpið að kalla það íþrótt.

Þegar ég segi orðið „íþrótt“ sé ég fyrir mér manneskju, eða hóp fólks, sem hefur æft líkama sinn í ákveðnu athæfi, til dæmis í hoppi, snúningi, kasti eða hlaupi. Ef fólk er nógu duglegt að æfa sig í að gera eitthvað ákveðið, þá getur það jafnvel tekið þátt í mótum þar sem það keppir við aðra sem hafa æft sama athæfi og þá skiptir öllu að standa sig vel á mótinu. Það þýðir að það er ekki nóg að vera fær í  íþróttinni á æfingum eða heima við, keppandinn þarf að sýna hæfni sína á íþróttamóti. Þeim sem tekst best upp í tilteknu athæfi, til dæmis í að hoppa langt, sigrar og fær að launum verðlaunapening eða bikar.

Samkvæmt þessu er íþrótt að æfa og framkvæma ákveðið líkamlegt athæfi. Að keppa í íþrótt er svo að framkvæma þetta ákveðna líkamlega athæfi frammi fyrir dómurum og sá keppandi, eða lið keppenda, sem stendur sig best fer með sigur úr býtum. Þó ég tali hér um íþróttakeppnir þá finnst mér ekki beinlínis að keppni sé nauðsynlega hluti af hugtakinu íþrótt. Ég myndi til að mynda segja að kona sem syndir þrisvar í viku stundi íþrótt þó hún keppi ekki í sundi, samt sem áður þykir mér eðlilegt að mögulegt sé að keppa í greininni ef við viljum flokka hana sem íþrótt.

Hálfpartinn íþrótt, eða bara eitthvað allt annað?

swan_lakeSamkvæmt þessari skilgreiningu minni er því hæpið að kalla skák íþrótt. Þótt fólk hafi sannanlega æft sig heilmikið og geti þar að auki sýnt færni sína á þar til gerðum mótum þá gengur skák ekki út á að framkvæma líkamlegt athæfi, heldur snýst það um að hugsa. Af svipuðum, og þó gerólíkum ástæðum, er spurning hvort rétt sé að flokka ballett sem íþrótt. Mér vitandi eru til að mynda ekki haldin ballettmót og ballett er oft frekar flokkað sem listform sem krefst líkamlegrar getu. Hinsvegar gæti ballett þó fallið undir skilgreiningu mína á íþrótt þar sem ballettdansarar framkvæma sannanlega líkamlegt athæfi og þjálfa líkama sinn í ákveðnum æfingum. Ballett og skák eru því á gráu svæði innan skilgreiningar minnar á íþróttum, hvort tveggja á heima innan skilgreiningarinnar að vissu leyti, en að öðru leyti ekki.

Skilgreiningin mín á íþrótt er sannanlega ekki eina mögulega skilgreiningin á íþrótt. Íþróttir hafa verið skilgreindar sem leikni, fimi, snilld, list, eða að gera eitthvað af mikilli íþrótt. Slíkar skilgreiningar leggja ekki höfuðáherslu á líkamlegt athæfi og samkvæmt slíkrum skilgreiningum væri sannanlega hægt að kalla skák íþrótt. Hinsvegar hafa íþróttir líka verið skilgreindar sem kerfisbundnar æfingar sem þjálfa líkamann, oft með áherslu á að ná ákveðnum árangri, til dæmis að setja met. Samkvæmt slíkri skilgreiningu væri ballet íþrótt en ekki skák.

Þar sem skilgreiningarnar eru fleiri en ein og með svolítið ólíkar áherslur þá kemur ekki á óvart að fólk sé ósammála um hvort flokka eigi skák og ballett sem íþrótt.

Fitness sem íþrótt?

Fitnessdrottningin Allison Moyer, Bandaríkjunum

Fitnesskonan Allison Moyer, Bandaríkjunum

Ég get hinsvegar ekki séð að fitness falli undir neinskonar skilgreiningu á íþrótt, líkt og einn keppandi í módelfitness staðhæfði hér. Fitness iðkendur eru iðulega mjög duglegir að fara í ræktina og byggja upp vöðva en á mótum nota keppendur þó ekki þessa vöðva í neinskonar athæfi, heldur standa einfaldlega uppi á sviði og spenna þá. Vinningshafinn er því ekki bestur í að framkvæma ákveðið líkamlegt athæfi, vinningshafinn er einfaldlega með fallegustu vöðvana.

Mér skilst að keppendur í fegurðarsamkeppnum eyði iðulega miklum tíma í ræktinni til að móta líkamann á ákveðinn máta og það ku mörg fyrirsætan einnig gera. Þar að auki eiga keppendur í fegurðarsamkeppnum, sem og fyrirsætur, það sameiginlegt með fitnesskeppendum að vera meðvitaðir um mataræði sitt. Sjálf stunda ég líkamsrækt nánast daglega og ég reyni alltaf að passa upp á að borða hollt og vel. Ég myndi þó ekki beinlínis kalla mig íþróttakonu, né heldur fitness-kvinnu.

Að standa á sviði með spennta vöðva, það er ekki íþrótt. Að dómarar gefi keppendum mishá stig eftir útliti, á meðan keppandinn stendur grafkyrr með spennta vöðva, er ekki íþróttamót. Það vill samt sem áður svo til að við eigum hugtak yfir slíka samkundu. Þegar dómarar dæma fólk á grundvelli útlits síns þá köllum við það fegurðarsamkeppni. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann halda því fram að Ungfrú Ísland sé íþróttamót og ég skil ekki af hverju fólk reynir að halda öðru fram um fitnessmót.

Hvað er að því að kalla fitness íþrótt?

Fitnesskeppandinn og módelið Mikey Davidson

Fitnesskeppandinn og módelið Mikey Davidson

Þegar orðið íþróttamanneskja kemur upp í huga minn þá sé ég fyrir mér hreysti, heilbrigði, aga og yfirburði í líkamlegu athæfi. Þegar orðið fegurðardrottning/kóngur kemur upp í huga minn gerist eitthvað allt annað í höfðinu á mér. Ég tengi hugtakið við hégóma, hlutgervingu, og þrönga, einsleita skilgreiningu á fegurð.

Ég er þeirrar skoðunar að hlutgerving á líkama fólks sé langt frá því að vera í lagi. Enn fremur er ég þeirrar skoðunar að það sé rangt að viðhalda þröngum, einsleitum skilgreiningum á  fegurð. Það er ekki svo að skilja að mér þyki eitthvað að því að sækjast eftir fegurð á einn eða annan hátt, ég held þvert á móti að það sé hluti af mannlegu eðli að laðast að því sem okkur þykir fallegt. Ég geri til að mynda mitt besta til að hafa íbúðina mína fallega og notalega, mér finnst gaman að klæða mig í föt sem mér finnast sæt og fín, og ég laðast að mönnum sem mér þykja myndarlegir. Það er ekkert að því að laðast að því sem er fallegt, einmitt af því að fegurðarmat er svo ótrúlega persónulegt og við höfum allskonar mismunandi skoðanir á því hvað sé fallegt.

 

miss-world-2013_5

Frá Miss World á síðasta ári

Fyrirbæri eins og fegurðarsamkeppnir upphefja hinsvegar eina ákveðna gerð af fegurð. Fegurðarsamkeppnir senda okkur þau skilaboð að fegurðardrottningar-fegurð sé raunveruleg fegurð, besta fegurðin, sanna fegurðin. Því miður hafa slík skilaboð áhrif og ógrynni fólks er sannfært um að það sé ekki nógu fallegt nema það uppfylli þessa þröngu fegurðarstaðla. Hver veit, kannski fólk laðist líka frekar að þeim sem uppfylla þessa undarlegu staðla, af því að umhverfið sendir okkur öllum þau skilaboð að svona eigi fólk að líta út. Væri ekki miklu betra ef við gerðum okkur grein fyrir því að allskonar getur verið fallegt, og að sumum finnst eitt fallegt og öðrum ekki?

Flestum vinum mínum myndi til að mynda aldrei detta í hug að klæða sig í tryllingslega litríka blómakjóla, við uppháa ullarsokka og gúmmítúttur, af því að þeim finnst það ekkert sérstaklega fallegt. Mér finnst það hinsvegar stórkostlega fínt og geng oft og iðulega akkúrat þannig til fara. Ég skreyti líka íbúðina mína með því að hengja litríka kjóla á veggina í bland við fyndnar útsaumsmyndir, á meðan stelpan sem ég leigi með hengdi einungis upp eina ljósmynd í herberginu sínu. Svona erum við ólíkar og höfum mismunandi skoðanir á því hvað sé fallegt. Mér finnst ofsalega fínt inni hjá henni, það er bara ekki vitund Elínar-legt, rétt eins og henni finnst voða sætt inni hjá mér, en hún myndi þó aldrei skreyta umhverfi sitt á sama máta og ég.

Rétt skal vera rétt

Munurinn á þessum hugtökum, íþróttamanneskja annarsvegar  og fegurðardrottning/kóngur hinsvegar, er gríðarmikill. Í mínum huga tengist hugtakið íþróttamanneskja allskonar jákvæðum hlutum, en hugtakið fegurðardrottning/kóngur tengi ég hinsvegar ömurlegu samfélagsmeini sem leggur ofuráherslu á útlit fólks, frekar en innri manneskju og þá hæfileika sem við búum  yfir. Þessi hugtök eru gerólík og því ætti ekki að rugla þeim saman. Fitnessmót eru ekki íþróttamót heldur einhverskonar fegurðarsamkeppnir, og í anda fegurðarsamkeppna ýta fitnessmót undir þrönga og einsleita skilgreiningu á fegurð.

 

6 athugasemdir við “Íþrótt eða fegurðarsamkeppni

 1. Svona er maður sjálfhverfur, mér fannst merkilegast í þessari grein að það er til önnur manneskja en ég sem gengur um í litríkum blómakjólum, háum ullarsokkum og gúmmítúttum! Ég hrökk við þegar ég las lýsinguna.

  Burtséð frá þessari uppgötvun, þá er ég hjartanlega sammála öllu sem kom fram þarna.

  • Fólkið sem er í fitness er alveg fallegt líka, bara á annan og aðeins ónáttúrulegri hátt en við hin. Spurning um að við leyfum bara fólki að vera eins og það er og gera það sem það vill svo lengi sem það skaði ekki aðra. Þó er ég sammála greininni um að fitness sé ekki íþrótt og að það sé óþarfi að auglýsa svona ofan í kok á okkur hinum að þetta sé hin eina sanna fegurð.

 2. Ég bara verð eigilega að vera sammála þessu, eins ósammála og ég er 95% af þráðum hérna.

  Engu að síður, þá verðum við að leyfa fólki að gera það sem það vill, kalla fitness íþrótt ef það kýs að horfa með slíkum hætti á það og keppa í því í framhaldi.

  Það að þú ert ekki sammála gerir það að verkum að þú getur sniðgengið slíkar keppnir.

  Það eina sem mér finnst rangt er undirtónninn í greininni… Þetta er slæmt, þetta er rangt, það er mitt mat og þessvegna á að banna þetta. (nema ég misskilji)

  Get ekki kvittað upp á það..

 3. Ég er alls ekki að segja að fitness sé rangt eða að það eigi að banna fitness, svo þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því PalliValli.

  Mér finnst heldur ekki að fólk sem er í fitness sé minna fallegt en annað fólk, eins og Jóni M. Ívarssyni virðist finnast. Þvert á móti finnst mér frábært að til séu allskonar gerðir af fegurð. Ég er hinsvegar þeirrar skoðunar að fitnessmót séu ekki íþróttamót og þar af leiðandi eigi ekki að kalla þau íþróttamót.

  Bíll er bíll og hús er hús! Ég yrði ekki hrifin ef sumir myndu taka upp á því að kalla bíla hús bara af því að þeim langar til þess. Í sakleysi mínu væri ég svo kannski að rölta Laugaveginn og einhver myndi kalla „Elín, passaðu þig á bílnum!“ Ég myndi þá hörfa frá götunni, skíthrædd um að í nánd væri bíll sem væri við það að keyra mig niður. Í staðin myndi svo hús hrynja ofan á höfuðið á mér af því að þessi manneskja hefur ákveðið að nota orðið bíll yfir fyrirbærið hús. Hugtakaruglingur getur sko verið alveg stórhættulegur 😉

 4. Íþrótt, nei, en kannski „keppni í kyrrstöðu“, „keppni í vöðvahnykklun“, „vöðvasýning“ eða bara auglýsing fyrir sílíkon, stera og fæðubótarefni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.