Stelpuleikir á netinu ýta undir kvennakúgun

Höfundur: Moa Strand
Þýð.: Halla Sverrisdóttir

Moa Strand

Moa Strand

Ég heiti Moa og er 14 ára og á hverjum degi kem ég auga á einhverjar nýjar birtingarmyndir þess hvað kynhlutverkin eru kyrfilega rótföst í undirmeðvitund okkar. Ekki síst í heimi tölvuleikjanna, eins og má sjá á vinsælli leikjasíðu sem markaðssetur svokallaða „stelpuleiki“. Þeir ganga í meginatriðum út á að farða teiknaðar stelpur og breyta útliti þeirra. Og foreldrar þurfa að átta sig á því að leikjasíður eins og þessi geta hreinlega afskræmt sýn barnanna þeirra á heiminn – bæði stelpnanna og strákanna.

Litli bróðir minn lötrar silalega og niðurlútur að bílnum. Við setjumst í aftursætið og hann heldur áfram að stara niður fyrir sig. Svona sitjum við næstum alla leiðina heim. Hann gónir niður fyrir sig og ég hálfpartinn smitast og fer ósjálfrátt að herma eftir honum. Þegar við erum næstum komin kíkir hann upp til mín og brosir.

„Moa, þegar við komum heim, getum við þá farið í einn leik sem er rosalega skemmtilegur?“ Ég brosi á móti og segi: „Æ, því miður, ég nenni því ekki og hef líka svo mikið að gera.“ Brosið hverfur eins og dögg fyrir sólu. Hann byrjar aftur að mæna niður á bílgólfið.

„Já, en Moa, þetta er rosasniðugur leikur. Og þetta er stelpuleikur! Þér finnst svoleiðis leikir sniðugir, er það ekki?“ segir hann og starir áfram niður á gólf. Stelpuleikur? Hvað er hann að tala um? Honum hefur tekist að ná athygli minni óskiptri.

Ég lít á hann og reyni af öllum kröftum að brosa til hans. „Stelpuleikur? Hvað er það eiginlega?“

„Þú veist, svona leikur sem bara stelpur fara í,“ segir hann. „En þú ferð í hann, þú ert ekki stelpa, er það?“ segi ég, bara til að heyra hverju honum dettur í hug að svara.

Hann snýr sér út að glugganum og gónir á trén sem þjóta hjá. „En ég er nú eiginlega næstum stelpa.“ „Hvað meinarðu?“ spyr ég. Tár laumast niður vangann og hann snýr sér aftur að mér. „Já. Mér finnst sko sítt hár flott, eins og stelpum finnst, og finnst gaman að spila stelpuleiki.“

Ég heyri greinilega að þetta eru ekki hans orð. Ég heyri að hann er að vitna í bekkjarfélaga sína. Mér finnst þetta sárt. Mér finnst sárt að sjá átta ára bróður minn svona leiðan, mér finnst líka sárt að ég skuli ekki hafa tekið eftir neinu fyrr en núna. Hvorki hvernig honum líður né því hvernig öðrum krökkum á hans aldri líður. Þau hafa verið sett í kassa og þegar maður er átta ára strákur á maður tvo kosti: annað hvort leikur maður með eða maður fer í stelpuleikinn. Og svo kemst maður ekki upp úr kassanum það sem eftir er ævinnar.

Þegar heim er komið sest nú ég samt í sófann hjá honum. Hann brosir breitt og slær hægt, en af öryggi, inn slóð fyrir vinsæla leikjasíðu á tölvuna. „Sjáðu bara, Moa! Þér finnst þetta örugglega frábært,“ segir hann og brosir alveg út að eyrum.

Síðan er rauð í grunninn og lógóið er dreki, það finnst mér sniðugt. „Heim, hasar, ævintýri, bardagar og spil? og stelpuleikir.“

spela.se

Listinn er lengri en augu mín staðnæmast þarna. Stelpuleikir? Er þá í alvöru til sérflokkur sem heitir „stelpuleikir“? Hvað er það sem greinir stelpuleiki frá öðrum leikjum? Það líður ekki á löngu þar til ég fæ svar við þeirri spurningu.

Hann smellir á valflokkinn „stelpuleikir“.

Það sem greinir stelpuleikina frá hinum leikjunum sem eru ætlaðir strákunum er þetta: „Strákaleikirnir“ eru hasarleikir, ævintýraleikir, borðspilaleikir, spilaleikir, drápsleikir. „Stelpuleikirnir“ snúast um matargerð, umönnun barna, hárgreiðslu, förðun, stefnumót og föt. Algjörlega tilgangslausir leikir sem hafa bara eitt markmið: að fá smástelpur til að halda að þær þurfi að breyta sér til að falla í kramið. Þetta þarf ekki einu sinni að lesa á milli línanna, það skín afskaplega greinilega í gegn.

Hér eru nokkur dæmi um stef sem finna má í mörgum þessara leikja:

 • Stelpa hættir að vera lúðalegur nörd og verður sæt
 • Stelpu sem er lúðalegur nörd í upphafi leiksins er hjálpað að verða sæt og fær draumaprinsinn
 • Ljót stelpa verður sæt
 • Ljót prinsessa er gerð falleg!

Það er ekkert skrítið þótt það sé enn misrétti á milli kynjanna og það er heldur ekkert skrítið að önnur hver stúlka skuli vera óánægð með útlit sitt. Okkur er innrætt, frá blautu barnsbeini, að við eigum að vera óánægðar með útlit okkar. Okkur er innrætt að það sé ekkert varið í okkur ef við viljum ekki mála okkur, vera í alltof stórum brjóstahaldara eða reyna að ganga í augun á strákum.

Og ég verð hugsi. Er þetta samfélagsmyndin sem við viljum að börnin okkar alist upp við og temji sér? Viljum við að stelpur vaxi úr grasi fullar af sjálfsfyrirlitningu?* Viljum við að stelpurnar okkar alist upp við það að þær séu einfaldlega ekki nógu góðar eins og þær eru? Eiga strákarnir að fá að ákveða hvaða stelpur standast kröfurnar og hverjar falla á prófinu?

Þessar spurningar vakna allar í huga mér. Leikjasíðan er nefnilega enn á sínum stað. Vita foreldrar ekki að þetta er það sem þau leyfa krökkunum að hanga yfir, þegar þau vilja kaupa sér rólega stund heima eftir leikskólann? Vita þau ekki að þessi síða og aðrar svipaðar síður brengla alla sýn barnanna þeirra á raunveruleikann?

Er þetta veröldin sem við viljum?

svart_spelaÞað er reyndar fleira athugavert á þessari leikjasíðu. Undir valflokknum „Förðunarleikir“ eru átta síður með 221 leik. Tvær stúlkanna  í leikjunum eru hörundsdökkar. Átta síður, 221 leikur. Bara hvítar stelpur. Og þessar tvær stelpur sem  þó eru dökkar eru í leikjunum „African Makeover“ og „Farðaðu svarta stelpu“. Ég ætla að sleppa því að segja fleira um þetta.

Eitt er það enn sem ég verð afskaplega reið yfir: á sumum leikjasíðum er hægt að finna fjöldan allan af lýtaaðgerðaleikjum. Leikjum þar sem hægt er að breyta því litla sem stelpur hafa skilið eftir af sjálfum sér.

Ég fæ bara ekki skilið hvernig við höfum látið þetta óáreitt svona lengi.

Greinin birtist upphaflega hér, á umræðusvæðinu Debatt á heimasíðu sænska ríkissjónvarpsins. Þýtt og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

9 athugasemdir við “Stelpuleikir á netinu ýta undir kvennakúgun

 1. Tölvuleikir eru ekki vandamálið. Heldur útlistdýrkun. Henni er haldið fram af nánast öllum á landinu. Og þá sérstaklega konum og menningu sem oft er tengt við kvennlegt. Ef þú ætlar að tækla þetta rétt ættiru að ráðast á kjarnann. Sem er að lifandi konur (og karlar) farða sig til að líta betur út!
  Þar kemur fyrirmyndin fyrir þessu og þar læra litlar stúlkur að þetta sé mikilvægt. Fréttir eins og eru á smartlandi hjálpa svo ekki til, né Perez, tískublöð, menning að lítilækka fólk sem klæðist fötum frá hagkaupum og svo framvegis. Ekki einu sinni harðasti feminsist sem ég þekki er til í að gefa þessa hluti upp á bátinn.

  Tölvuleikir eru bara pínu brota brot af raunverulegu vandamálinu.

 2. Ég brosi á móti og segi: „Æ, því miður, ég nenni því ekki og hef líka svo mikið að gera.

  Af hverju var hún svona upptekin? Þurfti hún að skrifa grein um útlitsdýrkun?

 3. Krakkar eyða ótrúlega miklum tíma á svona leikjasíðum. Ótrúlega miklum. Ég man það bara frá því að ég var á aldur við höfundinn og yngri, fyrir um áratug, þá fannst mér og mínum vinkonum voða gaman í svona dúkkulísuleikjum. Sem er ekkert slæmt, svo sem, nema það að þessar dúkkulísur (sem yfirleitt áttu að vera frægar kvikmyndaleikkonur eða söngkonur) voru allar nákvæmlega eins, hávaxnar, grannar, hvítar. Afar fáir karlmenn og nánast engir aðrir kynþættir, hvað þá að einhver væri fatlaður eða félli ekki akkúrat inn í staðlaða fegurðarímyndina. Samkvæmt þessari grein hafa svona leikir ekki bætt sig í þeirri deildinni. En ég játa að mér brá þegar ég las um þessa „Plastic Surgery leiki.“ Í alvöru? *æl*

 4. South Park tekur á þessu máli. Og vandamáli. Og tvöfeldninni.

  Maður grætur næstum því þegar gáfaði og geðþekki feministinn Wendy Testaburger virðist játa sig sigraða í lok þáttarins og ákveða að fylgja meginstraumi útlitsdýrkunar.

  http://www.southparkstudios.com/full-episodes/s17e10-the-hobbit

  En auðvitað þrælfyndið þess á milli. Sérstaklega fyrir aðdáendur J.R.R. Tolkiens.
  (Sem féll örugglega á Bechdel prófinu)

  • Þessi South Park þáttur er algjör snilld! Það er mjög átakanlegt að horfa á hann alveg til enda, ég fékk sting í magann.

   Þessi pistill er líka mjög góður og ég tek undir með henni, það er ótrúlegt að þetta skuli viðgangast. Þetta snýst samt ekki bara um útlitsdýrkunina heldur flokkunina á stelpu og strákaleikjunum, sem getur verið alveg skelfileg.

 5. Bakvísun: Prinsessur og riddarar – skyndiúttekt á barnabókum í Frakklandi | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.