„Nauðgun er viðurstyggilegur glæpur. Aðeins morð er alvarlegra. Nauðgun er ekki liðin í samfélagi okkar.
Hvernig stendur þá á því að þetta sama samfélag og fordæmir nauðgun, bæði leyfir og skapar aðstæður til að kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum fær að blómstra?“
Svo ritar Ruby Hamad á vefmiðlinum dailylife.com.au og nefnir dæmi. Það fyrra varðar hið svonefnda Steubenville-mál sem mikið hefur verið til umfjöllunar í íslenskum miðlum og má þar nefna samantekt Morgunblaðsins og grein á Knúz.is eftir Sigríði Guðmarsdóttur.
Tvennt gerðist 11. janúar sl. sem sýnir átakanlega fram á þetta. Í Ohio var annar gerendanna í Steubenville, Ma‘Lik Richmond, látinn laus úr unglingafangelsi eftir 9 mánaða afplánun af eins árs lágmarksdómi. Kerfið gerir ráð fyrir betrun brotamanna en til þess þarf að sýna ákveðna iðrun og eftirsjá. Í yfirlýsingu lögmanns piltsins til fjölmiðla skortir þessa iðrun alfarið og hvergi er minnst á brot hans:
„Ma‘Lik, sem er sextán ára, upplifði meira harðræði en nokkur fullorðinn getur ímyndað sér, hvað þá barn. Hann hefur þraukað og gert sitt besta við þessar óheppilegu kringumstæður í lífi sínu… Hann hefur mætt hverri hindrun með seiglu og æðruleysi. Hann hefur hugsað ráð sitt, lært, þroskast og vaxið á marga vegu. Hann er betri og sterkari einstaklingur og hlakkar til að hefja nám og líf að nýju og vera með fjölskyldu sinni.“
Í þessu iðrunarlausa ranti sem er fullt af niðurlægjandi bulli, er besta dæmið um brenglaða afstöðu okkar til nauðgunar fólgin í þeirri staðhæfingu að fangelsisvist piltsins hafi komið til vegna „óheppilegra kringumstæðna“ sem hann hafði á einhvern hátt ekki stjórn á.
Jafnvel eftir dóm og afplánun er nauðgarinn sýndur sem fórnarlambið. Afleiðingar brots hans eru „hindranir“ og „harðræði“ sem hann verður að sigrast á þar sem hann „þraukar“ í viðleitni sinni að lifa eðlilegu lífi. Auðvitað má líta á orð lögmannsins sem tilraun til að fegra skjólstæðing sinn. En þau minna óþægilega á hvernig fjölmiðlar segja frá svona nauðgunarmálum og hvernig samfélög bregðast við þeim.
New York Times segir frá hópnauðgun 11 ára telpu í Texas og hefur miklar áhyggjur af framtíð meintra nauðgara: „Hvernig gátu þessir ungu menn lent í þessu?“ spyr blaðamaðurinn, eins og þar hafi dularfull öfl verið að verki, en ekki ásetningur þeirra. „Þetta hefur eyðilagt samfélag okkar“ sagði íbúi þar í viðtali við blaðið. „Þessir drengir verða að lifa með þetta alla sína ævi.“
Þegar sektardómurinn var kveðinn upp í Steubenville logaði Twitter af reiði í garð „hórunnar“ sem hafði eyðilagt líf aumingja piltanna. Og fjölmiðlar höfðu miklar áhyggjur af áhrifum dómsins á ungu mennina þar sem „líf þeirra hafði verið lagt í rúst“ af völdum glæps „ sem mun ásækja þá alla ævi.“
Allt skýrir þetta yfirlýsingu lögmannsins. En í Steubenville var aðeins eitt fórnarlamb. Það var ekki Ma‘Lik Richmond.
11. janúar gerðist líka annað sem má rekja til hneigða samfélagsins að afsaka nauðganir. Daisy Coleman, 16 ára stúlka frá Maryland í Missouri, reyndi í þriðja sinn að stytta sér aldur. Daisy var að sögn nauðgað rænulausri fyrir tveimur árum, þegar hún var 14 ára, og hún mynduð en síðan fleygt klæðalítilli í ískulda fyrir framan heimili sitt og skilin þar eftir.
Þrátt fyrir að myndskeið tengdu Matthew Barrett 17 ára við nauðgunina, var málið látið niður falla áður en það kom fyrir dóm. Matthew, sem er af virtri fjölskyldu í Maryland þar sem afi hans er þingmaður, hélt áfram lífi sínu eins og ekkert hefði í skorist. Daisy Coleman var flæmd úr bænum, lögð í einelti og hótað lífláti. Loks reyndi hún að stytta sér aldur. Þrisvar.
Ma’lik Richmond dæmdur nauðgari, mætir aftur út í lífið níu mánuðum síðar. En fórnarlamb annars álíka glæps er svo bugað af reynslu sinni að hún tekur dauðann fram yfir lífið.
Þetta er nauðgunarmenningin. Þótt við segjumst fyrirlíta nauðgun, vorkennum við nauðgaranum og hæðum fórnarlömb hans. Við viljum setja ungum konum reglur um klæðaburð og framkomu í stað þess að fordæma ungu mennina sem telja að stúlkur eigi að veita þeim aðgang að líkama sínum. Við segjumst fordæma nauðgun en látum samt eins og hún hafi ekki átt sér stað.
Samfélag okkar bregst ungum konum. Ungum mönnum finnst ekkert að því að mynda og dreifa glæpum sínum og það sýnir hvað samfélagið metur ungar konur lítils. Við bregðumst líka ungu mönnunum því við látum þennan vítahring viðgangast. Kannski finnst þessum piltum þeir vera saklausir því þeir hafa drukkið í sig boðskap menningar sem fullvissar þá um það.
Samfélag okkar „fyrirlítur“ nauðgun. En aðeins ákveðna tegund nauðgunar og nauðgara. Við fordæmum árásir á ungar konur á götum úti eða ef ráðist er inn á heimili þeirra og þeim misþyrmt.
En þegar í hlut eiga vinsælir námsmenn og íþróttakappar, þegar fórnarlambið hefur drukkið áfengi eða verið í röngum fötum eða jafnvel haft mök áður, þá verða línurnar óskýrar og þá er hamast við að firra gerendur ábyrgðinni.
„Hún hlýtur að hafa vilja það. Hún hlýtur að hafa átt það skilið. Hvað hélt hún að myndi gerast?“ Árið er 2014 og enn einblínum við á biblíulegt siðgæði kvenna. Við minnsta grun um að fórnarlambið sé ekki kynferðislega „óflekkað,“ verður hún meðsek um eigin nauðgun, táldragari og rándýr sem lokkar grunlausa karla á villigötur.
Ekki er vitað um líðan fórnarlambs Ma‘Lik Richmond í Steubenville og tvísýnt er um líf Daisy Coleman. En lögmaður Ma‘Lik vill koma þessu á framfæri:
„Ma‘Lik mun gefa sér nægan tíma til að einbeita sér að námslegum og persónulegum markmiðum. Við förum fram á stuðning ykkar og fyrirbænir meðan við höldum áfram.“
Höldum áfram. Bara að það væri svona auðvelt fyrir hin raunverulegu fórnarlömb.
(Að mestu byggt á grein Ruby Hamad sem finna má hér.)
„Þetta er nauðgunarmenningin. Þótt við segjumst fyrirlíta nauðgun, vorkennum við nauðgaranum og hæðum fórnarlömb hans. Við viljum setja ungum konum reglur um klæðaburð og framkomu í stað þess að fordæma ungu mennina sem telja að stúlkur eigi að veita þeim aðgang að líkama sínum. Við segjumst fordæma nauðgun en látum samt eins og hún hafi ekki átt sér stað.
Samfélag okkar bregst ungum konum. “
Hvað eindæmis bull er þetta. Þetta hefur farið um allan heim útaf fólk finnst þetta útaf kortinu. Það er 99% af heiminum sem finnst þetta algjörlega óásættanlegt. Við erum að tala um þjóð sem telur tugi ef ekki hundruðir milljóna og þú telur upp tvö dæmi sem fólk er allt sammála um að sé engan veginn í lagi.
Bæði þessi bær og þetta fólk hefur verið skotið í kaf.
Þú talar einnig um athæfi í öðru landi, á meðan það er margviðurkennt að Ísland stendur ef ekki fremst þá eitt af fremstu þjóðum í heimi hvað varðar jafnrétti.
Hvaða rugl er að draga þetta fram sem einhverja sönnun um að við lifum í nauðgunarsamfélagi ?!
Gott er að lesa til enda: „(Að mestu byggt á grein Ruby Hamad sem finna má hér.)“
Ég vona að þú munir eftir Húsavíkurmálinu, fyrir ekki svo löngu, og almennt eru til alveg þónokkur mál hérlendis sem bera einhverskonar keim af þessari „nauðgunarmenningu“.
Sæll Gísli, mig langar til að þakka þér fyrir góða og þarfa grein um nauðgunarmenningu. Hún teygir því miður anga sína víða, líka til Íslands, þar sem dæmi eru um að samfélög hafi snúist gegn þeim sem verða fyrir nauðgun og/eða horfa í gegnum fingur sér um kynferðislegt ofbeldi.
Hvað hvað varðar spurningu Pallavalla (getur fólk annars ekki komið fram undir fullu nafni?) langar mig til að spyrja hann eftirfarandi spurninga: Hvað hefurðu fyrir þér í því að 99% af heiminum sé á móti nauðgunarmenningu? Hvaða „allt fólk“ er sammála því að nauðgunarmenning sé óásættanleg? Hvað er að því að tala um „athæfi í öðru landi“?
Sigríður: Það er fjallað þarna um mál þar sem allir fjölmiðlar og bloggheimar loga af reiði yfir, til þess að sanna að hér sé einhver nauðgunarmenning, eða öðruvísi skil ég ekki samhengið.
Þetta ætti akkurat að sanna öfugt, það að við líðum ekki nauðganir né að fólk komi fram með sama hætti og þetta bæjarfélag gerði.
Álíka mál hefur komið upp hér á landi með sama hætti, en það var líklega ekki jafn djúsí að fjalla um það því sönnun var ekki jafn haldföst og viðbrögð ekki jafn gróf. (Þó að landinn sé langt í frá sáttur við þau viðbrögð sem greyjið stúlkan fékk.)
Hversvegna er fjallað um aðra þjóð til þess að benda á vandamál hér.
Afhverju er þá ekki bara gengið alla leið, fjallað um Indland og tíðni nauðgana þar og önnur vandamál til þess að koma með rök fyrir því að það sé eitthvað að okkar samfélagi og hve viðbrögð okkar eru nú röng. Eða eins og greinarhöfundur skrifar….
„Þótt við segjumst fyrirlíta nauðgun, vorkennum við nauðgaranum og hæðum fórnarlömb hans.“
Þetta er kjaftæði.
Ef eitthvað er þá er samfélagið farið að dæma fólk án dóms og laga eins og Gillz málið sínir.
Eins illa og mér er við Gillz þá tel ég ekki gott að samfélagið þróist í þá átt, rétt eins og ég vill ekki að samfélagið sé eins og greinarhöfundur lýsir því.
ENda er það ekki þannig.
Hey pallivalli, það er þín skoðun að bloggheimar logi af reiði yfir því sem gerðist en þú hlýtur þá að lesa bara part af „bloggheimum“ því viðbjóðurinn sem fólk lætur út úr sér þar í garð fórnarlambanna er með ólíkindum. Þú þarft ekki að gera annað en að fara inn á youtube og finna fréttaflutninga um Steubenville-málið og sjá það sem jafn áhrifamikið fólk og fréttamenn láta út úr sér að framtíð ungu mannana sé ónýt vegna þess að þeir nauðguðu ungri stúlku:
Það getur vel verið að fullt af fólki sé að kafna úr hneykslan yfir þessu (guði sé lof að þá eru ekki allir skrímsli) en það breytir ekki þeirri staðreynd að gríðarstór hópur fólks lítur á þetta með sömu augum og fréttapakkið – að drengirnir eigi vorkunn skilið eftir að hafa „lent“ í nauðgun. Og svo má ekki gleyma að þeir fengu lágmarksrefsingu fyrir að þröngva sér inn í líkama annarrar manneskju. Það er nú ekkert nýtt af nálinni að nauðgarar hljóti lágmarksdóma jafnvel þótt að sannanir séu skotheldar gegn þeim. Finnst þér það ekki benda til þess að eitthvað sé að í samfélaginu? (því íslenska, bandaríska vott ever). Ég hugsa að greinarhöfundur sé að tala um samfélagið í heild sinni, jörðina ef þú vilt, og það samfélag á langt í land með þessi mál. Og hvað varðar okkar samfélag hér heima, hvað þá með t.d. Húsavíkurmálið sem þegar hefur verið nefnt? Hatursáróður til fórnarlambsins birtist þar í bæjarblaðinu? Er það eðlilegt? Hvað sem Gillz-málinu varðar þá breytir það því ekki að það er fullt af ógeði sem viðgengst, líka hérna á þessu landi og hvað þá t.d. í Indlandi. Ég skil ekki að þú takir þann pól í hæðina að skammast yfir þessari umræðu, ég hefði talið að það væri þarft að ræða svona þar sem margir eru afskaplega ósammála þér, og þar með talið sjálf fórnarlömbin. Þeim er örugglega alveg sama þó þú haldir að 99% fólks sé reitt yfir fréttaflutningi eins og þessum í Steubenville-málinu.
Takk fyrir greinina.
Ég er sérstaklega ánægður með það að í henni er nauðgunarmenningin skilgreind og afmörkuð. Nauðgunarmenningin hefur oftast nær ekki verið negld niður konkret svo auðvelt hefur verið að draga hana í efa. En hérna birtist hún svart á hvítu.
Við Pallavalla vil ég segja: Í hvert skipti sem grein birtist á knuz hef ég oftast séð nafn þitt í athugasemdum. Þú ert undantekningarlaust ósammála innihaldi greinarinnar. Þú hefur að sjálfsögðu rétt á því en mig er farið að gruna að þetta séu hálfgerð taugaveiklunarviðbrögð af þinni hálfu, eins og þú sjálfur liggir undir ásökunum vegna kyns þíns. Svo er þó ekki. Annaðhvort það eða þú ert svokallað „troll“. Ég skora síðan á þig að koma fram undir réttu nafni.
Ég hef stundum verið mjög ósammála sumum skrifum sem hafa birst hér, sérstaklega þeim sem annaðhvort hafa fordæmt alla karlmenn á einu bretti eða þeim sem hafa viljað takmarka tjáningarfrelsi fólks í nafni einhvers konar ímyndaðs „öryggis“. Ég gæti hins vegar ekki verið meira sammála þessari hér.
En er ekki bara fínt að hluti af fókusnum beinist að þeim ungu mönnum hvers líf hefur verið eyðilagt? Gæti virkað á siðleysingja, sem stór hluti nauðgara (a.m.k. skv. minni skilgeiningu) hlýtur að vera. Það „á sér stað“ nauðgun. Líf geranda og þolanda er eyðilagt (mismikið sjálfsagt, eftir efnum og aðstæðum). Munurinn er auðvitað sá að naugðarinn eyðilagði sjálfur sitt eigið líf, og þess sem var nauðgað. Hann getur því svo algjörlega sjálfum sér um kennt. Því er lærdómurinn um eyðileggingu eigin lífs hugsanlega betri gagnvart siðleysingjum en boðskapurinn um að koma vel fram við annað fólk, enda er það sem heldur þeim helst á mottuni, þ.e. refsingar og aðrar afleiðingar illvirkja þeirra. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir að við erum líklegast ekki að fjalla um fólk sem hugsar eins og flestir aðrir. Og áróðurinn og efnistökin þurfa því að vera önnur, e.t.v. svolítið framandi og jafnvel misbjóða væntingum okkar um forgangsröðun fjölmiðlaumfjöllunar.