Að birta eða birta ekki gögn

Höf.: Gísli Ásgeirsson

Aðeins eitt af hverjum fimm kærðum kynferðisbrotamálum fer fyrir dóm, skv. upplýsingum frá embætti lögreglustjóra. Helmingur kæra er felldur niður hjá lögreglu og 30% til viðbótar hjá ríkissaksóknara, ef ekki er talið að sakfelling náist fram.

Það gefur auga leið að kærendur eru oft ósáttir við niðurstöður og hafa sumir brotaþolar komið fram undir nafni og sagt frá sinni hlið. Aðrir hafa gengið lengra og birt málsgögn opinberlega, s.s. brot úr lögregluskýrslum, vitnisburð læknis og aðrar upplýsingar. Oft eru þetta afar viðkvæm gögn sem ætla mætti að lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga næðu yfir en sú virðist ekki vera raunin þegar að er gáð.

Þetta skjáskot er úr umfjöllun Vísis um birtingu gagna í máli sem nokkuð hefur verið fjallað um undanfarið. Það skýrir sig að öðru leyti sjálft en litað hefur verið yfir tvö orð til að sýna fram á víðtæka skírskotun ummæla sem þarna birtast:

Fráleit birting III

Lögmaðurinn Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hefur farið mikinn í fjölmiðlum í tengslum við störf sín fyrir ýmsa málsaðila. Þessi ummæli hans eru einkum eftirtektarverð þegar þessi Pressupistill er lesinn.

Skráður pistilshöfundur er Egill Einarsson. Þar er fjórum sinnum vitnað í lögregluskýrslur, sem sakborningar og vitni hafa sennilega treyst að yrðu ekki birtar almenningi á netinu. Þarna er líka um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar sem halda mætti að ættu ekkert erindi við almenning, allra síst eftir að ákveðið var að höfða ekki mál.

En Vilhjálmur Hans rauk ekki í fjölmiðla í kjölfar þessa pressupistils, þótt tilefnið hefði verið ærið og öll ummæli hans í ofangreindu skjáskoti hefðu átt vel við. Þá þótti tilgangurinn helga meðalið. Brynjar Níelsson hafði heldur ekkert við þennan pistil að athuga en hann sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að birting svona gagna (þ.e. í því máli sem skjáskotið vísar til) vægi að réttarríkinu. Vilhjálmur Hans er sama sinnis:

Já, þetta vegur með mjög alvarlegum hætti að stoðum réttarríksins. Meðal annars af þeirri ástæðu höfum við ákveðið að aðhafast í málinu. Þetta þarf að stöðva,“ segir Vilhjálmur. (Visir.is)

Sveinn Andri Sveinsson tekur undir með þeim félögum og tiltekur einkum refsiábyrgðina:

Sveinn Andri II

Það verða hæg heimatökin þegar Vilhjálmur Hans og aðrir lögmenn ákveða að vera sjálfum sér samkvæmir og aðhafast eitthvað varðandi birtingu gagna í málinu sem Pressupistillinn fjallar um.

Uppfært 24. janúar kl. 23.00. Sú staðreyndavilla læddist inn í upphaflegu gerð greinarinnar að VHV var sagður hafa varið EE í margfrægu nauðgunarmáli. Hið rétta er Egill varð umbjóðandi Vilhjálms í þeim meiðyrðamálum sem fylgdu í kjölfarið. Höfundur biðst velvirðingar á mistökunum. Eftir stendur að málin tvö eru að mati höfundar fyllilega sambærileg og full ástæða til að skoða ólík viðbrögð lögmannanna við birtingu málsgagnanna.

20 athugasemdir við “Að birta eða birta ekki gögn

 1. Það skiptir fyrst og fremst máli hver fer með málið í blöðin til að byrja með. Í máli Egils var það meintur brotaþoli og hennar aðstandendur, en ekki Egill sem fóru fyrst í blöðin*… Egill svarar svo fyrir sig með málsgögnum þegar hálf þjóðin er búin í meira en heilt ár að snúa all svakalega úr öllum málsgögnum, honum í óhag**.

  Auk þess birtir Egill ekki öll gögn óritskoðuð, og hann var ekki að gefa upp nafn á neinum sem áður var nafnlaus (Meintur brotaþoli hafði stuttu áður komið í forsíðu viðtal í fjölmiðlum útaf sama máli)

  Það er óneitanlega alltaf erfiður þáttur í málum, þar sem lítið er af sönnunargögnum og vitnum, að fá þau í meðferð fyrir dómstólum. Sum afbrot eru þess eðlis að þau gerast gjarnan í kringumstæðum þar sem enginn vitni eða hörð sönnunargögn eru til staðar. Það eru fleiri brotaflokkar en kynferðisafbrot sem þetta á við um (Mútur, hótanir og kúganir af ýmsu tagi, sem dæmi). En lágt hlutfall dómsmeðferða í ákv brotaflokkum er enginn réttlæting fyrir því að fara umfram lögin, eða að reyna að fá einstaklinga þá frekar „dæmda“ á opinberum vettvangi. Dómsaga aldana er troðfull af dæmum um hvernig slíkt getur farið ílla, og ástæðan fyrir þeirri grundvallar reglu að betra sé að sleppa tíu sekum frekar en að dæma einn saklausan er komin til vegna þess að bæði Ríkið og múgur sem tekur sér það vald að dæma án sönnunargagna er margfallt hættulegara fyrirbæri en þeir stöku glæpamenn sem sleppa.

  Enginn heldur því hinsvegar fram að kerfi með slíkum forsendum sé fullkomið fyrir brotaþola. En það er töluvert skárra en kerfi þar sem ásökun ein er metin til sakhæfis.

  Þrátt fyrir yfirborðsleg líkindi þá eru þessi tvö mál sem Gísli nefnir (eða öllu heldur, tvær túlkanir á þessum málum) ekki samanburðar hæf, og sérstaklega ekki eins og hann leggur þetta upp.

  Að því sögðu þá var samt sem áður lagalega vafasamt af Agli að byrta þessi gögn. Hann hefur augljóslega tekið þá afstöðu að það væri honum hagkvæmara að gera það og hætta á mótbárur frá Ríkinu, heldur en að gera það ekki og leyfa miklum og almennum rangtúlkunum um mál hans standa óvéfengt – og hægt er að færa ágætis rök fyrir því að frá hans bæjardyrum hafi það borgað sig. þar sem miðað við framburði vitna í þeim gögnum sem hann byrti þá var margt af því sem meintur brotaþoli hafði sagt í viðtali rétt áður, mjög vafasamt, og ómögulegt fyrir Egil að bera fyrir sig varnarhönd, eingöngu með eigin orðum.

  * Ég gerir mér grein fyrir að sumir halda ennþá því fram að Egill hafi fyrstur byrt grein um málið… en það er einfaldlega ekki rétt… Dv.is var búið í tvær vikur að reyna að svæla málið út með fréttum um „ónefndan“ aðila sem væri fyrirmenni hjá 365… þær upplýsingar fengust frá aðstandendum meints brotaþola. Dv hélt því síðan áfram þangað til nafninu var lekið á samfélagsmiðlum, og eftir það kemur yfirlýsing Egils.

  ** Málsgögnin voru á endanum honum meira í hag en óhag, þó aldrei sé hægt að fá óvéfengjanlega niðurstöðu í máli sem varðar „tveggja manna tal“ (eða þriggja í þessu tilfelli)

 2. Ég minnist hvergi á hver byrjar að birta hvað. Það skiptir ekki máli í þessu tilfelli og því skiptir engu hver byrjar að tjá sig/leka upplýsingum/birta yfirlýsingar etc. Greinin fjallar um birtingu á málsgögnum. Í báðum tilfellum var ekki kært og ekki farið fyrir dóm. Í báðum tilfellum er um að ræða gögn sem lögmenn hafa undir höndum og bera ákveðna ábyrgð á. Í öðru tilfellinu er birting gagna fordæmd, ekki hinu, þótt sami lögmaður komi að báðum málum.
  Þetta er kjarni málsins og þótt hér sé minnst nokkrum sinnum á meintan geranda í öðru málinu, var ekki ætlunin að stofna til enn einnar langlokunnar um það leiðindamál.

 3. Það er risastór munur á að draga málið fyrir fjölmiðla með því að leka málsgögnum af fyrrabragði annarsvegar , og hinsvegar að vísa í málsgögn sér til varnar eftir að meintur brotaþoli er búinn að koma í fjölmiðla og lýsa öllum málsatvikum (eins og hún sá þau) fyrir alþjóð og fullyrða að málsatvik séu tölvuert mikið önnur en gögnin segja til um.

  Egill var ekki að bera neitt á borð sem ekki hafði verið fabúlerað um áður, hann var eingöngu að lýsa sinni hlið á málinu með vísun í gögn, sem var eini möguleikinn sem hann hafði til að láta taka nokkuð mark á sér, þar sem mannorð hans var ónýtt , og búið var að dæma hann sekan af stórum hluta landsmanna , þar á meðal flestum pennum þessa vefs , án dóms og laga.

  Málið sem þú vísar í væri hugsanlega sambærilegt ef þessi ákv Lögregla væri búinn að draga mannorð stelpurnar í svaðið í fjölmiðlum, og þessvegna hefði hún birt gögnin… en það er auðvitað ekki nærri lagi.

  Maður þarf að vera ansi óheiðarlegur, blindaður af kreddum, og yfirborðslegur, til að sjá ekki þennan mismun.

 4. Gísli, var ég verjandi Egils Einarssonar? Þér er velkomið að bera þessi tvö mál saman. En vinsamlegast farðu rétt með staðreyndir. Þá eru þessi tvö mál gjörólík eins þér hefur þegar verið bent á.

 5. Ég man ekki betur en Vilhjálmur hafi varið EE í meiðyrðamálum til þessa. En vissulega var Helgi Sigurðsson lögmaður hans í nauðgunarmálinu.

 6. þar fyrir utan getum við rætt þetta fram og til baka. Ég sá ákveðin líkindi með þessum málum, eins og margoft hefur verið tuggið og hef ekki neinu við það að bæta.

  • Sæll Gísli,

   Öll greinin gengur út á það að ég hafi verið verjandi Egils í sakamálumum og ég hafi fengið afhent trúnaðargögn og beri með einhverjum hætti ábyrgð á því að upplýsingar úr þeim voru birtar i Pressupistli Egils Einarssonar. Ég hef aldrei séð umrædd gögn hvað þá heldur að ég beri nokkra ábyrgð á birtingu þeirra. Hvað hitt málið varðar þá var ég ekki verjandi lögreglumannsins á rannsóknarstigi. Hann fól mér hins vegar að gæta réttar síns þegar gögnin voru birt. Samhliða fól hann mér að svara spurningum fjölmiðla um málið. Þú hlýtur að átta þig á muninum á þessum tveimur málum. Annars vegar er ég lögmaður manns í þremur meiðyrðamálum sem skrifaði blaðagrein til þess að verjast ásökunum sem komu fram í blaðaviðtali um meint kynferðisbrot, en ég var ekki verjandi hans í sakamálinu. Hins vegar er ég lögmaður manns sem varð fyrir því að viðkvæmar persónuupplýsingar um hann urðu opinberar þegar málsgögn sakamáls voru birt í heild sinni á netinu. Hvað er það í störfum mínum fyrir þessa tvo menn sem veldur því að ég er ósamkvæmur sjálfum mér? Nákvæmlega ekki neitt. Og þegar þú ert búinn að átta þig á því, Gísli, þá skaltu hugsa það alvarlega hvort að ég eigi ekki rétt á afsökunarbeiðni frá þér.

   Kær kveðja,

   Villi

   E.s. Ég mun glaður fyrirgefa þér því öll gerum við mistök á lífsleiðinni.

 7. Vissulega var þetta röng staðhæfing og hefur þetta þegar verið leiðrétt og þeirri leiðréttingu komið á framfæri eins og sjá má, bæði hér og annars staðar þar sem þetta hefur verið til umfjöllunar. Rétt skal vera rétt og ég bið þig afsökunar á þessu, enda var aldrei tilgangurinn að vega að þér persónulega.
  Eftir stendur samanburður minn á þessum tveimur málum þar sem ég hef þegar tínt allt til sem mér þykir líkt og er enn þess sinnis að þau eigi ákveðna þætti sameiginlega en ólíkt hafi verið brugðist við af hálfu lögmanna.
  En ég ítreka afsökunarbeiðni mína með heilum hug. Bestu kveðjur. Gísli Ásgeirsson

  • Takk fyrir það Gísli, en nú eru aðrir fjölmiðlar farnir að vitna í greinina og birta tilvísanir í þig að ég sé ósamkvæmur sjálfum mér eða hafi gerst sekur um tvískinnung eins og það er orðað í DV. Þú ert sjálfur búinn að viðurkenna og biðjast afsökunar á þeirri rangfærslu að ég hafi verið verjandi Egils. Samhliða ertu búinn að fjarlægja úr greininni fullyrðingar þess efnis að ég haft haft umrædd trúnaðargögn undir höndum og hafi jafnvel aðstoðað Egil við skrifin og birtinguna. Það eina sem stendur eftir er því órökstudd fullyrðing þess efnis að ég sé ósamkvæmur sjálfum mér. Í hverju er sú ósamkvæmi fólgin nú þegar þú ert búinn viðurkenna rangfærslur þínar og biðjast afsökunar á þeim? Hjálpaðu mér að skilja Gísli hvað ég gerði rangt og ég mun þá reyna að bæta fyrir það. Kær kveðja, Villi

 8. Í greininni er vitnað í þrjá nafngreinda lögmenn. Þig, BN og SAS. Til að gera ekki upp á milli ykkar skal nú skerpt á niðurlaginu að þið hefðuð átt að bregðast eins við í báðum tilfellum. Ekki bara þú. Sú leiðrétting verður færð til bókar hér að ofan. Leiðréttingu hefur einnig verið komið á framfæri við DV, bæði bréflega og í athugasemd. Ekki verður linnt fyrr en lagfært hefur verið það sem úrskeiðis fór.

  Ég geri mér grein fyrir að þér stendur þetta tiltekna mál lögreglumannsins næst, enda verjandi hans en BN og SAS eru kallaðir til sem álitsgjafar. Nú horfir þetta þannig við mér sem leikmanni og áhugamanni um málameðferð almennt að með þessum málum eru næg líkindi til að kalla á álíka viðbrögð. Það tel ég mig hafa rökstutt nægilega og tínt til dæmi. Ég hafði fyrir því að leita mér upplýsinga um reglur um meðferð gagna að lokinni málsmeðferð. http://www.rikissaksoknari.is/media/arsskyrslur/RS-1-2013-Adgangur-ad-gognum-sakamala-sem-er-lokid.pdf. Ég hafði einnig samband við persónuvernd. Ekki voru allir sammála um hvernig túlka bæri reglurnar.

  • Takk fyrir það Gísli. Í fyrsta lagi tel að ég málin sem um ræðir séu gjörólík og því ekki samanburðarhæf. Í öðru lagi var ég (og er) á þeim tíma sem Egill birti greinina á Pressuni lögmaður hans í öðrum málum, en tveimur þeirra hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þegar af þeirri ástæðu var mér og er enn algjörlega fyrirmunað að tjá mig með nokkrum hætti um umrædda birtingu á Pressunni. Með því væri ég að brjóta lög og siðareglur lögmanna. Mér finnst því virkilega ósanngjarnt að þú skulr halda því fram að með þessu sé ég ósamkvæmur sjálfum mér. En það verður þú að eiga við þig.

   • Ég geng út frá því að þú hafir verið lögmaður hans í málum sem spruttu af téðu nauðgunarmáli sem aldrei fór fyrir dóm. Þessi mál eru þá óútkljáð á þeim vettvangi, ólíkt máli lögreglumannsins sem þú tjáir þig um. Þetta er allt að skýrast fyrir mér, lítt löglærðum manninum. Ég ætla því ekki að spyrja þig hvort þér hafi verið kunnugt um þá ætlun skjólstæðings þíns að birta málsgögn (búta úr þeim) á opinberum vettvangi, væntanlega í þeim tilgangi að hafa áhrif á almenningsálit, og því síður ætla ég þér að hafa verið þar með í ráðum, þótt vissulega séu öll þessi mál EE spyrt saman.
    Eftir stendur ósvöruð spurning, sem er ekki endilega beint til þín af ástæðum sem þú tiltekur sjálfur, en ég varpa henni engu að síður hér fram:
    „Má almennt birta gögn í máli sem ekki hefur verið kært í eða er útkljáð fyrir dómi með einhverjum hætti?“

 9. Að þessu sögðu væri ekki úr vegi að spyrja þig, Vilhjálmur, þar sem mér sýnist að við séum ekki sammála um þetta. Í pressugreininni margumtöluðu eru birtir bútar úr lögregluskýrslum og vitnisburðum og ljósmynd af meintum brotaþola. Þetta eru gögn í máli sem fór ekki fyrir dóm. Er svona meðferð á gögnum lögleg og ekkert við birtingu þeirra að athuga?

  • Sæll Gísli

   Eins og áður hefur komið fram þá mun ég ekki tjá mig frekar um mál Egils Einarssonar.

   Ég skal hins vegar reyna að svara spurningunni almennt. Spurningunni er ekki hægt að svara já eða nei enda þarf að skoða aðstæður og atvik hverju sinni og skiptir þá mesu hvaða upplýsingar og gögn voru birt.

   Að mínu mati vantar ákvæði í íslenskan rétt sem leggur beint bann við birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga sem er að finna í gögnum sakamáls. Það er ekkert ákvæði í lögum um meðferð sakamála eða í almennum hegningarlögum sem tekur á þessu berum orðum. Í lögum um meðferð sakamála er hins vegar lagt bann við því að viðlagri refsingu að skýra opinberlega frá því sem fram fer í lokuðu þinghaldi.

   Eina ákvæðið í almennum hegningarlögum sem hugsanlega er hægt að byggja á þessum efnum er 229. gr. þar sem það varðar refsingu að skýra opinberlega frá einkamálefnum manns sem leynt eiga að fara. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að samkvæmt 3. mgr. 242. nýtur sá sem vill leita réttar síns á grundvelli ákvæðsins ekki atbeina handhafa opinbers valds við að ná fram rétti sínu og þarf því að höfða einkarefsimál með tilheyrandi sönnunarvandamálum og fjárútlátum, þ.e. mál á grundvelli 229. gr. sæta ekki opinberri rannsókn og saksókn.

   Fyrir utan þá ósanngirni sem í þessu felst þá er nánast ómögulegt fyrir þann sem fyrir þessu verður að ná fram rétti sínum ef gögnin eru birt nafnlaust eða með tilbúinni undirskrift þar sem slíkt mál sætir ekki lögreglurannsókn. Hvernig á þá brotaþoli í slíku máli að sanna hver var að verkI?

   Sambærilegar reglur gilda um ærumeiðandi ummæli skv. 234-236. gr. Þar er hins sá fyrirvari gerður í c. lið 2. mgr. 242. gr. alm. hgl. að ef ummælin er sett fram nafnlaust eða með rangri eða tilbúinni undirskrift þá sætir málið opinberri rannsókn og saksókn. Að mínu mati þarf að breyta almennum hegningarlögum þannig að 229. gr. falli einnig undir c. lið 2. mgr. 242. gr., þ.e. að ef brotið er gegn 229. gr. og ekki liggur fyrir hver framdi brotið þá sæti brotið opinberri rannsókn og saksókn. Því til viðbótar tel ég að það eigi að breyta lögum um meðferð sakamála þannig að inn í lögin komi lagagrein sem leggur bann að viðlagðri refsingu við birtingu og dreifingu gagna sakamáls sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar ef birtingin er í ólögmætum tilgangi og að rannsókn og saksókn slíkra mála sé í höndum lögreglu/ríkissaksóknara.

   Í ákveðnum tilvikum þá tel ég jafnframt að lög nr. 77/2000 um persónuvernd o.fl. geti verndað hagsmuni brotaþola í slíkum málum. Brot gegn ákvæðum laganna sæta opinberri rannsókn og saksókn og er kæra í máli lögreglumannsins grundvölluð á þeim lögum. Það veltur þó algjörlega á atvikum hverju sinni og hvaða upplýsingar voru birt og hvar þær voru birtar hvort að brot falli undir lög nr. 77/2000. Því þarf að breyta lögum um meðferð sakamála og almennum hegningarlögum með þeim hætti sem framan greinir.

   Kær kveðja,

   Villi

   • Sæll, Vilhjálmur, og þakka þér fyrir greinargott svar sem tekur mig væntanlega daginn að melta, en ég er öngvu að síður stórum fróðari og vona að svo sé um fleiri, þótt að ákveðnu leyti hafi ég riðið of geyst úr hlaði í þessum skrifum eins og þegar hefur fram komið. Eftir standa málefnaleg skoðanaskipti okkar sem eru ánægjuefni.
    En nú er veður vænlegt til útivistar og best að nota það.
    Bestu kveðjur
    Gísli

 10. Athyglisverðar umræður. Þarna nefnir Vilhjálmur eitt atriði sem snýr að 229. gr hegningarlaga. En það sem mig langar að vita , hvort sú grein sé tæk varðandi svona mál og hvort það sé einkamálefni manna að þeir hafi fengið á sig kæru. Ég er ekki viss um að svo sé.

  • Sæll Helgi, ég tel að í flestum tilvikum sé það einkamálefni manna, en þar má meðal annars hafa í huga ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd o.fl. og skilgreiningu laganna á viðkvæmum persónuupplýsingum. Það geta auðvitað verið undantekningar þar á s.s. v. starfa viðkomandi eða sökum þess að um svokallaðar opinberar persónur er að ræða. Ef að þú ert með hugann við málefni umbjóðanda míns, lögreglumannsins, þá gengur birtingin á málsgögnum sakamálsins miklu lengra en hann þarf að þola. Þar kemur meðal annars fram nafn hans og heimilisfang, kennitala, nafn fyrrverandi sambýliskonu hans, nöfn á vinum, nafn og heimilisfangi á sumarhúsi í eigu fjölskyldu hans ásamt myndum af húsinu og teikningum að innan og utan svo eitthvað sé nefnt. Brotið gagnvart umbjóðanda mínum (lögreglumanninum) varðar því klárlega við 229. gr. alm. hgl. auk þess að varða við 2.,, 7.8.,9. og 10. gr. laga um persónuvernd. Vona að þetta svari spurningunni. Kær kveðja, Villi

 11. Takk fyrir svarið Vilhjálmur.

  Er ekki hægt að hafa samband við aðstandendur vefsíðunnar og biðja þá um að taka öll nöfn út. Það gæti jafnvel skilað meiri fókus á sjálf atriði málsins?

 12. Sjálfsagt. Það er lítið hægt að ræða við aðstandendur vefsvæðisins. Þeir eru í krossferð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.