Öfgar femínismans

Höf.: Ármann Jakobsson

Greinin birtist upphaflega á Smugunni 12. mars 2013 og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Öfgar eða aktívismi?

Öðru hverju hitti ég fólk af ýmsu tagi sem vill ræða öfgar femínismans. Smám saman hef ég þróað staðlað svar sem er á þessa leið: Ég sé engar öfgar, aðeins konur sem eru að ræða í mestu spekt á netinu um leiðir til betra lífs fyrir konur og samfélagið yfirleitt. Ég kallaði það öfgar ef þær æddu um götur Reykjavíkur og hengdu karlpunga í eigin innyflum í næsta ljósastaur. Mér finnst aftur á móti ekki sjálfsagt að kalla það öfgar þó að fólk hafi skoðanir hvort sem ég er sammála þeim eða ekki.

En hvað meinar fólk þegar það notar orðið öfgar? Eitt af því sem manni dettur í hug (og gerir kleift að svara eins og ég gerði hér að ofan) er ofsafenginn málflutningur – og vitaskuld má búast við því að allar stefnur eigi sér einhverja málsvara sem segja öðru hvoru eitthvað misráðið. Þá eru það ekki skoðanirnar sem eru öfgar heldur hegðun þess sem heldur þeim fram. Sagnfræðingurinn A.J.P. Taylor lét eitthvert sinn hafa eftir sér hann hefði ævinlega hafa haft öfgaskoðanir en þó veiklulega. Þetta þótti mér frekar sjarmerandi því að ég er eins.

islenskirobertson

Það er sko ekkert öfgafullt við þessi ummæli … haaaaa.

Annað sem fólk á við þegar það notar orðið – og eflaust ekki síður – er að fyrir því er til ímynduð miðja þar sem hógværar, friðsamlegar og öfgalausar skoðanir eiga heima, kannski ætti hér líka við málefnalegar sem var tískuorð fyrir áratug eða svo. Öfgar eru þá utan þessarar ímynduðu miðju. Stundum er það sett í miðjuna sem mikið hefur verið fjallað um og allt utan þess eru þá öfgar, semsé allar nýjar og óvenjulegar skoðanir. Fyrir nokkrum árum sameinaðist þorri Íslendinga um að það væru öfgar að vera andvígur sérstökum stráka- og stelpulitum á fæðingardeildinni. Sjálfur sá ég aldrei hvernig það væru meiri öfgar að vilja ekki flokka nýfædd börn í stráka og stelpur með litum, fremur en að vilja flokka nýfædd börn í stráka og stelpur á þann hátt. Ég hefði frekar lýst þessu þannig að hér væru tvær skoðanir á ferð: litaflokkun og engin litaflokkun. En sjálfsagt fólust öfgarnar í því að vilja breyta því sem áður hafði tíðkast og lítið hafði verið rætt um að breyta og þeir sem voru ánægðir með töldu almenna samstöðu ríkja um. Öfgar eru það þá það sem rýfur ímyndaða samstöðu þjóðarinnar.

Öfgafull skoðun?Önnur algeng notkun á orðinu er: skoðanir sem viðkomandi er sjálfur verulega ósammála. Hver maður er auðvitað miðja síns heims og öllum hættir þar af leiðandi til að setja eigin skoðanir í miðjuna þó að væntanlega fari það eitthvað eftir þekkingu á umheiminum; þannig verða líka margir (og þar á meðal ég) tiltölulega snemma varir við það að eigin sjónarmið eru ekki endilega ráðandi í samfélaginu. Og öll tökum við mið af samfélaginu, ekki aðeins sjálfum okkur. Það eru þá væntanlega frekar þeir sem seint eða aldrei verða varir við að þeirra sjónarmið séu ekki ríkjandi í samfélaginu sem nota helst orðið öfgar yfir sjónarmið annarra, nema það sé gert af ásettu ráði sem eins konar mælskubragð til að framandgera andstæðinginn. Þannig er hugsanlegt að þeir sem noti orðið öfgar yfir femínisma lifi í heimi þar sem það er eðlilegt að karlmaðurinn sé miðjan – við getum orðað það þannig að í þeim heimi sé það oftar en ekki karlmaður sem reynist vera hæfasti einstaklingurinn – og öll frávik frá þessu verða þá öfgar.

Ef svo vill til að sá sem nú les það sem ég var að skrifa sé eins og ég frekar lúinn á orðinu öfgar, þá mæli ég með því að spyrja næsta mann sem notar orðið hverja af þessum þremur skilgreiningum hann miði við eða ef til vill enn aðra því að ég ætla mér ekki þá dul að hafa skilgreint þessa orðanotkun endanlega (hver veit nema ég haldi áfram). Viðbrögðin yrðu þá annað hvort þau að sá sem notaði orðið væri mátaður – og af því má jafnan fyllast þórðargleði í allri kappræðu. Hinn möguleikinn væri sá að hann reyndist í góðu sambandi við eigin málnotkun og skilgreindi notkun sína afburða vel.

Hér gæti því skapast það sem á þeirri öld sem enska er orðin franska heimsins kallast win-win-sitúasjon. Jafnvel góð umræða – og það er ekki svo slæmt.

12 athugasemdir við “Öfgar femínismans

 1. „Ég sé engar öfgar, aðeins konur sem eru að ræða í mestu spekt á netinu um leiðir til betra lífs fyrir konur og samfélagið yfirleitt.“
  Eru karlkyns feministar ósýnilegir eða ekki til? Eða er höfundur kannski að meina að ef öfgafeministar væru til að þá væru þeir aldrei karlkyns?

  Svo er annað: Ef manneskja kallar sig feminista en vill yfirráð kvenna, þá er sú manneskja öfgafull (því hún vill ekki jafnrétti) og ekki feministi (því hún vill ekki jafnrétti), er það rétt hjá mér?

  • ,,Svo er annað: Ef manneskja kallar sig feminista en vill yfirráð kvenna, þá er sú manneskja öfgafull (því hún vill ekki jafnrétti) og ekki feministi (því hún vill ekki jafnrétti), er það rétt hjá mér?“

   Sú manneskja væri manneskjan einfaldlega ekki feministi. Nýnasisti getur sagst vera hlynntur fjölmenningarsamfélagi. Eitt er í orði, annað á borði.

   • Heiða: Það þýðir þá að fólkið sem er stimplað „öfgafeministi“ vegna þess að margt bendir til þess að sú manneskja vilji yfirráð kvenna ætti frekar að vera stimpluð „mæðraveldissinni“ eða eitthvað svipað sem tengir manneskjuna ekki við feminisma. Eða kannski bara ekki stimpluð því það býr bara til vesen?
    Ætti fólk kannski að sjá annað fólk fyrir það sem það er?

    Kári: Ekki mig heldur, það sem truflar mig hins vegar er að þessi setning segir að karlar geti ekki verið feministar, sem er að mínum skilningi ekki rétt. Eru einhver rök sem segja að karlar geti ekki verið feministar?

   • Þegar samhengið er lesið má sjá að þessi setning er staðlað svar sem ég nota þegar fólk talar um öfgafemínista við mig. Þegar það gerist í fyrsta sinn að einhver talar við mig um karlkynsöfgafeminista mun ég að sjálfsögðu laga setninguna og nota orðið „karlar“.

   • Eins og ég skil þetta er þetta staðlað svar þegar einhver talar um öfgafeminista, ekki er tekið fram að þetta sé notað þegar talað er sérstaklega um kvenkyns öfgafeminista heldur þegar talað er almennt um öfgafeminista. Því gæti staðlaða svarið verið betra að mínu mati ef það tæki tillit til feminista af báðum kynjum, þó auðvitað sé sjálfsagt að svara einungis um eitt kyn ef spurt er um eitt kyn.

 2. Það sem Pat Robertson segir er ekki öfgafullt. Það er andstyggilegt, fordómafullt og hættulegt. Það sem Valerie Solanas sagði er ekki öfgafullt. Það er andstyggilegt, fordómafullt og hættulegt. Þeirri manneskju er reyndar ákveðin vorkunn þar sem hún gekk ekki andlega heil til skógar en ég skil ekki það fólk sem kógar með því.

  Ég hef reyndar talsverða samúð með þeim sem hafa verið stimplaðar „öfgamanneskjur“. Þú þarft alltaf á róttæklingum að halda til að draga vagninn áfram. Miðjan, sem eru flestir, fylgir síðan á eftir. Gallinn er að hlutirnir hafa tendens til að lenda í blóðsúthellingum á endanum hjá þeim róttækustu, samanber frönsku og rússnesku byltinguna svo maður nafni aðeins tvö dæmi. Það er þó hjóm eitt miðað við það ofbeldi sem afturhaldsöflin leysa úr læðingi.

  Ef ég myndi vilja breyta einu þá væri það það að hætta að kalla fólk eins og Pat Robertson öfgamanneskjur. Hann er kristinn fasisti og ekkert annað.

 3. Einu sinni varð ég vitni að því að feminist gekk hart á 17 ára strák, og fullhart að mér fannst enda viðkomandi drengur ennþá barn samkvæmt lögum.
  ég tjáði á skoðun mína í ljós.

  Ég ætla ekki að nafngreina viðkomandi enda skiptir engu máli hver það var, en svarið sem ég fékk var kannski dæmi um það sem fólk kallar öfgar?
  „Takk, Tómas! Ég var einmitt að leita að 22 ára strák til að segja mér hvernig ég á að heyja kvennabaráttu. “

  Kannski er ég viðkvæmur en skipti nafn, aldur og kyn máli í þessu samhengi?
  Er það ekki brot gegn flestum gildum feministans að kyngera til að lítillækka náungann og upphefja sjálfa/n sig?
  Fyrir utan það að þá getur enginn karlkyns einstaklingur tekið þátt í baráttunni ef þetta er ríkjandi hugarfar.

  Annars lauk samskiptum mín við viðkomandi fljótlega enda stóð mér ekki illt til huga og ég ber viðringu fyrir þeim konum sem berjast fyrir auknum réttinindum kvenna.

  Ég styð baráttuna hiklaust en jú, öfgar leynast inná milli.

  • Hæ Tómas. Þér er undir öllum kringumstæðum óhætt að nafngreina mig þegar þú ert með beina orðrétta tilvitnun í mig sem þú vilt gagnrýna. En væri kannski málefnalegra að hafa allt samtalið inni? Til dæmis orðrétta beina tilvitnun í þig og nánari skýringar á öllu samhenginu?

 4. Sæl Hildur.

  Ég er bara því miður ekkert sérstaklega fyrir það að tala opinberlega á netinu, til þess eins að skíta hvort annað út.
  Síðustu samskipti okkar fóru, að mér fannst, ekkert sérstaklega vel.
  Ef þér finnst ég skulda þér útskýringu á þessu sem ég skrifa fyrir ofan skal ég senda þér póst og útskýra það en annars nei, vil ég ekki vera að skrifa meira um þetta hér.

  Þú sérð væntanlega emailið mitt, enda þarf ég að fylla þann reit út, þannig þér er guðvelkomið að bjalla og biðja mig um útskýringu.
  En þá myndi ég vilja að það væri bara á milli okkar. Þessvegna vildi ég helst sleppa við að nefna þig á nafn en hvað um það.

 5. “Takk, Tómas! Ég var einmitt að leita að 22 ára strák til að segja mér hvernig ég á að heyja kvennabaráttu. ”

  Skyldu svona orð vera höfð eftir konu sem hatar karla?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.