Á hverfanda hveli

Höfundur: Irene Manteufel

cirkustigre 2

Á hverfanda hveli. Þannig er komið fyrir svo mörgu af því sem fegurst er úr fortíðinni:

Hinum fágaða þokka nýlendutímans með þessum himneska heimsveldafíling, baðmullarökrum, sykurrófum og lúsiðnum þrælum.

Svo ekki sé minnst á ísbjarnarfeldinn fyrir framan arininn.

LauraEða öll indælu kvöldverðarboðin hjá borgarastéttinni, sem hún Laura annaðist samviskusamlega – Laura, sem stóð þjónustuvaktina ævina á enda, sjö daga vikunnar, enda var þetta svo gefandi vinna að hún vildi helst engin önnur laun [innsk. þýðanda: Laura er ráðskona hjá Varnæs-hjónunum í hinum þekktu dönsku sjónvarpsþáttum Matador].

Allir síreykjandi, úti á götu, heima í stofu, á kaffihúsunum, á ritstjórnum dagblaðanna og í flugvélinni á leið til Rio de Janeiro.

Og sirkustígrísdýrin – er ekki hræðilega dapurlegt að fá ekki lengur að sjá þessi hraustu, hugdjörfu dýr leika listir sínar okkur til skemmtunar?

Svo ekki sé nú talað um opinberar aftökur – það er nú alþýðuskemmtun í lagi, þá gat nú samfélagið fylkt liði og sameinast í sæluhrolli yfir iðradrættinum og langdregnum dauðateygjunum. Já, ég er að tala um öll þessi dásamlegu, dramatísku, heillandi og ekta fyrirbæri sem milljónir manna hafa notið og sem fylltu lífið lit og gleði frá örófi alda.
En ekki lengur.

cirkustigre 1Því nú hafa lýðheilsustefna og rannsóknir í læknisfræði, dýraverndarsinnar, stéttarfélög og nútíma lagasetning, lýðræði og Sameinuðu þjóðirnar og alls konar hundleiðinlegt dót í þeim stíl eyðilagt þetta allt fyrir okkur. Kveikt ljósin í vangadansinum miðjum, eyðilagt stemmninguna með staðreyndaþulum og tölfræðituði, komið inn hjá okkur samviskubiti og gert algerlega ósanngjarnar kröfur til okkar svo fyrr en varir verður hver dagur eins og óralöng strætóferð frá Eiðistorgi upp í Grafarholt á drungalegum rigningardegi í febrúarbyrjun.

Og nú á að taka af okkur gleðikonurnar líka. Þessar himnesku hórur, þessar glaðhlakkalegu gærur, þessar hressu hjákonur – hamingjusömu, lífsglöðu stúlkurnar sem alltaf brosa og gantast og eru til í ótal prakkarastrik.
Þessar konur eru grunnþörf hvers karls, þær eru ein af undirstöðum menningar okkar og sögu, þær hafa um aldir alda hresst upp á þjakaða sjómenn, endurglætt lífsneistann hjá þunglyndum, komið jafnvel verstu þursum í þrumustuð, huggað hrellda konunga og annast hundfúla hershöfðingja af móðurlegri umhyggju.

cirkustigre5Þessar dásemdarverur sem bjóða með opinn faðminn alla fegurstu eiginleika Lolítu, Florence Nightingale, móður Teresu og Maríu meyjar, alla í einum pakka hvenær sem maður er í stuði, með viðbættri auðmjúkri ambátt sem hlýðir bljúg herra sínum og fullnægir öllum hans þörfum. Þær eru virkar eða óvirkar, spilltar eða hressar eða hlédrægar – allt eftir því hvers húsbóndinn óskar sér, einmitt þennan daginn.

Það æðislegasta við þær er samt eiginlega það að þær hafa ALLTAF verið til staðar og að það að vera karlmaður sem getur fengið sér mellu hefur ALLTAF verið í boði. Það hafa verið réttindi, möguleiki, eðlilegur valkostur, jafnvel þótt það hafi svona yfirleitt verið sammælst um það í skárri kreðsum að halda því í felum undir næfurþunnri leyndarhulu, svona í nafni samfélags, skinhelgi og almennrar hræsni. Öll getum við samt sameinast um að engum karlmanni ætti að líða illa eða finnast hann neinn skíthæll eða neitt svoleiðis, bara fyrir það eitt að borga fyrir kynlíf í stað þess að vera með einhverri eða einhverjum sem langar líka til að vera með honum.

Öll vitum við, svo sem bókmenntasagan vitnar um allt frá elstu rúnaristum, að karlar vilja vændiskonur. Þótt nokkrir danskir konungar séu ómæðraðir vegna þess að nöfn mæðra þeirra voru aldrei gefin upp. Þær voru frillur. Þekktir rithöfundar, málarar og tónlistarmenn hafa aukið við orðspor sitt sem lífsnautnamenn og glaumgosar því þeir gátu leitað til mellu. Margir aðrir reyna það meira að segja enn og eru hylltir fyrir að vera frjálslyndir og litríkir, spennandi, karlmannlegir o.s.frv. Sumir eru jafnvel enn að nota þetta trikk.

cirkustigre4Þetta er allt í lagi, þetta má. Hafi maður fæðst karlkyns fylgja því þau eðlislægu forréttindi að mega fara til vændiskonu án þess að þurfa að skammast sín fyrir það eða teljast neitt verri manneskja fyrir vikið. Ef ekki væri fyrir örþunnt samfélagsgildalakkið þyrftirðu ekki einu sinni að fela það. Við vitum öll að samfélag okkar lítur ekki niður á vændiskúnna í raun og veru. Prófið sjálf ykkar persónulega blygðunarskala. Ekki þennan meðvitaða, þennan sem byggir á rökhugsun og staðreyndamati, heldur þennan eðlislæga, þennan samfélagslega, gildismatsvogina sem segir þér hvor telst vera stærri í okkar vestræna samfélagi: skömm skækjunnar eða skömm hórkarlsins. Hefur þú einhvern tíma heyrt einhvern kalla einhvern „mellukúnna“ honum til ávirðingar? Ekki það? Hvað með „mella“?

Tanja Rahm sagði að sér hefði ekki þótt gaman að vera vændiskona. Hvorki heilt yfir né stundum og heldur ekki með kúnnum sem voru þó háttvísir. Hún naut ekki þykjustuleiksins, samtalanna eða líkamlega þáttarins í samskiptunum. Og einhverra hluta vegna hlusta allir á hana. Mörg þúsund manns hafa auðvitað líka ráðist á hana með ruddalegu orðfæri í von um að þagga niður frásögn hennar. Það sama gerðist þegar önnur fyrrverandi vændiskona steig fram viku síðar. Helene Nørskov Strange sagði líka frá því í dagblaðinu Politiken að það væri að öllu leyti skaðvænlegt og lummó að vera mella og hún útskýrir líka af hverju maður sér það ekki á meðan maður er enn í vændi.

Lesendur Politiken ráku upp ramakvein. Löng röð af (karlkyns) lesendum brást við eins og maurar þegar priki er stungið í þúfuna. Þeir þutu skelfingu lostnir í allar áttir.

barniðmeðtárið

1) Einn hélt því fram að það væru aðallega mellurnar sem misnotuðu kúnnana – en ekki öfugt. Lesandinn rökstuddi mál sitt með rannsókn frá sjöunda áratugnum sem sýndi fram á að vændispiltar enduðu vændiskaup oft á ráni.

2) Annar furðaði sig á að margar konur væru andvígar vændiskaupum því hann taldi þær líta framhjá því að vændiskonur LOKKI kúnna til að þiggja þjónustuna sem þær veita.

3) Enn annar telur að af vændi spretti oft glæstur frami, eins og allir geta séð af tveimur frönskum klámstjörnum og einni ítalskri úr sama bransa.

4) Svo er auðvitað einn sem finnst að ef það verði bannað að kaupa vændi eigi líka að banna makaskiptaklúbba og einnarnæturgaman.

5) Og að það sé sturlun að lögreglan eigi að nota mannskap og græjur til að eltast við fólk sem langar að sofa hjá eins og hún eltist við „aðila í Kristjaníu.“

6) Auðvitað þarf líka að skjóta aðeins á andstæðingana og gera þeim upp lúalegan þankagang: Konur eru á móti, því „að hugsa sér ef „hann“ gæti nú leitað eitthvert annað.“

7) Og loksins eru þarna litlir grátandi strákar með stóra skeifu að kalla á MÖMMU: „Ég vona að aðrar konur í stéttinni komi fram með svör og pistla. Ég hef lesið skrif margra kvenna sem hafa allt önnur viðhorf til vændis heldur en þau sem koma fram hér. Það er til lítils að alhæfa út frá einu tilfelli.“ Sjálfbirgingslegur náungi vitnar bara í greinaröð Politiken um „hóruhúsið“ (sem var gagnrýnd fyrir að fegra ástandið): „… almennt hefur mér skilist að flestar stelpurnar séu ánægðar með þetta starf, því þær velja það sjálfar, og ennfremur höfum við oft rætt það þegar við höfum verið saman á vakt. Ég elska vinnuna mína, elska gestina mína …“ „… almennt eru flestir karlmenn sem heimsækja mig afskaplega indælir …“

Hættið nú alveg! Það skiptir fjandinn hafi það marga máli að mellukúnnar geti haldið áfram að vera löglegir. Og þá í merkingunni gríðarmiklu máli. Ofboðslega gríðarmiklu máli! Nógu miklu til að setja fram í örvæntingu fáránleg rök eins og þessi:

1) Mellunum er ENGIN vorkunn því þær eru vondar við kúnnana. Þess vegna er engin ástæða til að banna vændiskaup mellanna vegna.

2) Mellunum er ENGIN vorkunn því það eru þær sem ákveða að kúnnarnir eigi að kaupa vændi. Þess vegna er engin ástæða til að banna vændiskaup mellanna vegna og auk þess væri öllum þeim fjölmörgu kúnnum vorkunn sem geta ekki gert að því sjálfir að þeir neyðast til að runka sér í líkamsop annarra, gegn vilja sínum.

3) Mellunum er ENGIN vorkunn því flestar lifa þær í vellystingum praktuglega þegar þær hætta. Þess vegna stríðir það beinlínis gegn hagsmunum mellanna ef vændiskaup eru bönnuð, það liggur í augum uppi.

4) Við eigum alls ekki að tala um hvort mellunum sé vorkunn, því það er alveg ómögulegt að banna vændiskaup án þess að banna líka að fólk lifi kynlífi af fúsum og frjálsum vilja.

5) Og það er heimskulegt að eyða tíma lögreglunnar í að handtaka fólk sem sefur saman en það yrði að sjálfsögðu óhjákvæmilegt.

6) Það skiptir ekki máli hvort mellunum er vorkunn eða ekki. Og konurnar sem segja það gera það bara vegna þess að þær eru afbrýðisamar út í mellurnar því mennirnir þeirra hafa alltaf annan valkost á meðan það eru til mellur. Og þann valkost eiga karlmenn að hafa, ekki síst ef einhverjum kerlingum finnst annað.

7) Mellunum er ENGIN vorkunn. Þær hafa það þvert á móti FÍNT, ég hef sjálfur heyrt eina segja það. Eru ekki fleiri til í að segja það og hjálpa mér snöggvast? MAMMA!

blog-prost2-cirkustigreÞetta síðasta er þekktasta þrástefið í umræðunni. Við verðum að finna einhverjar mellur í alveg hvínandi hvelli til að segja okkur að þeim finnist þetta allt saman stórfínt, hið besta mál og algerlega til fyrirmyndar að öllu leyti. Ef við hefðum nú bara fundið fáeina þræla í Vestur-Indíum sem sögðu að þeim þætti vinnan, húsnæðið og fæðið alveg prýðilegt og að þeir væru ánægðir með að vera í eigu Danmerkur. Fáein sirkustígrisdýr sem sögðu að þau fengju ágætar steikur og hefðu verulega elskulegan temjara. Aðeins fleira þjónustufólk eins og Lauru, sem fannst blaður um stéttarfélög bara til þess fallið að setja grillur í kollinn á ungu stofustúlkunum. Og við höfum auðvitað öll heyrt um stórreykingafólk sem varð 100 ára og dó bara af því að það fékk þakstein í hausinn. En því miður – sá fugl er floginn. Á þessi fugl líka að hefja sig til flugs – eða eigum við að berjast með kjafti og klóm til að halda honum föstum og svífast einskis og beita t.d. hótunum, fólskulegum árásum og pappírsþunnum gagnrökum? Þó að til þess þurfi að sérhvert okkar þurfi að reiða fram froðufellandi örvæntingarfull aularök gegn banni – til að mynda að vondu mellurnar dragi veslings saklausu kúnnana á tálar. (Slík tálkvendi höfum við vissulega þekkt alveg frá miðöldum. Þau voru strax á þeim tímum orðin svo yfirgangssöm að menn voru satt að segja tilneyddir að kynda aðeins undir þeim.)

Að sinni vísa stjórnmálamenn veginn með því að beita árangursríkasta vopninu til að kyrrsetja varasama fugla: Algjörri og fullkominni þögn – áberandi skorti á viðbrögðum sem í þessu tilviki kemur út eins og virk athöfn sem hlýtur eiginlega að krefjast allnokkurrar orku. Ekki síst vegna þess að umræðan er á fullri ferð í Noregi, þar sem stjórnmálamenn taka afstöðu til vandamálanna af miklum áhuga – og hlusta meira að segja á og ræða við hina dönsku Tönju Rahm, sem hefur fram að þessu ekki fengið eina einustu fyrirspurn frá stjórnmálamanni, hvað þá umræðu. Nei, í Danmörku viljum við ekki hætta þeirri veislu sem það er að karlmenn geti keypt sér mellu. Við viljum ALLS EKKI heyra neitt sem gæti vakið hjá okkur grun um að við sem samfélag ættum að taka annan pól í hæðina. Við verjum krampakennt það sem er mikilvægt, skemmtilegt, nauðsynlegt, sjálfsmyndarskapandi, betra en bæði sirkustígrisdýr, sígarettur, ódýrt þjónustufólk, sunnudagsblóðbað á markaðstorginu og flottar nýlendur með ókeypis sykur – samanlagt.

 

Íslensk þýðing: Halla Sverrisdóttir og Líf Magneudóttir. Greinin birtist fyrst hér og er þýdd og birt á Knúzinu með góðfúslegu leyfi höfundar.

4 athugasemdir við “Á hverfanda hveli

 1. Nokkuð fyndin grein sem er óvenjulegt hér á knuzinu sem og víðast hvar annars staðar. Þó þykir mér það nokkuð gróft að bera saman reykingar við þrælahald, opinberar aftökur og vændi.

  En svo öllu gríni sé sleppt. Vændi hefur verið til frá örófi alda. Öll boð og bönn hafa einungis áorkað því að hrekja það ofan í jörðina þar sem það heldur áfram að grassera, algjörlega eftirlitslaust, með mýmörgum dæmum af ótrúlega grófri andlegri og líkamlegri misnotkun.

  Besta lausnin væri vísast sú að bæði kynin myndu þróast yfir í þá átt að missa algjörlega kynhvötina og kynfærin. Þangað til það gerist þarf að finna praktískar lausnir á vændi, án allrar pólitískrar rétthugsunar og rétttrúnaðar.

  Ég get ímyndað mér kringumstæður þar sem manneskja væri þannig líkamlega eða andlega á sig komin að hann/hún gæti ekki fullnægt sínum líkamlegu þörfum öðruvísi heldur en gegn gjaldi. Ætti að neita þeim aðila um það? Hugsanlega.

  Dirfist maður að gæla við þá tilhugsun að lögleiða eða dekriminalísera vændi? Er það ekki bannfærandi hlutur einu sinni að hugsa um, hvað þá hugsa um upphátt? Vændi fer fram, hvort sem það er bannað eða ekki. Hugsanlega er betra að það sé hægt að hafa eftirlit með starfseminni, vændiskonur/karlar gætu stofnað með sér hagsmunasamtök/verkalýðsfélög o.s.frv. til að koma í veg fyrir verstu hlutina, t.d. mansal.

  Mansal er nútíma þrælahald og ekkert annað. Ég hefði ekkert á móti því að allir þrælahaldarar yrðu aflífaðir á staðnum, hvar sem til þeirra næst.

  Ég held við verðum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort á köldum praktískum nótum það væri betra að dekriminalísera vændi. Það er til lítils að klappa sér á bakið fyrir að vera kórrétt pólitískt rétthugsandi ef það hjálpar engum.

 2. Læk á Sveinbjörn hér fyrir ofan.

  En rökin sem greinaskrifandinn sneiðir algjörlega frá, og eru þau einu, sem að mínu mati réttlætir vændi eru: Hvers vegna að banna upplýst samkomulag tveggja fullorðinna einstaklinga sem ganga fúsir til leiks, um viðskipti sem skaða ekki 3. aðila?

  Stundum þurfa menn hefja sig yfir hvað þeim geðjast að og hvað þeim geðjast ekki að. Gylfa Ægissyni geðjast ekki að því að leðurhommar oti gervilimum framan í börn á almannafæri. Mér geðjast ekki að vændi. En hvorugur okkar Gylfa hefur rétt á því að troða eigin gildismati á aðra borgara með boðum og bönnum.

  Barátta sumra femínista gegn vændi er næstum alltaf barátta gegn einkennum en ekki orsökum. Orsakir mansals eru fátækt, spilling, veik löggæsla, vantrú á réttarkerfinu og þöggun.
  Orsakir vændis eru oft fátækt, veikt velferðarkerfi, fábreyttir atvinnumöguleikar og vilji viðkomandi þjónustuveitanda til hlutfallslega hárra tekna gegn hlutfallslega litlu vinnuframlagi m.v. aðra framfærslumöguleika, að teknu tilliti til gildismats viðkomandi.

  Ergo baráttan gegn meiriháttar nauðung (t.d. kynlífstengdu mansali) fer fram í opnu og upplýstu samfélagi þar sem fólk ber traust til yfirvalda og leitar til þeirra ef eitthvað misjafnt er á seyði (bann við vændi (glæpavæðging vændis) vinnur auðvitað þvert gegn slíku), og öflugri löggæslu (í ríka Vesturlandinu) og í upprunalandinu að viðbættu baráttu gegn fátækt og spillingu, t.d. með menntun kvenna.

  Baráttan gegn vændi snýst um að tryggja öllum ákveðna lágmarks framfærslumöguleika, með forvarnarstarfi gegn vímuefnum en á sama tíma með því að hætta stríðinu gegn fíkniefnum, þ.e. með því að gera vímuefnaneytendum kleyft að fjármagna neyzlu sína án þjófnaðar, rána og annarra glæpa eða vændis. Þá munu þeir einir setja eftir í greininni sem telja það ekki eftir sér að sinna starfinu (þrátt fyrir að geta lifað „mannsæmandi“ lífi án þess) vegna þess að þeir telja auka peninginn einfaldlega vera fyrirhafnarinnar virði.

  Og hver er ég að fordæma slíka ákvörðun?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.