Óður til píkunnar

Höfundur: Rut Guðnadóttir

píka

Nýlega var ég á afar skemmtilegum ljóðaupplestri á kaffihúsi með vinum og vandamönnum. Eitt verðandi skáld flutti smásögu byggða á reynslu sinni síðast þegar hún fór í sund. Þar hafði hún nefnilega verið spurð af saklausri, lítilli stelpu hvers vegna hún hefði eiginlega hár á píkunni. Og þegar henni var litið um almenningssturturnar tók hún eftir því að engar aðrar kynsystur hennar sportuðu skapahárum nema hún. Litla stelpan starði áfram á hana og að lokum náði hún að kreista út úr sér orðunum: Því það er kúl.

Og það er svo sannarlega kúl. Ég man eftir því hversu töff mér fannst ég vera þegar fyrsta hárið birtist á klofinu mínu, ég var alveg jafn glöð og þegar ég byrjaði á blæðingum í fyrsta sinn – „ÉG ER AÐ VERÐA KONA!“ hugsaði ég með mér. Ég var svo stolt af því að vera að fullorðnast og hafði meira að segja nöldrað yfir því að vera sein að byrja á túr miðað við aðrar vinkonur mínar. En gleði mín entist skammt. Eftir einn eða tvo mánuði var mér ljóst að túr var vesen, að fela túrtappa í skólatöskunni var vesen, að vera með krampa og segja leikfimikennaranum að nei maður gæti bara ekki hlaupið því Rósa frænka væri í heimsókn var vesen, sérstaklega ef leikfimikennarinn reyndist vera karlkyns. Mesta skömmin fólst samt í því að vera uppgötvuð á blæðingum án þess að hafa sagt neinum frá því. Jújú, það var frekar púkó að spurja aðra stelpu hvort hún væri nokkuð með dömubindi en það var dauðadómur ef einhver sá mann stelast í leynihólfið, eða ef maður missti tappann á gólfið á leiðinni á klósettið. Ég tala nú ekki um ef sást glitta í blett á milli lappanna á manni, aldrei fengi maður að gleyma því.

Hvað varðar brúskinn í brókunum var manni fljótt ljóst að eftir að hann hefði sprottið til marks um kvendóminn mikla varð að hafa hemil á honum. Það var óskrifuð regla að aldrei mátti sjást stakt hár gægjast út fyrir nærurnar, og ekki voru boxer-buxurnar í tísku hjá dömunum þá. En jafnvel það var ekki einu sinni nóg, einhvern veginn þegar leikfimitímabili 10. bekkjar var lokið og menntaskólaárin tóku við voru nýjar reglur settar. Og þær voru bara einfaldlega engin hár! Því augljóslega myndi enginn karlmaður nokkurn tíma dirfast til að sleikja skonsuna þína ef þar yxi einhver gróður.

píkuhárEins og hver önnur stúlka á mínum aldri velti ég þessu fram og aftur fyrir mér, gúglaði hinar og þessar leiðir til að fjarlægja illgresið í náranum og komst að mismunandi niðurstöðum. Rakstur er líklega minnsti sársaukinn, ef þú getur beitt hníf vel á einum viðkvæmasta stað líkamans. Vandamálið við það er hinsvegar rakstursbólur og aukin sýkingarhætta. Svo kom vaxið, minnstar aukaverkanir en djöfull er það sársaukafullt. 16 ára prófaði ég að vaxa mig sjálf því það var ekki séns að ég hefði efni á að láta einhvern fagmann rífa af mér fiðrið. Ég get ekki lýst því með orðum hversu vont það var eða hversu blá og marin ég varð. Samt gerði ég þetta, því ég vildi vera eðlileg og falleg og sexí og sæt og verðug kynmaka og fullorðin og hvaðanaffleira sem ég tróð í hausinn á mér til að sannfæra mig um að þessi sársauki væri þess virði. Það var ekki fyrr en ég prófaði háreyðingarkrem og endaði hjá kvensjúkdómalækninum með lyfseðil fyrir extra-næringarríku húðkremi, þar sem ég hafði nánast brennt af mér innri barmana, að ég fór að velta því almennilega fyrir mér hvort þetta vesen væri jú alveg þess virði. Hárið í klofum kvenna hefur líka tilgang, annars væri það nú ekki þarna. Og jafnvel þó það gerði það ekki, hvers vegna er það svona mikið mál? Þetta er bara hár. Konur eru allar með mismunandi hár á höfðinu á sér. Það kemur í mismunandi litum og lengdum, sumar stæla það og flétta, aðrar pæla ekkert í því. Enginn virðist vera að kippa sér upp við það. „Jesús, Jóna mín- þessar krullur eru bara ekki að gera sig, verður að snoða skallann sko“- yeah right. Hvers vegna þarf hárið í buxunum að vera eitthvað öðruvísi? Má fólk ekki bara hafa það eins og þeim hentar? Oft er þá hreytt í mann því svari að konur vilji jú bara víst vera snoðaðar að sunnan, en þá er gott að velta fyrir sér hvers vegna. Hárlaus píka er nefnilega eina útfærslan sem fólk hampar og hvetur áfram í þeim margmilljóna bransa sem felst í því að láta konum líða illa varðandi eigið útlit svo þær kaupi meira dót sem á að láta þeim líða vel þangað til sama fyrirtæki býr til nýja vöru. Og svo klámið. Ef mainstream klámstjörnur væru allar með mismunandi píkur og mismunandi greiðslur á þeim píkum væri þetta miklu minna mál. En hárlaus, innribarma-laus, ókrumpuð, krúttleg, fullkomin, PHOTOSHOPPUÐ píka er það eina sem má. Er það furða að konur séu að missa sig yfir því hvað kynfærin á þeim eru öðruvísi?

blóðMér finnst oft eins og fólk velti hlutunum fyrir sér á röngum forsendum. Hár á kynfærum er ekki vandamál. Tíðahringurinn er ekki vandamál. Viðhorf okkar gagnvart þeim er það hinsvegar. Hvers vegna er eitthvað fullkomlega náttúrlegt ljótt og tabú? Við förum öll á klósettið, það pissa allir og kúka. Það skammast sín samt enginn fyrir að kaupa klósettpappír í Bónus. Hvers vegna ætti eitthvað annað að varða túrtappa, eða álfabikara eða dömubindi bara vegna þess að einungins helmingur allra einstaklinga þarf á þeim að halda? Hvers vegna getur maður sagt vinkonum sínum frá eigin túrverkjum og fundið fyrir samúð þeirra en má svo ekki einu sinni minnast á þessa náttúrlegu staðreynd við vini sína sem deila ekki sömu kynfærum og maður sjálfur? Er þetta ekki soldið gamaldags?

Píkum blæðir. Þannig er það nú bara. Ekkert vesen. Punktur. Og ekki nóg með að það sé ekkert vesen heldur er það bara frábært líka. Tíðahringurinn er ein megin forsenda þess að við getum átt afkvæmi, og einnig megin forsenda þess að við vitum að við eigum ekki von á afkvæmi, hvort tveggja rosalega hentugt og alveg svakalega kúl. Hár er æðislegt, hvort sem þú ákveður að láta það vaxa, taka það allt af, lita það, flétta, snyrta, klippa eða hvaðeina sem þér dettur í hug að gera við það, þetta er þitt hár. Svo plís, hættið að segja konum hvernig þær eiga að haga sér varðandi náttúrleg fyrirbæri sem þær fæðast með. Píkurnar okkar eru æðislegar, þær gera svo margt gott fyrir okkur, við ættum að koma betur fram við þær.

12 athugasemdir við “Óður til píkunnar

 1. Einu skiptin sem ég sé fólk blammera píkur annarra kvenna er þegar þær kjósa að raka þær. Og það er oftast gert í greinum þar sem kvartað er yfir því að verið sé að blammera loðnar píkur. Í alvöru talað, mega konur ekki bara hafa píkurnar á sér eins og þeim finnst best, án þess að vera kallaðar fórnalömb klámvæðingar, píkuníðingar eða subbur? Eru það ekki svona alhæfingar gagnvart konum og staðalmyndir sem við viljum útrýma? Á þetta ekki að vera frelsi til að vera með loðna píku EÐA rakaða?

  • Mér sýnist nú þurfa einbeittan vilja til að lesa eitthvað af þessu sem þú kvartar yfir, út úr þessari frekar persónulegu hugleiðingu.

  • Það er mjög skýrt að ekki er verið að blammera rakaðar píkur í þessari grein. Það er einmitt verið að hvetja til fjölbreytni og frelsis.

 2. Frábært að ung kona skuli stíga fram á ritvöllinn og segja skoðun sína. Píkur eru flottar og vel búnar til, það á ekki að breyta þeim. Lífærin hafa tilgang, eins og til dæmis innri skapabarmarnir koma í veg fyrir að þvagið frussist út um allt þegar konan pissar. Skapabarmar eru fallegir og eru eins og blóm sem opnast þegar barn fæðist. Aðgerðir á píkum eru bara skaðlegar og flokkast ekki sem læknisfræðilegar aðgerðir heldur sem fegrunaraðgerðir. Síðan er spurningin, hver metur hvað er fallegt og ekki fallegt. Engin píka er eins, ekki frekar en nef! Í klámiðnaðinum eru allar píkur eins, en er það píkan sem konur vilja hafa eða er það lýtalæknirinn sem hefur þá skoðun að píkur eigi allar að líta eins út. Það gefur vel af sér að gera píkuaðgerðir. Takk Rut Guðnadóttir að opna þessa umræðu.
  e.s. Píka er fallegt orð sem þýðir stúlka. Öll önnur orð eins og pjalla, budda, skömm og fleiri orð sem hafa verið notuð yfir þetta dásamlega líffæri eru orðskrípi.

 3. Skemmtilega og fallega skrifuð hugleiðsla, sem mér finnst eiga erindi til allra kvenna.
  Hún snerti við mér með frásögninni um uppgötvunina á fyrstu staðfestingum á kynþroska, einhverju sem líklega lifir lengi í minningu hverrar ungrar stúlku – þegar hún kemst fyrst í snertingu við konuna sem hún verður.
  Sú staðreynd að margar konur eyða ómældum tíma í að afmá og/eða fela þessi sérkenni, s.s. skapahár, tíðablæðingar, finnst mér sorglegri en orð fá lýst. Alltaf finnst mér jafn undarlegt að sjá fullvaxta konur með hárlausa, og jafnvel tilskorna, píku. Þá fyrst er ekki laust við að ég fari hjá mér.
  Afhverju finnst konum að píkan á þeim þurfi að líta út eins og á ókynþroska stelpu? Er það vegna þess að þeim finnst það „kúl“ eða að einhverjum öðrum finnst það?
  Ef þetta er einungis tískubóla, hvaða frelsi felst í þvi að reyta af sér skapahárin? …láta skera af sér innri barma? Ekki verður píkan kvenlegri við það, nema síður sé.
  En, spyr sá sem ekki veit. Ekki veit ég svarið og áfellist heldur ekki konur sem freistast til að reyna að vera „kúl“. Mér er þó spurn, hvaða hvöt liggi hér að baki.
  Er ekki einfaldlega mest „kúl“ af öllu að þora að vera hún sjálf – eins og hún er sköpuð??
  Þar liggur líklegast mesta fjölbreytnin eða sérstaðan – ef það hún sem falast er eftir.

 4. ég brosi þegar ég sé stelpu í bónus með dömubindipakka og fullan nammipoka að snúa sér við til ná sér í eitt súkkulaðistykki í viðbót 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.