Mishátt verð á börnum – um niðurgreiðslu staðgöngumæðrunar

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

 

barcodeStaðgöngumæðrun hefur enn á ný verið í umræðunni þessa vikuna, nú vegna munnlegrar skýrslu um efnið sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti á þingfundi síðastliðinn miðvikudag. Það var ýmislegt markvert sem kom fram í þessari ræðu. Til að mynda bendir ráðherra þar á að með lagasetningunni yrði „Ísland fyrst Norðurlanda til að stíga það skref að móta lagaumgjörð um staðgöngumæðrun sem almennan valkost barnlausra til að eignast börn“. Hugtakið „almennur valkostur“ í þessu sambandi hlýtur að skjóta skökku við þá meginhugmynd lagasetningarinnar að eingöngu sé um staðgöngumæðrun sem velgjörð að ræða. Þá segir hann: „Þá var einnig kveðið á um að það skyldi verða skilyrði aðgengis að staðgöngumæðrun að læknisfræðilegar ástæður hindruðu móður í að eignast barn“. Þetta er sú mynd sem dregin er síendurtekið upp í ræðu ráðherra (og raunar umfjöllunum fleiri meðmælenda þingmanna, t.d. Jóhönnu Kristínar Björnsdóttur), þ.e. sú mynd að úrræðið sé ætlað gagnkynhneigðum pörum þar sem konan getur ekki gengið með barnið sjálf. Hvað með homma og ófrjóar lesbíur? Og hvað með einstaklinga? Jafnvel þó ráðherra árétti það í svari sínu við fyrirspurnum að „væntanlegir foreldrar geti verið hvers konar sambúðarfólk sem ekki geti af líffræðilegum orsökum átt barn“ og nefni það líka að verið sé að skoða hvort úrræðið eigi einnig að vera opið einstaklingum, hlýtur það að vera umhugsunarvert ef slíkt gagnkynhneigt forræði er ríkjandi hjá þeim sem ákvarðanavaldið hafa í þessu alvarlega máli. Það vekur líka upp spurningar um það hvaða aðrar hugmyndafræðilegar skekkjur eru þar fyrir hendi.

Þótt hugmyndafræðin sem býr að baki lögleiðingu staðgöngumæðrunar og orðræðugreining á umfjöllun þingheims um efnið væru hvort tveggja ærið efni í pistil og jafnvel pistlaflokk, ætla ég að láta það liggja hér á milli hluta en bendi áhugasömum á frábæra pistla hér á Knúzinu (t.d. eftir Kára Emil Helgason og Elínu Pjetursdóttur). Í ræðu ráðherra kom nefnilega nokkuð fram sem ég álít stórfrétt:

Sú stefnubreyting sem Alþingi ályktaði um 18. janúar 2012 er að íslensk lög mæli fyrir um að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skuli heimil hér á landi. Í þessu felst að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er bönnuð en innan ramma velgjörðar sé hún hluti af íslenskri heilbrigðisþjónustu. Kostnaði við hana verði mætt af hinu opinbera og framkvæmd af heilbrigðisstofnunum sem hafi til þess leyfi. (undirstrikun er greinarhöf.)

Látum það liggja milli hluta hvaða „hluti af íslenskri heilbrigðisþjónustu“ rímar vel við „staðgöngumæðrun sem almennan valkost“ og hvaða hugmyndafræðilegu afleiðingar það hefur í för með sér að setja staðgöngumæðrun svona í flokk með almennri heilsugæslu og tannlækningum. Andstætt tannlækningum á hins vegar hið opinbera að greiða kostnaðinn við staðgöngumæðrun. Og það er stórfrétt, en hvað þýðir það? Því miður skýrði ráðherra þetta ekki nánar, þ.e. hvorki að hve miklu leyti hann sér fyrir sér að ríkið greiði kostnað við staðgöngumæðrun né var hugtakið „kostnaður við staðgöngumæðrun“ skilgreint. Enda mjög flókið mál. Í ljósi þess að nú þegar er mæðravernd veitt verðandi mæðrum gjaldfrjálst má gefa sér að hér sé ekki átt við hana, og þar sem kostnaði og framkvæmd er skellt saman í tilvitnuninni hér á undan má gera ráð fyrir að ráðherra sjái fyrir sér að tæknifrjóvgunin sjálf (framkvæmdin) sé greidd. Það gerir málið þó ekki mikið ljósara. Átti ráðherra bara við sjálfa  tæknifrjóvgunina og meðferðir í kringum það eða átti hann líka við mögulegt vinnutap staðgöngumóðurinnar? Hvað með það ef staðgöngumóðirin verður fyrir líkamlegum eða sálrænum skaða í meðgöngunni eða í fæðingunni –  á ríkið að greiða fyrir það líka?  Og hver eru tímamörkin á því? Er ríkið bótaskylt ef staðgöngumóðirin kemst til dæmis að því tveimur árum síðar að hún getur ekki átt fleiri börn vegna umræddrar meðgöngu? En eftir fimm ár? Tíu? Tuttugu?

Þetta eru allt spurningar sem nefnd um staðgöngumæðrun þarf að svara fyrir umrætt lagafrumvarp. Eftir stendur að í ræðu sinni lofaði ráðherra að kostnaður vegna staðgöngumæðrunar yrði greiddur af ríkinu. En hvað með þá sem nota önnur úrræði, svo sem tæknifrjóvgun eða ættleiðingu? Er verið að gæta jafnræðis hér? Til að svara því þarf fyrst að skoða áætlaðan kostnað af þessum úrræðum og þátttöku ríkisins í því. Þó ber að setja þann fyrirvara að samanburðurinn er ekki að fullu réttmætur, því kostnaður við staðgöngumæðrun getur, eins og áður var nefnt, verið margs konar. Þá ber einnig að athuga að hér er einblínt á þátttöku hins opinbera í kostnaði en ekki fjallað um aðrar kostunarleiðir, til að mynda styrki stéttarfélaga. Sum stéttarfélög (t.d. BHM) greiða kostnað félagsmanna við tæknifrjóvgun að hluta auk þess sem dæmi eru um að stéttarfélög greiði styrki vegna ættleiðinga.

Ef við lítum fyrst á kostnaðinn sem af „framkvæmdahliðinni“ (tæknifrjóvguninni) hlýst og viðkomandi par eða einstaklingur, sem sjúkratryggð/ur er/u hér á landi, þyrfti að greiða en verður greiddur af ríkinu í tilfelli staðgöngumæðrunar þá þarf til að byrja með að gefa sér ákveðnar forsendur. Fyrir það fyrsta að ríkið myndi áfram skipta við Art Medica, sem er ráðandi á þessum markaði. Þá þarf að taka fram að væntanlega myndi ríkið 10058886-artificial-insemination-isolated-on-whiteekki greiða sama verð og einstaklingar þurfa nú að greiða fyrir þjónustuna. Það breytir því ekki að sparnaður viðkomandi fólks við það að reikningurinn yrði greiddur af ríkinu myndi samsvara því sem óbreyttir borgarar greiða og sjá má í verðskrá Art Medica. Nú tekst tæknifrjóvgun ekki endilega í fyrstu tilraun og svo getur þurft að gera fleiri en eina „uppsetningu“, þ.e. koma fósturvísi fyrir í leginu, því fóstrið festist ekki. En til að hafa þetta sem ódýrast skulum við gefa okkur að þetta gangi allt í fyrstu tilraun. Þá er kostnaðurinn hjá barnlausu pari, samkvæmt verðskrá og samkvæmt samtali við fyrirtækið:  376.055 kr. eða 449.660 kr. (fer eftir því hvort valin er glasafrjóvgun eða smásjárfrjóvgun) + 20.000 kr. (frysting fósturvísa)+ 92.000 kr. (uppsetning frystra fósturvísa) = 488.055 kr./561.660 kr. Ef farið væri í gjafaeggmeðferð myndu bætast 250.000 kr. við og  ef keypt væri gjafasæði af fyrirtækinu kæmu 37.500-50.000  kr. til viðbótar.  Jafnvel þó allt gangi upp í fyrstu tilraun kostar því tæknifrjóvgun að lágmarki um hálfa milljón, og um 800 þúsund ef notað er gjafaegg og gjafasæði.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð því ríkið tekur nú þegar að hluta þátt í kostnaðinum í ákveðnum tilfellum. Þau eru þessi:

a) Ef par er barnlaust og fyrsta meðferð (tæknifrjóvgunin sjálf) gengur ekki upp þá greiðir ríkið að hluta fyrir allt að þremur meðferðum. Verð á annarri til fjórðu meðferð er því  um 171.000 kr. (glasafrjóvgun) og um 204.000 kr. (smásjárfrjóvgun).  Ekki er niðurgreiðsla á annarri þjónustu (svo sem uppsetningu, geymslu fósturvísa o.þ.h.) og ríkið tekur ekki þátt í kostnaði hjá pörum sem eiga barn eða börn fyrir.

b) Hægt er að sækja um skattaafslátt vegna tæknifrjóvgunar. Samkvæmt samtali við embætti Ríkisskattstjóra er þar þó ekki nein ákveðin upphæð sem sótt er um heldur er ívilnunin veitt eftir efni og aðstæðum umsækjenda.

c) Að lokum má nefna að fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins getur fengið ferðakostnað vegna tæknifrjóvgunar greiddan að hluta frá Tryggingastofnun.

 

Ættleiðing

Íslensk Ættleiðing er eina ættleiðingafélagið á Íslandi og fara því allar ættleiðingar erlendis þar í gegn. Samkvæmt  gjaldskrá félagsins greiða umsækjendur samtals 335.000 kr. til Íslenskrar Ættleiðingar  á tímabilinu en að auki er áætlaður kostnaður frá 1,8 milljón króna sé ættleitt frá Tékklandi upp í 3,4 milljónir króna sé ættleitt frá Kólumbíu. Samtals er því kostnaðurinn, lauslega áætlað, frá u.þ.b. 2,2 milljónum króna upp í 3,8 milljónir króna. Á móti geta foreldrar fengið ættleiðingarstyrk frá hinu opinbera, sem nú er að upphæð 590.871 kr.

 

Adoption-i-wasnt-expected-i-was-selected

 

Að framansögðu er því ljóst að í dag er langt frá því að þau úrræði sem því fólki sem vill en getur ekki eignast barn á vanalegan hátt standa til boða séu að fullu niðurgreidd af ríkinu. Nú myndi kannski einhver benda á að fólk sem mögulega myndi hafa og nýta sér „aðgengi að staðgöngumæðrun“ væri væntanlega nú þegar búið að reyna allt hitt, og þar með að borga milljónir í kostnað nú þegar. Það gengur þó ekki alveg upp því skv. ummælum ráðherra á að gera svipaðar kröfur til foreldra í tilfelli staðgöngumæðrunar og gert er vegna ættleiðingar og því fengju gagnkynhneigðir paraðir umsækjendur um staðgöngumæðrun væntanlega allflestir ættleiðingarumsókn samþykkta. Samkynhneigðir eiga hins vegar enn því miður erfitt með að ættleiða svo sá möguleiki er eiginlega ekki í boði fyrir þann hóp. Þá eru tæknifrjóvganir augljóslega aðeins í boði fyrir lesbíur.  En hvað sem líður þeim kostnaði sem mögulegir umsækjendur gætu hafa greitt nú þegar í því augnamiði að eignast barn þá er ekkert sem bendir til þess að staðgöngumæðrun vegna velgjörðar eigi að vera seinasta úrræðið (last resort). Ekkert hefur komið fram um að gerð verði sú krafa að fólk hafi nú þegar reynt tæknifrjóvgun eða sent ákveðið margar ættleiðingarumsóknir. Að þessu gefnu, er þá sanngjarnt og hugmyndafræðilega verjandi að svo miklu muni á milli niðurgreiðslu úrræða að foreldrar greiði milljónir fyrir ættleiðingu en þurfi ekkert að greiða hafi þau „aðgengi að staðgöngumæðrun“?

 

 

 

 

 

 

 

8 athugasemdir við “Mishátt verð á börnum – um niðurgreiðslu staðgöngumæðrunar

 1. „Kostnaði við hana verði mætt af hinu opinbera.“ Þetta orðalag þarf ekki að þýða að hið opinbera muni beinlínis greiða koma inn sem kaupandi að þjónustunni hjá Art medica í staðinn fyrir einstaklinginn eða parið sem er að reyna að eignast barn, og mér finnst ólíklegt að svo verði.

  Mun rökréttara er að ríkið muni taka þátt í tæknifrjóvgunum staðgöngumæðra á nákvæmlega sama hátt og öðrum tæknifrjóvgunum, þ.e. niðurgreiða þær að einhverju leyti. Ef við skoðun þá sem þurfa gjafaegg eða gjafasæði, þá tekur ríkið þátt í tæknifrjóvguninni eftir hefðbundnum reglum, en fólkið greiðir sjálft fyrir gjafafrumurnar fullu verði án þess að ríkið niðurgreiði þann hluta meðferðarinnar. Það gjald bætist því ofan á tæknifrjóvgunargjaldið. Á sama hátt gæti þá gjald fyrir staðgöngumóður lagst ofan á gjaldið fyrir glasafrjóvgun.

  Skattalega séð hefur fólk getað fengið lækkaðan tekjuskattstofn fyrir kostnað við tæknifrjóvganir, ef farið er í meðferðina af læknisfræðilegum ástæðum. Það fellur undir ákvæði um mikinn læknis- og lyfjakostnað og þarf að sækja um sérstaklega þegar skattframtali er skilað inn. Þannig að ríkið kæmi væntanlega þar inn í líka, á sama hátt og fyrir þá sem fara í venjulega tæknisæðingu eða glasafrjóvgun.

  En ég er sammála því að það þarf að skoða mjög vel það sem snýr að staðgöngumóðurinni, ef af þessu verður. Hún þarf að vera vel tryggð af tryggingafélagi fyrir mögulegu líkamstjóni eða andláti á meðgöngu eða við fæðingu, og það þurfa að vera sálfræðitímar innifaldir og læknisskoðanir fyrir og eftir fæðingu. Ég get ekki ímyndað mér annað en þetta verði mjög dýrt úrræði, verði svona frumvarp samþykkt.

 2. Svo ég skýri þetta betur með skattafsláttinn, af því að ég hef fengið hann og gekk frekar hart fram í því að fá nánar útskýrt hvernig vinnureglurnar eru um hann, þá var það a.m.k. þannig að ef einstaklingur hafði eytt meira en 100 þúsund krónum samtals í læknis- og lyfjakostnað af hvaða tagi sem er, þá átti hann eða hún rétt á lækkun tekjuskattstofns sem nam þeirri upphæð sem var umfram 50 þúsund krónur. Sem sagt, ef einhver eyddi 150 þúsund samtals, var tekjustofninn lækkaður um 100 þúsund. Þarna hefur verið hægt að telja allt með, ekki bara kostnað við tæknifrjóvganir heldur alla aðra læknisþjónustu og lyf, að tannlæknaþjónustu undanskildri. Þessi viðmið hafa mögulega hækkað eitthvað örlítið í takt við verðbólgu.

 3. Takk Svala fyrir athugasemdina og þær fróðlegu viðbætur sem þar koma fram. Til að skýra betur hvers vegna ég túlka orð ráðherra sem svo að þátttaka ríkisins verði meiri í tilfelli staðgöngumæðrunar en gert er við tæknifrjóvgun í dag, þá er það í samhengi skýrslunnar þar sem gert er mikið úr muninum á staðgöngumæðrun sem velgjörð annars vegar og í hagnaðarskyni hins vegar. Ég túlka þetta í því samhengi, þar sem skiptir máli fyrir ferlið sem velgjörð að peningar skipti ekki um hendur.

 4. Takk sérstaklega fyrir þetta með skattaafsláttinn v. læknisfræðilegar ástæður. Ríkisskattstjóraembættið nefndi það ekkert og ég fann ekkert um það.

 5. Ekki málið. Ríkisskattstjóri vill af einhverjum ástæðum ekki að vinnureglurnar um lækkun á tekjuskattstofni vegna mikils læknis- og lyfjakostnaðar séu opinberar, sem mér finnst fáránlegt út frá sjónarmiðum um gegnsæi stjórnsýslunnar. En þessar reglur herjaði ég út úr starfsmanni Rsk á sínum tíma eftir mörg símtöl, og þær stóðust miðað við þær endurgreiðsur sem ég fékk.

  En ég skil ekki ennþá hvernig staðgöngumæðrun í velgjörð krefst þess að ríkið gerist beinn kaupandi að tæknifrjóvgunum. Það hlýtur að vera parið eða einstaklngurinn sem vill eignast barnið sem borgar þær, alveg eins og par eða einstaklingur sem vill fá gjafaegg eða sæði borgar Art medica beint. Varðandi það að peningar skipti ekki um hendur – er þá meiningin að staðgöngumóðirin fá ekkert óþægindagjald, eins og gefendur gjafaeggja fá? Það finnst mér fáránlegt, því að óþægindi staðgöngumóðurinnar eru mun meiri en þeirrar sem gefur gjafaegg.

  Viðbótargjaldið sem er fyrir gjafaegg hjá Art medica fer annars vegar til gjafans og hins vegar fer það í að greiða fyrir mat Art media á gjafanum, viðtal hjá ráðgjafa og þannig kostnað. Myndi ekki viðbótargjald fyrir staðgöngumæðrun virka alveg eins? Kannski þyrfti ég að lesa skýrsluna, en ég nenni því eiginlega ekki. 🙂

 6. Hæhæ,
  Vinnu nefndarinnar er enn ólokið og hjá ráðherra kom ekkert fram um óþægindagjald osfrv. og eins og kemur fram í greininni er „kostnaður við staðgöngumæðrun“ hvergi skilgreint. Ég get mér bara þess til að það að peningar fari beint frá verðandi (uppeldis) foreldrum til staðgöngumóður sé álitið „slippery slope“ hvað varðar hugsanlega markaðsvæðingu og misbeitingu vegna ójafnrar fjárhagslegrar stöðu svo notað sé orðalag ráðherra. Hann segir þetta ekki beint, en ég réð það af þessu samhengi. Bíð samt spennt eftir lagafrumvarpinu.

 7. Óþægindaálag fyrir eggjagjöf er 100.000 kr. held ég. Art Medica heefur milligöngu um þá greiðslu, enda er langoftast ekkert samband milli egggjafa og eggþega (nafnleynd, en samt þannig í >90% tilvikanna að barnið, ef barn fæðist, getur eftir vissan aldur fengið uppgefið nafn gjafans .)

  Svona gjöf fylgja vissulega óþægindi, 2-3 komur til Art Medica, gjafinn þarf að sprauta sig í ca. 10-12 daga að mig minnir með hormónasprautu, og getur þurft að vera frá vinnu allan eggheimtudaginn.

  Ef ætti að vera sambærilegt „óþægindaálag“ fyrir staðgöngu-meðgöngu yrði það varla minna en 500.000 kr, eða hvað? Eða er það orðin launagreiðsla?? Það er upphæð sem munar alveg um fyrir marga.

  Hvað ef staðgöngumóðirin er 6 vikur frá sinni vinnu í lok meðgöngu + viku eftir keisara? Á hún rétt á veikindagreiðslum frá sínum atvinnurekanda? (Er hann þannig að taka þátt í greiða fyrir staðgöngu-projektið??) Eða á óþægindaálag að dekka slíkt? Er hægt að flokka staðgöngu-meðgöngu sem annars konar „veikindi“ (m.t.t. til fjarvista og annarra praktískra atriða) en venjulega meðgöngu?

  Ég er ekki að segja að þetta sé ómögulegt, en þetta verður fljótt býsna flókið.

 8. Oh mér verður svo illt við að hugsa um að það eigi að lögleiða leigu á legum. Oj bara. Annars fræðandi og flott grein 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.