Sjö aðferðir til að skaða framtíðarhorfur dætra okkar

Höfundur: Kristín Vilhjálmsdóttir

 

Einn góðan veðurdag viltu sjá dóttur þína, frænku, guðdóttur og litlu dóttur besta vinar þíns eða vinkonu fullorðnast og geta valið um að verða slökkviliðskona, rithöfundur, Ólympíugullhafi í boxi, liðþjálfi, frægur kokkur, forseti … eða hvað annað sem hana lystir.

Og þú vilt að hún fái greitt nákvæmlega jafnmikið fyrir sömu störf og karlkyns samstarfsmenn hennar vinna.

– úr greininni 7 Ways You’ re Hurting Your Daughter´s Future í tímaritinu Forbes

 

Jöfn laun kynjanna hafa lengi verið í umræðunni, hérlendis sem annars staðar. Nýverið rakst ég á athyglisverða grein í Forbes um niðurstöður nýlegrar könnunar, sem benda til að það hvernig við tölum við dætur okkar (og reyndar hvernig við tölum almennt í þeirra viðurvist) hafi mikil mótandi áhrif á sjálfstraust þeirra og mótun sjálfsmyndar á fullorðinsárum.

Könnunin þykir sýna hversu auðvelt það er að sannfæra börn um að þau séu ekki góð í hinu og þessu. Reynt var að sanna að börn tileinki sér auðveldlega staðalmyndir sem þau heyra um kynhlutverk sitt, sem aftur á móti getur haft áhrif á árangur þeirra og framgang í lífinu. Að segja dreng að hann sé góður í stærðfræði getur til dæmis haft þau áhrif að hann hætti að reyna að bæta sig, en aftur á móti getur það að segja stúlku að hún sé léleg í stærðfræði haft þau áhrif að hún fari að trúa því og fari þess vegna að ganga verr í stærðfræði.

Við virðumst eiga mikið eftir ólært í sambandi við kyngervi og það sem er „rétt“ og „rangt“ í uppeldi dætra okkar. Börn byrja að átta sig á kynhlutverkum strax við 30 mánaða aldur og fara strax í leikskóla að tileinka sér félagslega fordóma, þar með talda hefðbundna kynjafordóma. Þetta „við á móti þeim“-viðhorf nær hámarki sínu í kringum 5 til 7 ára aldur en dregur smátt og smátt úr því eftir það.

Sem foreldrar stúlkna getum við auðvitað ekki stjórnað þeim skilaboðum sem þær kunna að sjá þegar við erum fjarri.  Anea Bogue, stofnandi REALgirl® sjálfseflingarsmiðjunnar, nefnir  nokkur dæmi um hvernig við kunnum að vera að hindra dætur okkar í að nýta hæfileika sína til fulls, án þess að gera okkur nokkurn tímann grein fyrir því.

1. Þeim er kennt að vera kurteisar og til friðs.

well behaved womenLínan á milli þess að vera vel upp alin og að vera dyramotta er næstum ógreinileg og svo virðist sem stúlkum sé allt of oft ýtt inn á svæði sem nálgast hið síðarnefnda. Þannig er stúlkum kennt að þóknast öðrum með því að vera alltaf þægilegar í viðmóti, koma öðrum ekki í uppnám, forðast árekstra og draga núverandi ástand aldrei í efa. Jafnframt er þeim kennt að allt séu þetta þættir í því að vera vinsæl, eftirsóknarverð og að ná árangri í lífinu.

Hvaða þýðingu getur þetta haft fyrir framtíð þeirra?

Konur semja ekki um hærri laun, því að þær vilja ekki styggja hugsanlega vinnuveitendur, eða þær taka ekki þátt í bekkjarumræðum og seinna meir á fundum, svo ekki verði litið á þær sem óþægan ljá í þúfu.

Hvernig hægt er að forðast þetta: Gleymum ekki að kenna dætrum okkar að það sé í lagi að rökræða, vera ósammála og standa í samningaviðræðum, að sjálfsögðu af fullri kurteisi og þá sérstaklega við jafnaldra þeirra. Hvetjum þær til að kveða sér hljóðs, frá leikskóla og upp úr, segja sína meiningu og vera tilbúnar að ræða hana.

2. Þeim eru gefin kynjamiðuð leikföng.
Ef stúlkur fá eingöngu að leika sér með bleik leikföng fyrstu þrjú árin geta stúlkur ákveðið að bleikt sé uppáhaldsliturinn af því að það sé stelpulitur. Hins vegar álíta vísindamenn að foreldrar og aðrir félagslegir þættir leiði til þess að börn velji kynjamiðuð leikföng en ekki einhver eðlishneigð frá náttúrunnar hendi.

Hvaða þýðingu getur þetta haft fyrir framtíð þeirra?

Knúz hefur áður fjallað um staðalímyndir og viðhald þeirra í gegnum val á leikföngum, sjá hér og hér. Könnun frá 2009 sýnir ennfremur að 31% af stelpuleikföngum snerust alfarið um útlit, á meðan strákaleikföng snerust um hreyfanleika, uppfinningar, samkeppni og hæfni við lausn vandamála, sem er allt færni sem tengd er afar eftirsóknarverðum eiginleikum í fari starfsmanna og leiðtoga.

Hvernig hægt er að forðast þetta: Reynum að forðast að gefa þeim bara Barbí og dúkkur og gefum þeim líka leiki og leikföng sem hvetja til vísindalegra uppgötvana, samkeppni, könnunarleiðangra og hæfni við lausn vandamála.

dúkka3. Þeim er endalaust sagt hvað þær eru fallegar, en lítið sem ekkert minnst á aðra þætti.
Æ, þær geta verið soddan dúkkur í kjól og með hárið sett í tíkarspena, að mann langar bara til klípa þær! En stúlkurnar okkar eru líka virkilega góðar að yrkja ljóð, þær sýna mikla færni í arkitektúr með því að byggja flókin virki úr sófapullum og þær elska að syngja með Bítlunum og spila undir á luftgítar.

Hvaða þýðingu getur þetta haft fyrir framtíð þeirra?

Dætur okkar eiga alltaf eftir að hafa tilfinningu fyrir því að útlit þeirra skipti máli, einfaldlega vegna þess að samfélagið sendir þeim sífellt skilaboð um það.  Við getum hins vegar reynt að vinna markvisst á móti þessu með því að verðlauna, hrósa og sýna verðskuldaðan áhuga á afrekum þeirra sem hafa ekkert með útlit að gera (t.d. í námi, íþróttum eða tónlist) og gefið þeim þannig skýr skilaboð þess efnis að virði þeirra hefst hvorki né endar með útlitinu.

Hvernig hægt er að forðast þetta: Við getum jafnað hvert hrós fyrir útlitið með að minnsta kosti tveimur hrósum um eitthvað sem ekki byggir á útlitinu.

4. Þeim er innrætt aðdáun á prinsessum.
Flestar alvöru prinsessur eru í rauninni ákaflega hæfileikaríkar og menntaðar. Þær tala mörg tungumál, eru slyngir stjórnmálamenn og einhverjar þeirra hafa útskrifast úr virtum breskum háskólum. En litlu stúlkurnar okkar gera sér enga grein fyrir þessu. Það sem blasir við þeim er að geta sungið nógu vel til að laða til sín prins sem mun bjarga þeim.

Hvaða þýðingu getur þetta haft fyrir framtíð þeirra?

Prinsessukúltúrinn hvetur konur til að vera aðgerðalausar ungfrúr sem hafa það hlutverk eitt að halda kjafti og vera sætar, þangað til prinsinn birtist á hvíta hestinum og bjargar þeim. Ef við hvetjum stúlkur ekki til að vera herskárri í eigin viðhorfi og hegðun (til að taka ábyrgð og stjórn á eigin örlögum), er hætta á að stúlkunum finnist þær í raun ekki skipta máli og að þær séu einskis virði nema sem viðhengi karlmanna.

Hvernig hægt er að forðast þetta: Það er óvinnandi verk að hlífa stúlkum fyrir prinsessukúltúrnum og í rauninni engin þörf á því, ef við sendum þeim réttu skilaboðin. Við getum endurskilgreint fyrir þeim hvaða merkingu það hefur að vera prinsessa. Við getum sýnt þeim kvikmyndirnar Brave og Tangled, þar sem kvenhetjurnar taka af skarið og standa uppi sem sigurvegarar. Ef dætur okkar hafa þegar fallið kolflatar fyrir Disney-prinsessum, getum við bent þeim á styrkleika þeirra (ein er mikill lestrarhestur, önnur synd sem selur, o.s.frv.)

handyman5. Pabbinn fær öll líkamleg verkefni inni á heimilinu.

Það kann að vera auðveldast að láta heimilisföðurinn opna sultukrukkur eða smyrja hurðahjarir en konur eru alveg jafnfærar um þetta sjálfar.

Hvaða þýðingu getur þetta haft fyrir framtíð þeirra?

Mikilvægt er að foreldrar efist meðvitað um dæmigerð kynjamiðuð viðfangsefni, sérstaklega þau sem gefa í skyn að konur séu veikara kynið og að þær sinni umönnunarstörfum, frekar en að framkvæma, laga eða sjá sjálfum sér og öðrum farboða.

Hvernig hægt er að forðast þetta: Sýnum dætrum okkar að mæður geti séð um mikilvæg fjármálaverkefni, eins og þessi, og að mæður geti slegið garðinn og opnað sultukrukkur hjálparlaust. Forðumst einnig að úthluta húsverkum eftir kyni. Stelpur geta farið út með ruslið og slegið garðinn og strákar geta vaskað upp og ryksugað stofuna.

6. Þær fá aðeins að umgangast aðrar stelpur.
Þó að þetta vandamál eigi ekki aðeins við þegar við sendum dætur okkar í stúlknaskóla, þá er engu að síður vert að minnast þess að gerðar hafa verið rannsóknir sem benda í báðar áttir um það hvort stúlknaskólar séu í raun að skila meiri árangri fyrir stúlkur. Ein rannsóknin sýndi að nemendur í stúlknaskóla höfðu hærri lokaeinkunnir, meira sjálfstraust og gekk betur í námi. En önnur skýrsla sem var nýlega gefin út sneri óbreyttu ástandi á haus, með því að komast að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að stúlknaskólar útskrifi fleiri færari nemendur, heldur skili kynjaskiptir skólar jafnvel af sér börnum sem eru líklegri til að trúa á kynjastaðalmyndir.

Hvaða þýðingu getur þetta haft fyrir framtíð þeirra?

Kannanir sýna að börn á forskólaaldri hafa ekki aðeins tilhneigingu til að aðskiljast í hópa eftir kynjum, heldur leiðir aðskilnaðurinn til þess að þau þróa með sér mismunandi félagslega færni, framkomu, væntingar og mismunun, en ekkert af þessu hjápar konum að komast áfram á vinnumarkaðinum.

Hvernig hægt er að forðast þetta: Ef dætur okkar eru alfarið umkringdar öðrum stelpum í skólanum, getum við reynt að koma á vinskap við stráka utan skólans, við nágranna eða syni vina okkar. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir litlar stúlkur að skipuleggja blönduð leikstefnumót, bjóða strákum í stelpuafmælisboð og aðrar veislur og hvetja þær til að taka þátt í íþróttum. Þá læra þær að þær geta allt sem strákar geta gert og geta jafnvel gert betur.

vigt7. Mæður gagnrýna eigin líkama og/eða líkama annarra kvenna.
Heilbrigt mataræði er öllum mæðrum og dætrum þeirra nauðsynlegt, en við viljum ekki fara yfir strikið og vera með aðfinnslur við eigin vaxtarlagi og annarra.

Hvaða þýðingu getur þetta haft fyrir framtíð þeirra?

Þegar konur ræða mataræði sitt og vaxtalag fyrir framan dætur sínar eða gagnrýna hvernig aðrar konur klæði sig ekki eftir vexti eru þær að gefa þau skilaboð að kvenlíkaminn þurfi að falla í ákveðið mót til að litið sé á konuna sjálfa sem viðkunnanlega og vinsæla.

Hvernig hægt er að forðast þetta: Öllu máli skiptir að konur tileinki sér þá hegðun og viðhorf til sjálfra sín sem þær vilja að dætur þeirra tileinki sér, sýni þeim hvað hollur matur er,  rétt samsettar máltíðir sem eru valdar saman eftir næringargildi og kaloríuþörf, en sleppi því að kaupa fituskert ruslfæði.

4 athugasemdir við “Sjö aðferðir til að skaða framtíðarhorfur dætra okkar

 1. Voðalega er eitthvað gaman að vera strákur.
  Og það er greinilegt að allt sem strákarnir gera er eitthvað svo spennandi og merkilegt.

  Þessvegna vilja svo margar konur gera alveg eins og strákarnir, því þar sem strákar koma saman til að gera eitthvað, hlýtur að vera eitthvað svo spennandi og merkilegt, að konur vilja endilega gera þetta sama líka.

  Og í staðinn fyrir að gefa stelpum týpískt stelpudót, þá á að gefa þeim smíðatól í staðinn fyrir dúkkur, forstýrubúninga í staðinn fyrir prinsessubúninga, og business-konubúninga í staðinn fyrir hjúkrunarkonubúninga á sjálfan Öskudaginn.

  Með þessu móti verðar litlar stelpur hamingjusamar konur þegar þær fullorðnast.

  • Þetta snýst alls ekkert um „spennandi og merkilegt“ og því síður „eins og strákarnir“
   – en sumir eru ansi gjarnir og viljugir á að snúa alvöru málsins upp í einhverja vitleysu.
   þetta snýst á mjög jarðbundinn hátt um völd, krónur og aura, sanngirni og réttlæti í t.d. atvinnulífinu, úthlutun á valdastöðum, sama mat á sömu verðleikum óháð kyni, o.þ.h.
   Um að ákveða ekki fyrir aðra hvað þær vilja.
   Fólk hlýtur að þurfa að þykjast vera bæði blint og heyrnarlaust til að geta þóst ekki sjá hvaða kyn situr á bæði fjármagninu og völdunum í yfirgnæfandi meirihluta.

   • Bergljót, þetta snýst þá um valdagræðgi?

    M.ö.o. ertu að segja að konur sem sækjast eftir völdum, séu að gera það af einskærri valdafísn og grægði, og séu í raun ekkert betri en þeir valdakarlar sem konur (femínistar) hafa gagnrýnt svo mjög í gegnum tíðina.

    En af hverju eru völd svona eftirsóknarverð?

    Er það hrein og klár græðgi? (peningar) eða það að verða meiri og voldugri en einvher annar?

    Völd eru vandmeðfarin og völd spilla. Svo er kalt á toppnum. Mjög kalt.

    Ég fæ ekki betur en séð að þær konur sem komast til valda hér á landi í stjórnum fyrirtækja, séu yfirleitt sömu konurnar. Oft eru þessar konur í stjórnun 3-5 fyrirtækja og félaga, jafnframt því að gegna ábyrgðarmiklum stjórnunarstörfum í fullu starfi, oft hjá stórum fyrirtækjum.

    Er þetta heilbrigt, og stuðlar þetta að jafnrétti?

    Nei, því þetta er frekar fámennur hópur kvenna, sem rotta sig saman í einum og sama félagsskapnum.

    Hin dæmigerðar valdakona eru framakonan, vel menntuð með eina til tvær meistargráður (og er í námi til bæta við sig enn annarri) meistargráðu.
    Þessar konur eru oftar en ekki á hálaunaðri stjórnunarstöðu, er gfit manni sem einnig er vellaunaðri stjórnunarstöðu.

    Og þarna er ójafnréttið.

    Bilið á milli þessara valdakvenna (framakvenna) og venjulegra kvenna, sem ekki eru svona vel settar, verður enn meira, bæði tekjulega og félaglega.

    Þetta leiðir til enn meiri vanmáttarkenndar hjá venjulegu konunum, sem eru bara í venjulegum störfum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.