Höfundur: Kristín Jónsdóttir
Í gær deildi ég tengli á blogg sem ég rakst á og sem hressti mig við. Þar talar kona beint úr pokanum gegn kvenfyrirlitningarbröndurum á vinnustað sínum. Þegar ég las bloggið tók ég ekkert sérstaklega eftir nafni læknisins sem fjallað er um, en honum finnst víst allt í lagi að segja niðrandi brandara um konurnar sem hann vinnur með og hefur ekki tekið áskorun hennar um að hætta því. Eftir að ég var búin að deila sögunni, langaði mig svo til að athuga nánar hver maðurinn væri og þá áttaði ég mig á því að nafn hans benti til þess að við gætum verið skyld. Og viti menn, jú við erum skyld. Og viti menn, ég fékk einkaskilaboð frá frænku minni um að þessi frændi minn væri með skemmtilegri mönnum og góður þar að auki. Ég var alls ekki beðin um að taka þetta út, en það var ákveðinn tónn í skilaboðunum sem mér brá dálítið við og ég hugsaði töluvert um þetta um kvöldið.
Fyrst um það hvers vegna ég er ánægð með þetta
Ég er mjög ánægð með að Nanna rísi upp og segi ákveðin: Stopp, hingað og ekki lengra. Ég hef sjálf fengið gersamlega upp í kok af bröndurum sem gera lítið úr konum. Og reyndar er ég hundleið á bröndurum sem gera lítið úr körlum. Mér finnst bara tími til kominn að við færum okkur upp á aðeins hærra plan og vinnum markvisst að því að brjóta niður þessar ömurlegu hugmyndir um kynin sem ganga út á að konur tali svo mikið og kunni ekki að keyra (eða að nokkurt gagn væri að því að hafa þær með á fundi, eins og læknirinn sagði og hristist væntanlega inní sér af hlátri um leið) og að karlar horfi bara á fótbolta og hugsi með typpinu. Í raun ganga allir þessir brandarar meira og minna út á það að fólk sé getulausir aumingjar. Það geta alveg komið fyndnir brandarar sem styðjast við staðalímyndir inn á milli, en langflestir eru þeir orðnir þreyttir og sjúskaðir. Og persónulega er ég orðin þreytt á því að hlæja kurteislega holum hlátri þegar ég heyri í sjötugasta skiptið að sem kona kunni ég ekki að bakka í stæði.
Sú ákvörðun Nönnu að skrifa um þetta á opinberri bloggsíðu er örþrifaráð. Hún segist hafa reynt að ræða þetta við manninn, árangurslaust. Hún velur því aðra leið. Einhvers staðar sá ég þetta skrifað í samræðum um málið: „Sko, fínt að tala um kvenfyrirlitningarbrandara, en alger óþarfi að nafngreina manninn.“ Þetta eru hin dæmigerðu viðbrögð þegar einhver rís upp og segir frá vanlíðan, misrétti, ofbeldi eða öðrum miska. Þetta nefndi Hildur um daginn í Kvalarapistlinum, um muninn á að segja mér var nauðgað eða hann nauðgaði mér. Nanna mátti segja að hún þyrfti að þola kvenfyrirlitningabrandara á vinnustað sínum, en hún mátti ekki segja hver væri svona ónærgætinn.
Og þá að því að reyna að spá í hvernig verja má frænda minn
Það er hægt að vera leiðinda karlremba alveg óvart í ákveðnum hópi eða við ákveðnar aðstæður þótt að almennt sé maður bara nokkuð mjúkur, skilningsríkur og bráðfyndinn karl sem eigi jafnvel sterka konu og dóttur. Þetta hegðunarmynstur getur átt rót sína í einhverju undirliggjandi og of flóknu samhengi og ég get vitanlega lítið sagt um hvað nákvæmlega á sér stað þarna í Laugarási.
Ég get hins vegar giskað á þetta: Læknirinn hefur byggt upp einhvers konar varnargarð sem einn af tveimur körlum á kvennavinnustað. Það þarf hann ekki endilega að hafa gert meðvitað. Hann er þarna innan um allar þessar konur alla daga. Þær tala oft um hluti sem koma honum sorglega lítið við. Hvað þarf að setja mikinn sykur til að sultan hlaupi, hvort er léttlopinn eða plötulopinn betri að prjóna úr eða hvort á að nota tappa eða bindi? Nú er ég algerlega að fabúlera og það getur vel verið að frændi minn búi til sultur eða prjóni. En ég held þið skiljið punktinn.
Hann er í yfirburðastöðu sem læknir en er samt með einhverja (og jafnvel skiljanlega) komplexa gagnvart þeim. Þær eru fleiri og því miður þá upplifa mjög margir heiminn í þessari tvískiptingu karlar vs. konur, hann er því að vissu leyti í veikri stöðu í því samhengi. Þótt hann standi andspænis konu sem er líka læknir, leyfir hann sér að tala við hana á sama hátt og hann hefur leyft sér í öll þessi ár við óbreytta kvenkyns hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsfræðinga og ræstitækna. Hann er ekki að gera þetta „viljandi“. Hann telur sig fullkomlega eðlilegan og nær því ekki að hann sé að gera á hlut þeirra, að særa þær. Honum finnst (aftur minni ég á að þetta er líklega algerlega ómeðvitað) einmitt að hann sé sá sem er útundan. Hann er einn á móti þeim öllum og þess vegna má hann þetta.
Þetta er, held ég, kjarninn í mörgum samskiptahnútum milli karla og kvenna.
Að sjálfsögðu er svo hvert einstakt tilfelli flóknara, utan um kjarnann eru kannski himnur sem við vitum ekkert um. Kannski er einhver bálskotinn í einhverjum, kannski er einhver hrikalega fúll út í einhvern út af því að hann/hún var ekki beðin(n) um að vera með í skemmtiatriði á þorrablóti, kannski hefur einhver aldrei prjónað peysu á einhvern …
En. Sem sagt. Kjarninn er þessi tilhneiging að stilla körlum upp gegn konum og/eða konur gegn körlum. Og hvað styrkir og nærir slíka leiðinda skiptingu? Eruð þið búin að fatta það? Já, nefnilega þessir óþolandi meintu brandarar! Þess vegna væri svo óskaplega voðalega gott að við bara hættum að fara með þessar leiðindatuggur. Það eru til svo rosalega góðir brandarar sem eru ekki byggðir á niðurlægingu.
Hvað hefði frændi átt að gera?
Það eru til alls konar samskiptareglur sem við eigum tiltölulega auðvelt með að skilja og vonandi að virða. Svona eins og að bjóða góðan daginn, þakka fyrir sig og óska vinum og ættingjum til hamingju með afmælið. Hér ætla ég að minna á eina alveg ferlega skemmtilega reglu sem er til, en sem því miður er ekki virt af öllum. En ef þú tileinkar þér hana, geturðu aukið lífsþægindi þín og þeirra sem þú umgengst til muna: Ef þú ert að gera grín að einhverjum, einstaklingi eða hópi, og einstaklingur sem verið er að gera grín að, annað hvort sem einstaklingi eða sem hópi, biður þig um að hætta: hættu þá bara! Hættu og biðstu afsökunar. Ekki færast allur í aukana og smyrja aukalagi ofan á þína meintu fyndni. Það er afar stutt frá slíkri hegðun yfir í einelti, til dæmis. Og hver vill vera ásakaður um eineltistilburði? Áreiðanlega ekki vandaði og skemmtilegi frændi minn!
*félagsráðgjafa ekki félagsfræðinga