Höfundur: Guðrún C. Emilsdóttir
Með skemmtilegri og áhugaverðari gjöfum sem ég fékk um síðustu jól var Dagatal 2014 – Árið með heimspekingum. Þetta er sérstök bók sem er í senn dagatal og stuttir textar, einn fyrir hverja viku, um kvenheimspekinga úr sögu og samtíð. Þrátt fyrir að hafa lokið BA-prófi í heimspeki, hefði mér aldrei dottið í hug að nógu margir kvenheimspekingar fyrirfinndust til að fylla í heilt dagatal, jafnvel þó aðeins væri um eina konu í viku að ræða eða í allt 53 konur.
Mér lék forvitni á að heyra meira um tilurð dagatalsins og fékk Sigríði Þorgeirsdóttur, höfund þess til að segja mér nánar frá því. Sigríður er prófessor í heimspeki við Háskóla Ísland og það sem vakir fyrir henni með dagatalinu er að sýna með aðgengilegum hætti að frá fornu fari hafi verið til fjöldi kvenna sem hafa lagt stund á heimspeki. Þessara kvenna er sjaldnast minnst. Framlag þeirra hefur ekki verið virt að verðleikum því þeirra er sjaldan getið í uppsláttarritum um heimspeki. Það sem verra er, þeirra framlag til sögulegrar þróunar heimspekinnar er gífurlega vanmetið. Í stuttum en hnitmiðuðum pistlum Sigríðar má sjá hvernig þessir heimspekingar hafa komið fram með hugmyndir, kenningar og viðhorf sem skiptu sköpum, en á sama tíma verður ljóst að þær hafa verið hunsaðar og látið lítið svo út að áhrif þeirra hafi verið lítil sem engin.
„Þegar ég fór að segja sjálfri mér sögu vestrænnar heimspeki í gegnum hugmyndir þessara heimspekinga birtist mér flóknari og meira spennandi saga. Jafnframt komst ég að raun um að margir þessara kvenheimspekinga hugsuðu á skjön við það sem hafa orðið meginstraumar heimspekinnar,“ segir Sigríður. „Margar þessara kvenna voru uppteknar af því að við erum líkamsverur, að við erum tengd hvert öðru og þær lögðu þess vegna áherslu á að við erum tilfinningaverur. Það er á skjön við hina einhliða áherslu á rökhugsun og vitsmuni sem hefur löngum einkennt heimspekina. Við erum í senn tilfinninga- og vitsmunaverur. Þess vegna þurfum við að kynna okkur hliðar- og undirstrauma heimspekinnar jafnt sem meginstrauma hennar, kvenheimspekinga jafnt sem karlheimspekinga. Meginstraumurinn hefði væntanlega lítið öðruvísi út hefði framlag kvenheimspekinga lengst af ekki verið jaðarsett.“
Það er eftirtektarvert að Sigríður fjallar einnig um nokkra heimspekinga frá löndum utan hins vestræna heims, en það er til marks um viðleitni hennar til að sýna fram á að í hnattrænum heimi er heimspekin meira en hvít og vestræn.
Aðspurð segir Sigríður að hún hafi með þessari útgáfu viljað draga upp myndir af þessum huldu hetjum heimspekinnar og leiða þær fram í dagsljósið. Enn fremur væri þetta leið til að miðla þekkingu á stuttan, gagnorðan og skilvirkan hátt. Nútímafólk hefur lítinn tíma til að lesa langa texta og hana langaði til að gera tilraun til að koma fræðum á framfæri með þessu hætti. Heimspeki er einhver karlhverfasta grein innan vísindanna og er hlutfall kvenna meðal kennara við heimspekideildir háskóla með lægsta móti um víðan heim. Hér á landi er Sigríður eina konan sem fastráðin er við heimspekideild háskóla og jafnframt fyrsta konan sem ráðin er í slíka stöðu á Íslandi. Ein ástæðan kann að vera að rit kvenheimspekinga hafa lítið sem ekkert ratað inn í kennsluefni. „Þær eru sjaldnast hluti af kanónu heimspekinnar“ segir Sigríður. Augljóslega þarf að taka þessa kvenhöfunda meira inn í kennsluefni þessarar greinar. Jafnvel höfundar sem hafa haft gífurleg áhrif, eins og Catherine Macauley merkur hugmyndasmiður nútímalýðræðis og upplýsingar, Simone de Beauvoir sem skrifaði einhverja áhrifamestu bók 20. aldarinnar eða Judith Butler sem er einn helsti hugmyndasmiður hinseginfræða, eru enn jaðarhöfundar innan heimspeki- og hugmyndasögudeilda.
Dagatalið er sérlega fallega hannað og myndirnar af heimspekingunum margar hverjar gullfallegar, en þær hefðu gjarnan mátt vera í stærra sniði. Það voru þær Hildigunnur Gunnarsdóttir og Snæfríð Þorsteinsdóttir sem hönnuðu dagatalið en þær eiga einnig heiðurinn af hönnun Íslensku teiknibókarinnar sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og þær fengu nýlega verðlaun fyrir rifdagatal sem kom út á vegum hönnunarfyrirtækisins Hay.
Þess má einnig geta að ágóði af sölu Dagatalsins 2014 – Árið með heimspekingum rennur til styrktar doktorsnemum í femínískri heimspeki við Háskóla Íslands. Þessi útgáfa er því nýnæmi á marga lund. Óskandi væri að framhald verði að útgáfu svo fræðilegrar og hagnýtrar bókar en víst er að af nógu er að taka.
Ég var líka mjög spennt fyrir þessari hugmynd en verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Bókin er þung þannig að óhentugt er að ferðast með hana. Textarnir eru fullir af orðum sem leikmaður skilur ekki – setning eins og „Alheimsfræði Anne Conway byggist á andlegri eindarhuggju, ólíkt eindarhyggju Margaret Cavendish, sem var efnisleg, en báðar eru þær lífhyggjusinnar (vítalistar).“ er jargon fyrir mér og þótt ég hefði lesið um Cavendish nokkrum síðum framar þá stóð ekkert þar um neina „eindarhyggju“ (nema það sé ótvíræð andstæða við tvíhyggju? eitthvað stendur þar um að hún hafi hafnað tvíhyggju…). Ekki er ég samt alveg viss hvernig hefði mátt betrumbæta þetta þannig að markhópurinn væri ekki bara „þau sem kunna skil á öllum ismunum/hyggjunum“… kannski með því að hafa textana fókuseraðri á eitthvað eitt tengt hverri konu?
Bakvísun: Frá Evu í Paradís til Jack/Judith Halberstam | Knúz - femínískt vefrit