Þegar ég breyttist í leðurblöku og rakst illilega á „glerþakið“

Höfundur: Ásdís Ingólfsdóttir

Bats2Pistillinn sem hér fer á eftir er frásögn mín af atvikum sem áttu sér stað fyrir ríflega þrjátíu árum. Háskóli Íslands hefur stækkað og dafnað síðan þá. Margt er breytt, fjöldi kennslugreina hefur aukist, fjöldi stúdenta hefur margfaldast og  kynjahlutfall hefur breyst mikið. Höfum við gengið til góðs, var spurningin sem brann á mér þegar ég skrifaði þennan pistil og svarið er sannarlega já. En gangan er ekki á enda og baráttumál dagsins í dag er að gera enn betur til að tryggja jafnrétti allra stúdenta við Háskóla Íslands.

Það hékk auglýsing á korktöflunni í anddyri jarðfræðahúss Háskólans. Þar var óskað eftir jarðfræðinema til að aðstoða prófessor í grunnvatnsrannsóknum. Júhú, jibbí, hjartað í mér steig trylltan dans. Þetta sameinaði allt sem mig vantaði; launað starf sem tengdist minni frábæru fræðigrein og var augljóslega stórt stökk framávið á nýhafinni göngu minni til frama í jarðvísindum.

Þegar heim kom settist ég þegar í stað við ritvélina og vandaði mig við að skrifa umsókn sem ég stakk í umslag og endasentist með uppí háskóla til að setja í hólf prófessorsins. Ég skyldi svo sannarlega vera fyrst að skila inn umsókn og svo sannarlega skyldi ég fá þetta merka rannsóknarstarf. Hvað ég og gerði eftir nokkurn tíma og mikið japl, jaml, fum og fuður. Í ljós kom að ég var eini umsækjandinn um starfið og prófessorinn orðaði það ekki pent þegar hann sagði mér að hann hefði hugsað sér að fá „stabílan“ starfskraft, t.d. ungan mann, ekki stúlku.

Eftir að hann hafði gengið um og spurt alla skólafélaga mína af viðeigandi kyni, hvort þeir vildu starfið, sem þeir neituðu allir sem einn, réð hann mig loksins, með semingi þó. Hann ítrekaði hversu „stabíl“ ég þyrfti að vera og að verkin þyrftu að ganga hratt og örugglega fyrir sig. Þetta fannst mér einkennileg ítrekun þar sem hann hafði kennt mér árinu áður og ég taldi hann vera glöggan mann. Eitthvað hafði samt farið framhjá honum hvað varðaði lundarfar og hegðun mína, spretthlauparans.

Svo kom að því eitt hrollkalt haustsíðdegi að ég fékk að vita hvaða verkefni ég átti að inna af hendi. Ég mætti stundvíslega á „labbið“ svokallaða, sem var efnafræðistofa á annarri hæð jarðfræðahússins, og steig lotningarfull inn í helgidóm vísindanna. Þar beið prófessorinn eftir mér þungur á brún. Hann tók þó í höndina á mér og bauð mig velkomna. Og án þess að orðlengja það frekar opnaði hann skáp sem stóð rétt innan við dyrnar og sagði: „Hér eru herlegheitin.“ Við mér blöstu þúsundir af krukkum með vatni í. Ég hváði. „Já,“ sagði hann, „ég sagði að mig vantaði „stabílan“ aðstoðarmann. Ég er búinn að safna grunnvatnssýnum allstaðar að af landinu og nú þarf að mæla í þeim helstu frumefni. Og eins og gefur að skilja þarf að gera tvær mælingar fyrir hvert. Það er ekkert annað,“ bætti hann við og leit á mig lymskufullum augum, eins og hann óskaði þess heitast að ég hætti við allt saman og hlypi út. Kannski vissi hann sem var að ég myndi aldrei gefast upp?

Nú kom að því að nota nýtilkomna þekkingu í efnagreiningu sem var kannske ekki svo ýkja mikil, en ég byrjaði að paufast við verkið. Taka fram krukkur, alltaf sama fjölda í einu, raða og telja, skrá númerin á krukkunum í kladdann, opna krukkurnar, taka krukkurfimm millilítra af hverju sýni, bæta í litarefni, setja í pípettuna, smella á takkann, títra, hræra, bíða og lesa af. Færa niðurstöður í kladdann, hella sýnum, skola glösin, loka krukkum, setja í skáp. Byrja á næstu krukkuröð.

Þetta var einhæf og tilbreytingarlaus vinna svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Í ofanálag fékk ég ekki stundlegan frið fyrir prófessornum. Hann hékk eins og vofa yfir mér, kom og setti út á og fór fram á að ég endurtæki mælingar í sífellu fyrstu dagana. Auk þess voru á sveimi í rannsóknarstofunni danskir jarðfræðingar frá Norrænu eldfjallastöðinni sem ég bar óttablandna virðingu fyrir og þorði ekki fyrir mitt litla líf að vaða fram fyrir í hin ýmsu tæki og tól á rannsóknastofunni. Ég ákvað því að minn tími á „labbinu“ væri eftir klukkan ellefu á kvöldin.

Á þessum tíma var ekki búið að setja upp öryggiskerfi í Háskólanum og við nemendur höfðum til umráða lykil að húsinu, sem kom sér vel. Ég mætti í skólann fyrir hádegi og fór heim og lagði mig í eftirmiðdaginn og kom svo aftur að kvöldi. Enginn var í húsinu og ég gat haft mína hentisemi. Nú skellti ég mér í hvítan sloppinn og „labbið“ var mitt. Vinnan sóttist vel, ég söng og trallaði, lét klingja í krukkunum og undir morgun var ég búin með mörg hundruð mælingar. Skráningarblöðin setti ég þar sem prófessorinn fann þau. Næstu vikur hélt ég uppteknum hætti. Prófessorinn var alsæll að finna mæliniðurstöðurnar á morgnana og reyndi ekki að véfengja þær. Ég var himinlifandi að fá frið til að vinna þessa einhæfu vinnu óáreitt. Það gustaði af mér í hvítum sloppnum þegar ég snérist í hringi með krukkurnar fínu.

Heldur dró af mér þegar leið á önnina og útkoman úr prófunum var frekar slök svo ekki sé meira sagt. Næturlífið tók sinn toll. Mér var farið að líða eins og ég væri að missa allan húðlit og augun í mér virtust orðin glærari en áður. Mér leið eins og fölri leðurblöku þar sem ég sveif um í hvítum sloppnum og ekki voru launin gríðarleg. En ég hélt mig við þetta vinnufyrirkomulag þar til ég hafði gert allar mælingarnar. Þá sagði ég upp og hætti að vinna fyrir títtnefndan prófessor.

Ári síðar bað ég þennan sama prófessor um meðmæli vegna umsóknar minnar um framhaldsnám í grunnvatnsfræði við háskóla í Bandaríkjunum. Hann sendi þau en ég komst ekki inn í það nám svo gögnin fékk ég send tilbaka frá skólanum. Meðal endursendu gagnanna var meðmælabréf þessa ágæta manns sem ég auðvitað opnaði og las. Þar skrifaði hann meðal annars að „þessa ungu konu skortir allt frumkvæði sem þarf til að verða góður vísindamaður“.

Ein athugasemd við “Þegar ég breyttist í leðurblöku og rakst illilega á „glerþakið“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.