Af hverju er ég svona hinsegin?

Höfundur: Anna Pála Sverrisdóttir

Birna Guðmundsdóttir birti mjög hressandi pistil á vefsíðunni bleikt.is á þriðjudaginn. Í pistlinum mótmælir hún því að ég og aðrir forsvarsmenn Samtakanna ’78 notum hugtakið „hinsegin fólk“ og finnst það niðrandi.

Mig langar að byrja á að segja takk fyrir að skrifa um þetta, Birna, því það segir mér að það sé þörf á að ég útskýri.

lgbtqÞað skondna er, að ég skrifaði sjálf pistil hér á knúz.is fyrir einu og hálfu ári. Þar skrifaði Anna Pála: „Ég er reyndar ekki sannfærð um notkun frasans „hinsegin fólk“ og aðgreininguna sem felst í að nota hann.“ Semsagt skiptinguna í „svona“ og „hinsegin“. En hvað varð þá til þess að það tæpa ár sem ég hef verið formaður Samtakanna ’78 hef ég notað þennan frasa út í eitt?

Hvað sjálfa mig varðar er aðalástæðan einföld og ég nefni hana líka í eldri greininni: Samtökin ’78 eru ekki bara samtök samkynhneigðra. Þau eru líka samtök fólks með aðrar kynhneigðir, svo sem tvíkynhneigð og þau eru líka samtök transfólks. Af þessum hópum má líklega segja að samkynhneigða fólkið búi við mest forréttindi. Ég fullyrði að við sem erum samkynhneigð mætum minni fordómum í daglegu lífi en til dæmis tvíkynhneigða fólkið og transfólkið. Með tvíkynhneigða fólkið er það til dæmis þannig að það mætir fordómum frá bæði gagnkynhneigðum og samkynhneigðum („viltu ákveða þig/koma út úr skápnum“ – „sefurðu þá hjá hverjum sem er, hvenær sem er?“). Með auknum sýnileika og fjölmiðlaumfjöllun um transfólk auk löggjafar frá 2012 er staðan orðin miklu betri, en transfólk mætir ennþá miklum fordómum; á vinnustöðum og skemmtistöðum svo dæmi séu nefnd. Mér finnst mikilvægt að við hjálpumst öll að í baráttunni fyrir fjölbreytni og fordómaleysi og tek mitt hlutverk alvarlega sem talsmanneskja fyrir fjölbreyttan hóp. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk, hversu velviljað sem það er, talar oft bara um samkynhneigt fólk og gleymir hinum hópunum. Dæmi er að talað sé um regnbogafánann sem „tákn samkynhneigðra“. En við eigum hann ekki ein. Samtökin ’78 eru ekki lengur „félag lesbía og homma“ heldur er búið að breyta undirtitlinum í „samtök hinsegin fólks á Íslandi“.

„Hinsegin“ orðinu mætti mín vegna skipta út fyrir eitthvað annað, en þá þarf einhver að koma fram með tillögu að orði sem uppfyllir skilyrðið um að ná utan um allan fjölbreytta hópinn. Á ensku er yfirleitt notuð skammstöfun, t.d. LGBTQ (og reyndar er hægt að bæta fullt af stöfum við, t.d. I og A). Íslensk skammstöfun á borð við HLTT fyrir homma, lesbíur, tvíkynhneigt og transfólk hefur ekki náð að festast. Fyrir utan að mér finnst það sýna samstöðu að nota eitt orð sem nær yfir allan hópinn, þá tekur það langan tíma að telja upp alla hópana ef maður er t.d. í stuttu viðtali. Ekki gott að nota hálft viðtalið í það.

Og í lokin vil ég líka nefna atriði sem ég veit að mörgu hinsegin fólki finnst mikilvægt: Er ekki bara allt í góðu að hrista aðeins upp í norminu? Þurfum við öll að vera eins og sýna fram á að við pössum inn í gagnkynhneigða forræðið? Eykur það ekki bara líkur á að við öll í þessu samfélagi búum áfram í leiðinda-feðraveldi þar sem staðalímyndir tröllríða öllu og allir þurfa að vera eins? Sjálfri finnst mér reyndar líka mikilvægt sjónarmið að við eigum einfaldlega öll í þessu samfélagi að fá að vera innbyrðis ólík og að það hafi ekki með kynhneigð eða kynvitund að gera frekar en eitthvað annað. En mér finnst það ekki niðrandi að vera „hinsegin“, bara alls ekki. Er eitthvað niðrandi að vera ekki eins og meirihlutinn? Eins og Birna bendir á þá erum við vissulega í minnihluta tölfræðilega séð. En við erum ekki minni fyrir það.

Þarna er verið að taka orð sem kannski var einhvern tímann notað í niðrandi merkingu, gera það að okkar og nota í jákvæðri merkingu. Er það ekki bara gott mál?

Erum við að tala saman?

 

5 athugasemdir við “Af hverju er ég svona hinsegin?

  1. Bakvísun: Hinsegin

  2. Bakvísun: Af hverju er ég svona hinsegin?

  3. Bakvísun: Opið bréf til fjölmiðla | Q - Félag Hinsegin Stúdenta

  4. Bakvísun: Hvað er hinsegin? Síðari hluti | Ásta Kristín Benediktsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.