Mælska og rökfimi þykja góðir kostir. Í skólum á fólk að læra að tala skýrt og skipulega, geta lesið upp, haldið ræður og svarað fyrir sig. Því stofnuðu forkólfar málfundafélaga framhaldsskólanna til mælsku- og rökræðukeppni milli skólanna, sem nú heitir MORFÍS. Atvik í þessari keppni hafa verið í brennidepli netmiðla undanfarna daga en eru engan veginn þau einu. Hér verður litið á nokkur.
Brynhildur Björnsdóttir keppti í MORFÍS frá 1986 til 1990:
„Árið 1986 var komið á fót ræðukeppni milli MH og Kvennó þar sem eingöngu stelpur tóku þátt. Hún var skipulögð af Helga Hjörvar, sem hafði verið ræðumaður keppninnar árið áður og Hrafni Jökulssyni, sem þá var í Kvennó, til að sýna strákaliðunum í MR og Versló að stelpur gætu alveg keppt í mælskulist til jafns við stráka. Gaman að geta þess að síðan hafa fjölmargar stelpur keppt í Morfís fyrir hönd MR og Versló og orðið ræðumenn Íslands oftar en einu sinni. En aftur að 1986. Stelpurnar sem kepptu í stelpukeppninni, og ég var ein af þeim, voru líka í Morfísliðinu sem það árið var fjölskipað. Slagorðin voru „Stattu þig strákur!“ og „Stattu þig stelpa!“. Ég keppti fyrir skólann minn, ég stóð mig, ég var stolt. Tveimur árum síðar, 1988, var ég aftur í MH liðinu. Í það sinn fórum við alla leið í Háskólabíó. Ennþá meira stolt. Og þó ég hafi vissulega verið stelpa, fann ég aldrei fyrir því að vera StelpaN. Ég var keppandi, mælskulistamaður eins og allir hinir keppendurnir og það hafði enginn hugmyndaflug í að gera kynferði mitt að einhverju atriði. Allra síst ég. Ég vissi ekki einu sinni að ég hefði verið fyrsta stelpan til að keppa til úrslita í Morfís fyrr en mörgum árum síðar. En þá varð ég afar stolt af því.
Mér þykir vænt um þátttöku mína í þessari keppni, það sem ég lærði þar og hvernig það nýttist mér. Og ég hef verið stolt af því að þátttaka stelpna í keppninni er orðin svo sjálfsagt mál að það tekur því varla að taka eftir hvers kyns keppendur eru, ólíkt til dæmis Gettu betur sem fór af stað á svipuðum tíma. Ég hef greinilega ekki verið að fylgjast með. Því núna, eftir að ég les vitnisburð eftir vitnisburð eftir stelpur sem stóðu sig, stóðu í pontunni og fluttu mál sitt og voru niðurlægðar og ofsóttar, jafnvel brotnar niður kerfisbundið í langan tíma fyrir og eftir keppni fyrir það eitt að vera stelpur get ég ekki lengur verið stolt. Mér er misboðið, ég er gáttuð og öskureið. Og fyrst og fremst samt furðu lostin: Hvað í andskotanum gerðist eiginlega?“
Þórhildur Ólafsdóttir keppti í Morfís 1999 og 2000:
Sómamenn og niðurlæging
„Ég tók þátt í MORFÍS árin 1999 og 2000 fyrir hönd MA , þegar ég var sautján og átján ára gömul. Ég var ekki mikill bógur, langyngst í liðinu – liðsfélagar mínir 2-3 árum eldri. Við höfðum líka reyndan þjálfara sem sá að mestu um samskipti okkar við hin liðin og því var ég lítið vör við þegar stælar, útsnúningar og leiðindi vegna umræðu- og dómaravals átti sér stað. Fyrsta keppnin var sjokk. Eftir að hafa borið sigur úr býtum í viðureign við einn skólann tóku liðsmenn hans sig til og dældu óhróðri inn á símsvara skólaskrifstofunnar okkar. Þeir gengu sérstaklega hart að einni liðssystur minni, voru klámfengnir, viðhöfðu niðrandi brandara sem gengu út á kyn hennar og útlit, hótuðu henni meira að segja lífláti. Við fengum skólameistaranum okkar upptökurnar í hendur og hann setti dreyrrauðan, hringdi í skólameistara viðkomandi skóla og úr varð að liðið fékk áminningu og var beðið um að mæta ekki á keppnir þar sem við vorum.
Ég varð svolítið hvekkt við þessa uppákomu – en var í góðu skjóli af liðsfélögum og þjálfara. Við komumst í úrslit og sú keppni var rosaleg. Liðið sem við kepptum við, MH, var harðvítugt strákalið, mjög öruggir ræðumenn. Við unnum engu að síður, það var virkilega gaman og gott fyrir móral og sjálfsmynd skólans.
Árið eftir voru allir sem höfðu verið viðloðandi liðið útskrifaðir, ég ein eftir og að auki formaður málfundafélagsins. Ég sá um að finna til lið sem gekk töluvert brösulega og svo fannst ekki þjálfari, sem var afar bagalegt. Þrátt fyrir velgengni fyrra árs var reynsla mín takmörkuð og allir aðrir nýgræðingar. Í fyrstu umferð drógumst við svo á móti MH liðinu, sem var að mestu skipað sömu mönnum og á síðasta ári. Þeir voru með stóra klíku í kring um sig, staðráðnir í að taka sigurinn í þetta sinn, höfðu engu gleymt frá árinu áður og voru fúlir. Og ég var þarna ein, hinum megin borðsins, að reyna að semja um umræðuefni og dómara.
Þeir tóku þetta á ipponi. Ég komst aldrei að, þeir töluðu yfir mig, sögðu mér að koma suður og ræða við þá. Léku sér að mér eins og kettir að mús, töluðu niður til mín, skiptu um gír, urðu málefnalegir, fóru svo í neðanbeltishúmor, spurðu hvort það væri ekki strákur sem þeir gætu talað við og skelltu svo á. Svo fóru þeir og félagar þeirra að hringja á næturnar. Ég heyrði að þeir hefðu dreift símanúmerinu mínu út um allt. Úr símtólinu streymdu stælar og blautlegur húmor. Ég reyndi eitt sinn að tala í einlægni við einn í liðinu og útskýrði að mér þætti ömurlegt að það væri verið að vekja mig á næturnar. Hann tók fálega í þær umkvartanir.
Við skíttöpuðum keppninni og mér var eiginlega bara létt. Var gersamlega úttauguð eftir það sem á undan hafði gengið. Sjálfsálitið ekki mikið. Ég var eiginlega bara hrædd við þessa gaura. Þeir voru svo miklir karlar í krapinu og voða vinsælir eitthvað, réðu öllu í skólanum sínum; aðalgaurarnir í framhaldsskólalífinu fyrir sunnan. Ég setti bara upp hressleikann, þakkaði þeim fyrir góða keppni, fékk mér meira að segja bjór með þeim á barnum síðar um kvöldið.
Vikuna eftir, þegar ég var að sleikja sárin, hringdi vinkona mín í mig sem var í MH. Í skólanum hafði verið gefið út blað og í því mátti finna langa grein um frægðarför þeirra pilta norður í land til að skeina Akureyringum. Og þar löng og ítarleg útlistun um hvað hún Þórhildur Ólafsdóttir væri ljót og ömurleg. Eiginlega bara eins og hamstur sem væri búið að hamfletta. Þeir sem hafa verið átján ára vita hvaða áhrif svona nokkuð hefur á mann. Tala nú ekki um þá sem hafa verið átján ára stelpur. Mín viðbrögð voru að láta eins og þetta hefði ekki gerst. Ég sagði engum frá. Ég vildi ekki að mínir eigin skólafélagar kæmust að þessu. Fannst eins og að mér væri vegið, að orðspori mínu og félagslegri stöðu. Ég var úthrópuð sem einhver forljótur aumingi af helstu spöðum töffaðasta skólans á landinu. Ég var algerlega niðurlægð. Hafði tapað, átti enga virðingu skilda og var ófríð í ofanálag! Ég hætti í MORFÍS eftir þetta, meikaði ekki að taka enn annað árið.
Ég hef hitt þessa drengi síðar á lífsleiðinni, þetta eru miklir sómamenn. Ég hef aldrei rætt þetta við þá enda hef ég líka alltaf skammast mín fyrir hvað þetta fékk í alvörunni mikið á mig. Ég á bara að vera töff og bera höfuðið hátt. Ekki vera með eitthvað drama, oftúlkanir og tilfinningasemi. En svo stíga fram ungar konur eins og Eyrún Björg (keppandi MA 2014) og Tinna Isebarn (keppandi 2008) og ég átta mig á því að ég er er ENN alveg fokvond og bálreið út af þessu. Og það er þeim að þakka að ég fattaði að á því hef ég bara fullan rétt, andskotinn hafi það! Þannig að. Hæ. Ég er 33 ára gömul kona sem hef notið velgengni í lífinu. Samt upplifi ég enn reiði, særindi og niðurlægingu vegna vondrar reynslu af ræðukeppni fyrir næstum fimmtán árum. Það þarf enginn að biðja mig afsökunar eða að gera neitt. Ég þurfti bara að segja þetta. Og mér líður svo miklu betur.“
María Rún Bjarnadóttir keppti í MORFÍS í 4 ár og til úrslita 1998. Þessi frásögn er frá viðureign við MS 1999:
Þórsmerkurljóð
„Í minningunni eru svona milljón manns í salnum, en í raunveruleikanum hafa þau í mesta lagi verið tvöhundruð. Blöðin með textanum sem dreift var í salnum voru óteljandi, allavega þannig að allir í húsinu fengu eintak, auk þess sem að góður stafli varð eftir fyrir skólafélaga mína að njóta á mánudeginum. Ég man ekkert sérstaklega eftir kynningu liðstjóra hins liðsins, en ég var heldur ekki búin að átta mig þessu textablaði og því síður að allir í salnum væru með það fyrir framan sig.
Þegar hann byrjaði að syngja áttaði ég mig ekki strax, en þegar ég skildi að hann var að leiða salinn í söng um mig missti ég andann. Það er rosalega skrýtin tilfinning að sitja kyrr en finna svita spretta fram í þannig magni að þú finnir hann renna um leið og manni snöggkólnar. Oföndun ofan í að finnast maður ekki geta andað er líka skrýtið. Þetta tók svo sem fljótt af. Ég held að Þórsmerkurljóð sé ekki nema sex erindi. Textinn fjallaði um mig og afrek liðsmanns hins liðsins í þeim efnum (mér). Útlit mitt, ætlaða færni, eiginleika og áhugaatriði á afmörkuðu sviði, að kvöldinu myndi ljúka á þeim nótum og að það mætti ég þakka náðarsamlegast fyrir. „Síðan ætl´ég að sofa hjá þér, María, María. Allir með – líka þið þarna aftast!“
Ég varð fullkomlega miður mín, en ég fór hvorki að gráta né hlaupandi útaf sviðinu. Ég sat þetta af mér og svitnaði á bakinu og fór svo uppí pontu þegar kom að mér. Ég man ekki einu sinni hvernig ég stóð mig. Þegar ég er að skrifa þetta niður, í fyrsta skipti núna, einhverjum 15 árum síðar, rifjast upp fyrir mér að ræðumaðurinn sveiflaði leikmunum afrekum sínum til stuðnings í sinni ræðu. Ég man ekki einu sinni hvert umræðuefni kvöldsins var. Fyrir utan mig auðvitað. Og brjóstahaldarinn minn.
Mig minnir að ég hafi haldið andlitinu allan tímann. Mig minnir líka að við höfum unnið þessa keppni, en þori reyndar ekki að fullyrða um það. Ég geti hins vegar fært til bókar algert niðurbrot inni á klósettinu á efri hæðinni á meðan dómararnir reiknuðu stigin. Man eftir mér reyna að fela ummerki þess þegar það var kallað að niðurstaðan væri að koma. Algert panik. Þú ert ekkert að mæta útgrátin á sviðið! Seinna frétti ég að þeir hefðu notað undirbúningstímann fyrir keppnina meðal annars í að sækja hallærislegar myndir af mér síðan í 10. bekk í gömlu félagsmiðstöðina til þess að skreyta nemendafélagsherbergið með.
Ég ræddi þetta atvik í fyrsta skipti af einhverri alvöru fyrir rúmu ári síðan, þegar ég átti fyrir tilviljun kvöldstund með öðrum gömlum keppanda úr Morfís. Við ræddum heillengi um hversu góður skóli MORFÍS hefði verið. Hversu frábært námskeið í samvinnu, framkomu og því að vinna og greina hugmyndir þetta hefði verið. Þvílíkt masterclass í hugtökum, málsháttum, kaldhæðni og textasmíð. Ég ítrekaði það sem ég hef sagt áður að mér hafi næstum fundist geta dugað mér að hafa sótt tíma í sögu og hugmyndasögu auk Morfís til þess að útskrifast úr menntaskóla. (Hér munu vinir mínir sem sinntu sérkennslu í stærðfræði og stuðningsúrræði í jarðfræði auðvitað mótmæla. Sem betur fer. Enda sagði ég bara næstum.) Ég veit ekki af hverju ég fór að ræða þessa keppni sérstaklega við hana í miðju háflugi um Morfís menntun. Kannski vegna þess að við vorum orðnar nógu gamlar til að skilja þetta betur. Eða vegna þess að hún rifjaði líka upp sársaukafulla fylgifiska þess að vera stelpa sem fór uppí pontu.
Ég ber engan kala til þessara stráka. Ég veit ekki hvort að þeir hafi gert sér nokkra grein fyrir því sem þeir voru að gera í raun og veru. Ég þykist líka viss um að einhverjir þeirra gangi með jafnréttisgleraugu í dag og myndu varla geta gengist við aðkomu sinni að þessari söngstund. Mér kom aldrei til hugar að leita til nokkurs eða kvarta. Ekki hefði ég leitað til skólastjórnenda, stjórnar MORFÍS eða yfirleitt rætt þetta á öðrum nótum en „ó mæ god“ við nánustu vinkonur mínar. Þess vegna er ég ánægð að sjá þátttakendur í MORFÍS dagsins í dag myndi ekki sitja undir afbökuðum flutningi Þórsmerkurljóðs þegjandi og hljóðalaust. Það er hins vegar ferlegt að fimmtán árum seinna þurfi enn að minna á enginn eigi að koma til keppni nema með réttan texta á blaðinu.“
Hvað gerðist eiginlega?
Fyrsta MORFÍS-keppnin er 1985. Fyrsta sagan er frá upphafsdögum keppninnar þegar virðist vera ætlunin að taka kynjamisrétti föstum tökum. Hinar tvær gerast tíu árum síðar og svo þekkjum við nýjustu dæmin, sögu Tinnu Isebarn og Eyrúnar. Þær eru birtingarform menningar sem hefur fengið að þróast nokkurn veginn óáreitt og einkennist af strákahúmor, kvenfyrirlitningu og almennri mannfyrirlitningu undir þeim hugsjónafána að sigurinn einn skipti máli, án tillits til þess hvernig hann er fenginn. Hvað gerðist eiginlega í millitíðinni?
MORFÍS er útsláttarkeppni. Lið sem telur sig standa höllum fæti fyrirfram, getur freistast til að grípa til bellibragða og lágkúru sem jaðrar við einelti, til þess eins að brjóta andstæðinga sína niður með öðrum aðferðum en mælsku og rökfimi. Í hita leiksins er þetta fyndið og skemmtilegt og salurinn tekur undir og „allir“ skemmta sér vel. Ef liðið tapar, er það hvort sem er úr. Að ári kemur nýtt lið og í framhaldsskóla er sagan fljót að gleymast, bæði innan skóla og utan.
Tinna Isebarn varð fyrir barðinu á þessu 2008 og hennar mál komst í fjölmiðla í einn dag eða tvo. Síðan tók annað við. Hún þurfti að rifja upp til að minna á sig. MORFÍS-þjálfarar eiga að búa yfir reynslu og þroska til að leiðbeina ungmennum í þessum efnum. Þeir eiga að hafa yfirsýn, aðstoða við ræðuskrif, semja jafnvel ræður fyrir suma því það er fljótlegra. Þeir hlusta á flutning og leiðbeina. Þeirra er mesta ábyrgðin og sá sem reynir að hvítskúra sig, líkt og margumtalaður þjálfari ræðuliðs MÍ, ætti ekki að koma nálægt ræðuliðum í framtíðinni.
Bjarki Karlsson var meðal stofnenda MORFÍS árið 1985. Hann segir:
„Við komum í kring þjálfun í munnlegri tjáningu og bjuggum til vettvang til að gera hana skemmtilega. Þetta hafði skólakerfið forsómað. Eitthvað skilst mér að það hafi rumskað, þó bara svolítið. Það er prýðileg þjálfun að æfa sig í að tala á með eða móti einhverju efni, óháð sannfæringu sinni. Það skerpir sjálfstraust og rökhugsun og samfélagslega vitund. Þessi keppni gerir mjög mikið gott. Fylgifiskurinn er sá að annað veifið taka þátt í leiknum menn sem hafa ekki þroska til þess, gera út á loddaraskap og hala inn stig fyrir rökleysu. Ég veit ekki hve oft dómblaðinu hefur breytt til að rökin fái meira vægi á kostnað framsagnartækninnar en vandi keppninnar er kannski sá helstur að dómarar hafa oft og tíðum hvorki reynslu né þroska til að dæma rökræðukeppni. Og því miður koma alltaf fram ruddar á öllum sviðum. Þetta er góð keppni. Hún hefur nýst mér afar vel til að geta lesið upp ljóð í fjölmenni og til að kenna í háskólanum. Líka til að kenna dóttur minni að lesa skýrt og fallega upphátt. Öllum sem þátt taka nýtist þessi mikilvæga reynsla á ýmsum sviðum, og já, sumum í pólitík. Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hjörvar og Illugi Gunnarsson voru í Morfís. Brynjar Níelsson og Vigdís Hauksdóttir ekki. Gísli Marteinn var í Morfís. Sigmundur Davíð ekki.“
Það er auðvelt að sjá kostina við MORFÍS. En brestirnir eru margir og sumir hafa fullyrt að þessi keppni hafi komið óorði á mælskulistina og átökin eigi sér ekki síður stað utan ræðupúlts og samkomusala. Á tímum samfélagsmiðla og ljóshraða netsins er auðveldara en áður að beita óþverrabrögðum. Umræður og afsakanir gleymast og fyrr en varir er þráðurinn tekinn upp að nýju. Þessi mynd birtist mjög nýlega á netinu og á að sýna MORFÍS-keppanda í ræðustól. Myndskreytingin talar sínu máli. Er ekki mál að linni?
Ég var stolt af MH og liðinu okkar í Háskólabíói 1989 og keppnin sú var bæði kven- og karlmannlega háð og öllum til sóma. Kannski er ég bara orðin miðaldra og minnið selektíft en ég held þetta nú samt.
Í minningunni er þetta sannarlega gott og skemmtilegt kvöld!
http://timarit.is/files/20042951.pdf#navpanes=1&view=FitH
Takk fyrir góða grein, Brynhildur Björnsdóttir og þið öll hin
Ég vil halda því til haga sem ég komst að rétt áðan að það er rangt sem ég segi í greininni að ég hafi verið fyrst kvenna í úrslitakeppni Morfís. Hið rétta er að það var Ásdís Þórhallsdóttir sem árið 1986, annað árið sem keppnin var haldin, talaði stöðu frummælanda í keppni MH við MR. Ég þarf greinilega að endurskrifa ævisöguna.
„Er ekki mál að linni?“… er ykkur alvara?
Það hafa vissulega orðið mjög leiðinleg og ljót atvik í Morfís, bæði innan sem utan keppniskvölda, enda hafa þau verið harkalega fordæmd af Morfísheiminum þegar svo ber undir.
Keppnin birti okkur vissulega stundum kvenfyrirlitningu, persónuárásir, virðingarleysi og barnaskap sem oft grasserar í samfélaginu öllu og sérstaklega innan framhaldsskóla – en þetta er hvorki orsakað af né einskorðað við Morfís.
Eins og sjá má á frásögnum allra þeirra sem hlut eiga að greininni eru þessi atvik líka undantekningartilvik sem breyta því ekki að keppnin er alla jafna bæði málefnaleg, þroskandi og skemmtileg og að þau, líkt og við fjölmörg önnur, hafa lært heilmikið af henni.
Við sjáum síðan tvö-þrjú ca. fimmtán ára gömul tilvik og síðan tvö sem rekja má til sama þjálfara, manns sem hefur nú sagt skilið við Morfís – og af þessu eigum við að draga þá ályktun að mál sé að linni?
Er það ekki frekar ósanngjarnt gagnvart þeim mikla fjölda fólks sem hefur komið að henni í gegnum tíðina, lagt ómælda vinnu í hana og lært svona mikið af henni?
Í greininni er spurt: “ Er ekki mál að linni“ og það gerir þú líka og bætir við hvort okkur sé alvara. Mig grunar að þú hafir túlkað þessi orð mín þannig að leggja ætti keppnina niður. Svo er alls ekki. Veldur hver á heldur og þegar vandað er til verka með upphaflegan tilgang keppninnar í huga, verður hún eflaust öllum til gagns og gleði. Einkum ef þessum persónulegu árásum á keppendur linnir.
Já, ég túlkaði þau orð víst þannig, í samhengi við fyrirsögnina.
Gott að það var misskilningur. Þá skilast athugasemdin mín vonandi til þeirra sem eru þeirrar skoðunar sem ég skildi út úr lokaorðunum 🙂
Sæll Viktor Orri!
Undanfarna daga hef ég lesið nokkur komment frá þér, bæði hér og á Umræðusíðu Morfís á facebook. Af því sem ég hef lesið að dæma þykir þér mjög vænt um þessa keppni. Sem ég skil vel. Það er í rauninni alveg frábært að fólk hafi áhuga á og geti keppt í rökræðum. Að geta greint góð rök frá slæmum rökum er mjög mikilvægt fyrir lýðræðisleg samfélög. Að hafa möguleika á því að æfa færni sína í rökræðum fyrir framan fullt af fólki er frábært tækifæri. Kannski sérstaklega fyrir þá sem stefna að því að hafa áhrif á samfélagið. Það er einmitt vegna þess að þessi keppni hefur upp á svo mikið að bjóða að það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til þess að taka þátt í keppninni. Það er einmitt vegna þess að þessi keppni er mikilvæg og hefur upp á margt að bjóða sem jafnrétti kynjanna í keppninni er svo mikilvægt.
Af kommenti þínu hér og facebook grúppunni virðist þú vilja gera mikið úr því að reynslusögurnar sem komið hafa upp undanfarna daga séu einsdæmi. En ég vellti því fyrir mér hversu mörg dæmi þú þarft að heyra til þess að sannfærast um að um kerfisbundna mismunun á konum er að ræða innan veggja Morfís?
Ég vill líka benda á að það eru fleiri konur sem hafa sagt sína reynslu af Morfís en þessar fjórar. Það er meira segja svo að þú vitnar í og virðist vera mjög hrifin af grein sem Hekla skrifaði. Hún skrifar bæði um jákvæða og neikvæða reynslu af keppninni. Neikvæða reynslan beindist fyrst og fremst af því að hún er kona. Vegna þess að þú hefur oft vísað í þessa grein finnst mér skrítið af þú hafir gleymt því:
„Ég var ítrekað niðurlægð í þeim aðstæðum sem keppnin bauð upp á. Ég fann oft fyrir kvenfyrirlitningu og var lítillækkuð á marga vegu. Ég var sökuð um að hafa átt vingott við dómara oftar en einu sinni í kjölfar sigurs míns liðs á öðrum liðum. Keppendur í einum skóla, sem tapaði eitt sinn fyrir liði mínu, sömdu í tilefni þess níðsöng um mig og aðra liðsmenn sem var svo dreift um internetið og gerðu síðar, að mér skilst, stólpagrín að mér og frammistöðu minni í árshátíðarmyndbandi skólans. Aðstoðarþjálfari reyndi einu sinni að fá mig til að vera með kynferðislegar aðdróttanir í ræðu minni vegna þess að karlkyns dómararnir myndu hafa svo gaman af því og þegar ég sagðist frekar vilja vera málefnaleg kallaði hann mig leiðinlega tepru. Ég var kölluð feit af andstæðingi uppi á sviði fyrir framan 300 manns. Ég las mörg hundruð viðurstyggileg ummæli um mig og ræðuflutningshæfileika mína á netinu. Ég upplifði stundum að mitt framlag væri ekki jafn mikils virði og karlkyns liðsfélaga minna og fékk ósjaldan að finna fyrir því að ég var auðveldasta skotmarkið í liði mínu vegna kyns míns. Á þessum stundum leið mér vægast sagt ömurlega og íhugaði margoft að draga mig alfarið út úr þessu batteríi. Já, þetta var oft mjög glatað. En að því sögðu langar mig aðeins að rifja upp góðu stundirnar ef ég má.“
http://kvennabladid.is/2014/02/19/morfis-og-hid-eilifa-thraetuepli-hin-hlidin/
Ef þú myndir þekkja til minnar reynslu af keppninni myndir þú líka fá að heyra eina reynslusögu í viðbót sem lýsir því hvernig konum er mismunað í Morfís. Ég var hlutgerð, fannst að mér var ýtt inn karlastaðalímyndarmót sem passaði mér ekki og fékk miklu minni stuðning en hinir liðsmenn mínir sem allir voru strákar.
Ég er viss um að þó að allar reynslusögur kvenna séu ekki jafn öfgakenndar og grófar og þær sem lýst er hér að ofan þá einkennast þær samt alltof oft af kerfisbundinni mismunun. Reynslusögurnar bera merki þess hversu langt þetta hefur gengið og hversu lengi þetta hefur viðgengist. En mismunina má líka sjá á þeim skammarlegu kynjahlutföll sem einkenna keppnina. Kynjaskiptin eru ekki jöfn af því að stelpur af mörgum ástæðum fá ekki sömu tækifæri og strákarnir að taka þátt.
Misrétti kynjanna er ekki eitthvað sem bara á við um Morfís. En það er engin afsökun að ekki takast á við þá mismunun sem á sér stað. Það liggur enginn vafi á því að innan veggja Morfís fá konur ekki sömu tækifæri og karlar og það er ekki komið fram við þær á sama hátt. Þó að manni þyki vænt um þessa keppni skil ég ekki afhverju maður getur ekki á sama tíma barist fyrir jákvæðum breytingum sem stuðla að jafnrétti kynjanna. Mér finnst að ofuráhersla þín á að þessar reynslusögur séu einsdæmi grafa undan því að hægt sé að gera jákvæðar breytingar á keppninni.
Ég vonast til þess að þú endurskoðir afstöði þína og hjálpir til við að bæta jafnréttið í þessari annars ágætu keppni.
Í dag birtir Kvennablaðið þessa grein: Þar er lýst tveimur hliðum á keppninni.
„Ég harma það svo sannarlega að ég og margar kynsystra minna höfum þurft að líða fyrir kyn okkar í Morfís en það er ekki keppnin sem er rót vandans. Fífl í menntaskóla eru ekki fífl vegna Morfís og stjórnmálamenn sem haga sér og rökræða eins og fífl eru svo sannarlega ekki fífl vegna Morfís. Fífl eru fífl – en þau geta lært helling af því að taka þátt í Morfís, verða jafnvel aðeins minni fífl fyrir vikið. Morfís er á endanum lítil keppni fyrir lítið fólk sem hefur alist upp í litlu samfélagi með mörg vandamál og eitt af þessum vandamálum er kvenfyrirlitning og kynbundið ofbeldi. Morfís endurspeglar oft á tíðum þetta litla samfélag og það sem er að því. Er þá spegillinn vandamálið? Eða eigum við kannski frekar að horfa á vandamálið sem hann sýnir okkur?“
Bakvísun: Kvenfyrirlitning er allstaðar – líka í Morfís | Freyjur
Bakvísun: Kvenfyrirlitning er allstaðar – líka í Morfís | Freyjur