Svífandi móðurlíf og skoppandi eistu

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Skíðastökk er karlaíþrótt, birtingarform hugrekkis og dirfsku, enda svimar lofthrædda við að fylgjast með hetjunum hugdjörfu fljúga á ólöglegum hraða fram af stökkpallinum.  Stökkpallar eru misstórir og í skíðaflugi af þeim stærsta er heimsmetið 246 metrar. Þetta er ekki fyrir heybrækur og lengi vel var talið að skíðastökk væri ekki á færi kvenna. „Ef konur slasast við skíðastökk gætu afleiðingarnar orðið verri en hjá körlum. Konur hafa annan tilgang, að ala börn, sinna heimilisverkum og búa fjölskyldunni gott heimili.“

Konur fá nú að keppa í fyrsta skiptið í skíðastökki á Ólympíuleikunum í Sochi. Að hugsa sér að það skuli ekki hafa verið leyft fyrr!

Konur fá nú að keppa í fyrsta skiptið í skíðastökki á Ólympíuleikunum í Sochi. Að hugsa sér að það skuli ekki hafa verið leyft fyrr!

Þessi ívitnuðu ummæli eru ekki frá 19. öld, heldur höfð eftir Alexander Arefyev, rússneskum stökkþjálfara fyrir mánuði. Tilefnið var að nú fá konur í fyrsta sinn að keppa í skíðastökki á vetrar-ólympíuleikunum í Sochi að undangenginni langri baráttu.  Viðhorf Arefyevs ættu að koma á óvart á okkar tímum en álíka röksemdir hafa alltaf heyrst þegar konum er bannað að keppa í ákveðnum íþróttagreinum. Konur kepptu t.d. fyrst í maraþonhlaupi á ÓL 1984 og enn er þeim meinað að keppa í tugþraut í frjálsum íþróttum.

En hvað var svona hættulegt við íþróttaiðkun kvenna?  Nú er vitað að samkvæmt lögmálinu um minnkandi árangur er viðbúið að árangur kvenna mældur í tölum, verði um 20-30% undir árangri karla, vegna minni vöðvamassa, styrks og þols.  Á 19. öld var álitið að líffæri kvenna væru svo viðkvæm að þau gætu losnað frá líkamanum, einkum legið eða móðurlífið, því þá var margt talið stafa af móðursýki eða hysteríu.  Menn sáu fyrir sér svífandi leg yfir stökkpallinum og hrollur fór um sérfræðinga og beturvita.

En konur stukku samt. Fyrsta skráða skíðastökkið á Ingrid Ólafsdóttir frá Noregi, 1862. Samkvæmt heimildum missti hún ekki eggjastokkana við þetta tiltæki, heldur flaug lengra en margir karlar í viðkomandi keppni. Fleiri fylgdu í kjölfar hennar. En það hafði lítil áhrif á karlaveldi íþróttanna. Á fyrstu vetrarleikunum 1924 voru allar greinar eingöngu fyrir karla. Smám saman bættust kvennagreinar við. Þó ekki skíðastökk.

Ladies Ski Jumping 100m Hill - FIS Nordic World Ski Championship 2009

Nokkuð öruggar heimildir eru fyrir því að þessi skíðastökkvari er enn með eggjastokkana sína á réttum stað.

Læknisfræðinni hefur fleygt fram og menn sjá ekki lengur fyrir sér eggjastokka þeytast úr konum yfir skíðastökkpalla en engu að síður eru röksemdirnar líffræðilegs eðlis. „Munum að þetta er eins og að stökkva úr 2 metra hæð þúsund sinnum á ári sem virðist ekki viðeigandi fyrir dömur frá sjónarhóli læknisfræðinnar“. Þetta sagði forseti Alþjóðaskíðasambandsins, 2005. (Hann dró þessa fullyrðingu síðar til baka).

Skíðastökk er erfið íþrótt fyrir alla, konur og karla. Mikið reynir á hné og liðbönd hnjáa, en álagið á kynfærin er ekkert. Að þessari augljósu niðurstöðu komst læknanefnd IOC árið 2002, enda kynfæri kvenna innvortis. Lindsey Van, skíðastökkvari, benti líka á að karlar væru í meiri hættu en konur þar sem þeirra kynfæri væru utanáliggjandi og ef hætta væri á að leg losnaði úr konum, gæti eins farið fyrir eistum og lim karla sem stunduðu skíðastökk. En þar sem konur eru almennt léttari, gætu þær hæglega stokkið lengra en karlar og því eiga sumir erfitt með að kyngja.

Stutt er síðan konur fengu að keppa í skíðastökki á alþjóðavísu. 2009 fengu þær að taka þátt í HM í norrænni tvíkeppni og á HM 2011. En ekki á ÓL og því hafnaði Alþjóðaólympíunefndin í atkvæðagreiðslu 2006. Í von um að komast á vetrarleikana í Vancouver 2010, kærðu 15 stökkkonur skipulagsnefndina þar vegna kynjamisréttis. Málið fór fyrir hæstarétt í Bresku Kólumbíu þar sem dómari dæmdi konunum í hag og taldi IOC óbundna af misréttislögum í Kanada.

Eftir langa glímu við forræðishyggju, hjátrú, gamlar reglur og fordóma fá konur loksins að keppa í skíðastökki á vetrarleikunum 2014. Engu að síður eru þær enn annars flokks þar. Karlarnir keppa nefnilega þrisvar, stökkva af venjulegum palli, stóra pallinum og síðan er 4 manna liðakeppni. Konurnar fá bara einstaklingskeppni af venjulegum palli.

Þetta er miður því konur hafa sýnt að þær eru ekki síðri en karlar í þessari grein. Fyrir leikana 2010 átti Lindsey Van frá Bandaríkjunum lengsta stökk allra, kvenna og karla, af venjulegum stökkpalli (K95), 105,5 metra. Hún fékk ekki að keppa í Vancouver en hefði hugsanlega sigrað þar í karlaflokki. Hver veit? Í þessu myndbandi stekkur hún 93.5 metra.


Sochi 2014 er áfangi sem konur þurftu að berjast lengi fyrir og sumar höfðu gefið upp alla von. Enn vantar þó nokkuð upp á jafnréttið í þessum efnum, varðandi viðurkenningu, aðstöðu til æfinga og keppni og fjárveitingar. Enn virðist þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum hlutum. Ummæli skíðastökksþjálfarans hér í upphafi minna á að grunnt er á gömlum viðhorfum og kannski standa einhverjir kreddukarlar áhyggjufullir fyrir í hæfilegri fjarlægð frá skíðastökkpallinum til að fljúgandi móðurlíf lendi ekki á þeim. Meiri hætta væri á að eistu karlstökkvara skoppuðu niður brekkuna.

(Þessi pistill er að meginefni byggður á grein Amöndu Ruggieri). Þýðing: Gísli Ásgeirsson.

4 athugasemdir við “Svífandi móðurlíf og skoppandi eistu

  1. Takk fyrir þessa samantekt á karlrembu innan íþróttahreyfingarinnar, hún er athygliverð. Ég get hins vegar ekki annað en gert athugasemd við orðalag þess efnis að kynfæri kvenna séu innvortis en kynfæri karla utanáliggjandi. Þessi staðhæfing stenst enga skoðun og er hluti af orðræðu sem þaggar og bælir kynverund kvenna. Ef við samþykkjum að konur hafi bæði möguleika og rétt á að upplifa kynferðislega nautn hljótum við að viðurkenna tilvist snípsins, sem er nákvæmlega alveg eins utanáliggjandi og typpi. (Að sama skapi liggur eitthvað af kynfærum karla í raun innvortis, svo sem blöðruhálskirtill og hluti sáðrásarinnar.) Einhverjum gæti fundist þetta vera orðhengilsháttur hjá mér en ég hafna því. Þessar hugmyndir (um að kynfæri kvenna samanstandi eingöngu af legi og eggjastokkum) skjóta endurtekið upp kollinum, sem sýnir væntanlega að þær eru fremur rótgrónar í menningunni og það er mjög skaðlegt konum og kvenfrelsi.

    • Ég fagna þessari athugasemd sem á rétt á sér og skrifast yfirsjónin á mig sem þýðanda og höfund og meintan sérfræðing um íþróttir á vegum knúzz. Þarna einblíndi ég á það sem almennt má sjá í hæfilegri fjarlægð og var fyrst og fremst að hugsa um þá hættu sem stökkvurum gæti verið búin. Síst vil ég hafna snípnum og alls ekki er ætlun mín að þagga og bæla kynverund. Þessa verður gætt í framtíðinni. Knúz.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.