Hver á kvölina?

Höfundur: Eva Dagbjört Óladóttir

Hann stendur einn í myrku húsasundi. Skuggarnir leika um andlit hans, gæla við há kinnbein og týnast í karlmannlegri skeggrót. Þetta andlit er kyrrt og hart en úr augunum skín örvænting hins stóíska manns sem loksins er kominn á ystu nöf. Á herðum hans hvíla örlög heimsins. Missir hans er stærri en nokkur fær skilið.

Hann gengur hnarreistur inn í skuggann, á vit örlaga sinna. Niður meitlaðan vanga rennur stakt tár.

single tear

Dean Winchester úr sjónvarpsþáttunum Supernatural þjáist iðulega af karlkvöl.

Ég hef misst töluna á því hversu oft ég hef horft á hina kvöldu hetju sýna sársauka sinn á þennan eða svipaðan hátt. Þessi tiltekna birtingarmynd þjáningarinnar þykir  reyndar orðin svo kunnugleg að í netheimum hefur hún öðlast sitt eigið heiti. Þar hefur hún verið nefnd „manpain.“

Karlkvöl (e. manpain) er viðhorf í frásagnarsköpun þar sem litið er á upplifanir hópa í forréttindastöðu sem mikilvægari  í eðli sínu en upplifanir annarra hópa og framsetning sársauka og þjáninga er notuð sérstaklega til þess að undirstrika þetta eðlisbundna misvægi. Þegar við segjum sögur verður til þegjandi samkomulag milli sögumanns og áheyranda sem nær m.a. til þess hvaða gildi skuli höfð til grundvallar frásögninni, hvernig heiminn skuli nálgast gegn um hana o.s.frv. Þegar um er að ræða karlkvalarfrásagnir felur það samkomulag m.a. í sér að:

 • Allir atburðir eru fyrst og fremst skoðaðir út frá því hvaða tilfinningalegu áhrif þeir muni hafa á hina kvöldu hetju (sem
  Aðstandendur Harry Potter lenda í ýmsum hremmingum til að framkalla karlkvalir hjá drengnum sem lifði.

  Aðstandendur Harry Potter lenda í ýmsum hremmingum til að framkalla karlkvalir hjá drengnum sem lifði.

  tilheyrir, eins og áður sagði, nær undantekningarlaust hópi í forréttindastöðu). Hennar sársauki er mikilvægastur og til að undirstrika það er þjáningin oft yfirdrifin. Þannig er Harry Potter ekki bara munaðarlaus, heldur missir hann einnig guðföður sinn og læriföður, horfir upp á skólafélaga sinn myrtan, neyðist til að fórna (þó aðeins tímabundið) sambandinu við ástina í lífi sínu og er að lokum alger miðpunktur orrustunnar við Hogwart’s. Atburðir eins og stríð, slys, árásir, morð o.s.frv. virðast vera til staðar í frásögninni nær einungis til að hetjan geti brugðist við þeim með viðeigandi sálarangist. Að viðkomandi hörmungar geti valdið öðrum persónum þjáningum er, ef það er yfirleitt athugað, algert aukaatriði.

 • Söguhetjum í forréttindastöðu eru eignaðar upplifanir annarra. Persónum sem eru hinni kvöldu hetju nánar er bakaður sársauki gagngert til þess að hetjan geti orðið vitni að honum og þjáðst meira. Þannig er Rachel Dawes (Batman: The Dark Knight) rænt og hún að lokum myrt aðallega til að bæði Batman og Harvey Dent geti verið eyðilagðir menn. Þannig er sársauki persóna úr undirskipuðum hópum ekki bara minna mikilvægur heldur er eignarhald þeirra á eigin sögu og eigin upplifun hreinlega tekið af þeim. Það sem skiptir hér mestu máli er hver er í aðalhlutverki en munurinn á eðlilegri, æskilegri samkennd og karlkvöl liggur einmitt þar. Sá sem hefur samkennd með einhverjum deilir þjáningum viðkomandi en sá sem líður karlkvalir eignar sjálfum sér þjáninguna og tekur sér vald yfir sögunni sem þar er á bak við.
batman

Allar heimsins byrðar hvíla á gúmmíklæddum öxlum Leðurblökumannsins.

 • Aðeins meðlimir hópa í forréttindastöðu hafa vald yfir sjálfum sér og umhverfi sínu. Eitt af einkennum hetjufrásagna er að það eru gerðir hetjunnar sem skipta máli. Það er hún sem bregst við aðstæðum, stígur fram og fremur þær dáðir sem aðra dreymir um. Gerandahæfni hetjunnar og vald manneskju í forréttindastöðu leggjast þannig á eitt um að gera hina þjáðu
  Herra Darcy líður sálarkvalir fyrir að hafa ekki hindrað Wickham frá því að valda öðrum skaða.

  Herra Darcy líður sálarkvalir fyrir að hafa ekki hindrað Wickham frá því að valda öðrum skaða.

  hetju að eina hreyfiafli sögunnar. Þar sem hin kvalda hetja er nærri alvöld innan söguheimsins telst hún einnig ábyrg fyrir þeim hörmungum sem yfir aðra koma, hversu langsótt sem það kann að virðast. Þetta veldur hetjunni sektarkennd sem skapar enn meiri sálarkvalir. Sem dæmi um þetta má nefna hinn ástkæra herra Darcy (Hroki og hleypidómar) en hann eignar sér þann sársauka sem systir hans upplifir í samskiptum við herra Wickham og tekur á sig ábyrgð á öllum misgerðum Wickhams uppfrá því. Hetjan okkar kvelst því orðið af þeim yfirgengilega sársauka sem henni sjálfri er skapaður, af sársauka annarra sem henni hefur verið eignaður og af sekt yfir öllu því sem miður fer  í heiminum. Það er greinilega enginn dans á rósum að vera í forréttindastöðu.

 

Buffy er hin útvalda og því fylgja karlkvalir

Buffy er hin útvalda og því fylgja karlkvalir

Það á hvern karlkvölin leggst fer alfarið eftir stöðu viðkomandi í stigveldi feðraveldisins (e. patriarchal  hegemony). Því „hærra“ sem einstaklingur situr í þeim vef, því líklegri erum við til að veita viðkomandi þau samþykki sem ég nefni hér að ofan. Fólk sem tilheyrir undirskipuðum hópum getur því þjáðst af karlkvöl ef það tilheyrir einnig hópi í forréttindastöðu. Þannig eru til kvenpersónur sem þjást af karlkvöl, sem dæmi má nefna vampýrubanann Buffy (Buffy the Vampire Slayer) sem ein ber ábyrgð á að bjarga heiminum, en þær eru í mjög miklum minnihluta. Tenging fyrirbærisins við karlkyn viðkomandi hetju er yfirþyrmandi. Jafnvel hef ég grun um að orðið „manpain“ hafi orðið til í þeim galsa sem vill grípa konu þegar hún horfir í hundraðasta skipti upp á karlpersónu velta sér á dramatískan hátt upp úr sársauka sem hann á aðeins óbeint hlutdeild í.

Sterk tengsl forréttinda og þjáningar eru reyndar alls ekki nýjung í bókmenntasögunni. Hin býrónska hetja sækir karlmennsku sína að mestu leyti í myrkar sálarkvalir. Einnig má tengja „byrði hins hvíta manns“ (e. white man’s burden) þessari hugmynd um vald og forréttindi sem bölvun eða fórn þeirra sem þeirra njóta. Hugtakið karlkvöl vísar til þess hvernig þessum tengslum er háttað á okkar tímum en þar spila fjölmörg atriði vitanlega inn í eins og t.d. þær kröfur sem ríkjandi karlmennska samtímans gerir til karlmennsku hetjunnar. Fyrirbærið er einnig oft samverkandi með öðrum vinsælum sniðmátum (e. tropes) samtíma sagnamenningar eins og t.d. „kona í klípu“ (e. damsel in distress) – en þjáningar hennar má auðveldlega eigna karlhetjunni sem elskar hana jú svo ósköp mikið – og „konur í kæliskápum“ (e. women in refrigerators) – þar sem ekki er einu sinni samkeppni um sársaukann.

green lantern

„Konur í kæliskápum“ (e. Women in Refrigiators) nafnið á rætur sínar að rekja til þessarar senu úr teiknimyndasögunni Green Lantern

Eins og áður hefur komið fram er karlkvöl birtingarmynd ákveðins viðhorfs. Karlkvalarfrásögn er búin til í heimi þar sem reynsla og gerðir einstaklinga í forréttindastöðu eru í eðli sínu mikilvægari en reynsla og gerðir annarra manneskja. Það má deila um það hversu mikil áhrif frásagnir hafi í raun á hugmyndir fólks og gildi en því verður ekki neitað að viðhorf sem eru ríkjandi í frásögnum menningarheims eiga sér yfirleitt samsvörun í ríkjandi viðhorfum menningarheimsins almennt. Því er ástæða til að við spyrjum okkur, þegar við skoðum þær sögur sem við lifum á hverjum degi, hvaða óyrta samkomulag við höfum gert um þær og hvort ekki sé ástæða til að endurskoða það.

Greinin byggir á B.A. ritgerðinni „The Privilege of Pain: „Manpain“ and the Suffering Hero in the Supernatural Series“ sem höfundur skrifaði við Háskóla Íslands haustið 2013.

Viðauki:

Bloggarinn Thingswithwings hefur klippt saman karlkvalarmyndskeið  sem gerði víðreist á netinu og skrifaði í framhaldinu greiningu  á fyrirbærinu.

Hér má einnig sjá dæmi um karlkvalarsenur úr sjónvarpsþáttunum Supernatural , Criminal Minds  og Doctor Who 

6 athugasemdir við “Hver á kvölina?

 1. Hrikalega skemmtilegt knúz. Hef einmitt tekið eftir þessu í Harry Potter – dauðarnir snúast um að Harry læri af því eða til að búa til hugmyndina um að staðan sé alvarleg og virkuðu oft feik á mig.

  Mér finnst mikilvægt að fólk sem skapar sögur (rithöfundar, kvikmyndagerðarfólk, etc) íhugi hver er tilgangurinn með þessari sögu sem þau eru að skapa. Er þörf fyrir hana? Hefur saga þessa karakters verið sögð milljón sinnum áður í aðeins mismunandi birtingarformum? Viðheldur þessi saga viðteknum valdahlutföllum eða truflar hún þau?

 2. Áhugaverð grein. Mig langar samt að forvitnast um nokkra hluti.

  Myndir þú segja að karlkvöl í frásagnarsköpun ákveðinna listamanna sé meðvitaður hlutur og honum beitt mjög nákvæmt til að hefja forréttindahóp upp á kostnað annarra? Ég upplifi fyrirbærið meira sem undirmeðvitundarlegt.

  Eru allar frásagnir af forréttindahópum til þess fallnar að hefja þá upp á kostnað undirokraðra hópa? Er pólitískt séð þá ekki hægt að hafa samúð með neinum karlmönnum í neinni mynd og þá heldur ekki konum eins og Buffy sem væru skilgreindar í þessum hópi?

  Nú hefur kvikmyndagerðarmaðurinn Sofia Coppola verið gagnrýnd meira en margir aðrir fyrir þær persónur sem hún hefur ákveðið að varpa ljósinu á og hefur meðal annars verið sökuð um „poor-little-rich-girl“ syndróm. Ef þú hefur séð einhverjar af myndunum hennar þætti mér áhugavert að vita hvað þér fyndist um þessar fullyrðingar gagnrýnenda hennar.

  • Ég er ekki höfundur greinarinnar en ég mundi segja að þetta sé að einhverju leyti meðvitað og að einhverju leyti ómeðvitað, líkt og flest sniðmát. Sniðmát (trope) eru frásagnarflýtileiðir til að koma áhorfendum snögglega í skilning um hvað þeim á að finnast um viðfangið: Vonda stjúpan, illi galdrakarlinn, dyggi aðstoðarmaðurinn, vergjarna sexý konan, o.s.frv.

   Frásagnir af forréttindahópum eru alltaf á línu nærri því að verða próblematískar og það þarf mikla meðvitund til að forðast þau vandamál alveg. Það er margt próblematískt við myndir Sofiu Coppola (sem og flestar aðrar Hollywood myndir) en það þarf ekki nauðsynlega að draga úr gæðum þeirra. Meðvitund áhorfandans um þessar próblematísku birtingarmyndir breytir hins vegar upplifuninni.

  • Sæll Sveinbjörn

   Ég er sammála þér með það að karkvöl virðist oftast (þó ekki alltaf) vera notuð á ómeðvitaðan hátt. Hún er hluti af því “verkfærasetti” sem notað er við sagnagerð og vel er hægt að grípa til hennar við þá vinnu án þess að hafa skoðað hana niður í kjölinn.

   Það falla ekki allar frásagnir af fólki í forréttindahópum inn í þetta ákveðna sniðmát (en ég tek þó undir með Kára Emil að þær eru líklegar til að vera problematískar á margan hátt). Ég tel að það sem aðallega einkenni karlkvalafrásögn sé þetta þögla samþykki um að atburður öðlist þá aðeins merkingu ef hann hefur tilfinningaleg áhrif á einstakling í forréttindastöðu. Því verður að eigna alla atburði viðkomandi forréttindahetju og öll frásögnin verður hennar svæði.

   Sumir hafa nefnt Mal Reynolds í þáttaröðinni Firefly sem ókarlkvalda hetju (en það er þó umdeilt). Hann á sér erfiða fortíð og hefur ríka ábyrgðartilfinningu en tekst samt yfirleitt að taka bara ábyrgð á því sem hann raunverulega ber ábyrgð á og að láta það vera að ryðjast inn í sögur annarra. Mér finnst John Crichton í þáttaröðinni Farscape vera annað ágætt dæmi. Þó hann sé á margan hátt “útvalinn” virðist samþykkið í sögunni yfirleitt vera á þá leið að hann sé bara ein manneskja í alheiminum og að fólkið í kring um hann eigi sér eigin vandamál sem hann á ekki eignarrétt að.

   Ég þekki því miður ekki til mynda S. Coppola 🙂

   • Takk fyrir greinargóð svör. Ég er að mörgu leiti sammála þessum niðurstöðum þó ég seti varnagla við ákveðna hluti.

    Í öllu falli er þetta áhugaverð umræða 🙂

 3. Bakvísun: Myndin af Ragnheiði | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.