Þegar nauðgarinn er í nærumhverfinu

Höfundur: Ritstjórn

**VV** (Varúð váhrif, e. Trigger warning, gæti vakið sterkar tilfinningar hjá þolendum kynferðisofbeldis)

Þeim tölum sem til eru um tíðni nauðgana á Íslandi, sem og annars staðar, ber öllum saman um að í meirihluta tilfella er nauðgarinn einhver sem þolandi þekkir fyrir, t.d. maki, ættingi, vinur, vinnu- eða skólafélagi. Í ársskýrslum Stígamóta til að mynda er hlutfall nauðgana þar sem sá brotlegi var einhver kunnugur eða nákominn þolanda svo mikið sem 85%. Það er því raunveruleiki margra þolenda að þurfa að vera í einhverjum samskiptum við nauðgara sinn eftir árásina jafnvel þó ekki sé um nauðgun innan sambands að ræða, vegna tengsla í gegnum þriðja aðila. Ofan á þetta bætist að Ísland er lítið land svo jafnvel þó að þolandanum takist að slíta öll tengsl við aðilann sem ofbeldinu beitti er líklegt að leiðir liggi saman á einhverjum tímapunkti, þó ekki sé nema það að þolandinn sjái ofbeldismanninn/-konuna á götu. Fyrir þau sem ekki hafa upplifað ofbeldi eins og nauðgun getur verið erfitt að setja sig í spor þeirra sem það hafa, þá kannski sérstaklega hvað varðar tilfinningalegu eftirköstin. Eitt slíkt er það hvernig  fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis upplifa það að sjá, hitta og/eða þurfa að vera í samskiptum við þann sem ofbeldinu beitti. Um þetta er þörf á meiri fræðslu og umræðu. Þess vegna ákvað Knúzið að birta eftirfarandi bréf. Bréfritari skrifar það til nauðgara síns, sem er skólafélagi hennar í framhaldsskóla á Íslandi.

Bréf til Daníels

portrait of a heartÞað er liðið bráðum hálft annað ár síðan þú nauðgaðir mér og ég er enn að uppgötva hinar ýmsu afleiðingar þess. Núna síðast um daginn tók ég út kvíða- og brjálæðiskast á kærastann minn fyrir að hafa orðað eitthvað vitlaust þegar hann talaði við mig – eitthvað svo smávægilegt að það ætti ekki að skipta neinu máli. Af hverju? Orðalagið minnti á þig. Þetta grátkvöld hafði í för með sér að ég uppgötvaði betur hversu innilega kaldrifjað óréttlæti heimsins getur verið. Það sem þú gerðir mér bitnar meira á kærastanum mínum en á þér.

Það er í raun skerðing á frelsi kærastans míns að hann geti ekki sagt hinar ýmsu fullkomlega eðlilegu samsetningar orða þegar hann talar við mig bara af því að þú hefur sagt við mig eitthvað svipað. Jæja, þú, eða þá vinir þínir, þar sem þið hafið öll tekið ykkur saman og lagt mig í einelti undanfarið eitt og hálft ár.

Við erum saman í skóla, á sömu námsbraut, oft í tímum í nálægum stofum og lifum að ýmsu leyti mjög samhliða félagslífi. Þess vegna gerist það af og til að eitthvert ykkar, þú eða þínir vinir, drekkur of mikið og hellir sér yfir mig í einhverju partíinu, á djamminu eða guð má vita hvar, og kallar mig ýmsum nöfnum svo ógeðslegum að ég vil ekki endurtaka þau. Verst var það samt þegar vinkona þín og reykingafélagi (þú veist fullvel við hverja ég á) sagði við mig að hún tryði mér ekki, hún tryði því ekki að þú hefðir nauðgað mér. Eitt það versta sem þú getur sagt við manneskju í minni stöðu.

Það sem gerði þó útslagið í allri þinni hræsni og tvöfeldni var þegar þú hélst fyrirlestur í skólanum fyrir samnemendur okkar um kynferðisofbeldi. Ég gekk inn í matsalinn í hádegishléinu og það fyrsta sem ég heyrði voru eftirfarandi orð af þínum vörum ómandi í hátalarakerfinu. „Við verðum að binda enda á kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum.“ Það lá við að ég kastaði upp þá og þar en ég lét mér nægja að stara í gaupnir mér og titra óstjórnlega næstu 3 tímana. Takk fyrir þann ánægjulega eftirmiðdag sem þú hefur sjálfsagt enga hugmynd um að þú hafir látið mig ganga í gegnum.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort þú áttir þig ekki á því sem þú gerðir mér. Þar sem þú hafðir hellt í mig óteljandi skotum áður en þú ruddist inn í mig óboðinn þá voru andmæli mín þannig að lögfræðingum þættu þau liggja við að vera samþykki. Kannski manstu sjálfur ekki eftir þessu augnabliki. Þetta var eftir að þú klæddir mig úr og hélst á mér ósjálfbjarga og fáklæddri inn í rúmið þitt. Ég man það mjög vel, hugurinn var skýr þó að líkaminn væri máttlaus. Af og til endurupplifi ég það, yfirleitt á þessu ákveðna augnabliki rétt áður en maður sofnar en þá verður lítið úr þeim nætursvefni. Ég hvíslaði í eyrað á þér af því ég megnaði ekki að tala upphátt, ég hvíslaði að þetta væri rangt og ekki í lagi. Þú varst sko aldeilis ekki sammála, þetta væri alveg í lagi, þú hefðir horft svo lengi á mig úr fjarska af því ég væri svo falleg og svo heit og þannig vall upp úr þér ógeðið endalaust áfram og áfram og drekkti mér eins og þú værir ekki þegar búinn að drekkja sjálfsvitund minni í ópalskotum. Ég gat ekki haft nein áhrif á atburðarásina, þú þaggaðir niður í mér og gerðir við mig það sem þú vildir.

Sjálf skildi ég eftir á ekki hvað hafði gerst. Ég var í afneitun og sannfærði mig um að allt væri í stakasta lagi. Seint gleymist dagurinn sem ónefndur vinur minn, eftir að hafa heyrt frásögn mína af þessu kvöldi, útskýrði fyrir mér að miðað við það sem ég hefði sagt hefði mér verið nauðgað. Það var ekki fyrr en hann sagði það sem ég byrjaði að meðtaka það sjálf. Allt sem ég hafði meðvitað og ómeðvitað byrgt inni braust fram. Ég hef síðan þá sagt mörgum frá þessu. Að vísu ekki foreldrum mínum, ég hef ekki getað það enn, en vinum mínum og vinkonum, allir mínir nánustu vinir vita það og jafnvel ýmsir kunningjar ekki jafn nánir. Meira að segja þínir vinir hafa heyrt af því, þó þau séu innbyrðis sammála um að við höfum klárlega sofið saman með mínu samþykki.

Kærastinn minn veit þetta líka og þess vegna umber hann að ég skuli af og til fyrirvaralaust brotna niður og verða að engu. Á þannig stundum byrja ég á að horfa út í loftið, stundum í heilan klukkutíma, án þess að segja aukatekið orð, hætti að anda í eina og eina mínútu, til að finnast ég hafa þó stjórn á einhverju. Hann heldur í höndina á mér jafn þögull. Því næst verð ég reið út í hann, sem aldrei hefur gert mér neitt, og hvæsi eða öskra á hann. Oft vil ég helst fara eitthvað ein, ýmist langt í burtu eða undir sæng og aldrei koma undan henni aftur. Svo enda ég á að gráta á öxlinni á honum. Þetta getur tekið marga tíma og gerist reglulega. Ég er heppin að eiga kærasta eins og hann. Hversu margir aðrir myndu einfaldlega ekki nenna þessu og stinga af með fyrstu vindhviðu?

Svona er lífið öfugsnúið. Þú nauðgaðir mér. Ég reyndi að tala við þig því við vorum jú vinir en þú ákvaðst að snúast gegn mér og taka allan vinahópinn með þér í sameiginlegu átaki um að brjóta mig niður og útskúfa mér. Það má jafnvel segja að ykkur hafi tekist það, tímabundið allavega, en eitt kvöldið eftir slæma útreið af þinni hálfu (þó í orðum að þessu sinni), þar sem ég sat og grét, kom til mín ung kona og sagði mér nokkuð. Þessi sömu orð hef ég sagt hverjum sem á þarf að halda síðan þá.

Heimurinn er svo miklu stærri en þú.

7 athugasemdir við “Þegar nauðgarinn er í nærumhverfinu

  1. Gangi þér unga kona, þú ert hugrökk. Ég hvet þig til að kæra manninn, það er ekkert annað i stöðunni, hann framdi glæp á þér og það er alls ekki þín sök á nokkurn hátt, hann situr uppi með skömmina en ekki þú !

  2. Ég vil þakka þeim hugrakka þolanda sem treysti okkur fyrir sögu sinni. Takk nafnlaus, rödd þín skiptir máli. Gangi þér sem allra best og láttu engann segja þér hvernig þú átt að vinna úr þínum málum. Þetta er þín saga og engin ein leið er „rétt“. Knúz

  3. það er svo ömurlegt að fólk sem gerist sekt um nauðganir geti í raun verið þeir sem
    þykjast standa á móti nauðgunum og kynferðisofbeldi í almennu umhverfi,og jafnvel þannig nálgast fleiri fórnarlömb, á grundvelli fals trausts.því það að vera baráttumaður og að tala gegn kynferðisofbeldi getur verið gott skjól fyrir svona óskapnað.
    kannski einmitt þessvegna básúnar hann sig í kallkerfi skólans,hann er ekki aðeins nauðgari,hann er sigri hrósandi,telur sig ósigrandi,hann er sociopati með mikilmennsku syndróm.hann hefur örugglega gert þetta áður og þú varst örugglega ekki sú eina sem vissir betur þarna í salnum.
    þú ert einstök og þú ert sterk.ekki halda annað.haltu þínu striki og sama hvað annað þú ákveður,njóttu þess að vera þú,gráttu,vertu til,farðu í andaferð á tjörnina og ákveddu góðan mat í kvöld.lifðu stelpa.
    takk fyrir góða grein.kv,íris geirdal.

  4. Takk kærlega fyrir að deila þinni sögu með okkur, vel gert! Ef þú skyldir ekki vera búin að fara til Stígamóta, þá langar mig bara að segja að það hefur reynst þeim sem ég þekki ótrúlega vel. Ég óska þér alls hins besta.

  5. Takk fyrir að að deila þessu. Minnir mig á atriði úr þáttum sjónvarpsins „Spilaborg“ eða „House of Cards“ í gærkvöldi sem fjalla um refinn Francis Underwood og hans vafasömu atlögu að forsetaembætti BNA, þar sem kona hans sat í veislu með honum til heiðurs tveimur herforingjum. Annar heforingjanna var fyrrverandi skólabróðir konunnar og hallaði sér að henni og kyssti kunnuglega á kinn þegar maður hennar kynnti þau og lét þau orð falla að þau þekktust frá því í framhaldsskóla. En hann var í rauninni nauðgari hennar frá þeim tíma. Robin Wright, sú góða leikkona túlkar þetta atriði svo ótrúlega vel, það er ekki hægt að lýsa því það verður að horfa á. Ég varð miður mín þrátt fyrir alla þá óvægni sem hún er látin túlka í sínu hlutverki í samskiptum við fólk. Það er þetta augnablik, að hitta eða þurfa að vera í návist geranda síns sem er óhugnaðurinn og hvernig fórnarlamb þarf að lifa við og með því. Vona að þú getir fundið frið með tímanum, hvernig sem þú gerir það.

  6. Takk svo kærlega fyrir að stíga fram, fyrir að birta frásögn þína. Þetta er veruleiki sem þarf að ræða, þetta er umræða sem þarf að eiga sér stað. Það er reynsla brotaþola sem skiptirmáli og takk fyrir að ljá henni orð, fyrir að deila reynslu þinni með okkur. Ég vona innilega að þú finnir þína leið, þá leið sem þér hentar,og fáir þann stuðning sem þú þarft og vilt.
    Ég get ekki gert annað en að þakka þér fyrir aftur.

  7. Takk fyrir að deila þessari frásögn þinni með okkur. Við sem höfum ekki upplifað þetta getum aldrei gert okkur í hugarlund hvers konar niðurbrot þetta er. Það er greinilega engin iðrun í gangi hjá þessum aðila – hann heldur markvisst áfram að brjóta þig niður ásamt vinum sínum. Ég hvet þig til að kæra hann – þó ekki komi meira út úr því en að lækka á honum rostann, þá er það til bóta. Hans er skömmin og ábyrgðin! Og eins og einn skrifar hér fyrir ofan, þá er ekki ólíklegt að þú sért ekki sú eina og líkur á því að hann haldi áfram þar til hann verður stoppaður. En vertu dugleg að deila þínum tilfinningum með einhverjum sem þú treystir – kærastanum, Stígamótum eða pappírnum – það hjálpar. Og í guðanna bænum talaðu við foreldra þína (ef þú treystir þeim yfirleitt) eða sýndu þeim þessa grein – þeir hafa örugglega áhyggjur af þér og finna að eitthvað hefur gerst í þínu lífi. Gangi þér vel að byggja þig upp – mér sýnist þú vera á góðri leið, þó enn sé langt í land. Knúz til þín.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.