Barmar og gerpi — Hugleiðingar um kyn þáttastjórnenda í útvarpi

Höfundur: Stefán Ingi Stefánsson

Fyrir tveimur mánuðum hlaut ég nafnbótina Jólagerpið 2013. Það var óvænt og frekar skrýtið í alla staði. Sérstök upplifun að vakna við það að morgni dags 20. desember að umsjónarmenn þáttarins Harmageddon, sem ég þekki ekki og hef aldrei talað við hafi tekið tæpar 10 mínútur í að tala um mig sem gerpi. Ég hef lengi haft áhuga á hlutfalli kynjanna í fjölmiðlum og sá áhugi hefur sameinast Excel-nördinu í mér sem hefur síðan fætt af sér hinar og þessar töflur og gröf með margvíslegri kynjagreiningu á efni í fjölmiðlum. Yfirleitt er þetta bara eitthvað sem ég geri heima og þusa svo yfir við fólkið í kringum mig. Þessi árátta mín hefur vaxið á síðustu árum í réttu hlutfalli við áhuga minn á femínisma og langar mig að deila hluta af hugleiðingum mínum hér.

Fengum feðraveldið í arf

Ég vinn hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Fyrir sex árum réðumst við í stóra auglýsingaherferð. Fram kom fullt af skemmtilegum og fyndnum hugmyndum sem fóru síðan í framleiðslu. Afraksturinn var röð sjónvarpsauglýsinga. Á frumsýningunni benti einhver á að nánast eingöngu karlar væru á skjánum og ekki bara það heldur væri grínið líka frekar karllægt. Ég tók þessari ábendingu illa. Fannst hún óþarfa aðfinnsla og að þetta hefði sko ekki verið ásetningur. Auglýsingarnar voru það sem kom út úr þessu vandaða og vel unna ferli og þetta voru bara bestu hugmyndirnar.

Í baksýnisspeglinum voru allar ábendingarnar réttar. Og spurningarnar sem ég sat eftir með voru: Af hverju fór ég út í stóra auglýsingaherferð sem var bara með körlum? Af hverju gerðist það óvart? Hvernig hafði ég ekki hugsað út í þetta? Og af hverju tók ég þessum ábendingum svona illa?

Seinustu ár hef ég verið duglegur við að telja hausa. Það er auðvitað ekki endanleg lausn á öllu en mig langar ekki að lenda óvart á þeim stað aftur að bjóða upp á efni sem á að höfða til allra og hafa breiða skírskotun – en er einungis með körlum. Ef ég verð aftur bara með karla í verkefni sem ég stýri vil ég að það verði meðvituð ákvörðun en ekki af því að ég tók einfaldlega ekki eftir kynjaslagsíðunni. Ég hef mikið velt fyrir mér af hverju við gerum karllægar auglýsingar án þess að vita af því og af hverju endalausir þættir  eru í útvarpi og sjónvarpi þar sem karlar tala við karla. Án þess að hafa fundið neinn stóran sannleika finnst mér eins og við höfum öll fengið í arf samfélag þar sem verulega hallar á konur á ótal sviðum. Ég held að svona skakkt samfélag sé ekki yfirvegað og úthugsað plott gegn konum. Ójafnrétti er og hefur verið hluti af kerfum okkar og skekkjan viðheldur sér. Karlar hafa meira aðgengi að fjármagni, fjölmiðlum og stjórnmálum – og það er auðveldara að vera karl á þessum sviðum samfélagsins (og fleirum).

Barmageddon og Jólagerpið 2013

Frá því í haust hef ég verið aðdáandi útvarpsþáttarins Barmageddon. Bæði finnst mér hugmyndin á bak við hann skemmtileg og þáttastjórnendurnir vera framúrskarandi klárar og drífandi konur. Rétt fyrir jól var ég að pæla eitthvað í kynjaskiptingu þáttastjórnenda í útvarpi og sá að þeirra þáttur er sá eini á dagskrá X-ins sem konur koma að. Ég var búinn að skoða allar hinar stöðvarnar í fyrrgreindum femínískum Excel-nördaskap og sá að X-ið var með versta hlutfallið.  Með þetta í höndunum skrifaði ég komment á vegg þáttarins á Facebook og smellti inn svona eins og einu skífuriti. Þetta var frekar vanhugsað – átti bara að vera smá hvatning til umsjónakvenna Barmageddon. Lítið aðdáendabréf.

Stjórnendur útvarpsþáttarins Harmageddon sáu hins vegar kommentið og tóku því ekki vel. Þeir nýttu morgunþátt sinn daginn eftir til þess að gera lítið úr mér. Sögðust þekkja svona karl-femínista og að ég væri auðvitað bara að reyna að komast upp í rúm með stjórnendum þáttarins. Þeir drógu í efa útreikninga mína, sögðu að þetta gæti ekki verið og væri örugglega vitlaust reiknað. Virtust vissir um að aðrar stöðvar væru mun verri en þeirra og enduðu á því að útnefna mig Jólagerpið 2013, enda var þessi uppákoma að morgni 20. desember.

Það var klárlega ekki ætlun mín að setja þessar vangaveltur í þennan farveg og ég hafði lítinn áhuga á að fara í persónulegan leðjuslag við þáttastjórnendurna. Ég eyddi því kommenti mínu hið snarasta, þar sem eitthvað sem átti að vera jákvæð hvatning til Barmageddon var að snúast upp í stríðsyfirlýsingu við Harmageddon. Vangaveltur mínar um kynjahlutfall í fjölmiðlum snúast alls ekki um X-ið eða þessa tvo þætti, né heldur snúast þeir um persónulegar árásir – né að væna einn eða neinn um að bera ábyrgð á öllu misrétti heimsins. Alls ekki.

Því langar mig að setja þetta fram af meiri yfirvegun og vonandi án þess að neinn taki þessu persónulega.

Greining á kyni þáttastjórnenda í útvarpi

Hvaða leið er best að nota til að greina hlut kynjanna í ljósvakamiðlum? Ég er búinn að velta þessu þó nokkuð fyrir mér. Í miðlunum eru margar og mismunandi stöðvar og munurinn á milli þátta er líka mjög mikill. Stöðvarnar hafa mismunandi markmið og reyna að sinna mismunandi markhópum.  Er rétt að telja þáttastjórnendur eða viðmælendur eða hvora tveggja? Á að taka tillit til tíma í útsendingu? Hlustun er síðan ekki jöfn sem aftur gefur þáttum mismikið vægi í samfélagsumræðu.

Allt eru þetta spurningar sem eru áhugaverðar og ég er ekki með nein svör við. Mig langaði hins vegar að fá einhverja hugmynd um hlutskipti kynjanna og prófaði mig áfram með aðferð sem er frekar einföld en ætti að geta gefið einhverja vísbendingu um hver staðan er. Ég ákvað að byrja á útvarpi og taldi þáttastjórnendur allra útvarpsstöðva í eina viku. Hver einstök útsending var talin en ekki endurflutningur. Það þýðir að reglubundnir þættir eru taldir eins oft og þeir eru á dagskrá innan einnar viku án endurtekninga. Ég ákvað síðan að taka fréttalestur ekki með, né þuli á Rás 1. Það var raunar einungis gert af praktískum ástæðum þar sem upplýsingar um fréttalesara og þuli eru ekki auglýstar í dagskrá. Loks tók ég útvarpsleikhús ekki með af sömu ástæðu.

Ég ákvað síðan að reikna hlutföllin út með því að telja hvern þáttastjórnanda fyrir sig og gefa vægi eftir lengd þátta. Það er hægt að reikna þetta með öðrum hætti og ég setti upp þrjú önnur dæmi hér að neðan í smá viðauka fyrir áhugasama.

Það hefði verið mjög áhugavert að telja viðmælendur í þáttum en það var líka of mikil vinna. Hins vegar er full ástæða til að kyngreina íslenska fjölmiðla betur og þá ekki bara útvarp heldur líka sjónvarp, prentmiðla og vefmiðla. Það væri frábært ef hægt væri að gera greiningar eins og Women’s Media Center gerir í árlegri skýrslu um fjölmiðla í Bandaríkjunum.

Niðurstöður

Upplýsingar um þáttastjórnendur voru teknar af heimasíðum stöðvanna eins og þær birtust vikuna 17. til 23. febrúar 2014. Ég tók ekki með Útvarp Sögu, Flash eða Lindina þar sem ég fann ekki birta dagskrá stöðvanna á netinu. Niðurstöðurnar eru mjög skýrar: Að meðaltali eru þrisvar sinnum fleiri karlar en konur sem stjórna útvarpsþáttum á Íslandi (sjá mynd 1).

mynd1

Mynd 1.

Munurinn á milli stöðva er mjög mikill en það er bara ein stöð þar sem hlutfallið er nánast jafnt, þ.e. Rás 1. Þar eru 47% þáttastjórnenda karlar og 53% konur. Rás 2 og Léttbylgjan eru með sama hlutfall, sem er 67% karlar og 33% konur. Á Bylgjunni eru 87% þáttastjórnenda karlar og á FM 957 eru það 86%.  Mestur er munurinn á X-inu 977, þar sem 98% þáttastjórnenda eru karlar en 2% eru konur. Reyndar var Barmageddon, eini þátturinn þar sem konur eru þáttastjórnendur á X-inu, ekki á dagskrá í vikunni sem ég reiknaði þetta en ég hafði þáttinn samt með af því hann er auglýstur á síðunni (sjá töflu 1 og mynd 2).

Tafla 1 Karlar Konur
X-ið 977

97,9%

2,1%

Bylgjan

86,6%

13,4%

FM957

85,9%

14,1%

Léttbylgjan

66,7%

33,3%

Rás 2

66,7%

33,3%

Rás 1

47,0%

53,0%

Meðaltal allra

75,1%

24,9%

Meðaltal hjá RÚV

56,8%

43,2%

Meðaltal hjá 365

90,1%

9,9%

 

mynd2

Mynd 2.


(Nánari útreikningar og skýringar um greininguna og gögnin má síðan finna hér að neðan.)

Hvað þýðir þetta?

Ég veit það ekki! Það má draga alls kyns ályktanir af þessu eða þá halda því fram að þetta sé gagnslaus leikur að tölum sem ekki á erindi við neinn.

Sjálfum finnst mér þetta mjög merkilegt. Mér finnst þetta sýna hvað samfélagið okkar er kynskipt og hvað stöðu kvenna í fjölmiðlum er ábótavant. Sérstaklega finnst mér áhugavert að skekkjan virðist vera nánast altæk. Og kannski ómeðvituð? Það má vel vera að einhverjar stöðvar vilji höfða frekar til karla og leggi því áherslu á að vera bara með karla sem þáttastjórnendur en skekkjan sem kemur fram í þessum tölum er mjög mikil og nær yfir allar stöðvarnar fyrir utan Rás 1. Ég efast um að það hafi verið ásetningur að búa til þetta mikla misskiptingu – leyfi mér að efast um að stjórnendur útvarpsstöðva landsins hafi skoðað þessar tölur á þennan hátt og tekið meðvitaða ákvörðun um að hafa þetta svona.

Umræðan um ólíka stöðu kynjanna fer mjög oft að snúast um persónur og leikendur. Gott dæmi um þetta eru viðbrögð Jerry Seinfeld þegar hann var spurður út í alla hvítu karlana sem koma fram í vefþáttum hans. Seinfeld reiddist, sagðist bara hafa valið góða grínara og það væri ekki honum að kenna að þetta væru allt hvítir karlar. Í þennan farveg fer umræðan alltof oft. Í staðinn fyrir að skoða heildarmyndina og ræða hversu skakkt samfélagið er snýst umræðan um persónur og persónulegar árásir eða særindi.

Þeir sem taka ákvarðanir eru oftar en ekki á því að þeir velji annars vegar bara besta fólkið og beri hins vegar ekki ábyrgð á öllu misrétti heimsins. Gott og vel. En við þurfum að skoða heildina í samhengi. Sú mynd sem birtist okkur í þeim tölum sem ég tók hér saman er skýr. Það á við jafnvel þótt tímabilið sé bara vika, þetta sé bara vísbending og til séu ótal leiðir til að skoða þetta mál. Spurningin sem þarf að svara er þessi: Viljum við hafa þetta svona?

 

Viðauki um útreikninga:

Þegar ég byrjaði að reikna út hlutfallið voru fjórar reikniaðferðir sem ég velti fyrir mér en þær voru:

Aðferð 1: Allir þáttastjórnendur taldir jafnt og hlutfall kynja reiknað beint.

Aðferð 2: Allir þáttastjórnendur taldir og hlutfall reiknað með tilliti til lengdar í útsendingu.

Aðferð 3: Hlutfall kynja innan þáttar reiknað og síðan meðaltal allra þátta til að fá heildarhlutfall.

Aðferð 4: Hlutfall kynja innan þáttar reiknað og síðan meðaltal allra þátta með tilliti til lengdar í útsendingu til að fá heildarhlutfall.

Ég ákvað að velja aðferð tvö en ég var líka nokkuð hrifinn af aðferð fjögur. Hér að neðan eru aðferðirnar allar reiknaðar út og það virðist ekki vera mikill munur á þeim. Það munar tíu prósentustigum hjá Rás 1 eftir aðferðum og það er fimm prósentustiga munur hjá FM 957. Hjá öðrum stöðvum er munurinn minni. Sjá töflu 2 og mynd 3 en einnig er hægt að sjá öll gögnin hér.

Tafla 2:  Hlutfall karla

Aðferð 1

Aðferð 2 Aðferð 3 Aðferð 4
X-ið 977

97,9%

97,9%

96,7%

98,7%

Bylgjan

89,3%

86,6%

92,2%

90,4%

FM957

84,3%

85,9%

89,0%

90,7%

Léttbylgjan

66,7%

66,7%

66,7%

66,7%

Rás 2

66,3%

66,7%

66,8%

66,5%

Rás 1

46,8%

47,0%

30,8%

35,9%

Meðaltal allra

74,1%

75,1%

74,0%

75,0%

Meðaltal hjá RÚV

53,1%

56,8%

49,6%

51,7%

Meðaltal hjá 365

90,5%

90,1%

92,6%

93,3%

 

 

mynd3

Mynd 3.

5 athugasemdir við “Barmar og gerpi — Hugleiðingar um kyn þáttastjórnenda í útvarpi

  1. Góð og þörf grein. Það er sérstaklega áhugavert að sjá hvernig þáttastjórnendur í raun misnota aðstöðu sína til að níða niður þann sem gagnrýnir. Í fæðingarorlofi fyrir tveimur árum átti ég í miður skemmtilegum samskiptum við yfirmann íþróttadeildar á RÚV eftir að ég hafði kvartað yfir skökkum kynjahlutföllum. Það er erfitt að lýsa því þegar kona fær tölvupósta af því taginu sem ég fékk frá yfirmanni íþróttadeildar, mér fannst nógu erfitt að fá svona sendingar í tölvupósti. Ég get ekki ímyndað hversu erfitt það er þegar þáttastjórnendur gera lítið úr manni á besta tíma í útvarpi.

  2. Bakvísun: Kellíngar í dægurtónlist – erindi flutt á ráðstefnu Kítons | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.