Yfirlýsing frá ritstjórn

Að vefritinu knuz.is stendur rúmlega fimmtíu manna hópur að staðaldri og þar af tólf manna ritstjórn. Kjörorð þess eru: „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“ Á rúmum tveimur árum hefur Knúzið birt rúmlega 500 femínískar greinar. Höfundar eru um 120. Meðal þeirra er Hildur Lilliendahl. Hún er skráð fyrir 17 greinum, ýmist ein eða með öðrum. Hún hefur farið fyrir mikilvægri umræðu um jafnrétti og femínisma og sat um tíma í ritstjórn vefritsins.

Eftir umfjöllun Kastljóss RÚV í gærkvöldi og aðra opinbera umfjöllun um Hildi Lilliendahl vill núverandi ritstjórn Knúzins taka eftirfarandi fram:

Í Kastljósi var fjallað um ljót ummæli sem birtust undir notendanafni Hildar á Barnalandi og beindust einkum að söngkonunni Hafdísi Huld. Aðrir miðlar hafa dregið fram önnur ummæli. Ummæli á Netinu lifa um aldur og ævi þeim til sársauka sem fyrir þeim verða og þeim til minnkunar sem láta þau falla. Undanfarin ár hefur almenningur orðið sífellt meira vakandi fyrir slíku og meðvitaðri um þann skaða sem þau valda.

Persónuníð í öllum sínum myndum er fyrirlitlegt og óréttlætanlegt. Knúz fordæmir það og öll önnur særandi ummæli sem eru látin falla á Netinu og annars staðar.

Knúzkveðjur,
ritstjórn.