Á árunum 2005-2011 stundaði ég spjallborðið á þáverandi Barnalandi, síðar er.is og nú bland.is, af miklum krafti, hin síðari ár undir notandanafninu NöttZ. Undir því nafni lét ég falla svívirðingar og ofbeldishugmyndir gagnvart nafngreindu fólki. Tilvitnanir í þessi orð mín hafa nú ratað í fjölmiðla og vegna þeirra er margt fólk, og hefur verið, í sárum.
Það er erfitt eða kannski ómögulegt að lýsa því hversu mikið ég skammast mín. Það er ekki hægt að svara fyrir þessa framkomu. Við öll þau sem ég hef sært og meitt vil ég segja fyrirgefðu. Við öll þau sem ég hef valdið vonbrigðum vil ég líka segja fyrirgefðu. Ég vil líka biðja fjölskylduna mína fyrirgefningar og vinnuveitendur mína, vini mína og samstarfsfólk á hinum ýmsu sviðum, stuðningsfólk mitt og samferðafólk.
Ég hef lært og þroskast frá því að þessi orð féllu. Ég tala ekki svona lengur. Sem betur fer. Af reynslu síðastliðinna og komandi daga mun ég líka læra. Það breytir því þó ekki að orðin mín eru óafturkræf, skaðanum olli ég sjálf og ég mun aldrei hætta að skammast mín fyrir það. Fyrirgefiði, enn og aftur. Ég á mér ekki málsbætur.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir