Glerþakið slapp órispað: Um árangur kvenna á Óskarnum 2014

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

1381460917_Nyongo

Óskarsverðlaunin voru veitt í 86. skipti í ár og voru að mörgu leyti fyrirsjáanleg, enda tilnefningarnar í anda fyrri ára. Eins og hent hefur átján sinnum áður var Meryl Streep tilnefnd til verðlauna og tóken „verum meðvituð um heiminn“-kvikmynd ársins fékk sitt sæti í keppninni um bestu kvikmyndina.  Þar sem konur fá alltaf meiri athygli á þessari hátíð, þótt útlitstengd sé, fer það framhjá mörgum hvernig tilefni hátíðarinnar, frammistöðuverðlaunin sjálf, skiptast eftir þáttum eins og kyni, aldri og litarhætti. Það er því ekki úr vegi að líta á verðlaunaveitingar þessa árs og skoða þær í samanburði við fyrri ár. Ekki síst er góð ástæða til þess nú þar sem Óskarsverðlaunahátíðin í ár hafði yfirbragð fjölbreytni; lesbía var kynnir, mynd svarts leikstjóra var valin besta myndin, svört kona fékk verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki og mexíkanskur leikstjóri var valinn besti leikstjórinn.

Óskarsverðlaunin: almennar tilhneigingar

Að meðaltali fara 84% tilnefninga til Óskarsverðlaunanna til karla, sem skilur eftir 16% til kvenna, og þá eru leikaraverðlaunin tekin með. Hæst náði hlutfall kvenna 26% árið 1994 en samkvæmt úttekt SILK  hefur hlutfall kvenna af tilnefndum verið tiltölulega stöðugt í gegnum árin, sem sýnir hvað kvikmyndabransinn er enn mikill karlaheimur. Hvað varðar hlutfall kvenkyns vinningshafa þá var það lægst árin 1947, 6%, og 2008, 7% en hæst var það árið 1929 þegar 17% verðlaunanna féllu konum í skaut. Á meðalári hafa karlar unnið 86% af verðlaununum en konur 14%, en undanfarin ár hefur hlutur kvenna verið undir þessu meðaltali.

Þá er að líta á verðlaunaflokkana sjálfa en þar er einnig mikil kynjaskekkja. Eini flokkurinn þar sem konur hafa verið hlutskarpari en karlar í fjölda tilnefninga og verðlauna er búningahönnun, en einnig hafa þær hlutfallslega fengið töluvert af verðlaunum fyrir förðun (32% verðlauna yfir allt), og fyrir heimildarmyndir (23%). Engin kona hefur enn verið tilnefnd fyrir kvikmyndatöku, fjórar hafa verið tilnefndar fyrir leikstjórn og ein kona unnið þau verðlaun, en það var Kathryn Bigelow fyrir The Hurt Locker, 2008.

selfie3f-1-webBragur hátíðarinnar 2014

Verðlaunahátíðin var mikið gagnrýnd fyrir karlrembu í fyrra, ekki síst vegna ósmekklegra brandara Seth MacFarlane og lagsins sem hans söng, þar sem hann fór nokkuð vandlega yfir brjóst hvaða kvenna hann hafði séð og í hvaða myndum (sjá opnunaratriðið hér). Í því ljósi var Ellen Degeneres fengin til að kynna hátíðina í ár og raunar voru konur í óvenju stóru hlutverki þetta árið. Þá ber að nefna að kvikmyndin 12 Years a Slave sem vann verðlaunin sem besta myndin stenst Bechdel-prófið en það gera líka fjórar aðrar af þeim sjö sem tilnefndar voru í flokknum.

Glerþakið órispað

Ef undanskilin eru leikaraverðlaunin voru konur 17% tilnefndra í ár og engin kona tilnefnd í sjö af nítján flokkum. Konur unnu sex verðlaun á hátíðinni séu þau verðlaun undanskilin þar sem hópar (fleiri en tveir og einhver kona í þeim hópi) fengu verðlaun í sama flokki.  Verðlaun fyrir besta leik aðalleikkonu fékk Cate Blanchett fyrir Blue Jasmine og Lupita Nyong’o var valin besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í 12 Years a Slave. Þá féllu förðunar-og stílsverðlaunin í hlut kvenna í þetta skiptið en Adruitha Lee og Robin Mathews unnu þau fyrir vinnu sína í  Dallas Buyers Club. Þá unnu konur líka verðlaun fyrir hönnun búninga annars vegar og leikmyndar hins vegar, og féllu þau raunar til sömu konu en Catherine Martin hlaut bæði verðlaunin fyrir The Great Gatsby. Að síðustu komu tónlistarverðlaunin einnig í hlut konu, þar sem lag Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez „Let it Go“ úr Frozen var valið besta lagið. Það verður því að segjast að glerþakið stendur nokkuð órispað eftir þessa Óskarsverðlaunahátíð, þar sem meirihluti gullkallana fór til hvítu kallana eins og öll önnur ár.

matthew_mcconaughey_governors_awardsHvað skýrir þessar skekkjur?

Nú má vel vera að karlar séu almennt líklegri til að þykja verðskulda tilnefningu, en mögulega skiptir meira máli hvernig tækifærastrúktúrinn er í Hollywood. Samkvæmt nýjustu skýrslu Women in Media Center er Hollywood nefnilega nánast algerlega hvítt pylsupartí, sem er mjög í takt við sjónvarpsiðnaðinn almennt.

Lítum fyrst á uppruna:

 • Af 565 leikstjórum 500 dýrustu kvikmynda áranna 2007‒2013 var 33 leikstýrt af svörtum körlum og 2 leikstýrt af svörtum konum.
 • Árið 2012 voru 76% persóna í kvikmyndum Hollywoodmyndum hvítar, 4% af rómönskum uppruna , 11% svartar og 4% asískar.

Svo á kyn í 100 dýrustu kvikmyndum Hollywood 2012:

 • Af þeim 1.228 leikstjórum, rithöfundum og framleiðendum sem komu að þessum myndum voru aðeins  16.7 prósent konur. Þær voru flestar í hópi framleiðenda.
 • Hlutverk kvenpersóna með setningar í myndunum var 28%.
 • Kvenpersónur voru fjórum sinnum líklegri en karlpersónur til að klæðast kynferðislegum fatnaði og rúmlega þrisvar sinnum líklegri til að vera naktar að hluta. Þar af voru stelpur á aldrinum 13‒20 ára mun líklegri til að vera kynferðislega klæddar eða naktar að hluta heldur en konur á aldrinum 21‒39 ára. Þá er nefnt í skýrslunni að fjöldi tilfella þar sem táningar eru sýndir í kynferðislegu ljósi jókst um 22% á milli áranna 2009 og 2012.
 • Þá eru konur af rómönskum (latino) uppruna líklegastar allra til að vera sýndar í kynferðislegu ljósi.
 • Að lokum má nefna að kvenpersónur eru almennt yngri en karlpersónur. Til að mynda voru 36% karlpersóna á aldrinum 41-64 ára í þessum 100 stærstu bíómyndum 2012, en aðeins 23% kvenpersóna voru á þessum aldri.

 

Nokkrir mikilvægir punktar í sögu Óskarsverðlaunanna:

1929: Hlutfall verðlauna sem fara til kvenna nær hápunkti. Metið er enn óslegið.

1939: Svört kona fær Óskarinn fyrir leik í aukahlutverki – Hattie McDaniel fyrir Gone With the Wind (1939).

1973:  The Sting er valin besta kvikmyndin en hún var framleidd af Juliu Phillips, og var þetta í fyrsta sinn sem kvikmynd framleidd af konu hlaut þessi verðlaun.

2001: Svört kona fær Óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki ― Halle Berry fyrir Monster’s Ball (2001).

2008: Leikstjórnarverðlaunin fara til Kathryn Bigelow for The Hurt Locker (2008).

 

2 athugasemdir við “Glerþakið slapp órispað: Um árangur kvenna á Óskarnum 2014

 1. Bakvísun: Glerþakið slapp órispað: Um árangur kvenna á Óskarnum 2014 | Klapptré

 2. Skv. þessum tölum virðist sem Óskarsverðlaunahátíðin endurspegli nokkuð vel kynjahlutföllin í kvikmyndageiranum, bæði þegar kemur að tilnefningum sem og verðlaunagjöf, og því lítið út á hana að setja sem slíka.

  Áhugaverða spurningin er svo, af hverju eru svona fáar konur í kvikmyndagerð almennt?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.