Rabbað við Gloriu Steinem

– Samtal á ráðstefnu í tengslum við heimildamyndina MAKERS: Women Who Make America
Halla Sverrisdóttir þýddi. Greinin birtist upphaflega í Huffington Post.

gloria og jennifer

Jennifer Aniston og Gloria Steinem spjalla.

„Ef konur gætu komist á toppinn með því að sofa hjá valdamiklum körlum væru ansi mikið fleiri konur í toppstöðum,“ sagði bandaríski femínistinn Gloria Steinem þegar hún sat fyrir svörum ásamt leikkonunni Jennifer Aniston á fyrstu MAKERS-ráðstefnunni en ráðstefnan var haldin fyrr í þessum mánuði í Palos Verdes í Kaliforníu.

Tilefni ráðstefnunnar er nýleg heimildamynd: MAKERS: Women Who Make Amercia”, sem var sýnd í febrúar á sjónvarpsstöðinni PBS og hlaut umtalsvert áhorf. Í myndinni, sem er samstarfsverkefni PBS og AOL, er brugðið ljósi á þær gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á lífi og aðstæðum bandarískra kvenna undanfarin 50 ár, en hægt er að horfa á myndina hér. Myndin er í þremur hlutum og gefur áhugaverða og heillandi innsýn í þær byltingarkenndu breytingar sem urðu á lífi, hugarfari og aðstæðum bandarískra kvenna á seinni hluta síðustu aldar.

Markmiðið með MAKERS-ráðstefnunni var að „kalla til áhrifamikla leiðtoga og frumkvöðla úr fyrirtækjum, samtökum og ríkisstofnunum sem starfa á sviði kvenna- og fjölskyldumála og eyða 48 stundum í að setja saman aðgerðaáætlun fyrir konur á 21. öldinni.“ Á meðal þeirra sem fluttu ávörp voru Sheryl Sandberg, Geena Davis, Gloria Steinem, Martha Stewart, Gwen Ifill, Gabrielle Giffords og Chelsea Handler. HuffPost Women tók saman á vefsíðu sinni eftirminnilegustu punktana úr samtali þeirra Steinem og Aniston og knuz.is hefur fengið góðfúslegt leyfi til þýðingar og endurbirtingar.


VIÐTALIÐ
JENNIFER ANISTON (JA): Mig langar að byrja á að segja ykkur að ég er leikkona, ekki spyrill. Og ég ber mikla virðingu fyrir Barböru Walters (þekkt sjónvarpsfréttakona í BNA), en ég er ekki Barbara. Vonandi gengur þetta nú samt vel. Ég gat að minnsta kosti ekki neitað þegar þessar ótrúlegu konur frá MAKERS báðu mig að sitja hér og ræða við þessa goðsögn, brautryðjanda, gyðju, vinkonu mína, Gloriu Steinem. Og ég ætla að demba mér í þetta.
Þú segir oft að þú sért hörundssár, sem kemur á óvart þar sem þú kemur fyrir sjónir sem ósigrandi afl. Hvað er það sárasta sem þú hefur staðið frammi fyrir í öll þessi ár sem þú hefur staðið í víglínunni?

gloriajennifer

Jennifer Aniston og Gloria Steinem eftir viðtalið góða.

GLORIA STEINEM (GS): Það sem særir mest er ekki það sem andstæðingar okkar segja heldur það sem kemur frá samherjum. Ef andstæðingarnir voru viðmótsþýðir þýddi það yfirleitt að ég var ekki að standa mig í stykkinu. Mér fannst sárast þegar fólk sem ég mat mikils misskildi mig.
JA: Er þér hætt að finnast þú misskilin?
GS: Nei. En ég reyni að muna að stundum er þetta spurning um stjórnunarþörf. „Ertu ekki sammála mér? Sko, nú skal ég útskýra þetta aftur.“ Ég reyni því að vera mjög sjálfsgagnrýnin.
JA: Þú hefur ævinlega gagnrýnt harkalega birtingarmyndir líkama kvenna og nýlega las ég tilvitnun í þig sem mér fannst frábær. „Drengjum er kennt að líkamar þeirra séu verkfæri en stúlkum að líkamar þeirra séu skrautgripur.“ Hvað áttirðu við með því?
GS: Okkur er gert að hugsa ótrúlega mikið um ytra útlit okkar. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að efla íþróttaiðkun stúlkna og kvenna. Þar byggist árangur á líkamlegum styrk og lipurð og þannig kynnumst við því hvað við erum færar um líkamlega. Þetta kemur reyndar líka illa niður á drengjunum. Ef karlar eru spurðir hvað þeim finnst um líkama sinn segjast þeir almennt líta betur út en þeir gera í raun. Og kona myndi gera þveröfugt. Ég held því að við þurfum öll að mætast á miðri leið og finna raunsannari mynd.
JA: Almenningur fylgist grannt með einkalífi okkar. Þú hefur auðvitað rekist á þetta og ég hef svo sannarlega gert það líka – vægi og staða konu er í raun tengt við hjúskaparstöðu okkar og það hvort við höfum eignast börn eða ekki.
GS: Ja, þá erum við tvær líklega í vondum málum.
JA: Já, mig grunaði það. Vildi bara vera viss. Um að við værum, í raun og veru, í vondum málum. En á sjöunda og áttunda áratugnum, þegar þú varst að berjast fyrir konum og jafnrétti okkur til handa, hvernig gekk þér að taka slíku? Þegar konur áttu í raun ekki að hafa neina rödd, heldur standa kasóléttar í eldhúsinu?
GS: Lengi vel gekkst ég undir þennan hugsunarhátt og hugsaði með mér: Allt í lagi, ég ætla að gifta mig og eignast börn. Alveg klárlega. Bara ekki einmitt núna. Ég sá það fyrir mér í framtíðinni. Og svo, til allrar lukku, hófst kvennabaráttan og mér varð ljóst að ég var einfaldlega hamingjusöm eins og ég var. Og að það væri hægt að lifa á fleiri en einn hátt. Það var mikil opinberun. Ég heimsótti einu sinni félagsmiðstöð kvenna á Indlandi og ein kvennanna spurði mig „finnst þér ekki leiðinlegt að hafa ekki eignast börn?“ Og ég hugsaði sem svo að ef ég svaraði þeim einlæglega myndi ég tapa tiltrú þeirra, því ég var stödd utan heimavallar og í öðru menningarlegu samhengi. En mér fannst fáránlegt að vera ekki hreinskilin við þær. Svo ég sagði þeim sannleikann – að ég hefði aldrei séð eftir því, ekki í sekúndubrot. Og þær klöppuðu allar fyrir mér. Þetta voru allt konur í samfélagi þar sem konur verða að eignast börn.
JA: Í nýlegu ávarpi forsetans í fulltrúaþinginu var mjög áhugavert að heyra hvernig hann talaði um að jafna launamun kynjanna. Finnst þér það vera raunverulegt forgangsatriði hjá honum og heldurðu að hann muni geta breytt einhverju á því sviði?
GS: Það er eiginlega jafn mikið undir okkur komið og honum. Ég var afar ánægð með að heyra hann nefna þetta í ræðunni, þar sem hann ræddi einnig málefni hinsegin fólks og réttindi transfólks. Það hefur enginn forseti gert áður. En ég held þó að við verðum að krefjast þess arna. Við verðum að segja það upphátt. Karlar verða að segja: Þið borgið þessari konu ekki sanngjörn laun og þess vegna er ég farinn. Við verðum öll að vinna að þessu saman.
Við verðum líka að átta okkur á því að jöfn laun fyrir konur er eitthvað sem gagnast ekki aðeins konum – það yrði einhver mesti hvati til hagvaxtar sem þetta land gæti fengið. Ef konur fengju greidd jafnhá laun og karlar fyrir þá vinnu sem við innum nú þegar af hendi myndi það veita 200 milljörðum dollara til viðbótar inn í hagkerfið. Konurnar eru ekkert að fara að fela þessa peninga á svissneskum bankareikningi. Þær myndu eyða þeim hér heima. Það myndi skapa störf. En þegar minnst er á efnahagslega hvata snýst það alltaf um að bjarga spilltum bankakörlum úr vandræðum. Þá er aldrei minnst á að jafna laun kvenna.
JA: Hvers vegna hefur þú aldrei boðið þig fram til pólitískra starfa?
GS: Mitt hlutverk er að hjálpa fólkinu sem gegnir þeim störfum að hugsa eins og skynsemisverur. Ég væri vitagangslaus við klóaklagnir og vegaframkvæmdir. Ég yrði ekki góð sem kjörinn embættismaður. Ég get ekki einu sinni veitt öðrum stuðning í þeirra kosningabaráttu því þá get ég bara bergmálað þeirra skoðanir eða frasa. Mín barátta fer alltaf fram á öðru svæði.
JA: Nú langar mig að spyrja þig út í F-orðið. Af hverju er þetta svona flókið hugtak – femínismi?
GS: Vegna þess að þetta var og er svo mikil bylting. Femínismi, eða kvennabarátta, eða hvað sem fólk kýs að kalla það, gengur út á að taka úr umferð stærsta einstaka ólaunaða hóp starfsmanna í heiminum. Og gera að engu stjórnina á frjósemi kvenna. Þetta er því alvarleg ógn við ríkjandi skipulag. Þetta er auðvitað bara í grunninn heilbrigð skynsemi – og flest fólk tekur undir flest af þessu. En femínismi er ekki hluti af valdakerfinu. Sumir eru á móti femínisma vegna þess að þeir vita ekki hvað orðið merkir. Sumir eru á móti honum vegna þess að þeir vita hvað hann merkir.
JA: Og hræðast það. Hvenær varð þér ljóst að þessi bylting yrði ævistarf þitt? Að þetta væri það sem þér væri áskapað að gera?
GS: Ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma litið svo á. Það virtist bara rökrétt fyrir mig og mitt líf, að gera þetta. Skyndilega hugsaði ég: Ég er þá ekki brjáluð! Það er kerfið sem er klikkað! Og ég fór að hugsa um hvað það myndi breyta miklu til hins góða ef karlmenn færu til dæmis að sinna barnauppeldi til jafns við konur. Og ég var einmitt svo heppin að hafa átt föður sem gerði einmitt það – og bjargaði mér þannig frá fjölda hræðilegra karlmanna – og þess vegna vissi ég að það voru til þannig karlmenn.
Þetta var bara rökrétt og skynsamlegt. Og mig langaði að skýra það fyrir öðrum og þess vegna byrjaði ég að tala opinberlega, jafnvel þótt mig langaði í rauninni ekkert til þess.
JA: Hvernig tóku foreldrar þínir því?
GS: Móðir mín bjó þá hjá systur minni, sem átti sex börn, og í hvert sinn sem ég kom að heimsækja hana sagði hún eitthvað á borð við „Sko systur þína, hún var að fá sér nýja vetrarkápu og ekki þurfti hún að borga hana sjálf.“ Og það var ekki vegna þess að hún skildi mig ekki eða vildi ekki styðja mig, hún hafði sjálf verið blaðakona og orðið að hætta að vinna vegna fjölskyldunnar. En hún var hrædd um mig. Hrædd um að ég væri þarna úti ein og óstudd – það er að segja, ætti engan mann sem myndi annast mig. Þá breytti engu fyrir hana að ég hafði hærri tekjur en mágur minn, sá hinn sami og borgaði vetrarkápuna góðu fyrir systur mína.
Hvað föður minn varðar … pabbi var reyndar óvenjulegt eintak. Honum fannst ég hafa menntað mig til óbóta vegna þess að ég fór í háskóla en hann ekki. Hann var alltaf að senda mér auglýsingar úr Variety. Mér er minnisstæð auglýsing um starf í Las Vegas þar sem einu hæfniskröfurnar voru að vera yngri en 22 ára, yfir einn og áttatíu og vera með afburðaeinkunn úr háskóla. Hann sendi mér þá auglýsingu með orðsendingunni „Jæja, stelpa, hér er loksins eitthvað fyrir þig!“
JA: Þú lýsir föður þínum sem draumóramanni. Og þú ert sjálf harðsvíruð raunsæismanneskja.
GS: Ja, ég get nú látið mig dreyma líka en ég er meira en það, ég er vonar-alki. Mér finnst allt geta gerst.
JA: Tökum hraðferðina á þetta núna. Fylltu í eyðuna: „Bestu ráðleggingar sem ég hef fengið voru að …?“
GS: Hætta að hafa áhyggjur af því sem við ættum að gera. Gera bara það sem þú getur.
JA: „Orðið sem lýsir mér best er …?“
ummæliGSGS: Vonar-alki.
JA: „Það sem ég vil framar öðru að mín verði minnst fyrir er …?“
GS: Úff. Veistu, ég spurði annað fólk svo oft að þessu þegar ég var sjálf að taka viðtöl. Og nú hefnist mér fyrir! Ég vil að mín verði minnst sem manneskju sem var hjartagóð og reyndi að skilja við veröldina sem örlítið betri stað en hún var fyrir.
JA: „Þrír hlutir sem ég er alltaf með í veskinu …?“
GS: Húslyklarnir, ef ég er heppin. Hm, hvað fleira? Lyklar, peningar og einhvers konar varagloss.
JA: „Ef ég fengi að bjóða einni manneskju úr mannkynssögunni í mat væri það …?“
GS: Það yrði einhver kvennanna sem voru hér áður en Evrópubúar mættu til leiks, þegar það voru í kringum 500 mismunandi menningarsamfélög á svæðinu sem öll byggðu á jöfnum rétti. Þetta voru konurnar sem urðu frumherjunum í kvenréttindabaráttunni innblástur. Ég myndi vilja fá að spjalla við eina þeirra til að kynna mér hvernig var að búa í samfélagi þar sem fólk var tengt, en ekki skipað í stigveldi. Þar sem viðmiðið var hringur, en ekki píramídi. Þannig var þetta nefnilega áður fyrr.
JA: „Spurningin sem ég er orðin þreyttust á að svara er …?“
GS: Ég fæ furðulegustu spurningar. Sú versta er þessi: „Hvaðan er kvennahreyfingin komin og hvert stefnir hún?“ Að svara þessu væri eins og að ætla sér að lýsa alheiminum með því að nefna tvö dæmi. Mann langar að stökkva fyrir björg. Þetta er allt of stór spurning. Svona getur fólk bara ekki spurt.

 

Hér að neðan eru nokkur dæmi um spurningar frá áhorfendum:
SPURNING: Hvað heldur þú að verði mikilvægasta verkefni næstu kynslóðar femínista?
GS: Ég held að þau viti það nú þegar og þurfi ekki að láta mig segja þeim það. Þeirra heimur er heimur sem ég bæði gjörþekki og er mér framandi. Þau búa í framtíðinni og mitt hlutverk er að styðja þau. Þegar fólk spyr mig: “Hvað á ég að segja dóttur minni?” svara ég alltaf: “Ég vil ekki að hún hlusti á þig eða mig, ég vil að hún hlusti á sjálfa sig.”
SPURNING: Hvert heldur þú að sé stærsta vandamálið sem femínismi samtímans stendur frammi fyrir?
GS: And-femínismi! (hlær) Vinnu kvenna er ekki gefið neitt hagrænt gildi, sú vinna er ekki talin með í hagvaxtarútreikningum. Við gætum talað um það í allt kvöld, en við vitum þetta svo sem öll. Það sem við tölum ekki nægilega mikið um eru trúarbrögð. Mér finnst eitt að vera andlega þenkjandi. En skipulögð trúarbrögð er bara einhver himnaútgáfa af stjórnmálum. Ég held að það sé mjög brýnt að tala um það. Með því að þegja um það gefum við því enn meira vald.
SPURNING: Hvernig getum við brúað bilið á milli mismunandi kynþátta?
GS: Í fyrsta tölublaði tímaritsins Ms. [sem Steinem stofnaði ásamt fleirum árið 1972, innsk. þýðanda] birtum við skoðanakönnum um viðhorf til femínisma, sem var fyrsta könnunin sem var gerð meðal kvenna um málefni kvenna. Og það kom í ljós að 60 % þeldökkra kvenna studdu baráttuna en aðeins 30 % hvítra kvenna. Sannleikurinn er sá að þeldökkar konur hafa frá upphafi verið í fylkingarbrjósti hreyfingarinnar og verið langt á undan okkur hinum, af ýmsum ástæðum. Við þurfum að kynna okkur söguna. Ef við látum eins og þetta sé hreyfing hvítra kvenna gerum við ósýnilegar allar þessar konur, þessa raunverulegu leiðtoga okkar. Hvað okkur sem einstaklinga varðar held ég að þetta snúist bara um að kynnast hvert öðru. Það heppnast ekkert nema fólk treysti hvort öðru. Ég kann eina ágæta reglu sem virðist svínvirka: Ef þú getur farið að kaupa skó með einhverjum ættuð þið að geta unnið saman að stefnumótun.

salurinn

Spurningar úr sal af Makers ráðstefnunni.

SPURNING: Sem karlmaður í þessum sal spyr ég: hvað er það mikilvægasta sem við karlmenn getum lagt af mörkum til þessarar baráttu?
GS: Ímyndaðu þér að þú værir sama manneskjan og þú ert, með sömu gáfurnar og skopskynið og allt það sem gerir þig einstakan, en hefðir fæðst kvenkyns. Hvernig myndi þér líða og hvað myndir þú vilja? Þetta snýst um samlíðan. Engin tilfinning hefur jafn mikinn breytingamátt og samlíðan.
SPURNING: Finnst þér sú mynd sem birt er af konum í kvikmyndum og sjónvarpsefni fara batnandi?
GS: Á skjánum erum við talsvert yngri en karlarnir, það er ákveðið vandamál. Konur sem flytja fréttir eru 15 árum yngri en karlarnir í sömu störfunum. Pör í bíómyndunum – þar er ekkert mál þótt karlinn sé sextugur. Ekki jafn gott ef það er konan. Það sem veldur mér mestum áhyggjum er hins vegar klámið, vegna þess að það er orðið svo ótrúlega aðgengilegt hverjum sem er. Klám snýst um ofbeldi. Nauðgun er ekki kynlíf heldur ofbeldi. Gríska orðið „porne“ merkir ambátt [innsk. þýðanda: sjá hér: http://www.etymonline.com/index.php?term=pornography]. Erótík er allt annar hlutur. Eros merkir ást og frjáls vilji til ásta. En samhliða því að hægri öflin vilja bola kynfræðslu burt úr grunnskólanum hefur aðgengi að klámi aldrei verið meira og í rauninni er það komið í stað kynfræðslu fyrir marga. Og það er sannarlega mjög hættuleg þróun.
Ég styð fyrstu stjórnarskrárbreytinguna. Við viljum ekki ritskoða neitt. En við megum segja um eitthvað að við viljum ekki hafa það á okkar heimilum, ég neita að láta eins og þetta sé bara allt í lagi. Klám er fyrir konum það sem áróðursrit fasista voru fyrir gyðingum.
SPURNING: Hvað finnst þér um það þegar konur nýta sér kynþokka sinn til að koma sér áfram?
GS: Ef konur gætu komist á toppinn með því að sofa hjá valdamiklum körlum væru ansi mikið fleiri konur í toppstöðum. Ég er einfaldlega að segja þér að sú aðferð virkar ekki. Það eina sem konur hafa upp úr því er að sitja eftir auðmýktar og sviptar trúverðugleika.
SPURNING: (frá leikkonunni Jane Lynch): Hvað gefur þér von, fyllir þig bjartsýni?
GS: Það er nóg að hlusta. Það vill svo til að sem hluti af þessari hreyfingu er ég þekkt manneskja. Fólk vindur sér að mér á götu eða úti í búð og segir mér frá því hvernig líf þeirra hefur tekið stakkaskiptum og það er dásamlegt og snertir mig djúpt. Ein saga er mér ævinlega ofarlega í huga. Kona nokkur kom til mín þar sem ég var á árita bækur. Þetta var þeldökk kona í vandaðri, rauðri dragt. Á meðan ég var að pára nafnið mitt sagði hún mér að hún hefði setið í fangelsi fyrir vændi og hefði þar rekist á Ms. (tímaritið). Þegar hún hafði lesið greinarnar þar fór hún að velta fyrir sér af hverju kúnninn hefði ekki verið settur inn. Hún bað um að fá bækur um lögfræði, en í hennar fylki voru engar bækur um lögfræði nema í karlafangelsunum, ekki í kvennafangelsunum. Henni tókst loks að ná sér í bækur og byrjaði þá að aðstoða hinar konurnar, sem allar áttu í einhverjum forræðisdeilum vegna barnanna sinna. Og svo lauk hún afplánun og byrjaði að vinna hjá lögfræðistofu. „Og nú er ég orðin lögfræðingur,“ sagði hún mér. „Mér datt í hug að þér gæti þótt gaman að heyra þetta.“

Það er hægt að horfa á heimildamyndina „Makers“, sem vísað er til í viðtalinu, hér: http://video.pbs.org/program/makers-women-who-make-america/

Gloria Steinem og Dorothy Pitman Hughes í baráttuhug.

Gloria Steinem og Dorothy Pitman Hughes í baráttuhug.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.