Baráttukveðja á alþjóðlegum degi kvenna

Í dag, þann 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Haldið er upp á daginn í 104. skipti í ár og ljóst er að kynjamisrétti er ennþá staðreynd á Íslandi sem og annars staðar, þó svo að ýmislegt hafi vissulega áunnist. Af stóru málunum má til að mynda nefna:

  • Kynbundið ofbeldi: Stór skref hafa verið tekin gegn kynbundnu ofbeldi á undanförnum árum. Sérstaklega ber þar að nefna bann við kaupum á vændi, áætlun gegn mansali og innleiðingu austurrísku leiðarinnar í heimilisofbeldismálum, þar sem sérstök heimild var lögleidd til að nema ofbeldismanninn á brott af heimilinu. Þó að fréttir berist af mikilvægum átaksverkefnum í þessu málum, t.d. á Suðurnesjum, berast þær fréttir ítrekað frá Kvennaathvarfinu í Reykjavík að þessi heimild sé lítið sem ekkert notuð, sem vekur þá spurningu hvernig hún sé nýtt í öðrum sveitarfélögum. Þá hafa Kvennaathvarfskonurnar einnig bent á að í mörgum tilfellum eiga þolendur heimilisofbeldis erfitt með að skilja við maka sína af fjárhagsástæðum en engin sérstök úrræði eru í boði fyrir fólk í þessari stöðu. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að sérmiðuð fjárhagsúrræði séu fundin fyrir þá þolendur heimilisofbeldis sem vilja skilnað.
  • Ójafna verkaskiptingu: Enn vinna konur 70% af heimilisstörfunum og sjá meira um uppeldi barna og aðra umönnun. Þetta hefur mikil áhrif á möguleika þeirra á vinnumarkaði, t.d. því að taka stöðuhækkun og vinna yfirvinnu.
  • grafLaunamun kynjanna: Launamunur kynjanna er enn vandamál og nú þykir ljóst að sú minnkun munarins sem varð strax eftir hrun var aðeins tímabundin, og skýranleg að mestu af því að laun karla lækkuðu með frystingu launa og yfirvinnubanni sem tíðkaðist á mörgum vinnustöðum. Þetta er ekki síst staðfest af því að í einkageiranum, þar sem meirihluti vinnuafls er karlkyns, óx launamunurinn strax árið 2011, þegar hagvöxturinn kom aftur. Þetta má sjá á myndinni hér til hliðar, sem sýnir óleiðréttan launamun kynjanna og unnin er upp úr gögnum Hagstofunnar.

Svo litið sé sérstaklega til þeirra mála, sem ljóst er nú þegar að verða áberandi á þessu ári, má nefna:

 • Sveitarstjórnarkosningar: Hlutfall kvenna í stjórnmálum jókst mjög eftir hrun svo hlutfall kvenna á þingi sló met árið 2009 og eins var hlutfall kvenna í sveitarstjórnum methátt eftir kosningarnar 2010. Þá var ríkisstjórnin leidd af konu og jafnt hlutfall kynja í ríkisstjórn í fyrsta skipti í Íslandssögunni. Síðan þá hefur komið bakslag, hlutfall kvenna á þingi minnkaði í seinustu alþingiskosningum og nú sitja konur aðeins á þriðjungi ráðherrastóla. Á þessu stigi eru ekki allir framboðslistar komnir fram svo að ekki er vitað um endanlegt hlutfall kvenna í framboði, en ýmislegt bendir til þess að þar megi einnig greina bakslag. Til að mynda er aðeins einn framboðslisti í Reykjavík leiddur af konu. Það er baráttumál að konur haldi sínum hlut í sveitarstjórnarkosningunum enda mikilvægt að með sveitarstjórnarvaldið fari hópur sem endurspeglar íbúa sveitarfélagsins og stendur vörð um hagsmuni þeirra allra.
 • Kjaramál: Ýmsar kvennastéttir eru að hefja kjarabaráttu, til að mynda kennarar. Laun kvennastétta eru lægri en karlastétta, sem endurspeglar þá almennu tilhneigingu að vinnuframlag kvenna er ekki jafn mikils metið og vinnuframlag karla. Er þessi tilhneiging sérlega sterk þegar kemur til mats á starfi kvennastétta innan heilbrigðis- og umönnunargeirans en síðasta ríkisstjórn ákvað að hefja sérstakt jafnlaunaátak til að leiðrétta laun þessa hóps þegar í ljós kom að þessar stéttir höfðu fengið minni launahækkun en aðrar frá hruni. Slík hækkun var hins vegar dregin til baka 19. júní í fyrra (en síðan var fundin leið til að hækka laun þessara stétta). Vanmat á vinnu kvenna er því mjög rótgróið fyrirbæri sem þarf að berjast gegn, og á þann hátt er kjarabarátta einnar kvennastéttar á vissan hátt kjarabarátta allra kvenna.
 • Þingmál: Á þingi verða einnig lögð fyrir ýmis mikilvæg mál í vor, t.d. frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og umdeilt frumvarp um jafna stöðu á vinnumarkaði. Stöndum vaktina svo ekki verði samþykkt lög sem vinna gegn jafnrétti kynjanna.

Þó svo að ekki megi gleyma að fagna þeim árangri sem þegar hefur áunnist, verðum við líka að huga að þeim baráttumálum sem við stöndum frammi fyrir.

Ritstjórn Knúz.is

Ein athugasemd við “Baráttukveðja á alþjóðlegum degi kvenna

 1. „Á þingi verða einnig lögð fyrir ýmis mikilvæg mál í vor, t.d. frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni …. Stöndum vaktina svo ekki verði samþykkt lög sem vinna gegn jafnrétti kynjanna.“

  Af þessum orðum má ráða að það að veita konu frelsi og rétt til að ákveða sjálf hvað hún hefst að, vinni gegn jafnrétti. Er þá hugmyndin að vegna þess að karlar hafa ekki leg, þá hafi þeir ekki möguleikann á að nýta sér þau réttindi að geta orðið staðgöngumóðir og því þurfi í nafni jafnréttis að takmarka réttindi kvenna við einungis það sem að karlar geta gert?

  Eða er frelsi helsi á svona Orwellsku nýmáli?

  Stóri bróðir sagði:

  WAR IS PEACE
  FREEDOM IS SLAVERY
  IGNORANCE IS STRENGTH

  Það er þó alla vega framför ef að stóru systurnar láta miðkjörorðið duga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.