Engir karlmenn í hjúkrun?

Höfundur: Inga María Árnadóttir

Haustið 2013 þreyttu 195 nemendur klásuspróf í hjúkrunarfræði. Enginn strákur var á meðal þeirra. Blaðamaður Stúdentablaðsins og stjórnarmeðlimur Curators, nemendafélags hjúkrunarnema við HÍ, kynntu sér stöðu mála hér og í nágrannalöndunum.

Staðalímyndir

Gagnkynhneigður maður og sonur hans lenda í alvarlegu bílslysi. Faðirinn deyr en sonurinn er sendur á bráðamóttökuna. Þegar læknirinn lítur á hann, hrópar hann: „Þetta er sonur minn!“ Hver er læknirinn?

Eflaust hafa einhverjir heyrt þessa gátu. Þeir sem ekki gátu ráðið hana í fyrstu, eins og höfundur þessarar greinar, kannast því kannski við skömmina sem fylgdi er þeir fengu að vita svarið. Uppgötvun þess hversu djúpt staðalímyndir eru greyptar í huga okkar er einfaldlega mjög sjokkerandi.

99% hjúkrunarfræðinema við HÍ eru konur. Það er langhæsta og brenglaðasta kynjahlutfall innan skólans. Næst á eftir kemur félagsráðgjafadeild með 91% kvenna og svo eru 87% nemenda karlmenn í rafmagns- og tölvuverkfræðideild. Því má segja að hjúkrunarfræðin tróni ein á toppnum hvað varðar afburðaeinkennilegt kynjahlutfall. (Tölur fengnar úr lokaverkefni Kristínar Önnu Hjálmarsdóttur til MA prófs í kynjafræði, júní 2013.)

kynjahlutfall_hjukrun_HI

Upphaflega karlastarf

Þótt undarlegt megi virðast var hjúkrun upphaflega karlagrein. Fyrsti hjúkrunarskólinn var starfræktur á Indlandi 250 f.Kr. og þá voru aðeins karlmenn álitnir nógu „hreinir“ til að starfa við hjúkrun. Síðan þá hefur mikil breyting orðið á. Á Íslandi hefur starfið ætíð þróast sem mikið kvennastarf. Til þess að fá leyfi til að læra hjúkrun urðu íslenskar stúlkur að vera hraustar og siðprúðar því hjúkrun var köllun að mati elstu kynslóða hjúkrunarkvenna. Einnig urðu þær að vera ógiftar og barnlausar til að teljast hæfar.

Í Bandaríkjunum var þróunin önnur. Á stríðsárunum sinntu karlmenn í fremstu víglínu særðum hermönnum og eimir enn af því þar sem karlar skipa t.a.m. 35% hjúkrunarhers Bandaríkjamanna og yfir 40% svæfingarhjúkrunarfræðinga í landinu. Þar eru laun hjúkrunarfræðinga há og starfið eftirsótt sem laðar að fleiri karlmenn.

Skortur

Scale

Hjúkka að störfum.

Því er spáð að hlutfall starfandi hjúkrunarfræðinga í hinum vestræna heimi þurfi að hækka um 30% á næstu 10 árum til að mæta vaxandi hjúkrunarþörf. Væntanleg fjölgun stafar af auknu forvarnarstarfi í höndum hjúkrunarfræðinga, hækkandi tíðni langvinnra sjúkdóma (svo sem offitu og sykursýki) og hækkandi aldri fólks. Þessi skortur skapar mörg tækifæri en getur einnig haft slæmar afleiðingar. Langar vaktir undir miklu álagi geta leitt til þreytu, meiðsla eða vanrækslu í starfi. Við slíkar aðstæður eru auknar líkur á mistökum í meðferð sjúklinga. Þá geta ólík sjónarmið skipt sköpum en fjölbreytileiki innan stéttarinnar eykur víðsýni og í þessu tilviki myndi það stuðla að betri meðferð og nálgun á sjúklinginn.

Vegna þess hversu mörg störf þarf að ráða í á næstu árum á karlmönnum trúlega eftir að fjölga innan stéttarinnar víða um heim. Ísland mun því dragast enn frekar aftur úr ef engin breyting verður á.

Eru konur vandamálið?

Hugmyndir kvenna um ímynd hjúkrunar eru ekki síður vandamál í baráttunni. Ofnotkun á starfsheitinu „hjúkka“ hefur óneitanlega haft neikvæð áhrif á aðsókn karla í starfið. Að segjast vera í hjúkkunni hljómar mun léttvægara en að segjast vera í hjúkrunarfræði en við orðið hjúkka loðir sterk mynd af fáklæddu konunni sem birtist á skjánum hjá þér þegar þú gúglar orðið „nurse“. Þá er því haldið á lofti, ekki síst af hjúkrunarfræðingum sjálfum, að starf hjúkrunarfræðinga feli í sér umhyggju og nánd. Vissulega felast þessir þættir í hjúkrun en á grundvelli fræðilegrar færni og þekkingar.

„Hef ekki áhuga á að læra hjúkrunarfræði af því að ég er karlmaður“

Könnun

Um miðjan janúar 2014 stóð Kynningarnefnd hjúkrunarfræðideildar fyrir netkönnun og voru þátttakendur alls 680. Karlar voru 32% þátttakenda og konur 68%. Flestir (45% svarenda) töldu karlmenn í hjúkrun vera 5-10% en þeir eru í raun aðeins um 1-2%. Þess má geta að 11% þeirra sem gátu hugsað sér að læra hjúkrun vissu þó ekki út á hvað störf hjúkrunarfræðinga ganga.

Helstu ástæður sem nefndar voru um hvað stæði í vegi fyrir því að þátttakendur gætu hugsað sér að læra hjúkrun voru lág laun og mikið vinnuálag, ef frá er talinn skortur á áhuga á náminu.

hugsadtheradlaerahjukrun

Þeir þátttakendur sem töldu sig vita út á hvað störf hjúkrunarfræðinga ganga voru beðnir um að nefna eitthvað þrennt sem félli undir starfssvið þeirra. Langoftast voru lyfjagjafir nefndar og því næst umönnun eða aðhlynning. Athygli er vakin á því að mun fleiri karlmenn nefndu að hlutverk hjúkrunarfræðinga væri að aðstoða lækna en það einmitt er í takt við þá gamalgrónu mynd sem áður loddi við starfið.

storf_hjukrunarfraedinga

Brengluð ímynd

male-nurse-jokesEins og staðan er í dag minnir staðalímynd íslenskra hjúkrunarfræðinga að mörgu leyti á umhyggjusama og blíða móður. Það er því ekki furða að fáir karlmenn sæki í þetta starf. Breyta þyrfti umræðunni og sýn almennings á hlutverk og starf hjúkrunarfræðinga til þess að auka aðsókn þeirra í starfið en erlendar rannsóknir sýna að karlmenn velja hjúkrun af sömu ástæðu og konur. Þeir vilja hlúa að veikum og slösuðum, taka áskorunum í starfi og njóta starfsöryggis um heim allan.

Ég leyfi mér að fullyrða að í megindráttum snúist samband hjúkrunarfræðings og sjúklings um tengslamyndun. Orðið „tengslamyndun“ eitt og sér getur virkað fráhrindandi á marga en eitt eftirminnilegt dæmi um myndun slíkra tengsla ætti að nægja til að lýsa fegurðinni á bak við einfaldleika þeirra. Í myndinni The Intouchables ræður hátt settur maður, sem er í hjólastól, ungan mann sem umönnunaraðila. Ungi maðurinn er úr fátækrahverfi og hefur enga reynslu á þessu sviði. Þeir eru ólíkir að mörgu leyti en virða hvor annan. Virðing og traust leiðir til væntumþykju sem getur síðan leitt til ósvikinnar vináttu. Því mætti segja að hjúkrunarfræðingar séu „vinir í neyð“ með haldgóða og fræðilega þekkingu á bakinu.

Og eitt er víst, að móðirin í gátunni hér á undan hefði vafalaust þurft á stuðningi frá slíkum vini að halda á þeirri ögurstundu.

Úr kvikmyndinni Intouchables

Úr kvikmyndinni Intouchables.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.