Auðvaldið hefur kyn: Um kvennabaráttu og stéttabaráttu

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

UnknownMeðal sósíalista/kommúnista hefur sú afstaða lengi verið útbreidd að það sé málstaðnum til trafala ef barist er á sama tíma gegn kúgun öreiganna og kúgun annarra undirskipaðra hópa, hvort sem er á forsendum kyns, kynþáttar, trúarbragða eða annars. Nýlegt íslenskt dæmi er pistill Guðlaugs Gísla Bragasonar þar sem hann segir: „Sósíalistar verða því að byggja stjórnmálaafstöðu sína fyrst og fremst á stéttabaráttu, ekki má taka hana úr samhengi og búta upp hina ýmsu málaflokka án skýringa, það dreifir aðeins markmiðinu um mannúðlegra og félagslegra Ísland.“

Þessa afstöðu má óbeint rekja til Karls Marx, því eins og margir hafa bent á eru kenningar hans kyn- (og kynþátta- og …) blindar, þ.e. Marx lýsir eðli kapítalismans og baráttu öreiganna en tekur ekki tillit til mismunandi stöðu ólíkra hópa í þessu sambandi. Þeir hreintrúuðustu hafa haldið því fram að ekki megi breyta út af sýn Marx, eins og með því að draga kyn eða ríkisfang inn í málið, á meðan aðrir hafa réttlætt hugsjón kynblindrar stéttabaráttu með því, eins og áður segir, að ekki megi dreifa orkunni. Enn aðrir hafa tekið til sinna ráða og reynt að aðlaga og þróa marxismann með tilliti til ólíkra hópa, ekki síst femínistar. Raunar hefur femínísk túlkun á Marx verið svo gróskumikil að ekki aðeins spratt upp ein stefna í þeim efnum heldur margar, t.d. femínískur marxismi, femínískur sósíalismi og marxískur femínismi (en munurinn þarna á milli er oft á tíðum óljós). Það sem þessar stefnur eiga sameiginlegt er sú sýn að kapítalisminn vinni í samvinnu við feðraveldið í því að kúga fólk, og þá sérstaklega konur. Þess vegna sé staða kvenna gagnvart auðvaldinu verri en karla og því sé femínísk stéttabarátta nauðsynleg. Það kemur þó ekki í veg fyrir að kynin sameinist í stéttabaráttu sinni í ákveðnum málaflokkum né að meðfram femínískri stéttabaráttu sé háð kvennabarátta óháð stétt.

Efnahagsleg staða kvenna

Segmentation-of-informal-employment-by-average-earnings-and-sex

Ein fyrsta tilraunin til að samþætta marxisma og femínisma, aðeins þremur áratugum eftir útgáfu Auðmagnsins (Das Kapital), var þegar bandaríski félagsfræðingurinn Charlotte Perkins Gilman gaf út sína fyrstu bók, Women and Economics, árið 1898. Þar bendir hún á að maðurinn, sem dýrategund, sé sérstök að því leyti að vera sú eina þar sem konan er efnahagslega háð karlinum alla ævi og að þetta sé tilkomið af menningarlegum ástæðum. Allt sé sniðið út frá þessari frumforsendu, t.d. uppeldi kynjanna þar sem markmið stráka sé að gera en markmið stelpna að eignast mann sem gerir.

Nú 116 árum síðar hefur ýmislegt breyst hvað varðar stöðu kvenna, t.d. hefur atvinnuþátttaka meðal kvenna stóraukist, hlutfall þeirra í háskólum einnig og kynbundinn launamunur minnkað. Þessari þróun fylgdi þó ekki sú betrumbót í efnahagslegri stöðu kvenna sem búast hefði mátt við því henni fylgdi sú breyting að í stað einnarfyrirvinnusamfélags, þar sem einn karl gat séð fyrir efnahagslegum þörfum fjölskyldunnar, breyttist samfélagið í tveggjafyrirvinnusamfélag. Þá var aukin atvinnuþátttaka kvenna ekki aðeins tilkomin af frumkvæði þeirra sjálfra heldur einnig samfarandi þjóðfélagslegum breytingum. Aukin þjónusta velferðarkerfisins kallaði á starfsfólk og hæfa þótti að konur sinntu þeim störfum, enda hefur löngum þótt viðeigandi að konur sinntu þjónustustörfum sem líta má á sem framlengingu af heimilisstörfunum, og þykir enn. Það þýddi að til urðu fjölmennar kvennastéttir sem enn eru taldar vinna verðminni störf en karlastéttirnar, eins og speglast í muninum á launum í hefðbundnum kvennastörfum annars vegar og karlastörfum hins vegar[1].  Samfélagið er því þannig uppbyggt að til að halda heimili þarf helst tvær fyrirvinnur, en lægri laun kvenna þýða að það er enn erfiðara fyrir konur en karla að vera einstæðar. Við það bætist að konur bera enn meiri ábyrgð á börnum en karlar, sem gerir það enn fjárhagslega erfiðara fyrir mæður að vera (og verða) einstæðar en aðrar konur, og mun erfiðara en fyrir feður.

glass ceilingHér á undan var rætt um launamun kynjanna sem vissulega skiptir mestu máli þegar meðaljón er borinn saman við meðalgunnu, en  fjárhagslegt ósjálfstæði kvenna miðað við karla kemur líka í ljós þegar ríkasta fólkið er skoðað. Sé til að mynda litið til þess fólks sem hæstu opinberu gjöldin greiddi á Íslandi árið 2012 eru tvær konur í efstu tíu sætunum og níu konur á listanum yfir þau þrjátíu efstu. Þá er það reglan fremur en undantekningin að efnaðar konur hafi fengið grunninn að ríkidæmi sínu í arf frá feðrum sínum eða eiginmönnum, þ.e. í gegnum einhvern karl, en ekki efnast algjörlega af sjálfsdáðum. Enda er erfiðara fyrir konur að efnast en karla, sem skýrist meðal annars af því að konur eru ekki taldar jafn hæfar til stjórnunar fyrirtækja, þær fá síður lán til að koma viðskiptaáætlunum í framkvæmd (að einhverju leyti vegna þess að þær eru ekki taldar hæfar en einnig má ætla að viðskiptahugmyndir þeirra séu mögulega taldar verri), og eru síður í netverkum valdafólks. Þá eru þær síður hvattar til þess að mennta sig í peningafögunum eða sækja um stöður innan þeirra geira.

Þar með eru konur ekki bara ólíklegri en karlar til að eiga framleiðslutækin heldur eru þær enn ólíklegri til að afla sér fjár til að kaupa þau af sjálfsdáðum. Auðvaldið er karlkyns. Á meðan eru konur ekki aðeins fjölmennari í lægst launuðu hópunum heldur einnig í þeim hópi sem ekki getur unnið fyrir launum vegna t.d. örorku og aldurs, og er því háður hinu opinbera um framfærslu. Konur eru því fjölmennari í hópi verst stöddu öreiganna, svo tungutak Marx sé notað.

Af þessu leiðir að stéttatengd hagsmunabarátta, t.d. á Alþingi, á sér alltaf líka kynjavídd. Augljóst nýlegt dæmi væri auðlindagjaldið, sem leggja átti á útgerðirnar sem eru að miklum meirihluta í eigu karla, til að greiða fyrir velferðarþjónustu sem er atvinnuvegur kvenna. Annað dæmi er niðurgreiðsla verðtryggðra íbúðarlána, en margt bendir til þess að þar sé um að ræða tilfærslu fjár frá hinum efnaminni til hinna efnameiri auk þess að vera mögulega verðbólguaukandi aðgerð. Þá standa yfir átök um skattamál. Tl að mynda á að hækka lægsta þrep virðisaukaskattsins, sem lagður er t.d. á matvæli, sem mun hækka verð nema staðið verði við að vörugjöldin séu lækkuð á móti, sem aftur kemur harðar niður á tekjulægstu hópunum. Einnig er umræða um að fara úr þrepaskiptu skattkerfi yfir í flatan skatt, sem þýðir að allir greiða sama skatthlutfall að frádregnum persónuafslætti, en í því felst nauðsynlega skattalækkun á tekjuhæsta hópinn á meðan lægst launaði hópurinn fær skattahækkun. Hinar kynjuðu afleiðingar eru augljósar.

Það er því ljóst að konur, sem hópur, eru enn í ólíkri stöðu gagnvart auðvaldinu en karlar og á meðan svo er verða hagsmunir kvenna alltaf að einhverju leyti óíkir hagsmunum karla. Þar með verður alltaf kynjavídd á stéttabaráttunni, líka þó að femínistar kæmu þar hvergi nærri. Markmið femínista er því ekki að setja kynjavídd á baráttuna heldur benda á þá sem er þar fyrir og leiðrétta hana, í þágu mannúðlegra og félagslegra samfélags fyrir alla.

 

 


[1] Fyrir þau sem vilja einfalda lýsingu á því hvernig störfum er skipt á milli kynja er þessi lýsing handhæg: Konur eru í því sem á ensku er kallað c-in fimm: Cleaning, catering, caring, clerking and cashiering, á meðan karlar eru fjölmennari í m-unum: management, money, materials, machinery. Á íslensku er þetta ekki alveg jafn flott en kvennastörfin eru s.s. þrif, framleiðsla, umönnun, afgreiðsla og gjaldkerastörf en karlastörfin stjórnun, peningar, iðnaður og vélar.

 

4 athugasemdir við “Auðvaldið hefur kyn: Um kvennabaráttu og stéttabaráttu

 1. Það hefur margoft komið fram, að hinir efnameiri verja sambærilegu eða meiru, hlutfallslega af tekjum sínum, en hinir efnaminni á Íslandi. Hækkun VSK á matvælum er því mjög misskilinn liður í stéttarbaráttu eða jafnréttisbaráttu á Íslandi.

  Varðandi auð og ríkidæmi, þá virðist sem að konur séu að jafnaði áhættufælnari en karlar. Karlar stofna miklu fleiri fyrirtæki, fara því mun oftar á hausinn sem sín fyrirtæki en tekst vel til á stundum. Sá sem ekki tekur áhættuna mun aldrei komast í hóp hinna ríku. Nú má svo deila um hvor leiðin eða afstaðan er skynsamlegri, tefla djarft og hætta öllu, eða sigla lygnari sjó, en hér er augljós hegðunarmunur á kynjunum. En þessi hegðunarmunur er sjálfsagt feðraveldinu að kenna eins og allt annað.

  Eða hefur höfundur eitthvað fyrir sér að konur fái síður fyrirgreiðslu með viðskiptahugmyndir sínar en karlar? Ef eitthvað er, þá brýtur ríkið stjórnarskrána með því að vera með sérstaka styrktarsjóði bara fyrir konur. En alla vega þá sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.

 2. Takk fyrir fína grein. Sem marxískur og kommúnískur femínisti þá er ég sammála niðurstöðunni: „Markmið femínista er því ekki að setja kynjavídd á baráttuna heldur benda á þá sem er þar fyrir og leiðrétta hana, í þágu mannúðlegra og félagslegra samfélags fyrir alla.“

  Mig langar þó að benda á, að það er kanski ekki alveg rétt að Marx og Engels hafi verið ómeðvitaðir um, eða blindir á, sérstaka stöðu kvenna og áhrifa þjóðernis og kynþáttar á virkni kapítalismans. Engels skrifaði merka bók, „Um uppruna fjölskyldunnar, einkaeignarréttar og ríkisins“, sem inniheldur kvenréttindasinnaða gagnrýni á borgaralegt hjónaband. Í fyrsta bindi Auðmagnsins ræðir Marx um áhrif vélvæðingar á atvinnuþátttöku kvenna. Þá er sérstaklega rætt um stöðu konunnar innan borgarastéttarinnar í Kommúnistaávarpinu. Varðandi kynþætti og þjóðir, þá liggur eftir Marx og Engels mikið magn skrifa um heimsvaldastefnu, stöðu Íra, þrælahald, nýlenduuppreisnina á Indlandi og margt fleira. Kevin Anderson hefur nýlega gert þeim skrifum skil í merkri bók, Marx at the Margins.

  Frelsun kvenna og undirokaðra þjóða og kynþátta var alltaf mikilvægt atriði í stefnu kommúnistaflokka og kommúnískra verkalýðshreyfinga, og það er ekki tilviljun að mikilvægastu leiðtogar kommúnista á fyrri hluta 20. aldar að Lenín frátöldum voru konur, Rósa Luxemburg og Clara Zetkin. Hin rússneska Alexandra Kollontai skrifaði svo fjölmörg merk rit um tengsl marxisma og kvenréttindabaráttu á árunum í kringum rússnesku byltinguna. Þótt skrif Engels og Kollontai virki í dag úrelt í samanburði við nýjustu feminískar rannsóknir, þá er það ekki svo að marxistar og kommúnistar hafi verið alveg blindir eða kærulausir um kvenréttindamál. Þeir voru vissulega oft á öndverðum meiði við ‘borgaralega’ femínista framan af 20. öld, en með 2. bylgju femínismans finnst mér sem kvenréttindabaráttan hafi í ýmsum atriðum ratað inn á slóðir marxískar valda- og þjóðfélagsgagnrýni.

  En það breytir því ekki, að marxistar og hinn marxíski kenningaarfur þurfa að læra af árangri kvenréttindahreyfingarinnar og uppgötvunum feminískrar kynjafræði. Það er kjánalegt þegar sumir marxistar halda því fram að kyn og kynþáttur sé eitthvað sem ég sé hægt að galdra burt með materíalískri greiningu.

  Enginn hefur orðað þetta betur en Sólveig Anna Jónsdóttir: „útvarp og bíll passa saman eins og kommi og femma, og bíll án útvarps er eins og kommi án femmu eða femma án komma, alveg hundleiðinlegt.“

 3. Sæll Viðar og takk fyrir athugasemdina. Ég hef lesið bókina hans Engels og tók hana ekki inn vegna þess að hún er ekki skrifuð af Marx og tilheyrir ekki „ríkjandi marxisma“ ef ég má orða það svo. Punkturinn er a) að meginkenningar marxismans eru kynblindar og b) ríkjandi túlkun á Marx er það líka. Hins vegar er almenn túlkun einföldun og eins og þú bendir réttilega á er kyn tekið inn að nokkru í skrifum þeirra sé grannt skoðað, auk þess sem ýmsir fylgjendur hafa lagt meiri áherslu á kyn en þeir gerðu.

  • Þakka þér fyrir svarið Þóra. Ég held það megi ræða þetta frekar, og í öllu falli er þessi kynblinda mjög mis-mikil meðal marxista. Hef þó ekki frekari orð um það í bili.

   En svo er ein stór spurning sem mér fannst sitja eftir ósvöruð eftir lestur greinarinnar. Við erum sammála um, að það er kynjavídd á kapítalismanum og þar með á baráttunni gegn honum. En hvað þýðir þetta fyrir baráttuna? Ætlum við sem femínistar þá að einbeita okkur að því að leiðrétta kynjahalla innan kapítalismans? Þar með bjóðum við upp á samstarf við þann hóp jafnréttissinna sem eru ekki í prinsippinu á móti kapítalisma og eru jafnvel hlynntir honum. Eða, ætlum við að skilgreina baráttu gegn kapítalisma sem nauðsynlegan hluta af femíniskri jafnréttisbaráttu? Þar með skiljum við okkur frá pró-kapítalisískum femínistum en opnum okkur fyrir samstarfi við aðra andkapítalíska strauma. Mér finnst þetta mikilvæg spurning fyrir femínista í dag, að gefnum þeim vandamálum og hörmungum sem kapítalisminn kallar yfir okkur. Ég vel seinni kostinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.