Tilvera erlendra feðra á Íslandi

Höfundur: Árdís Kristín Ingvarsdóttir

Á Íslandi hefur ríkt nokkuð neikvæð umræða um erlenda karla. Upp eru dregnar sögur sem byggja á staðalmyndum sem efast um náttúrulegt eðli þeirra. Félagsvísindi hafa hins vegar sýnt fram á að karlar, rétt eins og önnur kyn, móta hegðun sína í samspili við umhverfi sitt.

Hvað er að vera karl?

Heimurinn er alltaf að breytast og jafnvel hraðar nú með tilkomu aukinnar tækni. Það virðist nokkuð fara eftir stað, tíma og tímabilum hvernig hlutirnir breytast og á hvaða hraða. Eitt af því sem tekist er á um í þessum breytingum er hvað það merkir að vera alvöru karl eða kona. Íslenskt samfélag hefur tekist á við ýmsar breytingar á því hvað þetta varðar. Sem dæmi þótti enginn karl á Íslandi vera alvöru maður nema hann hefði migið í saltan sjó[1] eða vera sendur í sveit til að verða að manni. Þegar efnahagur Íslendinga reis sem hæst þótti hins vegar enginn maður með mönnum nema hann hefði staðið í sjálfstæðum rekstri og átt jeppa[2].  Annað sem hefur verið að breytast er föðurhlutverkið. Með tilkomu fæðingarorlofs sem eyrnamerkt er sérstaklega feðrum, upplifðu karlar meiri viðurkenningu samfélagsins á að þeir ættu fleiri nánar stundir með ungviði sínu. Það hafði mikil áhrif að ekki var lengur álitið að þeir væru að taka tíma frá samveru móður og barns[3] enda sjá margir feður sjálfsmynd sína liggja í því að vera góðir við konu og börn. Því er síðan haldið að konum að sjálfmynd þeirra eigi að liggja í því að vera falleg kona og síðan góð móðir, stundum bæði í einu og núna nýlega hefur bæst við að vera framakona en aldrei þannig að það bitni á móðurímyndinni. Sem mikilvægur þáttur í kynhlutverkinu eru foreldrahlutverk nær ávallt bundin við ákveðin viðmið. Áður þóttu feður sanna sig með því að vinna langa vinnudaga. Á sama hátt þykja margar filipískar konur góðar mæður þar sem þær fórna tíma sínum með börnum með því að vinna erlendis og senda peninga heim til að byggja hús og borga skólagöngu barna sinna[4]. Að eiga kost á því að eyða tíma með börnum sínum er því á margan hátt bundið við hugmyndir um foreldrahlutverkið en líka efnahag, félagsstöðu og kyn í ákveðnu samhengi við hinn víðari heim.

Erlendir feður á Íslandi

Á árunum 2010-2013 gerði ég etnógrafíska[5] rannsókn á hvernig erlendir feður, sem ættu börn með íslenskum maka, væru að takast á við hið þjóðlega rými í Reykjavík og nágrenni. Þeir voru á aldrinum 29-49 ára. Íslenskar konur eru í auknum mæli farnar að dveljast erlendis sem eykur líkur á að þær velji sér erlendan maka. Það mætti túlka sem ákveðna mótspyrnu við þeim áróðri sem gekk í kringum Ástandið að hlutverk íslenskra kvenna væri að eiga alíslensk börn og kenna þeim íslenska siði[6]. En konurnar í minni rannsókn leituðust þó við að eiga sitt fyrsta barn nálægt fjölskyldu sinni á Íslandi. Karlarnir sáu það sem hluta af sjálfsmynd sinni að hlúa að því að móðirin hefði þennan stuðning.  Karlarnir komu víðs vegar að en flestir voru frá Evrópu og Norður-Ameríku, á aldrinum 29-49 ára, með margvíslega menntun og í ólíkum störfum.

Þverþjóðlegt uppeldi og föðurhlutverkið

Karlarnir í rannsókninni höfðu nær allir búið á mörgum stöðum um ævina og áttu því þverþjóðlegt líf að baki. Þetta hafði áhrif á uppeldi þeirra á börnunum þannig að þeir lögðu áherslu á að kunna að bjarga sér, gera það besta úr öllu og kunna að deila menningarlegum siðum. Þeir upplifðu margir íslenskt umhverfi sem gott fyrir börnin sín en höfðu stundum áhyggjur af því að með því að alast upp við slíkt öryggi kynnu þau ekki að átta sig á hinum harða heimi utan fyrir.

..because, even though it bothers me, I like the fact that my little girl can go outside and play and I go like: man it’s 10.30! I need to go get her and I am not thinking: Oh my god, it’s 10.30! I need to call the police.

???????????????????????????????Nær allir nefndu góða skóla sem ástæðu fyrir því að ala upp börn sín á Íslandi en í sumum tilfellum hafði aukið jafnrétti kynjanna á Íslandi miðað við þau lönd sem þeir komu frá áhrif, sérstaklega í tilfelli dætra. Þeir breyttu líka um uppeldisaðferðir gagnvart sonum sínum þótt það væri í mismiklu mæli. Þeir sóttu fyrirmyndir sínar í fólk sem hafði staðið þeim nærri í lífinu og það gátu verið foreldrar, ömmur, afar og stjúpfeður. Í flestum tilfellum var föðurímyndin ráðandi en nær ávallt blönduðu þeir saman því besta úr eigin uppeldi hvort sem það var frá móður- eða föðurímynd komið. Þeir leituðust við að læra meira um nýjar áherslur í uppeldi á marga vegu; frá maka sínum, á netinu, í gegnum bækur og/eða menntun og fögnuðu hve mikið íslenskt samfélag styður samveru feðra við börnin sín. Þeir tóku sérstaklega eftir jákvæðu viðmóti gagnvart feðraorlofinu en töldu sumir að upplýsingum um breyttar áherslur á því hvernig feður koma að uppeldi væri ekki komið nægilega vel til skila til erlendra feðra. Ennfremur höfðu þeir á orði að enn mætti finna hér vinaþrýsting varðandi það að feður ættu ekki að vera of opinskáir varðandi tilfinningar sínar gagnvart börnum sínum.

Þeir óskuðu sér margir að hafa átt nánara tilfinningalegt samband við föður sinn og fannst þeir nálgast hann eftir því sem faðir þeirra eltist meira. Þetta speglaðist í uppeldi þeirra á eigin sonum. Engu síður mátti finna ákveðna þversögn í viðhorfum þeirra til karlhlutverksins þar sem þeir dáðust að eldri íslenskum körlum sem höfðu unnið myrkranna á milli til að sjá fyrir sínum fjölskyldum. Á sama tíma reyndu þeir að eiga sem mestan tíma með eigin börnum.

Some of the important things in our children’s lives happened before they even remember them so we have to keep that memory ourselves and … if my wife is the only one keeping the memory then… I’m just watching from outside. I wanna be there.

Almennt höfðu þeir ekki mikið álit á íslenskum jafnöldrum sínum enda einkenndist framkoma við þá gjarnan af þekkingarleysi og staðalmyndum á götum úti og í partýum. Á meðan íslenskir karlar voru oftast vinalegir, sérstaklega ef þeir voru í glasi, hætti þeim til að staðsetja erlenda karla neðar í virðingarstiganum. Erlendu karlarnir áttu þó nána íslenska vini sem ekki komu svona fram við þá. Ennfremur sóttust margir eftir að tilheyra vinahópum á Íslandi þar sem mörg þjóðarbrot komu saman, þar á meðal íslendingar. Vinir voru sérlega mikilvægir þar sem í öllum samböndum koma upp átök og erlendir karlar eiga sjaldan í annað bakland að sækja varðandi aðstoð með ráð, pappíra eða tilfinningar. Fjölskyldur þeirra virðast aðeins koma í heimsóknir og vinnuumhverfi byggir upp á samkeppni þannig að vinir finnast þar síður. Við skilnað er slíkur stuðningur sérlega mikilvægur því íslenska kerfi tekur þeim yfirleitt af mikilli varúð og efa.

Aðstæðubreytingarnar sem felast í skilnaði

Við komuna til Íslands fá þeir gjarnan að heyra að hin íslenska stelpa sem þeir kynntust fái leið á þeim og skilji við þá eftir nokkur ár. Skilnaður virðist þó ekki vera algengari meðal blandaðra sambanda en almennt meðal íslenskra einstaklinga og ástæður skilnaðar svipaðar. Fráskildir erlendir karlar upplifa þó sumir að þeir séu fastir í hringrás endalausra íslenska maka og skilnaðar. Sjálfsmynd þeirra breytist þá þannig að þeir sjá sig sem góða menn með því að yfirgefa ekki börnin sín jafnvel þótt þeim bjóðist betri vinna og aðstæður annarstaðar. Það er lítill skilningur á öðrum fráskildum erlendum körlum sem flytjast erlendis né heldur á íslenskum fráskildum körlum sem sækjast ekki eftir því að vera meira í návistum við börnin sín. Eða eins og einn orðaði það:

You see, Icelandic men have their families here. … I am alone here. I have nothing but my children. I love them more than life.

DSC07662
Við skilnað upplifa þeir einnig meiri fjárþörf barnsmæðra sinna og finnst lítil sanngirni í hinu íslenska kerfi sem afdráttarlaust styður hina íslensku móður og setur upp allskyns girðingar til að afmarka samskipti þeirra við börnin. Þetta virðist að einhverju leyti persónubundið þar sem sami maðurinn gat átt undursamlega góð samskipti við eina barnsmóður en verulega erfið við aðra. Þá upplifðu þeir nær ávalt góð samskipti við tengdafeður sína en misjöfn við tengdamæður. Þær orðuðu frekar efasemdir um getu þeirra sem góðar fyrirvinnur. Þeir fundu því fyrir þrýstingi til að vinna langa vinnudaga sem er í ákveðinni þversögn við viðmið samfélagsins sem fagnar meiri þátttöku karla í uppeldi barna. Sumir höfðu reyndar á orði að eiga alveg frábær samskipti við sínar núverandi eða fyrrverandi tengdamæður og það getur verið ábending um það hvernig hið íslenska samfélag er að breytast í samræmi við hinn hnattvædda veruleika[N1] , rétt eins og þeir eru að gera.

Hægt er að nálgast rannsóknina hér.  Athugið að allar myndir eru teknar af höfundi á rölti um Reykjavík.

 

 


[1]Gísli Pálsson og Agnar Helgason. (1996). The Politics of production: Enclosure, equity, and efficiency. Í E.P. Durrenberger og G. Pálsson (Ritstj.), Images of contemporary Iceland: Everyday lives and global contexts (bls. 60-86). Iowa City:  University of Iowa Press

[2]Gyða Margrét Pétursdóttir. (2010). Homo economicus meets homo holismus: Men and women discuss their salaries within different frams of reference. Í Silja Bára Ómarsdóttir (Ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum XI: Erindi flutt á ráðstefnu í október 2010 (bls. 22-29). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. ; Kristín Loftsdóttir og Helga Björnsdóttir. (2010). The ‛Jeep-Gangsters‘ from Iceland. Local development Assistance in a Global perspective. Critique of Anthropology, 30(1), 23-39.

[3]Ingólfur V. Gíslason. (2010). Gender changes in Iceland: From rigid roles to negotiations. Artic and Antarctic, 3, 121-149.

[4]Unnur Dís Skaptadóttir. (2010). Integration and transnational practices of Filipinos in Iceland. E-migrinter, 5, 36-46.

[5]Etnógrafískar aðferðir liggja helst í því að taka þátt í samfélagi þeirra sem er verið að skoða til langs tíma til að skilja heiminn frá þeirra sjónarhóli og þær samræðum sem fólk á við sinn breytilega heim til að marka sér tilvistarrétt. Hluti af slíkri rannsókn er að taka opin viðtöl og fylgjast með því sem er að gerast í sögulegu samhengi.

[6]Gurdin, J.E. (1996). Motherhood, patriarchy, and the nation: Domestic violence in Iceland. Í E.P. Durrenberger og G. Pálsson (Ritstj.), Images of contemporary Iceland: Everyday lives and global contexts (bls. 126-149). Iowa City: University of Iowa Press.

 

3 athugasemdir við “Tilvera erlendra feðra á Íslandi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.