Höfundur: Líf Magneudóttir
Ríkisútvarpið hefur haft opinbera jafnréttisstefnu síðan í júní 2011, þar sem meðal annars segir að RÚV vilji „endurspegla sem flest svið samfélagsins með því að gera röddum kvenna og karla jöfn skil“. Stundum hefur manni sýnst sú stefna túlkuð þannig að „röddum kvenna“ séu gerð næg skil með „kellíngaþáttum“ eins og Beðmálum í borginni og Aðþrengdum eiginkonum og upplestri á fréttum og svo standa konur líka að innlendri dagskrágerð en þá oftast með körlum. Þeir sem réðu ríkjum og stefnu hjá útvarpi allra landsmanna voru karlkyns og það sést ekki síst á því að af framkvæmdastjórunum níu sem misstu vinnuna á einu bretti var bara ein kona, mannauðsstjórinn.
Eins og knuz.is hefur nokkrum sinnum bent á (sjá m.a. Opið bréf til RÚV, Svar Páls Magnússonar og Áskorun til útvarpsstjóra) hvílir skýr lagaskylda á Ríkisútvarpinu að gæta jafnréttis kynjanna. Orð útvarpsstjóra benda til þess að hann geri sér fulla grein fyrir því en ekki síður sé honum ljós hin augljósa siðferðilega krafa sem gera verður til stofnunarinnar. Yfirstjórn Ríkisútvarpsins hefur frá upphafi verið einokuð af körlum, allir útvarpsstjórar hafa verið karlar og til skamms tíma hefur farið mest fyrir karlaíþróttum í íþróttaútsendingum og karlviðmælendum í umræðuþáttum. Karlar annast gamanmál og karlar eru beðnir um að taka að sér að stýra einir innlendum sjónvarpsþáttum. Upp á síðkastið hefur þessi kynjahalli heldur skánað, þótt enn sé langt í land, en þær kerfisbreytingar sem verið er að gera innanhúss hjá stofnuninni eiga vonandi eftir að skila henni drjúgan spöl fram á við. Með þeirri uppstokkun gefst einstakt tækifæri til að fjölga konum í hópi þeirra sem ráða ferðinni í útvarpi allra landsmanna. Yfirlýsing Magnúsar Geirs Þórðarsonar um aukið jafnrétti kynjanna er fyrirheit um að einmitt það verði haft að leiðarljósi þegar ráðið verður í nýjar stöður eftir kerfisbreytingarnar.
Vonandi er útvarpsstjóra full alvara með ummælum sínum og vonandi setur Ríkisútvarpið nú loksins jafnréttismál á oddinn svo um munar. Vegna þess hversu margir horfa og hlusta getur það haft veruleg áhrif á það hvernig fólk hugsar um jafnréttismál ef Ríkisútvarpið tekur skyldur sínar alvarlega. Fyrir utan það hversu sjálfsagt það er að ríkisvaldið sem vill geta réttlætt tilvist sína starfræki Ríkisútvarp í anda jafnréttis og hafi jöfn kynjahlutfall innan stofnunarinnar og á skjánum. Það skiptir nefnilega máli.