Kynjajafnrétti er lykilatriði hvað varðar grænan hagvöxt

Höfundur: Páll Tómas Finnsson

images

Konur og karlar skilja eftir sig mismunandi vistspor og nálgast umhverfismál og sjálfbærni á ólíkan hátt. Þau nýta sér mismunandi samgöngumáta og talsverður munur er á almennu neyslumynstri þeirra. Ennfremur hafa loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir meiri áhrif á konur í þróunarríkjum en karla. Þetta eru nokkrar ástæður þess að kynjavíddin skipar mikilvægan sess í átaksverkefni norrænu forsætisráðherranna um að auka grænan hagvöxt. Einn starfsmaður verkefnisins er Charlotte Kirkegaard, kynjasérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Unisex Progress. Hún  mun sjá til þess að tekið verði tillit til jafnréttis í hönnun og framkvæmd þriggja verkefna í átaksverkefninu Norðurlönd, leiðandi í grænum hagvexti. Ferlið er kallað kynjasamþætting (e. gender mainstreaming).

Ólík hegðun og neysla

„Það er mikill munur á hegðun og neyslu karla og kvenna, sem er athyglisvert út frá umhverfis- og loftslagssjónarmiðum,“ segir Kirkegaard.

tkCharlotteK_20101221„Átakið varðandi sjálfbærni verður að taka tillit til sjónarmiða beggja kynja. Ef við tökum ekki mið af hagsmunum helmings íbúa jarðar munum við ekki finna réttar lausnir og ná þeim markmiðum sem nauðsynlegt er,“ segir Kirkegaard. Verkefnin þrjú fjalla um samstarf um menntun og rannsóknir á sviði græns hagvaxtar, samþættingu umhverfis- og loftslagsmála í norrænni þróunaraðstoð og fjármögnun grænna fjárfestinga og fyrirtækja.

Auknar rannsóknir á kynjasjónarmiðum
Samkvæmt skilgreiningu snýst kynjajafnrétti um að tryggja jafnt aðgengi að tækifærum í þjóðfélaginu, hvort sem þau eru félagsleg, pólitísk eða efnahagsleg. Frá hagfræðilegu sjónarmiði hindrar kynjamisrétti konur í því að fullnýta efnahagslega möguleika sína og takmarkar þannig getu þeirra til að stuðla að grænna hagkerfi. Með öðrum orðum má segja að samfélag sem ekki er í jafnvægi nýti ekki mannauð sinn til fulls.

Ein af lausnunum felst í auknum rannsóknum. Evrópskar kannanir hafa sýnt að skortur er á rannsóknum á þýðingu kynjavíddarinnar fyrir hagkerfið. Í rannsóknahluta átaksverkefnisins um grænan hagvöxt verður því unnið að auknu vægi jafnréttis kynjanna í norrænum rannsóknum. Markmiðið er að tryggja fjármögnun sem beint verður sérstaklega að tengingunni milli græns hagvaxtar og kynjavíddarinnar.

„Kynjamálefnin verða að komast ofar á dagskrá í loftslagsrannsóknum. Við þurfum að auka skilning okkar á aðstæðum í dag og kanna leiðir til að njóta enn frekar góðs af því að efla hlut kynjavíddarinnar í rannsóknum. Þetta myndi jafnframt auka grænan hagvöxt og jafnrétti kynjanna,“ segir Kirkegaard.

Valdefling kvenna í ákvarðanatöku og viðskiptum
Samgöngur eru eitt af meginatriðunum í umræðunni um loftslagsbreytingar og eru meðal þeirra sviða þar sem greinilegur munur er á hegðun karla og kvenna. Sem dæmi nota konur lestir og aðrar almenningssamgöngur í meira mæli en karlar, á meðan þeir eru hins vegar líklegri til að velja bíla eða flugvélar sem fararmáta.

F-Mdollar

„Ákvarðanataka í samgöngu- og orkugeirunum er enn að miklu leyti í höndum karla, en kynjahlutfall í samningaviðræðum um loftslagsbreytingar er aðeins hagstæðara. Við höfum ekki nægilega skýra mynd af okkar eigin kynjasjónarmiðum, né heldur nægar rannsóknir á því hvernig við viljum taka á þessum málum,“ segir Kirkegaard. Hún bendir einnig á að kvenkyns frumkvöðlar hugsi um umhverfið í ríkari mæli en karlkyns starfsbræður þeirra.

„Konur í viðskiptum eru oft meðvitaðri um umhverfismál og markmið fyrirtækja varðandi samfélagslega ábyrgð, CSR, eru að stórum hluta skilgreind af konum. Á þessu sviði eigum við hæfileikafólk og þekkingu sem ætti að nýta mun betur en gert er í dag.”

Kynjajafnrétti í þróunaraðstoð
Norrænu ríkin hyggjast nota þróunaraðstoð í auknum mæli til stuðnings verkefnum sem færa þróunarríkin í áttina að grænna hagkerfi. Endurskoðun á niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis (e. fossil-fuel subsidies) er áberandi í þessu samhengi. Að sögn Kirkegaard verður að taka tillit til hagsmuna beggja kynja í þessu eins og öðru.

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þessi nálgun hefur mikil áhrif, sérstaklega á fátækt fólk og einkum og sér í lagi konur. Ef ekki er tekið tillit til aðstæðna beggja kynja þegar verið er að endurskoða og jafnvel fjarlægja niðurgreiðslur til framleiðslu og notkunar jarðefnaeldsneytis, getur það skapað gríðarleg vandamál fyrir konur í þróunarríkjunum,“ segir Kirkegaard.

july06_52Ein leiðin til þess að jafna út þau efnahagslegu áhrif sem takmarkanir á niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis hafa í för með sér eru beinar endurgreiðslur til neytenda sem verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinganna. Þetta beinir athyglinni að mjög áþreifanlegum aðstöðumun kynjanna, þ.e. þeirri staðreynd að oft hafa konur í þróunarríkjum ekki aðgang að bankareikningum. Því væri hætt við að þær fengju ekki sinn hlut af endurgreiðslunum.

„Ef við tökum ekki mið af þeim vandamálum sem snerta konur sérstaklega mun sjálfbærnin ekki heppnast nema að takmörkuðu leyti. Aðalatriðið er að þegar þessar niðurgreiðslur verða afnumdar verði stefnan hönnuð sem hvati til þróunar. Hún ætti að tryggja bættar aðstæður fyrir bæði karla og konur, og einnig væri hægt að nýta hana til að skapa aukin tækifæri kvenna til þess að stofna sín eigin fyrirtæki,“ útskýrir Kirkegaard. „Þetta snýst um að breyta því hvernig við skiptum auðlindum. Jafnrétti í fjármögnun er mjög mikilvægt, það verður að tryggja að konur fái fjármögnun til þess að koma verkefnum sínum á fót á öflugan hátt,” heldur hún áfram.

Forgangsatriði á Norðurlöndum í áratugi
Norrænu ríkin halda upp á 40 ára afmæli samstarfsins um kynjajafnrétti árið 2014. Löndin fimm eru meðal fremstu þjóða í heiminum hvað varðar jöfn tækifæri fyrir karla og konur. Í skýrslu World Economic Forum, Global Gender Gap Report 2013, þar sem löndum er raðað eftir því hvernig þeim tekst að brúa bilið milli kynjanna á fjórum sviðum; heilsu, menntunar, stjórnmálaþátttöku og þátttöku í efnahagslífinu, eru Ísland, Finnland, Noregur og Svíþjóð í efstu sætunum fjórum. Danmörk er í áttunda sæti.

Samkvæmt Kirkegaard er þörf á aukinni þekkingu til þess að skilja að fullu mikilvægi þess að taka mið af kynjavíddinni í stefnumótun og hönnun norrænna samstarfsverkefna.flagss

„Við erum rétt að byrja að greina ójafnrétti kynjanna sem letjandi þátt þegar kemur að grænum hagvexti. Við þurfum meiri þekkingu á því hvernig kynin framkvæma hluti og hvernig niðurstöður kynjarannsókna geta bætt getu okkar til að stuðla að grænum hagvexti, hvort sem það er á Norðurlöndunum sjálfum eða með þróunaraðstoð,“ segir Kirkegaard.

Á öllum sviðum Norrænu ráðherranefndarinnar er nú unnið að stefnumótun um hvernig best er að stuðla að kynjajafnrétti með norrænu samstarfi.

„Hvernig þessu vindur fram veltur á pólitískum vilja til þess að auka áhersluna á kynjavíddina. Það þarf pólitískt hugrekki og fjármagn til að þróa þessi málefni, framkvæma rannsóknir og kynna þessa viðbótarvídd á faglegum grunni,“ segir hún að lokum.

Greinin birtist upphaflega á www.nordicway.org á ensku og er þýdd af höfundi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.