Virk í athugasemdum

Höfundar: Gísli Ásgeirsson ásamt ritstjórn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. […] áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Lesendur eru hvattir til að halda sig við málefnalega umræðu.

Svona fyrirvarar eru hjá helstu netmiðlum landsins og þykja sanngjarnir. Lítið mark er þó tekið á þeim, því miðlarnir virðast hvorki hafa tök né mannafla til að fylgja þessu eftir. Þeir sem hafa eitthvað málefnalegt fram að færa, drukkna því oft í vaðli upphrópana, fimmaurabrandara, tittlingaskíts og almennrar þvælu. Fyrir vikið hafa athugasemdakerfin slæmt orð á sér og er það miður, því tilgangurinn þeirra er í eðli sínu góður. Miðill sem reiðir sig á upplýsingar frá almenningi, aðhald fjöldans, ábendingar og aðfinnslur, vill gjarna eiga þau að sem eru „virk í athugasemdum.“ Þess vegna má gera lágmarkskröfur til þeirra sem tjá sig.

Þetta gera sérhæfðir vefmiðlar í æ ríkari mæli. Gott dæmi er Feministing.com. (Í lauslegri þýðingu og samantekt):

Feministing er netsamfélag fyrir femínista og bandamenn þeirra og hefur þann tilgang að tengja femínista á netinu og utan þess og til að hvetja til aðgerða. Von okkar er að þetta samfélag skapi vettvang fyrir ótal raddir femínista og samtaka.

Til að halda uppi framsækinni og öruggri orðræðu á vettvangi okkar, eru andfemíniskar athugasemdir og greinar ekki heimilaðar. Ritstjórar okkar telja að kynþáttafordómar, stéttarhyggja,fötlunarfordómar, fordómar gegn hinsegin fólki, transfælni og hatursorðræða séu andstæð femínisma og eigi ekki heima á síðunni. Verði lesendur varir við slíkt efni mega þeir gjarna láta okkur vita.

Athugasemdir

Athugasemdaþræðir skapa svigrúm fyrir eflingu samræðna og hugmynda femínista. Áður en þú tjáir þig, skaltu lesa athugasemdastefnu okkar gaumgæfilega.

Í raunheimum er nóg um hatur og kúgun og við þurfum ekki að upplifa það líka hérna. Við getum aldrei tryggt fullkomið öryggi en getum reynt að skapa ábyrgan vettvang. Við kunnum vel að meta ólíkar skoðanir en hægt er að skiptast á þeim með virðingu og yfirvegun. Við gerum kröfur um kurteisi, virðingu og þolinmæði gagnvart lesendum og þessum vettvangi. Höfum í huga að við viljum gjarna þroskast og læra hvert af öðru.

Eftirfarandi er ekki liðið í athugasemdum (í vafa er betra að viðhafa aðgát):

 • Skömmin færð á þolandann.
 • Fitufordómar.
 • Kynþáttahatur, kynbundið hatur, aldursfordómar, níð sem beinist að kynvitund, kynhneigð, stærð og fötlun fólks.
 • Illkvittni (athugasemdir sem bæta engu við umræðuna, heldur gefa höfundum ruddalega í skyn að þeir séu fáfróðir eða heimskir) og persónulegar árásir.
 • Hunsun eða þöggun (Dæmi: „Úff, ég held að þetta skipti varla máli“ eða „Þetta kemur málinu ekki við“)
 • Að gildi umræðuefnisins fyrir jafnréttisbaráttuna sé dregið í efa á þeim forsendum að brýnna sé að fjalla um önnur mál. (Dæmi: „Af hverju skiptir þetta þig máli? Þú ættir frekar að berjast fyrir X eða Y, því það er brýnna).
 • Afvegaleiðing umræðu: Allt sem víkur frá viðkomandi efni eða beinir umræðunni í annan farveg og bætir engu við upprunalegu greinina.

Þessi listi er ekki tæmandi. Við áskiljum okkur rétt til að vega og meta allt aðsent efni.

Knuz.is hefur ákveðið að fara að þessu dæmi og taka upp ofangreindar reglur og viðmið fyrir þá sem vilja leggja orð í belg við greinar og pistla. Taka skal fram að það er í lagi að birta athugasemd undir dulnefni en þó verður ávallt að gefa upp gilt netfang. Knuz.is á að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti fólks með áhuga á femínisma og málefnalegri umræðu, þolendavænn vettvangur, þar sem ríkir gagnkvæmur skilningur og tillitssemi. Við vörum enda við efni greina sem geta valdið váhrifum og ætlumst til þess að athugasemdir séu merktar með **VV** (e. trigger warning *TW*), telji höfundur þörf á því. Við frábiðjum okkur hrútskýringar og langhunda sem eru lengri en upprunalega greinin. Í þeim tilvikum er einboðið að höfundur sendi ritstjórn innlegg sitt til meðferðar með birtingu í huga. Við áskiljum okkur rétt til að hafna athugasemdum sem uppfylla ekki ofangreindar kröfur.

Þetta er ekki ritskoðun. Þetta er ritstýring. Við berum virðingu fyrir tjáningarfrelsinu og rétti fólks til að segja skoðun sína en við þurfum ekki að bera virðingu fyrir skoðunum sem slíkum.  Þessi vettvangur er opinber en á um leið að vera öruggur, á sama hátt og heimili manns á að vera laust við óboðna gesti sem láta dólgslega og kúka jafnvel á forstofugólfið.  Við þurfum ekki útúrsnúninga, kvenfyrirlitningu og þolendaskömm.

Á netinu eru ótal leiðir til að fá útrás fyrir tjáningarþörf og allir sem lyklaborði geta valdið, geta stofnað blogg, skráð sig á Facebook og birt skoðanir sínar á öllu milli himins og jarðar, tekið fagnandi á móti skoðanasystkinum sínum og hunsað allar ábendingar sem hér hafa komið fram.

22 athugasemdir við “Virk í athugasemdum

 1. Ein hugmynd væri svo að eyða ekki slæmum kommentum heldur setja þau í e.k. skammarkrók. Þá yrðu þau fjarlægð af síðu greinarinnar en væru varðveitt á sérstakri „kommentarar sem hata Knúz“ síðu, mögulega með hlekk í upprunagreinina.
  Það gæti orðið merkileg heimild með tímanum og virkað sem sýnibók um hvers konar athugasemdir séu skornar á þessari síðu.

 2. Knuz.is er prívat síða þannig að sjálfsögðu er ritstjórn í sjálfs vald sett hvaða reglur hún ákveður að setja upp. Jafnvel þótt hér væri stunduð ritskoðun myndi það ekki skipta neinu máli, fyrir utan að lestur síðunnar myndi líklega minnka.

  Hins vegar eru nokkrir hlutir sem væri ágætt að fá nánari útlistun á. Hugsanlega hefur eitthvað glatast úr enskunni yfir á íslensku. Til dæmis stéttarhyggju. Hvað er nákvæmlega átt við með því? Nú tel ég að ýmislegt í kenningum Karl Marx standist enn þann dag í dag, til dæmis stéttskipt samfélög. Varla eigið þið við að þeir sem halda því fram verði bannaðir á síðunni.
  Hitt dæmið snýst um liðinn hunsun eða þöggun. Hversu vítt eða hversu þröngt verður það skilgreint? Það er munur á því að vilja drepa umræðuna og því að vilja meina að viðkomandi hafi sjálfur í grein sinni farið út í móa og koma með réttmæta gagnrýni á það. Þetta gæti verið vandmeðfarið.

  • Ég held að hunsun eða þöggun, sbr. dæmi í greininni, verði ekki vandgreind. Réttmætri gagnrýni verður aldrei hafnað.
   Stéttarhyggjan er annað og gott að fá þessa ábendingu. Í frumtexta stendur „classism“. Þetta verður tekið til skoðunar.

   • „Til að halda uppi framsækinni og öruggri orðræðu á vettvangi okkar, eru andfemíniskar athugasemdir og greinar ekki heimilaðar.“

    Hver skilgreinir hvað sé andfeminísk athugasemd ?

    Hvað er andfeminísk athugasemd ? Athugasemd sem er ósammála grein þá því hún er væntanlega feminísk grein póstað á feminískum vef ?

    Comment frá Gísla hérna…

    „Réttmætri gagnrýni verður aldrei hafnað.“

    Telur þú það ekki þöggun þegar fólk ákveður hvað sé réttmæt gagnrýni og annari gagnrýni er eitt ?

    Þetta er svo útaf kortinu 🙂

    Er klárlega ekki að búast við að þessu commenti verði einu sinni hleypt í gegn…..

   • Kæri Steel (fyrst þú heitir það núna) Eins og þú sérð er þessi athugasemd þín komin í höfn. Að vísu finnst mér þú álíka túlkunarglöð/glaður og oft áður en nóg um það. Málefnalegri gagnrýni sem varðar efni greinar, bætir einhverju við það sem komið er fram, andmælir einhverju með rökum, o.s.frv. verður ekki hafnað. Ég held að það komi ákaflega skýrt fram, bæði í greininni og umræðum við hana.
    Annars hvet ég þig til að koma úr felum og eiga orðastað við fólk undir fullu nafni. Mér finnst það alltaf betra en þú átt það auðvitað við þig.

   • Þú spurðir um andfemíniskar athugasemdir. Um þær stendur einmitt þetta í greininni: „Ritstjórar okkar telja að kynþáttafordómar, stéttarhyggja,fötlunarfordómar, fordómar gegn hinsegin fólki, transfælni og hatursorðræða séu andstæð femínisma og eigi ekki heima á síðunni.“
    Ég vona að þetta sé nógu skýrt.

    Þegar svarið felur í sér afritun af hluta greinar er nokkuð ljóst að spyrjandi hefur annað hvort ekki lesið greinina eða skilið hana.

   • Jújú, ég las greinina og finnst þú „gefa höfundum ruddalega í skyn að þeir séu fáfróðir eða heimskir“ enda er nú nokkuð víst að maður lesi texta sem maður commentar á og reyni að skilja…..

    Ef maður ætlaði að taka sama pólin á kurteisina þá þyrfti ég auðvitað að segja „Að höfundur getur annað hvort ekki gert sig skiljanlegan eða hefur ekki hugmynd hvað hann/hún setti niður á pappír“….

    En ef þetta er skilgreining ykkar á hvað er ekki látið líðast á vefsvæðinu þá er ekkert að því að banna slíkt. Ef þið ætlið ekki að banna neitt annað en þetta, út frá þessari setningu…

    „eru andfemíniskar athugasemdir og greinar ekki heimilaðar.“

    Mér finnst samt mjög skrýtið ef þú vilt meina að þetta sé það eina sem eigi að banna, þ.e.a.s fordómar, þá finnst mér mjög furðulegt hvernig þú skilgreinir andfeminisma.

    Þ.e.a.s …. „kynþáttafordómar, stéttarhyggja,fötlunarfordómar, fordómar gegn hinsegin fólki, transfælni og hatursorðræða“

    Þetta er þá andfeminismi í þínum huga ?

    Sambandi við að koma undir nafni Gísli minn, þá er ég óttalega sjálfsöruggt eintak, færi ekki fyrir brjóstið á mér að vera settur á „Karlar sem Hata konur“ lista eða „skammarkrók“ eins og er stungið upp á í þessum þræði, jafnvel tekið úr öllu samhengi, vanhugsuð skrif í reiði, í glasi eða af kærustu minni en ekki mér, so on. Þó svo væri og mér finndist það ósanngjörn athöfn þá væri ég lítið að kippa mér upp við það….

    Ég tel mig samt vita að móður minni eða systur liði illa yfir því að pískrað væri um að bróðir/sonur væri á slíkum lista, jafnvel borið upp á fólk í saumaklúbbum eða annað.

    Þannig ef eitthvað er þá kýs ég að gera þetta í nafnleynd, ekki til að hlýfa mér frá skítnum, heldur öðrum.

    Í raun skil ég alveg að þið viljið halda þessum umræðuvettfangi meira fyrir feminisma en þá sem sjá eitthvað að einhverjum kenningum feminisma, en það er mjög auðvelt að loka þá einfaldlega á vefsvæðið og neyða fólk í áskrift þar sem því er hent út ef það er á röngum forsendum, þ.e.a.s fólk sem vill horfa á jafnrétti frá fleirri sjónarmiðum en sjónarmiðum feminismans….

    En ef þið hafið umræðuvettfangin opin, þá eruð þið að setja upp þá mynd að umræðan sé opin og allir séu sammála, því þið einfaldlega hendið öðru efni út.

    Það er orðin blekking ef þið gangið of langt í ritskoðun og þú hlítur að skilja þau sjónarmið….

    Núna hef ég andskoti góða grein fyrir þig sem þú ættir endilega að renna yfir ásamt ritsjórn.

    http://knuz.is/2012/01/10/af-ritskodun/

    Þessari grein er ég nefnilega mjög sammála eins og mörgu efni hér inni.

    Vill þakka þér fyrir að hafa leyft mér að taka þátt í umræðunni Gísli, undanfarið hefur mér ekki verið leyft það enda hef ég mikið hætt að nýta mér síðuna vegna þessa..

 3. „Ég held að hunsun eða þöggun, sbr. dæmi í greininni, verði ekki vandgreind.“
  Einmitt eða þannig. Það er ótrúlegt að fullorðið fólk skuli ekki skilja ábyrgðina sem hlýst af frelsi, frelsi og mannréttindi eru sama lögmáli undirorpin, hugtökin og hugmyndafræðin gilda fyrir alla, líka drullusokkana.
  Það er eins og að enginn hafi lesið sig til um af hvaða kú ritskoðun og hálsmálskúgun er komin, en það byrjar einmitt svona, sumsé á hinni borgaralegu löggu sem ræður ekki neitt við neitt og hefur engan tolerans í skítinn. Við hvað er þá verið að etja spyr ég, því að andfeminíska orðræðu er bara hægt að túlka hvernig sem er.
  Ég spyr líka eins og einn ofangreindur, hvað er átt við með „stéttarhyggju“ þið hljótið að vera búin að setja það niður á blað. þvílík vitleysa (kannski andfeminískt að segja það?)

  • Í upphafi stendur þetta:
   „Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. […] áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Lesendur eru hvattir til að halda sig við málefnalega umræðu.“ Þett aeru fyrirvarar DV og Vísis. Er þetta ritskoðun eða ritstýring?
   Það er alveg rétt að ég hef ekkert umburðarlyndi lengur fyrir skítnum. Af honum er nóg í flór annarra miðla. Þeir sem vilja nýta tjáningarfrelsi sitt til þess, geta það auðveldlega og þeim standa margar dyr opnar, bæði blogg og greinaskrif og athugasemdaskrif út um allar trissur. Ég kalla það ekki hömlur að vilja ekki fá þennan skít í forstofuna mína.
   Tilgangurinn með þessari tilraun er bætt umræðumenning. Ég hlýt að spyrja hvort fólk sé á móti slíku.

 4. Hjalti kemur með ótrúlega gáfulega uppástungu þarna eða þannig :p Skammarkrókur, til heimilda fyrir framtíðina, hér er verið að stinga upp á mögulegri sögufölsun þar sem hlutir eru slitnir úr samhengi af bara einhverjum sem finnst eitthvað. Þetta er allt á internetinu og best að hafa skammarkrókana bara heima hjá sér ef fólk hefur áhuga á skammarkrókum og skömm yfir höfðu. Ótrúlegt.

  • Helga, takk fyrir svarið. ég get alveg tekið undir það að „skammarkrókur“ er ekki gott nafn á kerfinu sem ég er að lýsa. ég hefði víst átt að hugsa betur út í það. Sérstaklega á þessum vetvangi þar sem skömm hefur verið mikið til umfjöllunar og umhugsunar.
   Þú segir á einum stað:

   …þar sem hlutir eru slitnir úr samhengi af bara einhverjum sem finnst eitthvað.“

   Ef ég byrja að svara því sem er aftast:
   Ekki „bara einhverjum sem finnst eitthvað“ heldur: nafngreindum ritstjórum þessarar síðu; eftir þeim reglum sem tíundaðar voru hér að ofan. Við verðum auðvitað að vera meðvituð um að þessir ritstjórar eru mannlegir (kvenlegir!) eins og aðrir og geta átt slæman dag og allt það en ég held að þetta séu frekar skýrir rammar sem hægt er að kalla þá til ábyrgðar gagnvart, sé tilefni til.

   „hlutir eru slitnir úr samhengi“ — Ókey. Við erum með grein á Knúzinu. Við hana eru gerðar tvær athugasemdir, A og B. A er dæmd gagnslaus eða jafnvel skaðleg af ritstjórunum. Þeir geta einfaldlega eytt henni, eftir stendur Knúzgrein og aths B sem saman skila umræðunni einhvert áfram.
   Það sem ég sting uppá er einmitt að eyða ekki ‘slæmu aths A’ heldur vista hana á annarri síðu, með hlekk til baka í greinina. Það er þessi síða sem ég kallaði svo óheppilega „skammarkrók“.
   Ég stend við það að ég held að þar myndi myndast með tímanum áhugaverð mynd af, ja, þó ekki væri annað en: „hvað samrýmist ekki ritstjórnarstefnunni hérna“. Ég get auðveldlega ímyndað mér að svona síða yrði áhugaverð á margan annan hátt.

   Þetta með að ég mæli með „mögulegri sögufölsun“ skil ég ekki vel.
   Þetta með að „Þetta er allt á internetinu og best að hafa skammarkrókana bara heima hjá sér“ skil ég ekki heldur.
   Ég myndi gjarnan heyra nánari útskýringu á því hérna.
   Að lokum verð ég að viðurkenna að já, ég hef frekar mikinn áhuga á fyrirbærinu Skömm og kannski skammarkrókum líka. Ætli ég sé ekki svona „fólk“.

 5. Ég hlýt að fagna framkomnum athugasemdum en hvet fólk um leið til að horfa á skóginn, ekki bara stöku laufblað. Allir sem hafa fylgst með „virkum í athugasemdum“ sjá muninn á þeirra framlögum annars vegar og hins vegar umræðu þeirra sem vilja halda einhverjum málefnalegum þræði. Í greininni stendur t.d. þetta:
  Skömmin færð á þolandann.
  Fitufordómar.
  Kynþáttahatur, kynbundið hatur, aldursfordómar, níð sem beinist að kynvitund, kynhneigð, stærð og fötlun fólks.
  Illkvittni (athugasemdir sem bæta engu við umræðuna, heldur gefa höfundum ruddalega í skyn að þeir séu fáfróðir eða heimskir) og persónulegar árásir.
  Hunsun eða þöggun (Dæmi: „Úff, ég held að þetta skipti varla máli“ eða „Þetta kemur málinu ekki við“)
  Ef þessi atriði hverfa að mestu úr athugasemdum netmiðla, er miklum áfanga náð. Ég held að flestir hljóti að fagna því.

 6. Skilgreining á stéttarhyggju er s.s. fordómar eða mismunun á forsendum stéttar. Eða eins og Wikipedia segir: „Classism is prejudice or discrimination on the basis of social class. It includes individual attitudes and behaviors, systems of policies and practices that are set up to benefit the upper classes at the expense of the lower classes.[1]“

  Varðandi hunsun og þöggun þá förum við ekki í grafgötur með það að þar, eins og í öðrum efnum í athugasemdum, mun ráða mat ritstjórnar.
  Bestu kveðjur

 7. „Til að halda uppi framsækinni og öruggri orðræðu á vettvangi okkar, eru andfemíniskar athugasemdir og greinar ekki heimilaðar.“

  Fannst höfundum þessa pistils ekkert óþægilegt að tala hér um öryggi? (Enginn sem hugsar um hinar ýmsu „öryggislögreglur“ heimsins? Stasi er t.d. gælunafn fyrir „Ministerium für Staatssicherheit“ …)

  Og, enginn sem skipti út „andfemínískar“ fyrir „andkommúnískar“?

 8. Svona, svona. Stasi?! Í alvöru? Andkommúnískar? Þótt afi minn hafi verið Stalínisti þá þykir mér vel í lagt hérna. Má ég minna á upphaf þessarar greinar:
  Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. […] áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Lesendur eru hvattir til að halda sig við málefnalega umræðu.
  Þetta er sami fyrirvari og á DV og Vísi og jafnvel víðar (hef ekki gáð). Þetta er kjarni málsins. Ritstýring. Ekki ritskoðun eða útilokun á „óþægilegum skoðunum“. Bara tilraun til að bæta umræðuvettvang sem er helgaður femínisma. Sem út af fyrir sig er ekki flókið fyrirbæri. Hér væri við hæfi að vitna í ömmu mína, fyrst afi var nefndur, en ég ætla að spara það.

  • Svo það sé á hreinu þá var ég ekki að bera Knúzið eða Knúzista saman við Stasi. Heldur að benda á hugrenningatengslin þegar farið er að tala um aðgerðir til að vernda „öryggi samfélagsins“. Mér finnst full ástæða til að staldra við þegar maður heyrir sjálfan sig tala um slíkt.

   Setji maður hins vegar „kommúnískar athugasemdir“ í staðinn fyrir „femínískar“ í textanum hér að ofan, þá er hann orðinn nákvæmlega eins og gera má ráð fyrir að útskýrt hafi verið af hverju kommúnískar athugasemdir væru svo óæskilega að þær yrðu fjarlægðar. Það finnst mér full ástæða til að íhuga.

   PS. Er ekki hægt að vakta greinar og athugasemdir á Knúzinu þannig að maður fái tilkynningu í pósti þegar bætist við (úr því að ég er að verða hér fastagestur :))?

   • Þú ert ævinlega velkominn hingað og ég tek þér með knúzi. Ég held að möguleikinn á pósttilkynningum sé virkur og ég hef notað hann sjálfur hér.
    Þessi umræðustýring hefur í raun verið virk á knúzinu í nokkrar vikur. Þær örfáu sem lentu utangarðs, eiga heima þar af ýmsum ástæðum. Í nokkrum tilfellum var haft samband við höfund með útskýringar. Höfundur 1000 orða athugasemdar fékk tilboð um að senda ritstjórninni grein. Hann tók því vel.
    Miðað við reynsluna til þessa, tel ég enga hættu á ritskoðun. Ritstýring gerir allt markvissara. Ég hef trú á því að reyna þetta. KNúz.

 9. Til að stytta mér leið, bendi ég líka á þennan umræðuþráð. Þar hef ég eiginlega tjáð mig um allt sem mér dettur í hug með þessari grein. Ég er sérlega ánægður með eplalíkinguna.

 10. Þetta er dálítið undarleg umræða, og þegar Stasi bætist þar við er hún komin alveg í ruglið.

  Ég hef stundum tjáð mig um menn og málefni hér inni á knúzinu því ég lít á mig sem femínista en er ekki endilega sammála öllum skoðunum og fólki innan hans, enda væri það synd og skömm. Ég vildi fá nánari útlistun á því hvað væri meint með stéttarhyggju og hvernig hunsun og þöggun yrði skilgreind. Ég fékk svör við því og þakka ég fyrir það.

  Rúsínan í pylsuendanum er hins vegar þessi. Ritstjórn knuz.is er það nákvæmlega í sjálfs vald sett hvaða reglur hún vill láta fólk fara eftir þegar kemur að kommentakerfinu. Knuz.is er ekki í opinberri eigu. Ef ritstjórnin myndi á morgun byrja að boða fagnaðarerindið um hið mikla eðlufólk sem á laun ræður heiminum og öll gagnrýni á þær kenningar yrði bönnuð á síðunni væri þeim það fullkomlega frjálst. Ég held reyndar að þau myndu missa flest alla lesendur sína.

 11. Bakvísun: Skuggahliðar athugasemdanna | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.