Útskýringar almenns eðlis og hrútlegs

Höfundur: Kári Emil Helgason

Hressileg umræða skapaðist í gær um ritstýringarstefnu knúz.is hérna, en fólk hafði þar helst við greinina að athuga notkunina á orðinu hrútskýring. Hrútskýring var fundið upp fyrir nokkrum árum sem þýðing á enska orðin mansplaining, sem er komið af orðunum man (maður) og explain (útskýra). Var þá hnýtt saman styttingunni hr. (fyrir herra) og útskýring. En satt að segja finnst mér skemmtilegra þegar orðið er orðið frátengt mannskepnunni og tengt hjarðdýri, því hrútskýringar eru iðulega sauðslegar. Ég kýs að líta svo á að orðið sé komið af orðinu hrútur. Burtséð frá myndun íslenska orðsins, sem sumir greina karlfyrirlitningu í, þá er skilgreiningin á hugtakinu eitthvað á þessa leið: „Útskýringar um upplifun undirskipaðs aðila byggðar á upplifun annars aðila í forréttindastöðu“. Allir sem hafa einhvers konar forréttindastöðu gagnvart öðrum geta því gerst sekir um hrútskýringar. Skiptir þá kyn ekki máli sérstaklega – heldur getur málið snúist um kynhneigð, kynþátt, aldur eða hverja aðra þá mismunabreytu sem hefur áhrif á forréttindastöðu manns.

Hrútar að leik

Hrútar að leik

Mér voru gefin í vöggugjöf mikil forréttindi: ég er karlmaður, cískynja, hvítur, innfæddur Íslendingur, kominn af fjölskyldu með ættarnafn o.s.frv. Sá þáttur sem helst hefur undirskipandi áhrif á stöðu er að ég er hommi. Það sem er áhugavert við hinar ýmsu mismunabreytur er hvernig þær hafa mismunandi áhrif á valdastöðu manns eftir samhengi, bæði landfræðilegu og félagslegu.

Týpískar hrútskýringar snúast um að femínistar séu að gera eitthvað vitlaust eða að þeir skilji ekki jafnrétti þrátt fyrir margra ára rannsóknir. Þegar sök er færð á þolandann í kynferðisbrotamálum nálgast það oft hrútskýringar. Eins upplifist það sem hrútskýring þegar karlmaður fræðir kvenkyns sérfræðing um fag hennar – sem hann er þó aðeins kjölfróður um. Þar reynir karlmaðurinn að beita forréttindum sínum (þeirri staðalmynd að karlar séu betri í að skilja smáatriði) gegn undirskipaðri konunni. En þetta eru aðeins almenn dæmi um algengar birtingarmyndir.

Þrátt fyrir að hafa verið femínisti lengi, gerði ég mér ekki alltaf grein fyrir þeim miklu áhrifum sem mismunabreytur geta haft á líf fólks. Ég hef því margoft gerst sekur um hrútskýringar um ævina. Eitt dæmi sem kemur til hugar var fyrir rúmu ári síðan, í New York, í samtali við tvo asíska vini mína. Málið snérist um hvort það væri jafnauðvelt að pikka upp deit á hommabörum fyrir þá og eins og fyrir mig. Ég í forréttindablindu minni hélt því fram að svo væri og að málið snérist eingöngu um hugarástand. En upplifun þeirra af hvítum hommum reyndist allt önnur en mín. Asískir strákar þurfa að standa af sér alls konar neikvæðar staðalmyndir og heyra gjarnan frasa eins og „I totally have an Asian fetish“ („ég er með algjört asíubúablæti“) eða „I like your exotic look“ („ég er hrifinn af exótísku útliti þínu“) – frasa sem ég, hvíti maðurinn, fengi aldrei að heyra. Frasarnir eru niðurlægjandi, hlutgerandi og geta orsakað veikari sjálfsmynd. Við rifumst um þetta vandræðalega lengi en ég sannfærðist loks um það að við göngum ekki að borðinu jafnir. Ég baðst afsökunar á því að reyna að þröngva minni sjálfsmynd og upplifun á þeirra.

Ég tek þetta dæmi frekar en nokkuð annað því það sýnir fram á ýmislegt: Karlmaður getur hrútskýrt fyrir öðrum karlmönnum. Hrútskýring snýst ekki um kyn. Sagan hefði allt eins getað verið um lesbíur og endað eins.

Hrútskýringar eru leiðingjarnar og fólk í undirskipuðum hópum heyrir þær margoft. Lausnin felst í að hlusta, setja sig í spor annarra og, númer eitt, tvö og þrjú, vera meðvitaður um forréttindi sín í samskiptum við aðra. Sérstaklega áður en þið ætlið að útskýra eitthvað á Internetinu. Það er auðvelt að detta í hrútastíuna.

Að lokum ætla ég að benda á þetta merkilega ljóð eftir Alex Dang:

7 athugasemdir við “Útskýringar almenns eðlis og hrútlegs

  1. Takk fyrir þessa grein, ég hef ekki almennilega áttað mig á þessu orði!
    „Útskýringar um upplifun undirskipaðs aðila byggðar á upplifun annars aðila í forréttindastöðu“ – þetta er fín og nokkuð skýr og afmörkuð skilgreining.

    En þá þarf bara að passa að setja ekki hrútskýringarstimpil á alla mögulega gagnrýni sem kemur frá einhverjum úr yfirskipuðum hópi. T.d. þegar þú segir „[t]ýpískar hrútskýringar snúast um að femínistar séu að gera eitthvað vitlaust“, þá er ekki þar með sagt að öll gagnrýni um að eitthvað sem feministar geri sé vitlaust sé þar með hrútskýring. (T.d. ef gagnrýnin fellur ekki undir skilgreininguna að ofan.)

    • Nei vissulega – það skal skjalfest og staðfest að það má vissulega gagnrýna femínista án þess að um sé að ræða hrútskýringu 🙂

    • Hrútskýring getur vissulega kallast yfirlæti. En ekki allt yfirlæti er hrútskýring. Yfirlæti getur til dæmis verið þegar t.d. bókmenntafræðingur setur sig á háan hest gagnvart manneskju sem er ómenntuð og lítið lesin. Hrútskýring er hins vegar til dæmis ef verr lesinn karlmaður tekur að sér að fræða bókmenntafræðinginn um bókmenntafræði, og gefur sér það (líklega ómeðvitað) að hann viti meira um viðfangsefnið af því að bókmenntafræðingurinn er kona.

      Annað gott dæmi var þegar vinur minn sem hefur aldrei gert tónlist greip ítrekað fram í fyrir mér og vinkonu minni (sem erum báðar tónlistarkonur), til að fræða okkur um það hvernig það er að vera kona í tónlist.

      Tek það fram að bæði dæmin eru um karla/konur af því að ég er kona og það er minn reynsluheimur. Takk Kári fyrir að minna okkur á að hugtakið og hegðunin einskorðast engan vegið við það eitt.

  2. Skemmtileg þýðing á orðinu mansplaining. Hrútskýring er hugtak sem ætti að vera notað héðan í frá.

    Nú þegar þessar ræskingar eru búnar vonast ég hins vegar til þess að heyra orðið hrútskýringu sem sjaldnast. Hugtakið er hreinlega einum of loðið til að það sé ekki misnotað af fólki með krónískt óþol gagnvart öðrum skoðunum en sínum eigin.

    Ég er femínisti. Ég hef endrum og eins tjáð mig um femínisk málefni hér inn á knúzið og víðar. En ég er langt í frá sammála öllum femínistum því ég er einnig libertarian. Því geðjast mér ekki að hinu mikla stjórnlyndi þeirra sem lengst eru til vinstri og lengst til hægri. Svo ég hef deilt á ákveðið fólk sem kallar sig femínista og það fólk er gjarnan lengst til vinstri þar sem ég held að þú finnir fáa femínista sem eru lengst til hægri. Fyrir þetta hef ég verið kallaður andfemínisti, karlremba, afturhaldsseggur og einnig legið á hálsi að halda uppi svokölluðum hrútskýringum.

    Konseptið sjálft er allt í lagi en ég óttast að það verði notað til að drepa niður réttmæta umræðu og tryggja að einungis ein hlið femínismans sé hin rétta. Það myndi þá vera authoritarian feminism, anti-sex feminism o.s.frv., oftast predikað af þeim sem lengst eru til vinstri og hafa tekið sinn lýðræðisskilning frá kommúnismanum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.