Hver er að tala við barnið þitt á netinu?

Höfundur: Sigríður Ösp Arnarsdóttir

Í samfélagi okkar er internetið í sífellu að ryðja sér meira rúms í samskiptum manna frá degi til dags. Með tilkomu samskiptamiðla eins og t.d Facebook og Google+ hefur skapast mun einfaldari og aðgengilegri grundvöllur fyrir fólk á öllum aldri til að komast í samband við svo til hvern sem er. Þar af leiðandi er aðgengi að börnunum okkar nánast ótakmarkað. Á flestum heimilum eru tölvur, snjallsímar eru komnir ofan í flesta vasa og meira að segja bjóða leikjatölvur upp á samskipti á milli ókunnugra. Þetta er gríðarlega varasöm þróun sem vekur hjá mér óhug.

Þó að þetta kunni vissulega að hafa sína kosti og bjóði upp á mörg tækifæri þá hefur internetið líka margar skuggalegar hliðar. Til að mynda hafa kynferðisbrotamenn árum saman verið að nýta sér Internetið til að tæla fórnarlömb sín til kynferðislegra athafna. Tæling hefur það verið kallað þegar fullorðinn einstaklingur vinnur sér inn traust barns í þeim tilgangi að misnota það kynferðislega. Þeir ljúga til um allt mögulegt til að fá barnið til að treysta sér, þeir vinna markvisst í því að einangra það, sannfæra það um að hann sjálfur sé eina manneskjan sem raunverulega skilur það og „búa það undir“ að vera misnotað með því að gera það hægt og rólega ónæmt fyrir hugmyndinni um kynferðislega hluti. Þeir eru oft sérfræðingar í að spegla tilfinningar barnsins, hrósa því mikið og láta því finnast það vera sérstakt.

Á mínum yngri árum var internetið tiltölulega nýtt fyrirbæri. Það vakti mikla forvitni hjá börnum á mínum aldri og þótti það vera áhugaverður samskiptamiðill. Við vinkonurnar vorum því ekki lengi að uppgötva samskiptamiðilinn IRC, þar sem mögulegt var að tala saman um allt og ekkert án þess að þurfa að hanga í símanum.

Þessi saklausu samskipti á milli okkar vinkvennanna urðu til þess að ég, tólf ára stelpa, fór að eignast marga „vini“ á netinu sem ég vissi í raun engin deili á. Á meðal þeirra var strákur sem sagðist vera tveimur árum eldri en ég. Hann laug, þar sem hann var í raun 20 ára. Hann hafði  sömu áhugamál, hlustaði á sömu tónlist og ég og hann virtist skilja mig svo vel og allar mínar tilfinningar. Á þessum tímapunkti þróaðist ákveðið samband okkar á milli sem ég taldi vera djúpa og mikla vináttu, ég treysti honum fyrir leyndarmálunum mínum og hann mér fyrir sínum. Einn daginn sagðist hann þurfa að játa dálítið fyrir mér sem hann sagðist ekki hafa þorað að segja mér strax, hann hafði upphaflega logið til um aldur. Þetta fannst mér svosem ekkert tiltökumál þar sem að ég þekkti hann, og vissi alveg að aldur myndi ekkert breyta okkar vináttu.

Fljótlega eftir þetta fór hann að spyrja mig spurninga sem snérust að kynlífi, um mínar hugmyndir og hvað mig langaði til að prófa í tengslum við kynlíf. Hann spurði  hvort ég hefði hugsað eitthvað um kynferðislega hluti eða skoðað kynferðislegar myndir eða myndbönd. Verandi 12 ára var ég vitanlega orðin forvitin um þessa hluti og ræddi þá við þennan besta vin minn. Eftir því sem leið á urðu samtölin grófari, en þar sem að það stigmagnaðist svo hægt þá var ég alltaf orðin hálfpartinn ónæm, mér þótti þetta orðið eðlilegur hlutur að ræða.

Áfram héldu samskiptin á milli okkar og á endanum tókst honum ætlunarverk sitt. Hann nýtti tækifærið á meðan foreldrar mínir voru erlendis til að sannfæra mig um að koma að hitta sig. Ég sannfærðist því að á þessum tímapunkti fannst mér ég vera sérstök og taldi mig hafa eignast vin sem hlustaði og skildi mig.

Tælarar geta verið með mörg börn í sigtinu í einu og þó eitt og eitt detti út þá halda þeir áfram að vinna í hinum þar til þeir eru komnir með fullkomið fórnarlamb.

Afleiðingarnar af því að búa yfir svona hræðilegri reynslu eru gífurlegar. Skömmin er yfirþyrmandi fyrir fórnarlambið og í mínu tilfelli sagði ég engum frá því hvað „ég hefði verið heimsk“ að fara að hitta ókunnugan mann.

Áður en lengra er haldið vil ég árétta að ég átti, fram að þessu, hamingjusama barnæsku, kom af eðlilegu heimili þar sem engin óregla var, en nákvæmlega á þessum tímapunkti í lífi mínu var ég á milli skóla og átti enga vini sem bjuggu í sama hverfi. Ég var því einmana, vantaði einhvern til að hlusta á mig og sýna mér athygli, sem gerði mig að auðveldri bráð fyrir tælara.
Ég skammaðist mín fyrir þetta í mörg ár og var alltaf logandi hrædd um að það kæmist upp um þetta.

Þegar ég var 25 ára byrjaði ég á nýjum vinnustað og stuttu eftir það mætti ég honum þar. Ég fór alveg í kerfi, starði ofan í gólfið og vonaði heitt og innilega að hann myndi ekki þekkja mig því ég var logandi hrædd um að hann myndi segja frá „ljóta leyndarmálinu mínu“. Það er nefnilega þannig að rökhugsun og tilfinningar eiga ekki alltaf samleið, og oft vilja tilfinningarnar taka völdin.

Eftir tvö ár í starfi var ég orðin hálf lömuð af kvíða og þunglyndi. Ég hætti í vinnunni og leitaði mér loksins hjálpar fagaðila og gat þá loksins opnað á og unnið úr þessari reynslu. Ég er hér með, 18 árum síðar, að skila þessari skömm, því hún er ekki mín að bera.

Tilgangur minn með því að skrifa þessa grein er að vekja athygli á þessu máli sem er að gerast allt í kring um okkur, en fáir virðast vera meðvitaðir um. Ég ákvað því að stíga fram með mína persónulegu reynslu til að opna á umræðu um það sem tæling er og reyna þannig að koma í veg fyrir að fleiri saklaus börn þurfi að ganga í gegnum það sama og ég. Það virðist vera í mannlegu eðli að halda að hlutirnir komi ekki fyrir okkur né okkar nánustu. Ég er þó lifandi sönnun þess að þetta getur komið fyrir hvern sem er. Líka barnið þitt.

Tæling á netinu (eða „online sexual grooming“ á ensku) er gríðarlega alvarlegt mál sem hefur margvíslegar, langvarandi, alvarlegar afleiðingar. Þetta er að gerast allt í kring um okkur án þess að um það sé almenn vitneskja, því finnst mér nauðsynlegt að fræða þjóðina um þessa hættu. Ef mér tekst með þessum pistli að forða þó ekki sé nema einu barni frá þessari reynslu þá er markmiði mínu náð.

Hvað er hægt að gera?

Í dag eru þessar hættur þekktar og því eru forvarnir besta leiðin til að vernda börn gegn því að lenda í þessu. Foreldrar verða að geta átt opin og heiðarleg samskipti við börn sín, gert þeim grein fyrir því hvert þau geta leitað og að þið sem foreldrar takið á mótið þeim með opnu viðmóti án þess að dæma þau. Foreldrar verða að sýna því áhuga sem börnin þeirra eru að gera á netinu, fá að vita við hverja þau eru að tala og spyrja þau opinna spurninga og fyrst og fremst muna að hlusta á hvað barnið hefur að segja.

Ef grunur leikur svo á að barnið sé í hættu á netinu þarf að tala við barnið, ef það er ekki opið fyrir umræðum við foreldri er hægt að ræða þetta við skólasálfræðing og hann getur rætt við barnið sem óháður aðili. Einnig er hægt að hringja í Barnahús og fá að ræða við sérfræðinga þar um hvað sé best að gera í stöðunni, hvaða leiðir séu álitlegar og hvaða afleiðingar fylgja þeim.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.