Myndin af Ragnheiði

Höfundar: Eva Dagbjört Óladóttir og Guðný Elísa Guðgeirsdóttir

ragnheidur_opera

ragnheiður-borði

Þóra Einarsdóttir sem Ragnheiður í óperu Gunnars Þórðarsonar.

Í rúm 350 ár hefur Ragnheiður Brynjólfsdóttir heillað íslensku þjóðina. Um sögu hennar hafa verið skrifaðar bækur, leikrit, a.m.k. eitt dægurlag og nú síðast heil ópera. „Ragnheiður“, ópera eftir þá Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson, var frumsýnd í Hörpu þann 1. mars síðastliðinn og hefur hún hlotið verðskuldað lof. Vinsældir óperunnar bera þess vitni að enn er talsverður áhugi fyrir sögu Ragnheiðar biskupsdóttur.

Ragnheiður Brynjólfsdóttir (1641 – 1663) var frumburður Brynjólfs Sveinssonar biskups. Hún ólst upp í Skálholti, dóttir eins menntaðasta og valdamesta manns á Íslandi. Hún var því hástéttarkona. Ragnheiður naut þannig töluverðra forréttinda sem snerust svo upp í andhverfu sína þegar sá kvittur kom upp að hún ætti í óleyfilegu ástarsambandi við kennara sinn, Daða Halldórsson. Vegna stöðu föður hennar voru slíkar sögusagnir teknar sérlega alvarlega og var hún látin sverja skírlífiseið í vitna viðurvist. Hneykslið vatt svo upp á sig, rúmum níu mánuðum eftir eiðtökuna, þegar Ragnheiður fæddi soninn Þórð Daðason. Tveimur mánuðum eftir fæðingu Þórðar var hann tekinn af móður sinni og komið í fóstur og Ragnheiður var látin gangast undir opinbera aflausnarathöfn í Skálholtskirkju. Um ári eftir þetta lagðist sótt á heimilisfólk í Skálholti. Ragnheiður var meðal þeirra sem veiktust og lést hún af veikindum sínum.

Þessir atburðir voru á sínum tíma stórhneyksli og síðan þá höfum við reglulega rifjað upp söguna, velt henni fyrir okkur og endursagt. Meðal þeirra sem hafa gert þessari sögu skil eru Torfhildur Hólm, sem skrifaði skáldsöguna „Brynjólfur Sveinsson biskup“ (1882), og Guðmundur Kamban sem skrifaði skáldsagnabálkinn „Skálholt“ (1930-1932) og upp úr honum leikgerðir. Árið 1929 hafði Guðmundur einnig skrifað greinargerð í tímaritið Skírni þar sem hann safnar saman heimildum um lífshlaup Ragnheiðar og Daða og reynir að skapa sem heildstæðasta mynd af hinum raunverulegu atburðum. Smám saman hefur skapast ákveðin saga sem þjóðin þekkir sem sögu Ragnheiðar biskupsdóttur. Sú saga hefur öðlast sitt eigið líf og er orðin bókmenntaverk.

Sögupersónan Ragnheiður Brynjólfsdóttir hefur ákveðin persónueinkenni. Hún er sterk, ástríðufull, þrjósk, greind og sjálfstæð. Það mætti jafnvel kalla hana skörung. Þar er hún komin í elítufélagsskap með drengjum góðum á borð við Bergþóru Skarphéðinsdóttur og Guðrúnu Ósvífursdóttur úr Íslendingasögunum. Þær eru „ofurkonur“ sem njóta ákveðinnar velþóknunar þjóðarinnar. Þær eru settar á stall, en til þess að koma manneskju upp á slíkt fyrirbæri sem stallurinn er, verður að sníða hana til og skapa mynd. Kvenskörungurinn verður því oft að staðalmynd í frásögnum, að konu sem á sér það hlutverk eitt að vera sterk . Þær þversagnir sem einkenna heilsteypta sögupersónu hverfa til að undirstrika skörungsskap hennar. Skörungsskapur Ragnheiðar er auðvitað mismikill eftir sögumönnum, auk þess breytist ímynd hennar úr kvenskörungi yfir í önnur hlutverk þegar sögunni vindur fram.

Í söngbók (libretto) að óperunni „Ragnheiður“ lýsir Friðrik Erlingsson þeirri Ragnheiði sem verk þeirra félaga fjallar um. Hann sér hana sem tákn fyrir „hið hreina hjarta sem elskar af einlægni“ en seinna sem hina þjáðu móður eða Mater dolorosa. Mater dolorosa er ein birtingarmynd Maríu meyjar í kaþólsku og byggir á dýrkun á hinum sjö þjáningum Maríu sem hún líður vegna móðurástar sinnar. Móðurástin birtist í mörgum frásögnum sem hin æðsta mögulega ást þar sem hún er bæði skilyrðislaus og fórnfús. Í þessu samhengi er þó mikilvægast að þrátt fyrir styrk hennar er hún ekki kynferðisleg heldur „hrein“. Út óperuna birtast ýmsar tilvísanir í Maríudýrkun og Ragnheiður sjálf sést við lok verksins komin upp á stall í hlutverk guðsmóðurinnar með barn sitt.

Hreinleikinn er veigamikið stef í sögu Ragnheiðar. Guðmundur Kamban reiknar það út í greinargerð sinni að hún hafi ekki orðið þunguð fyrr en eftir að hún vann eiðinn og dregur af því þá athyglisverðu ályktun að hún hafi heldur ekki byrjað að sofa hjá Daða fyrr en þá. Friðrik og Gunnar nota þessa túlkun Guðmundar og gefa jafnvel í skyn að þau hafi aðeins sofið saman þetta eina, örlagaríka skipti. Það var því í raun ekkert hjásofelsisstand á Ragnheiði: ást hennar og sál voru „hrein“ en stoltið leiddi hana út í þessa einu einustu hrösun. Í þessari túlkun er samúðin með Ragnheiði verulega skilyrt. Ranglætið sem drífur söguna áfram felst í því að hún er borin rangri sök en ekki í freklegu inngripi feðraveldisins í kynfrelsi hennar.

madre dolorosa

Mater dolorosa líkneski

Upphafning þjáningarinnar er hluti af persónugervingu Ragnheiðar. Í söngbókinni lýsir Friðrik lífshlaupi Ragnheiðar sem píslargöngu. Sú Ragnheiður sem birtist okkur í óperunni fellur vel inn í hugmyndir fólks um píslarvætti þar sem hún þjáist vegna ástar sinnar á Daða. Hugmyndin um píslarvætti hefur venjulega sterka skírskotun til trúar og reyndar má segja að Ragnheiður hafi vissulega þjáðst fyrir trú – trú föður síns.

Mikilvægur hluti píslarvættisins er það að deyja píslardauða. Í frásögnum er gjarnan ýjað að því að Ragnheiður hafi veslast upp af ástarsorg, annað hvort vegna rómantískrar ástar eða móðurástar. Þessi túlkun færir söguna á hástig harmrænnar frásagnarhefðar. Það að Ragnheiður skyldi deyja svona stuttu eftir þessa miklu atburði er því hvalreki fyrir sagnamenn. Vissulega getur verið að viðkvæm heilsa Ragnheiðar hafi verið afleiðing þeirra áfalla sem hún varð fyrir en það eina sem vitað er með vissu er að hún veiktist og dó, sem var alls ekki óalgengt á 17. öld.

Í hugum flestra lýkur sögu Ragnheiðar ekki þrátt fyrir að aðalpersónan sé dáin. Ekki eru öll kurl komin til grafar fyrr en Brynjólfur hefur misst það sem eftir er af fjölskyldu sinni og haft tækifæri til að iðrast gerða sinna. Í raun er Ragnheiður sjálf ekki alltaf aðalpersónan í eigin sögu og hefur þá karl faðir hennar helst verið í því hlutverki. Þetta er að vissu leyti skiljanlegt. Brynjólfur Sveinsson er söguleg persóna og vann sér ýmislegt fleira til frægðar en að vera faðir Ragnheiðar. Þær sögulegu heimildir (bréf, skjöl, kirkjubækur o.s.frv.) sem varðveist hafa eru einnig að mestu skráðar af körlum í valdastöðu, þar með talið af Brynjólfi sjálfum. Þessar heimildir endurspegla reynsluheim og gildismat þeirra sem þær rita og því verður þeirra sjónarhorn ráðandi. Þetta er þó ekki eingöngu bundið við sögulegar heimildir heldur er það líka þekkt innan bókmenntanna að sögumenn hafa tilhneigingu til að horfa á atburði frá sjónarhorni þeirrar persónu sögunnar sem er í mestri forréttindastöðu. Þá er hennar þjáningu gjarnan forgangsraðað fram fyrir sársauka persóna úr undirskipuðum hópum en slík karlkvöl er hér einmitt hlutskipti Brynjólfs biskups. Í verki Friðriks og Gunnars er þannig lokahnykkurinn settur á söguna 10 árum eftir dauða Ragnheiðar þar sem Brynjólfur stendur einn yfir gröf nýlátins dóttursonar síns. Kórinn syngur í lok þessa atriðis afar fallegt lag um smæð mannsins í heiminum, hversu fallvölt völd og stórmennska eru og eins mikilvægi fyrirgefningarinnar. Þetta kórlag er erfitt að túlka öðruvísi en sem útlistun á raunum Brynjólfs sem hefur misst alla fjölskyldu sína vegna drambs síns. Af þessum sögulokum mætti ráða að þótt Ragnheiður sé burðarás sögunnar sem allt hverfist um tilheyri ákvarðanir, örlög og þjáningin Brynjólfi.

Ragnheiður hét ung kona sem ólst upp í Skálholti á 17. öld. Það litla sem til er af samtímaheimildum um hana er skráð af körlum í valdastöðu. Þeirra gildismat og sýn á lífshlaup Ragnheiðar skín þar í gegn. Í tímans rás hefur saga hennar hlaðið utan á sig og öðlast sjálfstæða tilveru. Sú saga hefur mótast af ríkjandi samfélagi á hverjum tíma. Þannig hefur orðið til sú mynd sem við þekkjum af Ragnheiði. Hún er holdtekja skörungsskapar, hreinleika, ástríðu, hinnar þjáðu móður og hins upphafna píslarvotts. Við höfum fært hana inn í bókmenntaleg sniðmát (e. trope) og drögum út frá þeim ályktanir um upplifanir hennar. Með þessu kjósum við að draga fram þá þætti sem falla vel að þeirri sögu sem við viljum segja en veitum enga athygli þáttum sem draga úr vægi þessara sniðmáta. Meðal þess sem hefur verið sniðgengið er kynverund Ragnheiðar. Við leitum allra leiða til að varðveita „hreinleika“ hennar þrátt fyrir að hafa eignast barn í lausaleik. Sú Ragnheiður sem var, fyrir 350 árum, manneskja af holdi og blóði er horfin og eftir stendur mynd á stalli. pedestal

10 athugasemdir við “Myndin af Ragnheiði

 1. Þetta eru mjög áhugaverðar pælingar. Ég er samt ekki sammála niðurstöðunni. Mér fannst Ragnheiður óperunnar alveg hreint ljóslifandi kynvera, ja allt þar til hún lá örend. Er ég þá ósammála öllum sjónarmiðum pistilsins? Nei. En mér finnst pistlahöfundar svolítið vera að þröngva sögunni/óperunni inn í ansi fastmótaðan kynjaramma.

  Auðvitað er saga Ragnheiðar fyrir löngu orðin eins konar lifandi þjóðsaga, og persónur sögunnar þannig meiri sögupersónur en alvöru sögulegar persónur, en sagan myndi samt aldrei snerta okkur með sama hætti, nema fyrir það að við vitum að bakvið ‘mýtuna’ var alvöru kona sem mátti þola þessi örlög.

  Mér fannst alls ekki að „kynverund“ Ragnheiðar hafi verið sniðgengin í óperunni. Það var heilmikil rómantík í loftinu í fyrsta þætti, þegar „vinnumeyjar“ og skólasveinar dansa saman í blómahaga. Þá var það Ragnheiður sem hafði mest frumkvæði í ástarævintýrinu með kennara sínum og það er hún sem fer til hans kvöldið eftir eiðinn og leggst með honum, í bókstaflegri ástar- og samfarasenu! Ég sé ekki alveg hvernig ætti að gera „kynverund“ Ragnheiðar hærra undir höfði, nema breyta henni í ek. ‘femme fatale’ … ?!

  Það er satt að höfundar óperunnar ganga út frá kenningu Guðmundar Kambans, en mér finnst pínu langsótt að segja að kenningin gangi (eingöngu) út á að varðveita „hreinleika“ Ragnheiðar sem lengst. Í mínum snýst kenningin fyrst og fremst um að fría Ragnheiði af þeim grun að hún hafi svarið rangan eið, sem var miklu meiri glæpur en skírlífisbrotið. Eiðtaka á þessum tíma var heilmikið mál, svipað og mæta fyrir Hæstarétti. Það hvort hún hafi sofið hjá Daða einu sinni eða oftar er ég ekki viss um að hafi verið stórmál í huga Guðmundar Kambans, hvað þá óperuhöfundanna eða okkar áhorfenda. Kamban er ekki (fyrst og fremst) að sanna að Ragnheiður hafi verið skírlíf fyrir eiðtökuna, heldur að hún hafi ekki verið lygari, framið rangan eið.

  Jú, „stoltið“ ýtti henni kannski út í ástarfundinn (í sögunni). En var það útaf því að hún var borin rangri sök? Var það ekki allt eins til að taka í eigin hendur sín örlög? Sætta sig ekki við að feðraveldið skyldi bæði niðurlægja hana og taka frá henni manninn sem hún elskaði. Með því að rekkja með Daða endurheimti hún kynfrelsi sitt, a.m.k. eina nótt. Þannig má lesa út úr ástarsenunni feminíska sjálfstæðisbaráttu elskandi konu með ólgandi kynhvöt.

  Vissulega endar sagan með Brynjólfi. Það má túlka á ýmsan máta, en hefði ekki óperan orðið ansi snubbótt ef tjaldið hefði fallið eftir andlát Ragnheiðar? Það að drengurinn ungi skyldi ekki lifa nema í 12 ár og að afinn Brynjólfur stæði eftir aleinn ER ansi snar þáttur í þessar sögu. Eða hvað?

  Pælingarnar um Maríu mey, píslarvætti o.fl. finnst mér mjög áhugaverðar og auðvitað má lesa eitt og annað út úr þessum líkingum sem höfundar vefa í söguna. Mér finnst þetta í það heila skemmtileg greining pistlahöfunda. En að sú Ragnheiður sem söng, elskaði og dó á sviði í Hörpunni hafi verið blóðlaus og kynlaus myndastytta, ég er bara ekki sammála þeirri niðurstöðu.

  • Sæll Einar

   Takk fyrir að pæla í þessu með okkur. Mig langar að kommenta á nokkra punkta sem þú kemur með:

   Þegar við segjum að allra leiða sé leitað til að varðveita “hreinleika” Ragnheiðar meinum við ekki að óperan forðist að fjalla um kynlíf. En það virðist nauðsynlegt að gefa Ragnheiði margar ástæður til að sofa hjá Daða: Hún var heltekin heilagri ást, hún var að bregðast við ranglæti eiðtökunnar, hún var fórnarlamb pólitísks samsæris… allar nema þá einföldustu: Kannski var hún bara gröð. Fólk hefur alltaf stundað það að sofa hjá og alls ekki alltaf fylgt leikreglum síns samtíma í þeim efnum. Þó að Ragnheiður eigi, samkvæmt siðferðismati síns tíma, ekki að láta stjórnast af kynhvötinni þýðir það ekki að hún hafi ekki gert það. Okkur finnst það áhugavert hversu mikið við, sögumenn og áheyrendur nútímans, þurfum að afsaka “brot” Ragnheiðar áður en við förum að hafa samúð með henni. Ef hún hefði sofið hjá Daða af engri ástæðu annarri en greddu, hefði hún þá átt það skilið sem hún gekk í gegn um?

   Það er satt að túlkun Kambans gerir Ragnheiði saklausa af því að hafa unnið rangan eið. Og það verður einnig til þess að við skautum létt framhjá því hversu vonlaus aðstöðu Ragnheiður er sett í. Setjum sem svo að hún hafi verið búin að sofa hjá Daða þegar hún er krafin um eiðinn. Hvað á hún þá að gera? Eins og þú sagðir er stórmál að sverja eið, ekki aðeins lagalega heldur trúarlega, en það að verða uppvís að “frillulifnaði” hefur hrikalegar afleiðingar eins og við sjáum m.a. í óperunni. Á hún að gerast “lygari” eða leggja sjálfa sig í hendur miskunnarlausu klerkaveldinu? Um þetta væri áhugavert að sjá óperu. Ég hefði viljað sjá sögu um konu sem mætti á eiðtökuna í Skálholti og laug eins og hún var löng til. Það hefði verið mannlegri Ragnheiður.

   Ég tel það alls ekki feminíska sjálfstæðisyfirlýsingu að sofa hjá einhverjum til að hefna sín á pabba sínum. Í librettoinu er einmitt sagt um þetta að Ragnheiður hafi kunnað “að hefna sín svo undan sveið”. Það að Ragnheiður skuli sofa hjá Daða beinlínis sem viðbrögð við niðurlægingu eiðtökunnar er í mínum huga enn ein birtingarmynd þeirrar hugsunar að kynhegðun kvenna sé reaktív og stjórnist fyrst og fremst af hegðun karla.

   Persónulega finnst mér hvorki afdrif Þórðar né Brynjólfs skipta höfuðmáli fyrir söguna en þó hefði að meinalausu mátt setja inn e.k. eftirmála um þá. Það sem við setjum spurningarmerki við í greininni er tilhneigingin til að gera dramb og missi Brynjólfs að aðalumfjöllunarefni sögunnar. Ragnheiður og Brynjólfur eru hluti af sögu hvors annars en það er mikilvægur munur á sögu um stjórnsaman biskup sem missir allt, þ.m.t. dóttur sína, og sögu um unga konu sem lendir upp á kant við feðraveldið, þ.m.t. föður sinn.

 2. Áhugaverðar umræður og athugasemdir til fyrirmyndar. Ég er samt ekki viss um að það sé til neitt sem heiti að „vera bara graður“ eins og kynlanganir okkar geti á einhvern hátt staðið utan menningar eða að það sé hægt að flysja utan af þeim allt kyngervingardraslið til einhvers sem er einfalt og hrátt sex. En ég er sammála því að endalausar útskýringarnar á falli Ragnheiðar segja meira um þau sem hafa búið til framhaldslíf Ragnheiðar, (Torfhildi, Kamban, Friðrik Erlingsson, okkur sjálf) og siðferðismat þeirra en það hvað hún og kennarinn hennar voru að pæla.

  • Af hverju skyldi ekki vera til neitt sem heiti að “vera bara graður”? Er ekki hægt að „vera bara hungraður“? Ef það er hægt, af hverju skyldi ekki eins vera hægt að vera bara graður? Af hverju skyldi kynlöngun okkar vera tengd menningu flóknari böndum en hungurtilfinning?

 3. Ég er algjörlega sammála þeim Einari og Sigríði Guðmars en ekki því að Brynjólfur og Þórður hefðu mátt missa sín í þessari sögu, því þarna er um harmleik að ræða og hann lýtur ákveðnum lögmálum í byggingu sinni. Ef ætlunin hefði verið að semja annars konar verk hefði það verið allt annar handleggur, en sem harmleikur stendur verkið mjög sterkt eins og það er uppbyggt því Brynjólfur, sem valdamaður og faðir, stendur eftir einn og allt sem honum var kærast farið. Valdið, kerfið hefur þannig mulið alla undir sig í ósveigjanleika sínum og í raun eru bæði Ragnheiður og Brynjólfur jafnt fórnarlömb sem gerendur á sinn hátt. Brynjólfur sem fulltrúi hins illa feðraveldis þarf síðan að reyna það á eigin skinni hvernig allur hans metnaður og virðing er einskis virði þegar ástvinir og fjölskylda líða fyrir. Hann þroskast og þjáist og áhorfendur með.

  Verkið getur alveg heitið Ragnheiður en ekki Brynjólfur eins og verk Shakespeares heitir Rómeo og Júlía heitir ekki Capulet og Montague.

 4. Gaman að því hvað fólk upplifir mismunandi áhrif af verkinu. Ég upplifði fyrst og fremst ánægju með það að mér fannst þessir 3 karlar, sem eru höfundar tónlistar, texta og leikrænnar tjáningar, leggja sig fram um að „rétta hlut Ragnheiðar“ og reyna að „bæta“ fyrir þau rangindi og kúgun sem hún mátti sæta af hálfu föður sins, kirkjunnar og tíðarandans fyrst og fremst fyrir að dirfast að fylgja ástinni.
  Í fyrsta lagi ber verkið nafn hennar einnar, einfaldlega „Ragnheiður“ ekki „Biskupsdóttirin“ eða „Ragnheiður Brynjólfsdóttir“ eða „Ragnheiður og Brynjófur“. Mér finnst þetta flott hjá þeim félögum, þarna velja þeir einfaldleikann og fullvissa áhorfandann um ætlunarverk sitt að fjalla um Ragnheiði á hennar forsendum. Sem sagt minna verður stundum meira og það tekst þarna vel.
  Í öðru lagi og rökréttu framhaldi af nafngift verksins taka höfundarnir afstöðu með ástinni og æskunni gegn valdinu og hörkunni studdu af kirkjuveldinu þar sem karlar ráða öllu og nota dætur sínar sem skiptimynt í valdabrölti sínu.
  Í þriðja lagi sýna þeir í lokauppgjörinu hvernig allir tapa á valdabrölti ferðaveldisins og mest sá sem harðast barðist, Brynjólfur sjálfur.
  Í fjórða lagi láta þeir Brynjólf gera sér grein fyrir þessum algera ósigri og sýna ekki aðeins fáráðleika baráttunnar heldur líka það tjón sem hún olli og sársaukann sem er svo bitur að það fer hrollur um áhorfandann og hann finnur til samkenndar og getur auðveldlega séð sig í þessari hræðilegu stöðu.
  Ég er alsæl með þessa sýningu og stolt af þessu 3 körlum sem á vissan hátt „greiddu skuld feðraveldisins við Ragnheiði“ með því að sýna fram á að ástin er sterkasta aflið og nær að ljóma út yfir gröf og dauða.

 5. Þetta er sumpart áhugaverð greining en svolítið grunnhyggnislega unnin og fyrirsjánleg. Og vegna þess að greinarhöfundar fara með nokkrar rangfærslur þá vil ég leiðrétta þær.

  Höfundar greinarinnar þyrftu að kynna sér betur dramatúrgíu og uppbyggingu harmleikja til þess að átta sig á að verk sem óperan Ragnheiður verður ekki eingöngu skilgreint út frá hinu þrönga sjónarhorni kynferðis einnar persónu verksins.

  Hér er fyrst og fremst um að ræða samspil og átök persóna. Í raun gildir einu af hvoru kyni persóna er, svo lengi sem drifkraftur hennar er skilgreindur og sýndur í verki. Og þegar verk er staðsett í ákveðinn sögulegan tímaramma skiptir máli hvaða lögmál og samfélagsreglur giltu um hvort kynið fyrir sig.

  Ragnheiður er aðalpersónan, vegna þess að það er drifkraftur hennar sem keyrir söguna áfram. En Brynjólfur og Daði eru þeir pólar sem barátta hennar snýst um, þ.e. fortíðin (faðirinn) og framtíðin (elskhuginn). Verkið byggir á samspili þriggja ‘aðal’-persóna (Ragnheiðar, Brynjólfs og Daða) og tveggja ‘auka’-persóna (Ingibjargar og séra Sigurðar).

  Saga Ragnheiðar byggir á raunverulegu fólki, raunverulegum kringumstæðum, tíðaranda, lögmáli í samskiptum, samfélagsmynstri – að maður tali ekki um lagabókstaf tímans og þá sérstaklega Stóradóm. Í frásagnarformi óperunnar er ekki svigrúm til að fara jafn nákvæmlega ofan í smáatriði eins og í skáldsögu t.d., og því verður hvert atriði að bera með sér blæ tímans á einhvern hátt og skila honum til áhorfenda, t.d. í samskiptum milli há- og lágstéttar, karla og kvenna.

  Ég verð að játa að svona kynjagleraugnalestur finnst mér ákaflega hlægilegt lestrarefni, vegna þess að um leið og greinarhöfundar ‘saka’ librettohöfund um að gefa Ragnheiði eiginleika mýtunnar, samkvæmt karllægum skilningi, þá um leið finnst þeim sjálfsagt að þær gefi Ragnheiði eiginleika sem þeim finnast réttir og góðir, samkvæmt sínum (kvenlæga) skilningi, einsog t.d. því að Ragnheiður gæti vel hafa sofið hjá Daða fyrir það eitt að hún var ‘bara gröð.’

  Það leiðir af sjálfu sér að Ragnheiður hefur áreiðanlega mjög oft verið ‘bara gröð’ og Daði líka. Það liggur í hlutarins eðli og allir sem vaxnir eru upp úr gelgjuskeiðinu vita það, og það þarf ekki að útskýra það fyrir þeim. En að leggja til að það geti hafa verið hin eina ástæða fyrir samförum Ragnheiðar og Daða er að loka augunum fyrir tímanum sem þau lifðu á og þeim lögmálum, skráðum og óskráðum, sem giltu í samskiptum fólks. Það er líka það sama og að loka augunum fyrir hreyfiafli persónanna einsog þær birtast í verkinu.

  Konur í dag sem eru ‘bara graðar’ myndu tæplega ganga að næsta karmanni sem þeim litist á, grípa um punginn á honum og draga hann afsíðis til að seðja gredduna – eða hvað? Sé það í raun og veru þannig sem ‘bara graðar’ konur hegða sér nú á tímum, þá gott og vel. En svoleiðis hegðun var einfaldlega ekki í boði hjá yfirstéttarkonu á 17. öld, – sama hversu gröð hún annars var – þótt konur af lægri stigum hafi geta leyft sér að láta þá eðlishvöt að stjórna gerðum sínum – og þá taka þeim afleiðingum sem á eftir fylgdu.

  Þetta snýst ekki um að klæða ‘gredduna’ í einhvern upphafinn búning svo við getum haft samúð með Ragnheiði, einsog Eva Dagbjört ýjar að í svari sínu til Einars Karls, hér fyrir ofan. Að ganga í fyrsta sinn í hvílu með Daða er ekki aðferð Ragnheiðar til að pirra föður sinn, heldur er hún að gjaldfella sjálfa sig sem væntanlega brúði handa nokkrum öðrum en Daða. Hún er m.ö.o. að reyna að tryggja að hennar eigin vilji nái fram að ganga um síðir.

  Greinarhöfundar furða sig á að sögu Ragnheiðar skuli ekki ljúka með dauða hennar, ef hún er þá aðalpersónan, en uppgötva að úr því að Brynjólfur er í lokaatriði verksins, 10 árum eftir dauða Ragnheiðar, þá hljóti verkið að snúast um hann. (Samt ekki Daða, sem er líka í lokaatriði verksins!)

  Greinarhöfundar þykjast sjá að í lokaþætti verksins sé verið að gefa Brynjólfi gott tækifæri til að iðrast, þar sem lagt er upp með að sýna dæmigerða ‘karlkvöl’ og þar með sé augljóst að verkið hverfist um hann en ekki Ragnheiði, og bæta við að það sé „þekkt innan bókmenntanna að sögumenn hafa tilhneigingu til að horfa á atburði frá sjónarhorni þeirrar persónu sögunnar sem er í mestri forréttindastöðu.“

  (Mikið sem ég á bágt með að þola þegar einhver gefur mér upp ’tilhneigingar’. Sjálfsagt ekki ósvipað og mörgum konum líður þegar karlmenn (drukknir eða ódrukknir) gefa sér að þær séu áreiðanlega hrifnar af þeim.)

  Lögmál frásagnarinnar er ósköp einfalt: Allt það sem kynnt er til sögu þarf að hafa eitthvert niðurlag; það er upphaf, miðja og endir á öllum viðburðum og öllum persónum. Sögu Ragnheiðar lýkur með dauða hennar – en þar með er frásögninni sjálfri ekki lokið, því hvað varð um drenginn? Hvað varð um Daða? Hvernig fór fyrir Brynjólfi?

  Hafandi kastað upp ákveðnum boltum verður sögumaður að grípa þá í lokin. Geri hann það ekki verður sagan endasleppt og ófullkomin. Ég mæli með að greinarhöfundar kynni sér, þó ekki væri nema Aristóteles, til að skilja hvernig frásögn er byggð og skipulögð með ‘upphaf-miðju-endi’ í huga, og þá sérstaklega harmleikinn. (Ef menn vilja frekar líta í verk kvenna trúi ég að í ljóðum Sappho megi finna svipaða hluti. A.m.k. á διθύραμβος, dithurambos, rætur að rekja til skáldsins Arions frá Lesbos, en sú tegund ljóðagerðar er talin marka upphaf hin Aþeníska harmleiks. Að vísu mun Arion hafa verið karlmaður.)

  En hvaðan kemur sú hugmynd librettóhöfundar að Brynjólfur hafi glímt við sálarkvalir síðustu æviárin? Var það ómeðvituð löngun karlkyns höfundar að upphefja iðrun og harm yfirstéttarpersónu af karlkyni sem hefur sagnfræðilega þungavigt sem áhrifamesti leiðtogi þjóðarinnar á 17. öld? Nei, sú ‘hugmynd’ kemur einfaldlega úr greinargerð Brynjólfs sjálfs, sem hann skráði eftir að Þórður Daða- og Ragnheiðarson var látinn. Í þeim skrifum blæðir hjarta hans og það er augljós sjálfsásökun á milli línanna, þótt hann segi ekkert slíkt berum orðum.

  Er harmur hans þá ómerkilegri vegna þess að hann var valdamikill karlmaður sem hafði sýnt dóttur sinni hörku og óbilgirni? Þvert á móti hlýtur harmur og eftirsjá slíkrar persónu að vera merkilegur fyrir allra hluta sakir og nauðsynleg niðurstaða á ferli þessarar persónu.

  Greinarhöfundar túlka einnig lokasálm verksins sem útlistun á Brynjólfi einum. Ekkert gæti verið fjær sanni, þótt hver sem er geti auðvitað túlkað alla skapaða hluti eftir sínu höfði. En ef greinarhöfundar litu yfir feril hverrar persónu fyrir sig gætu þær komið auga á að lokasálmur óperunnar ‘Sjáið manninn’ á við allar aðalpersónur þessa verks – og allar manneskjur yfirleitt, af hvoru kyninu sem þær eru, bæði í fortíð, nútíð og framtíð.

  Greinarhöfundar virðast ekki koma auga á hið augljósa í þessu verki: rauði þráður verksins, ‘þema’ þess, ef fólk vill tala á tæknimáli, er hverfulleikinn: það sem persónur þrá að eignast þó það geti ekki orðið, það er rétt innan seilingar, en samt næst það ekki; vonir sem bregðast, draumar sem rætast ekki. Þetta á við um Ragnheiði, Daða, Brynjólf, Ingibjörgu. Sá tónn er sleginn í fyrstu aríu Ragnheiðar, ‘Fyrirgefðu fífill.’

  Séra Sigurður er eina persóna verksins sem fær ‘allt sem ég þráði’ með hans eigin orðum, þegar hann hefur fengið æru sína og meira til úr hendi konungs, eftir að hafa gefið konungi Sæmundar-Eddu. En maður gæti líka spurt sig hvort hann muni sjá hlutina sömu augun þegar runnið verður af honum; hvort hin kaldranalega framhlið hans sé ekki eingöngu til að fela sársaukann undir niðri. Við þekkjum ást Ingibjargar til hans; mun honum farnast vel hafandi svívirt þá ást og kastað henni frá sér?

  Það sem frásagnarform óperunnar hefur umfram flest önnur form er að sýna inn í tilfinningalíf persóna, hvernig þær upplifa kringumstæður sínar eða atburði. Og hvers vegna skyldi nú Ragnheiður vera á stalli í lokaþætti verksins? Gæti það hafa eitthvað að gera með þær aðrar persónur verksins sem eru á sviðinu: Brynjólf og Daða? Hvað gæti t.d. Brynjólfur biskup mögulega hafa séð annað en dóttur sína og barnabarn, þegar hann lítur á styttuna af Maríu með barnið á arminum? Í lokaþætti óperunnar er verið að sýna líðan hans – en það er ekki verið að setja Ragnheiði sem slíka á stall, einsog fullyrt er í greininni.

  En nú er Ragnheiður vissulega á stalli, uppáklædd sem María guðsmóðir. Er það yfirlýsing til áhorfenda? Nei, það er grunnhygginn skilningur. ‘Upphafning’ Ragnheiðar eru tilfinningar og minningar föður hennar annars vegar og elskhuga hennar hins vegar. ‘Maríumynd’ Ragnheiðar gnæfir nefnilega líka yfir Daða í lokaatriði óperunnar.

  Annað af tveimur Maríukvæðum, sem til eru frá hendi hins raunverulega Daði Halldórssonar, lýsir Maríu mey í kennslustund – hvaðan skyldi hann hafa fengið þá hugmynd, nema vegna þess að hann var kennari Ragnheiðar, en hún átti þar að auki sama fæðingardag og María mey. Svo það er skjalfest heimild til fyrir því að þegar Daði Halldórsson yrkir um Maríu mey, þá er hann að hugsa til Ragnheiðar Brynjólfsdóttur.

  Það er vandalaust hverjum sem er að tína til hugtök, mýtur og kerfi og gera höfundi upp þessa og hina tilhneiginguna, sem hafi áreiðanlega stjórnað skrifum hans, meðvitað eða ómeðvitað – og slíkar vangaveltur eru stundum skemmtilegar og fyndnar, stundum afkárlegar eða hreinlega bjánalegar.

  Ég vel að setja þessa krufningu á óperunni í flokk með ‘fyndnum en afkárlegum’.

  Til að útskýra hinn afkárlega þátt þessarar greinar, tek ég hér eftirfarandi tilvitnun:
  „Ranglætið sem drífur söguna áfram felst í því að hún (Ragnheiður) er borin rangri sök en ekki í freklegu inngripi feðraveldisins í kynfrelsi hennar.“

  Rétt á undan hafa greinarhöfundar gefið sér að Kamban hafi fullyrt að Ragnheiður og Daði hafi ekki átt líkamleg mök á undan eiðnum. Þetta er rangt: Kamban segir að það verði aldrei sannað hvort svo hafi verið. En svo útskýrir hann hvers vegna það hefði ekki getað átt sér stað, – af sálfræðilegum ástæðum, – og þau rök eru veigamikil, þótt þau styðjist hvergi við skrásettar heimildir.

  En í tilvitnuninni hér að ofan má sjá að greinarhöfundum svíður það fyrst og fremst að feðraveldið skyldi grípa með svo freklegum hætti inn í kynfrelsi Ragnheiðar, sem raun bar vitni, og þar með útiloka að hún gæti riðið Daða einsog henni og þeim báðum þóknaðist!

  Mann setur eiginlega hljóðan við svona firru.

  Saga frá 17. öld gæti aldrei – ég endurtek: aldrei – fjallað um kynfrelsi eins né neins, allra síst hjá ógiftri yfirstéttastúlku – hversu gröð sem hún annars væri.

  Greinarhöfundar segja: „Í söngbókinni lýsir Friðrik lífshlaupi Ragnheiðar sem píslargöngu.“

  Þetta er beinlínis röng fullyrðing. Hin rétta tilvitnun í greinargerð mína í söngbókinni er svona: „Ragnheiður stendur fyrir hið hreina hjarta sem elskar af einlægni. Svo verður hún Mater dolorosa, hin þjáða móðir. Það er ekki annað hægt en að fyllast samúð með píslargöngu hennar, en við hljótum líka að sjá hennar eigin ábyrgð í því efni. Ragnheiður var fluggreind og fullkomlega meðvituð um þá áhættu sem hún tók með hegðun sinni. En – hún var ung og ástfangin, stórlynd og stolt, og valdi að loka augunum fyrir mögulegum afleiðingum gjörða sinna. Þar með verður hún tragísk söguhetja af epískri stærð.“

  Hún bar sumsé ábyrgð á píslum sínum, það er skýrt tekið fram. Sem þýðir að hún var ekki píslarvottur í þess orðs almennu merkingu, því einstaklingur getur átt sína píslargöngu þótt hann sé ekki píslarvottur.

  Málsgreininni í grein minni lýkur á þessum orðum: „Hvergi rís mynd hennar hærra en einmitt á stund aflausnarinnar þegar hún hefur verið lögð hvað lægst og svipt öllu.“

  Þannig er mynd hinnar tragísku hetju, hvort sem sú hetja er karlkyns eða kvenkyns. Þannig deyr Jesú en líka Jóhanna af Örk. Þannig deyr Njáll og líka Bergþóra. Þannig deyr Ófelía og líka Hamlet; öll eru þau ‘fórnarlömb’ örlaga sem ofin eru úr tveimur þáttum: viðnámi umhverfisins við hegðun þeirra, annars vegar, og gjörðum þeirra sjálfra, hins vegar.

  Og þá skiptir engu máli af hvoru kyninu þau eru.

  Skemmtigildi og afkárleiki greinarinnar mætast í himnesku hjónabandi í eftirfarandi klausu: „Meðal þess sem hefur verið sniðgengið er kynverund Ragnheiðar. Við leitum allra leiða til að varðveita „hreinleika“ hennar þrátt fyrir að hafa eignast barn í lausaleik. Sú Ragnheiður sem var, fyrir 350 árum, manneskja af holdi og blóði er horfin og eftir stendur mynd á stalli.“

  Hvernig getur einhver sagt að í sögu um konu sem leitar uppi ástmann sinn til að stunda með honum kynlíf; konu sem gengur með barn þeirra og fæðir það síðan – að kynverund hennar sé sniðgengin? Ég bara fæ ekki skilið hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu eftir að hafa séð óperuna Ragnheiði.

  Væri óperan að fjalla um samtíma okkar er möguleiki að þessi gagnrýni ætti við. En ekki um líf (eða kynlíf) fólks á 17. öld. Það eina sem mér dettur í hug er, að greinarhöfundar hefðu gjarnan viljað að kynfrelsi kvenna hefði verið með öðrum hætti á 17. öld en það var í raun og sannleika. En því miður skrifuðu konur þess tíma færra um það efni en við hefðum nú gjarnan viljað.

  Hér að ofan svarar Eva Dagbjört Einari Karli á þennan hátt:
  „Ég tel það alls ekki feminíska sjálfstæðisyfirlýsingu að sofa hjá einhverjum til að hefna sín á pabba sínum. Í librettoinu er einmitt sagt um þetta að Ragnheiður hafi kunnað “að hefna sín svo undan sveið”. Það að Ragnheiður skuli sofa hjá Daða beinlínis sem viðbrögð við niðurlægingu eiðtökunnar er í mínum huga enn ein birtingarmynd þeirrar hugsunar að kynhegðun kvenna sé reaktív og stjórnist fyrst og fremst af hegðun karla.“

  Í þessu svari birtist skortur á sögulegum skilningi og mannskilningi þar að auki. ‘Hefnd’ Ragnheiðar er ekki það að sofa hjá Daða, per se, heldur að fylgja eigin sannfæringu og tilfinningum. Hún er búin að segja Daða að það taki tíma að beygja föður hennar og þreyta hann; að hún sé tilbúinn til að bíða og þrauka þar til hann muni samþykkja vilja þeirra.

  En þá ákveður biskup hið óvænta: Ragnheiður skal sverja eið að sakleysi sínu svo hún sé gjaldgeng í það hjónaband sem hann hefur ákveðið. Hvernig getur Ragnheiður mögulega eyðilagt ákvörðun föður síns um að hún giftist öðrum manni en þeim sem hún sjálf vill giftast? Með því einu að falla með elskhuga sínum og mögulega eignast með honum barn; að gjaldfella sjálfa sig sem ‘saklausa og hreina brúði’. Það er það frelsi sem hún hefur úr að spila, það svigrúm sem hún hefur.

  Að tala um að það sé ‘reaktív kynhegðun sem stjórnist fyrst og fremst af hegðun karla’ er einfaldlega röng skilgreining. Athafnir Ragnheiðar eru ekki einvörðungu vegna niðurlægingar eiðtökunnar – það hangir miklu, miklu meira á spýtunni, sumsé öll framtíð hennar sjálfrar og lífshamingja, sem hún sjálf ætlar að hafa stjórn á.

  (‘Reaktív kynhegðun!?’ Hverjir setja svona lagað saman?! Hvað er kynhegðun annað en reaktív á einn eða annan hátt, hjá hvoru kyninu sem er?)

  Auðveldlega má rökstyðja að saga Ragnheiðar fjalli aðallega um glímu konu við feðraveldið. En það er samt sem áður mikil einföldun. Það er aðeins eitt sjónarhorn af mörgum. Einhver persóna verður að velja hvort hún ætlar að leggja á sig þrautir svo draumar hennar um framtíðina megi rætast, eða að firra sig þrautum og fylgja settum reglum, en tapa þar með lífshamingju sinni. Það er saga Ragnheiðar í grunninn. Þetta grunnstef gengur upp jafnt þótt um persónu af karlkyni væri að ræða, en ætli höfundur að nota tímaramma hinna raunverulegu atburða, þá fylgja með þau lögmál sem þeim tíma tilheyra. Ragnheiður fer gegn hinu ríkjandi valdi í þeirri von að hún muni hafa sigur að lokum. Hún þarf að velja hvort hún ætli að fylgja fortíðinni (vilja föður síns) eða framtíðinni (Daða, elskhuga sínum) Val hennar verður henni að falli. Hún er tragísk hetja af epískri stærð fyrir vikið, vegna þess að hún er ekki ‘bara gröð’. Það er miklu meira í húfi en seðjun kynferðislegs hungurs, sem í leiðinni gæti mögulega pirrað pabba gamla.

  Og hvað er í húfi? Allt lífið framundan.

  „Ég hefði viljað sjá sögu um konu sem mætti á eiðtökuna í Skálholti og laug eins og hún var löng til. Það hefði verið mannlegri Ragnheiður.“ – segir Eva Dagbjört, í svari sínu til Einars Karls, hér fyrir ofan.

  En að sjá konu sem ‘mætti á eiðtökuna’ til að ljúga ‘einsog hún var löng til’ er óhugsandi Ragnheiður, þó ekki væri nema þegar litið er til hins sögulega umhverfis. Væri hún mannlegri ef hún færi með lygi? Nei, þá væri hún ofurmannleg, því helvíti var jafn raunverulegt á 17. öld og internetið er á okkar dögum. Sá sem sór eið var að tala við guð einan. Sá sem vitandi vits sór meinsæri var að kalla yfir sig reiði guðs og útiloka sjálfan sig frá himnaríki. Hefði 19 ára stúlka, sem hafði fengið strangt trúarlegt uppheldi hjá föður sínum, biskupnum, verið líkleg til þess að ganga svo langt? Ef hún hefði verið geðveik, já. Og hafi hún verið það er engan grun um neitt slíkt að finna í heimildum.

  Um hina raunverulega Ragnheiði veit auðvitað enginn neitt; ekki Kamban, ekki Eva Dagbjört og ekki ég. Við verðum að styðjast við hið líklegasta, sennilegasta, og taka alla þætti til greina, persónuleika, umhverfi, aðstæður osvfr osvfr., ef við ætlum að reyna að skilja persónuna – ekki bara að nota hana til að ögra, einsog Eva Dagbjört er að leggja til.

  Ragnheiður Brynjólfsdóttir hefur án efa verið töffari – en hún var alveg áreiðanlega engin vitleysingur.

  Mér virðist greinarhöfunda skorta nokkuð á í lífsreynslu af því tagi sem eykur víðsýni og umburðarlyndi, en hafa augljóslega af nógu að taka þar sem eru kenningar og tilgátur um hvernig lífið megi mögulega verða í besta heimi allra heima.

  Mér finnst líka athyglisvert að greinarhöfundar nefna ekki á nafn persónu Helgu Magnúsdóttur, frænku Ragnheiðar; eina af örfáum sjálfstæðum konum 17. aldar á Íslandi. Í verkinu fer hún m.a. með þessi orð þegar hún hughreystir Ragnheiði á undan eiðtökunni:

  Þá dáinn er dagur þessi
  sérðu framtíð sólfagra.
  Standa þú skalt sterkari eftir,
  frjáls kona fullorðin.
  Allsráðandi í eigin lífi;
  engum herrum háð.

  Friðrik Erlingsson

 6. Mig langar að leggja það til í þessa umræðu að sögur af því tagi sem hér er til umræðu getur ekki verið aðeins um eina manneskju. Og minna á að ástæða þess að þær höfða til margra og geymast er að í þeim eru flókin álitamál. Ef saga er auðskiljanleg og leggur fram einfalda og skiljanlega lausn sem allir sætta sig við, þá er hún ekki lengi áhugaverð.

  Önnur ástæða þess að sagan lifir er að fræðimenn og listamenn hafa ljáð heimildunum sem til eru um atburðina merkingu og sagan fjallar því ekki aðeins um það sem raunverulega átti sér stað, heldur um það sem viðkomandi fræðimaður eða listamaður kýs að fjalla um.

  Þessu lýsti Guðmundur Kamban ágætlega árið 1929 þegar hann sagði: „Þó að saga Ragnheiðar Brynjólfsdóttir hafi hvorki verið skráð né skýrð, hefur hún samt verið skilin. Hún er ekki enn rituð, en hún er fyrir löngu fullkomnuð.“ http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4653595

  Hann ritaði svo sína útgáfu af sögunni, bæði í fræðigrein og skáldsögu. Hans skilningur var að um væri að íslenskt afbrigði af ástarsögu Abelard og Heloise. Með þessari túlkun skildi hann og fullkomnaði sögu Ragnheiðar enn einu sinni – fyrir sitt leyti.

  Heimildirnar sem eru til um málin hafa hins vegar mikil áhrif á þá merkingu sem hægt er að ljá sögunni. Í sögulegu samhengi sýnist mér saga Ragnheiðar til dæmis ekki réttarfarslega sérstaklega óvenjuleg, en það sem gerir hana sérstaka eru allar heimildirnar sem eru til um hana. Það eru þær sem hafa orðið yrkisefni. Heimildirnar eru annars vegar frá samtíma atburðanna og hins vegar það sem síðar hefur verið unnið úr efninu.

  Það eru ekki aðeins til margar heimildir. Lífssaga Þórðar Daða- og Ragnheiðarsonar, rituð af Brynjólfi biskupi sjálfum er einstæð heimild. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4813653 Persónulegar og tilfinningaþrungnar lýsingar frá 17. öld eru mjög sjaldgæfar, vægast sagt og þar birtast sögupersónurnar sem manneskjur, ekki aðeins hann sjálfur, en einnig hann. Í flestum tilvikum hverfa þær persónur sem framið hafa skírlífisbrot jafnskjótt og þær birtast í heimildunum, en Lífssagan veitir innsýn í framhald atburða á persónulegum nótum. Lífssagan var birt árið 1923, sex árum áður en Guðmundur Kamban birti sína grein og hafði augljós áhrif á hann og alla aðra sem hafa fjallað um efnið.

  Þótt hægt sé að velja að segja söguna út frá sjónarhóli Ragnheiðar, Þórðar, Daða eða Bryjólfs – eða jafnvel Margrétar – væri aldrei hægt að líta framhjá tilfinningum Brynjólfs sem birtast í frásögn hans. Þær eiga stóran þátt í því að gera söguna margbrotna og ljá henni þá dýpt sem er ástæða þess að hún er yrkisefni margra. Þrátt fyrir „elítustatus“ þeirra sem koma að málinu, varpar þessi heimild almennu ljósi á mál af þessu tagi. Flest önnur saurlífismál eru gleymd eða verður að vinna úr án þess að persónur sögunnar komi nokkurn tímann fram. Það er einmitt þessi heimild frá Brynjólfi sem gerir það að verkum að sagan vekur enn áhuga og kallar fram bæði tilfinningar og umræður.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.