Blurred Lines

Höfundur: Karitas Rán Garðarsdóttir

**VV**

Sem fjórtán ára gömul hnáta fór ég í skólaferðalag til Þýskalands í viku. Einn daginn ákváðum við krakkarnir, sex talsins, að gera okkur glaðan dag og fara til nærliggjandi borgar, Freiburg, að versla. Það var frábært veður, ekki mikið af fólki og það var ekki fyrr en ég var fimm kílóum ríkari af fötum sem að ég fékkst til þess að halda heim á leið. Við sátum í tveimur fjögurra manna sætum í annars tómum vagni í lestinni og biðum eftir að hún myndi leggja af stað. Áætlaður biðtími var um tíu mínútur. Stelpurnar sátu fjórar saman og hinum megin við ganginn sat ég við gluggann og beið eftir því að vinur minn, sem var úti að tala við lestarvörðinn, myndi koma og setjast við hlið mér.

I know you want it

Inn í vagninn kom karlmaður í kringum þrítugt í mosagrænum frakka, með grófa skeggrót og rastacap og af öllum lausu sætunum ákvað hann að setjast við hliðina á mér. Nú er ég Íslendingur af lífi og sál sem þýðir að ég á erfitt með að standa lengi í röð, á þrjár lopapeysur og þjáist alvarlega af strætókomplexinu: séu engin sæti laus í strætó nema eitt við hliðina á einstaklingi sem ég þekki ekki kýs ég heldur að standa ein í gegnum tuttugu mínútna bíltúr en að setjast við hliðina á bláókunnugri manneskju. Þess vegna fannst mér ákvörðun mannsins vægast sagt óþægileg.

Ég fann hvernig manninum varð starsýnt á mig meðan ég starði út um gluggann til þess að forðast að ná augnsambandi. Að lokum báru óþægindin mig ofurliði. Ég ákvað að færa mig um sæti en um leið og ég stóð upp stóð maðurinn upp líka, þrýsti líkama sínum upp að mínum og hóf þannig að ýta mér harkalega í áttina að útgangi lestarinnar. Ég strettist á móti en ég var ekki nema fjórtán ára gömul og þarna var fullvaxta karlmaður á ferð. Full af adrenalíni og dauðhrædd um  að maðurinn myndi ná að koma mér út úr vagninum henti ég sjálfri mér í næsta fjögurra manna sæti sem varð til þess að maðurinn, sem ýtti af svo miklum krafti, datt í sætin á móti mér.

Ég stóð upp, horfði á manninn liggja í sætinu og af einhverri ástæðu fannst fjórtán ára gamla hörkutólinu mér sniðugt að byrja að húðskamma manninn sem ekki tíu sekúndum áður var á góðri leið með að ræna mér. Það sem hann gerði næst sat í mér í langan tíma:
Hann stóð rólega upp, brosti smeðjulega, greip í rassinn á mér og hvíslaði í eyrað á mér, „I know you want it.“

Svo dreif hann sig út úr lestinni.

Blurred Lines með Robin Thicke, Pharrel Williams og T.I. er án efa eina raunverulega guilty pleasure lagið mitt. Lagið sjálft er ótrúlega grípandi og skemmtilegt en textinn fjallar hins vegar í grófum dráttum um að frelsa „góðar stelpur“ frá persónueinkennum sínum með grófu kynlífi sem þær í rauninni hafa aldrei sagt að þær vildu. Í upprunalega myndbandinu má svo sjá þrjá hálfnakta kvenmenn dansa í kringum þrjá fullklædda karlmenn. Látum það liggja á milli hluta. Það sem hefur hins vegar alltaf truflað mig við þetta lag er hin margendurtekna setning „I know you want it“. Setning sem að hin 14 ára gamla ég fékk að heyra um leið og þrítugur maður greip í rassinn minn. Setning sem að allt of margir einstaklingar hafa fengið í andlitið þegar þau í sannleika sagt vildu umræddan hlut ekki.

Hinar óljósu línur (e. blurred lines) eru þegar að línan á milli þess sem er rétt og rangt, oft en þó ekki alfarið í tengslum við kynlíf, er óskýr. Línan er í rauninni hugtak yfir hin óformlegu takmörk þess sem er ásættanlegt og eðlilegt að mati samfélagsins. Já, línurnar eru stundum óljósar. Ég fór að hugsa út í þetta þegar vinkona mín spurði mig út í hvað flokkaðist sem kynferðislegt áreiti og hvar línan lægi í þeim efnum. Er það áreitni þegar maður leggur hendi sér á öxl þína og nuddar hana í þrjár mínútur? En hvað ef að maðurinn er fertugi samfélagsfræðikennarinn þinn í gagnfræðaskóla? Á hvaða tímapunkti hættir sakleysið að vera saklaust og fer yfir línuna?

Good girl

Línurnar voru ekki óljósar þennan dag í lestinni. Það var ekkert í líkamstjáningu minni sem bauð manninum að gera tilraun til þess að hafa mig á brott vegna þess að, þegar kemur að samþykki fólks, eru línurnar aldrei óljósar.  Þú getur aldrei áætlað neitt þegar það kemur að vilja annars fólks. Ef það er ekki hreint út sagt „já“ er það ekki samþykki. Þetta gildir í öllum félagslegum aðstæðum. Af þeirri ástæðu mun ég lækka þegar Blurred Lines heyrist næst í útvarpinu til að reyna að forðast hrollinn sem fylgir öllum þeim átján skiptum sem að Robin Thicke lætur út úr sér þau orð sem hin fjórtán ára gamla ég fékk að heyra frá þrítugum manni í mosagrænum frakka í hálftómum lestarvagni í Þýskalandi.

Consent has no blurred lines

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.