Raunveruleikaleikaleikarnir: RuPaul’s Drag Race

Höfundur: Kári Emil Helgason

Á hverjum mánudegi bíð ég í ofvæni eftir að geta horft á RuPaul’s Drag Race – þátt sem mér að óvörum er orðinn meðal eftirlætis sjónvarpsefnis míns. Þátturinn er eins og blanda af America’s Next Top Model, Project Runway og America’s Got Talent þar sem allir keppendur eru dragdrottningar.

RuPaul’s Drag Race dansar línudans milli þess að vera hrein paródía af raunveruleikaþáttum og þess að taka sig fullkomlega alvarlega. Hver einasta setning út úr RuPaul og dómurum er orðaleikur og flestar dragdrottningarnar eru svo snöggar til að þær bæta við grínið án nokkurs handrits. Það hvað klippingin á þættinum er ýkt og yfirgengileg eykur enn á skemmtanagildið og húmorinn.

RuPaul

Hugtakið realness er oft notað í þættinum, sem þýða mætti sem raunveruleikaleiki. Það er gjarnan notað til að vísa í stíl drags: „I was serving Olivia Newton John realness“ og er þá meint að dragið hafi verið inspírerað af Oliviu Newton John en með vísun í það, að hluti af dragi, er að allir eru alltaf meðvitaðir að leikrit er í gangi. Orðið á þó við um fleira og er oft notað á mjög upplýsandi máta og ég sé fyrir mér fjölda tilfella þar sem það gæti nýst utan dragsenunnar. Þau fjölmörgu lög af íróníu sem þátturinn er búinn til úr eru upplífgandi tilbreyting frá raunveruleikaþáttum sem virðast ekki gera sér grein fyrir eigin fáránleik. Í staðinn fagnar Drag Race fáránleikanum listilega.

Þátturinn er ekki bara bráðskemmtilegur og drepfyndinn (maður kúgast úr hlátri, eins og dragdrottningarnar segja) – heldur líka lærdómsríkur og varpar ljósi á hin ýmsu atriði kynjapólítíkur. Raunveruleikaleikinn á nefnilega við í lífinu. RuPaul segir gjarnan: „Við erum fædd nakin, restin er drag“ og á hann þá við að kyngervi okkar ræðst af ytri framkomu, fatnaði, notkun snyrtivara og leikrænum tilburðum, hvort sem við erum hefðbundnir gagnkynhneigðir karlmenn eða ofurkvenlegar lesbíur – hið innra sjálf (eða það sem maður kýs að deila af því) er endurvarpað í gegnum framsetningu. Með öðrum orðum, maður leikur kyn, maður er ekki kyn.

drag-oppulence-copyEins er skemmtilegt að velta fyrir sér hugtakinu fishy, sem er notað um dragdrottningar sem þykja einstaklega kvenlegar. Þótt það sé gjarnan útvíkkað í tengslum við fiska sem brandari („she’s serving rainbow trout tonight!“) þá vísar það frekar í „blekkinguna“ sem á sér stað, þ.e. að eitthvað sé „gruggugt“ eða „bogið“ við „konuna“ sem er í reynd engin kona.
Allt fólk fellur einhvers staðar á róf milli karlmennsku og kvenmennsku og dragdrottningar (og -kóngar) leika með x-y hnitin á þessu rófi. Drag fær áhorfandann til að endurhugsa menningarleg og líkamleg tákn um kyn: hárvöxt, líkamshæð, andlitsdrætti, fatnað, fylgihluti, málningu og hárstíl. RuPaul’s Drag Race dregur þó einnig upp líflega mynd af mönnunum á bak við leikritið og það er skemmtilegt að sjá hvað þeir eru fjölbreyttir úr dragi. Þó hefur aldrei verið gagnkynhneigður keppandi í öllum sex seríunum af RuPaul’s Drag Race og dregur það fram sterku tengslin við hinsegin menninguna.

Ég mæli eindregið með að allir sem hafa áhuga á raunveruleikaþáttum og kynjum horfi á þennan þátt. Ég lofa því að þið munuð hlæja, gráta og hugsa. Þáttur níu fer í loftið á mánudaginn kemur og það er því um að gera að taka maraþon þetta um helgina. Það eru aðeins sjö drottningar eftir og það verður spennandi að sjá hver verður krýnd America’s Next Top Drag Superstar.

Now sissy that walk!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.