Jafnrétti til heilsu?

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Heilbrigðisvandamál karla og kvenna eru að nokkru ólík. Þau má rekja að hluta til þess líffræðilega munar sem er á kynjunum frá fæðingu, en er að mestu skýranlegt með hinum ólíku aðstæðum sem þeim eru búnar. Ólíkt uppeldi kynjanna leiðir af sér kynbundin áhugamál sem og kynbundið náms- og starfsval. Á sama tíma skilar kynjaskekkjan í samfélaginu konum auknum líkum á fátækt vegna kynbundins launamunar, aukinni hættu á ofbeldi, meira álagi í ógreiddri vinnu ýmiss konar o.fl.  Sama hvert litið er þá sést þessi munur glögglega í tölfræði heilbrigðiskerfisins, til að mynda varðandi örorku. Ekki aðeins eru konur með örorku mun fleiri, heldur eru ástæður örorku að nokkru ólíkar hjá kven- og karlkyns örorkulífeyrisþegum. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins eru geðræn vandamál algengasta orsök örorku hjá körlum en stoðkerfisvandamál hjá konum.

Þó mikið hafi verið rætt og skrifað um ólíkt heilsufar karla og kvenna í ár og áratugi, bæði af lærðum og ólærðum og innan ólíkra fræðigreina (áhugasömum bendi ég sérstaklega á hina nýútkomnu íslensku bók um heilsu kvenna Við góða heilsu), hefur ekki enn verið tekið nægilegt tillit til þessa í kerfinu sjálfu. Má til að mynda nefna að þó vitað hafi verið í áratugi að karlar og konur upplifi hjartaáföll á ólíkan hátt (konur fá til að mynda sjaldnast brjóstverk)  og ýmislegt verið gert til að auka meðvitund um það (sjá t.d. þessar klínísku leiðbeiningar Hjartaverndar),  eru einkenni slíkra áfalla hjá körlum enn talin hin dæmigerðu einkenni og miðað við þau í greiningu víðast hvar, sem þýðir að hjartaáföll kvenna eru oft ranglega greind. Þar af leiðir að konur fá síður viðeigandi meðferð og eru þar með ólíklegri til að lifa slíkt áfall af.

heartattack_warning

Til að jafna áhrif stefnu stjórnvalda á kynin og koma í veg fyrir að halli á annað kynið í stefnumótun, hafa verið fundin upp nokkur tæki. Áhrifaríkust hafa reynst kynjuð fjárlagagerð (e. gender budgeting) og kynjasamþætting (e. gender mainstreaming). Nú hafa bæði tækin verið innleidd að nokkru við stefnumótun hjá íslenskum stjórnvöldum, gefnar hafa verið út handbækur um efnið sem aðgengilegar eru á vefnum og ráðstefnur verið haldnar. Þó kynjuð fjárlagagerð sé enn komin fremur stutt á veg hafa þau tilraunaverkefni sem unnin hafa verið, sýnt með óyggjandi hætti að kynjasjónarhornið er mjög þarft í íslenskri stjórnsýslu. Innan heilbrigðiskerfisins hefur t.d. verið skoðaður biðtími sjúklinga eftir kransæðaþræðingum eftir kyni á árunum 2009 og 2010. Kom þar í ljós að meðalbiðtími kvenna var lengri en karla í öllum forgangsflokkum og var bilið mest  í tilfellum þar sem brátt lá á aðgerðinni (þ.e. gera þurfti aðgerð innan eins mánaðar): Í þeim tilfellum þurftu kvenkyns sjúklingar að bíða að meðaltali 24% lengur en karlkyns sjúklingar. Er áréttað í skýrslunni að gögn vanti til að meta hvort um sé að ræða kynjaskekkju eða mun sem eigi sér eðlilegar skýringar. Hvernig sem í muninum liggur er mikilvægt að hann sé skoðaður og til þess að svo megi vera þarf fyrst að setja á sig kynjagleraugun.

Kynjaskekkja í stefnumótun er vandamál sem við Íslendingar deilum með öðrum þjóðum og er því eðlilegt að leita lausna einnig út fyrir landsteinana.  Ein slík lausn kemur frá Írlandi en Írska kvennaráðið (National Women Council of Ireland)  hefur nú  samið bækling til handa heilbrigðisstarfsfólki og þeim sem koma að stefnumótun í heilbrigðismálum þar sem því er lýst hvernig hægt er að gera heilbrigðisþjónustu kynjameðvitaðri. Að mati ráðsins er hægt að innleiða kynjasjónarmiðið með því að taka eftirfarandi átta skref:

1. Þátttaka yfirstjórnar

Yfirstjórn heilbrigðiskerfis og heilbrigðisstofnana þarf að sameinast um að ná þessu markmiði og stuðningur þessa fólks við kynjasamþættingu þarf að vera sýnilegur.

2. Aukin meðvitund

Upplýsa þarf heilbrigðisstarfsfólk um kynjamun í heilbrigðismálum. Einnig þarf að innleiða kynjameðvitaða nálgun í skipulagningu og veitingu heilbrigðisþjónustu.

3. Meiri upplýsingar

Það þarf að safna ítarlegri kynjagreindum tölfræðigögnum um heilsutengd málefni til að byggja svo þjónustu kerfisins á.

4. Notendasamráð

Samráð þarf að hafa við karla og konur úr öllum lögum samfélagsins við hönnun á kynjanæmu heilbrigðiskerfi.

5. Meta kynbundin áhrif

Það þarf alltaf að meta hvort stefna eða þjónusta hefur kynbundin áhrif og þegar verið er að innleiða nýja stefnu þarf að liggja fyrir mat á áhrifum hennar á jafnrétti kynjanna.

6. Bregðast við

Þegar mat á kynbundnum áhrifum liggur fyrir, þarf að nýta bjargirnar (e. resources)  til að leiðrétta misréttið.

7. Tilraunaverkefni

Tilraunaverkefni eru ein besta leiðin til að auka þekkingu á þessari nálgun á heilbrigðismálin og er sérstaklega mælt með því að sett séu upp tilraunaverkefni í kynjasamþættingu í heilsugæslunni, á geðheilbrigðissviði, á bráðasviði, á hjartadeildum, í þjónustu við eldri borgara og  í heilsutengdum kynningarherferðum.

8. Eftirfylgni

Kynjasamþætting er ekki nokkuð sem gert er einu sinni fyrir fullt og allt, heldur þarf reglulega að fylgjast með, skoða og endurmeta stefnuna og þjónustuna með tilliti til árangurstengdra viðmiða sem þróuð eru í ferlinu.

 

Mjög líklegt er að laga þurfi þessi skref að aðstæðum í hverju tilfelli fyrir sig og kannski bæta við skrefum. Þá má bæta við að vera getur að taka þurfi á annars konar misrétti líka, t.d. hvað varðar aldur, kynhneigð og kynvitund (í þessu samhengi langar mig að benda á þennan jafnrétti-til-heilsu-kvarða sem hannaður er með LGBT fólk í huga). En við komumst ekki að því nema með því að reyna. Eða erum við kannski bara sátt við að kyn skipti máli þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þar með heilsu?

 

 

10 athugasemdir við “Jafnrétti til heilsu?

 1. Upphaf pistilsins segir:

  „Heilbrigðisvandamál karla og kvenna eru að nokkru ólík. Þau má rekja að hluta til þess líffræðilega munar sem er á kynjunum frá fæðingu, en er að mestu skýranlegt með hinum ólíku aðstæðum sem þeim eru búnar.“

  Ég er hræddur um að þessi setning sé eiginlega algjört bull! Svona læknisfræðilega séð. Það veikir óneitanlega þennan pistil, sem fjallar annars um áhugavert og þarft efni.

  Ef forsendurnar eru jafn hæpnar er spurning hvort eitthvað sé að marka ályktarnir og niðurstöður höfundar.

 2. Sæll,
  Hvað nákvæmlega áttu við Skeggi? Nú eru kynin óneitanlega að nokkru líffræðilega ólík og eru til að mynda ýmis heilsufarsleg vandamál sem fylgja því að bera börn sem karlar upplifa eðlilega ekki… ég vil endilega fá skýringar á því hvað þú átt við með að upphafssetnignin sé „læknisfræðilega séð“ bull, sérstaklega vegna þess að nú færi ég rök fyrir ofangreindu síðar í pistlinum.

 3. Sæl Þóra,
  mér finnst einmitt ekki rök fyrir þessari staðhæfingu, að ólík heilbrigðisvandamál kynjanna séu skýranleg með ólíkum „aðstæðum“.

  Þú nefnir mjög fróðlegt dæmi um ólík einkenni hjartaáfalls hjá kynjunum. Varla eru einkennin ólík vegna ólíkra „aðstæðna“?

  Ég fór og skoðaði greinina um biðtíma, þar eru fróðlegar upplýsingar, m.a. um að tvöfalt fleiri karlar þurfa að fara í kransæðaaðgerð en konur. Er það „aðstæðum“ að kenna? 50% fleiri konur afturámóti fara í liðskiptiaðgerð. (Kemur líka fram að karlar þurfi að bíða lengur eftir slíkum aðgerðum.) Verða hjörtu karlmanna fyrir meira álagi en hjörtu kvenna? Og öfugt fyrir mjaðmir? Er þetta vegna ólíkra „aðstæðna“ kynjanna??

  Það sem ég er að segja, það er harla ólíkegt að þetta megi skýra „að mestu“ með ólíkum aðstæðum kynjanna.

  Þetta er mjög mikilvægt efni og ég er hjartanlega sammála um að það verði að skoða nánar. T.d. hentar sama lyfjagjöf konum og körlum? Taka klínískar rannsóknir mið af ólíkum einkennum og ólíkri áhættu kynjanna? Þessar spurningar skipta heilmiklu máli og það er vafalaust rétt að það sé víða ekki optimiseruð meðferð fyrir hvort kyn. Vegna þess að þau eru EKKI eins!

  Að halda því fram að það stafi „að mestu“ af áhrifum umhverfis og samfélags og það sé einhver viðvarandi „kynjaskekkja“ í heilbrigðiskerfinu sem hallar öll á einn veg, það er að gefa sér hluti fyrirfram, það er ekki vísindi heldur „pseudo science“.

  • Sæll,
   1) Ég var ekki að fullyrða að allur munur á heilbrigðisvandamálum karla og kvenna væri tilkominn vegna ólíkra aðstæðna.
   2) Kransæðaaðgerðir og liðskiptiaðgerðir tengjast örugglega eitthvað (kyn)hlutverkum og lífstíl, t.d. má sjá tengsl á milli liðskiptanna og vinnu sem og barneigna.
   3) Ég fullyrði aldrei að kynjaskekkjan í heilbrigðiskerfinu halli öll á einn veg, en aðalatriðið er að það á ekki að vera kynjaskekkja. Þess vegna er þarft að beita tækjum eins og kynjasamþættingu og koma í veg fyrir skekkjur.

   • Varðandi punkt (1) þá las ég það samt út úr greininni, að þú værir að fullyðra akkúrat það, að munur á heilsufarsvandamálum karla og kvenna væru vegna „kynjaskekkju“ í samfélaginu:

    „Á sama tíma skilar **kynjaskekkjan** í samfélaginu konum auknum líkum á fátækt vegna kynbundins launamunar, aukinni hættu á ofbeldi, meira álagi í ógreiddri vinnu ýmiss konar o.fl. Sama hvert litið er þá sést **þessi munur** glögglega í tölfræði heilbrigðiskerfisins…“ [mín áhersla]

    Þessa fullyrðingu skildi þína ég sem svo að munur á kynjum í heilsufari skv. tölfræði heilbrigðiskerfisins væri vegna kynjaskekkju í samfélaginu. Það er sú fullyrðing sem ég tel hæpin, og þurfi í öllu falli að rökstyðja miklu betur.

    (Þetta með ofbeldið held ég sé kolrangt, held ég hafi lesið það að karlar séu í mun meiri hættu en konur almennt séð að verða fyrir ofbeldisáverkum. Hér eru 20 ára gamlar tölur: http://lsh.openrepository.com/lsh/bitstream/2336/73075/1/L1994-10-85-F2.pdf )

 4. Núna er ég bara að vitna í þína eigin linka….

  Hjartaáfall.

  „Um 42% kvennanna lýstu ekki brjóstverk við komu. Færri karlar gáfu ekki sögu um brjóstverk, eða 31%. Þessi munur á einkennum karla og kvenna var mest áberandi í yngri aldurshópunum.

  Um 15% kvenna með hjartaáfall létust í sjúkrahúslegunni en um 10% karlanna. Rannsakendurnir benda á að erfiðara sé að greina hjartaáfall ef sjúklingurinn er ekki með brjóstverk og því sé líklegra að töf verði á greiningu hjá konum en körlum.“

  Undirstrikun:

  Erfiðara er að greina hjartaáfall ef sjúklingurinn er ekki með með brjóstverki, sem útskýrir þetta mjög greinilega…..

  Kransæðastífla

  „Skýringar á mismunandi
  biðtíma eru ekki ljósar og því er ástæða til ítarlegri rannsóknar og greiningar á orsökum áður en hægt
  er að draga frekari ályktanir. Eðlilegar ástæður geta verið fyrir þessum mun á biðtíma, s.s. mismunandi
  alvarleiki sjúkdóms eða mismunandi líkur á versnun sjúkdóms á biðtíma milli kynja innan sama
  bráðleikaflokks sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir, aðsteðjandi vandi annarra sjúkdóma eða
  persónulegar og félagslegar aðstæður einstaklinga. Nauðsynlegt er að afla frekari gagna svo hægt sé
  að meta hvort um raunverulega kynjaskekkju er að ræða“

  Undirstrikun:
  „Eðlilegar ástæður geta verið fyrir þessum mun á biðtíma“

  Vegna þessa þá finnst mér mjög slappt að þú látir út úr þér setningu sem þessa…

  „hafa þau tilraunaverkefni sem unnin hafa verið, sýnt með óyggjandi hætti að kynjasjónarhornið er mjög þarft í íslenskri stjórnsýslu“

  Og tekur þetta sem dæmi í beinu framhaldi…..

  • Sæll,
   Í pistlinum segi ég “ Er áréttað í skýrslunni að gögn vanti til að meta hvort um sé að ræða kynjaskekkju eða mun sem eigi sér eðlilegar skýringar. Hvernig sem í muninum liggur er mikilvægt að hann sé skoðaður og til þess að svo megi vera þarf fyrst að setja á sig kynjagleraugun.“
   Bestu kveðjur
   Þóra

   • Gott og vel.

    Þá misskildi ég aðeins punktinn hjá þér.

    Taldi þig vera að segja að hérna væri greinileg ósanngyrni, sem sýndi að það þyrfti að rannsaka restina.

    Þú ert semsagt að taka þetta sem dæmi sem þyrfti að rannsaka frekar ?

    Mjög sammála því.

    Það væri allt í lagi að skoða hvernig heilbrigðiskerfið taki á fólki miðað við kyn Þóra, en mig grunar sterklega að þetta sé einn af þeim stöðum þar sem kvennfólk stendur betur að vígi en við karlmenn.

    Ég fann sem dæmi hnút á eistanu á mér um daginn og býst við kostnaði að fara og láta tékka á honum…

    Þið eruð skikkaðar í tékk á brjóstum ókeypis ekki satt ?

    (Þessir tveir staðir ekki hvað hættulegastir „kynbundið“ að fá krabba ?)

    „For every £1 spent on men’s health, £8 is spent on women’s health, according to a men’s health group.

    „Mens Health Forum“

    Ég veit ekki hvaða forsendur eru gefnar í slíkum pælingum, en maður heyrir það nú allstaðar að meira fer í kvennfólk í heilbrigðiskerfinu en karlmenn…

    Partur er auðvitað að kvennfólk lifir lengur og ef samtök kjósa að vera ósanngjörn í áróðri eins og Mens health hópurinn, þá er slíkt líklega ekki tekið inn í…. En engu að síður, væri fínt að skoða þetta nánar…

   • Sæll,
    Já og það er mjög mikilvægt að það sé gert. Til að mynda það sé skoðað hvort ekki þurfi að halda því meir að körlum að fara í tékk, hvort karlar og konur fái jafnt viðmót ef um krabbamein er að ræða osfrv. Ég skil hvernig hægt var að túlka mig þannig að ég gerði ráð fyrir að alls staðar alltaf hallaði á konur, en það sem meginpunkturinn var að það eru greinilega kynjaskekkjur í heilbrigðiskerfinu. Sama á hvort kynið hallar þá þarf að skoða hvort um „eðlilegan mun“ sé að ræða eða ekki og fyrsta skrefið þar er að setja kynjagleraugun á sig.

    Annars hvet ég þig endilega að senda okkur grein um karla og krabbamein, eða hvað annað sem þér dettur í hug.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.