Höfundar: Christina H og C. Coville
Þýðing: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir og Jón Thoroddsen
Ef þú hefur einhvern tímann vafrað á internetinu, hefurðu líklega fengið miklu meira en nóg af að heyra að okkur vanti fleiri sterkar kvenhetjur. Fólk áttar sig ekki á að það er löngu búið að uppræta sexismann og fullkomins jafnræðis gætir nú milli kynja, sérstaklega í skemmtanabransanum. Raunar má segja að ef hallar á annað kynið, þá sé það frekar á karlpeninginn.
Spáðu í öll hlutverkin sem konur einoka (t.d. ungfrú í nauð, tálkvendið, nöldurkerlingin) sem ekki einu sinni hæfileikaríkustu karlleikarar fá að kljást við. Við höfum eytt allt of löngum tíma í að hárreita okkur yfir kvenmiðuðum áhyggjum um hvernig bæta megi persónusköpun í kvenrullum. Nú er komið að því að beina sjónum okkar að hinum raunverulegu fórnarlömbum sexismans í Hollywood og velta fyrir okkur: Hvernig gerum við karlahlutverkin verri?
Ég leitaði liðsinnis C. Coville, félaga míns, sem einnig skrifar sterkar kvenhetjur og í sameiningu grófum við upp nokkrar prýðishugmyndir.
#6 Tálkarlinn
Hann þráir völd og er óhræddur við að nota kynþokka sinn til að ná þeim. Stundum hefur hann buxnaklaufina opna í þeim tilgangi að auðvelda sér aðgang að gögnum lögreglunnar eða trúnaðarskjölum lögfræðinga. Oftar en ekki notar hann stæltan líkamann til að fela eitthvað bak við sig. Hann stendur fyrir framan það og afvegaleiðir þannig hetjuna okkar, togar buxnastrenginn aðeins neðar og brosir tælandi um leið og hann lyftir augabrúninni. Í yfirheyrslu þarf hann ekki að biðja um lögfræðing eða einu sinni að ljúga. Hann klæðist frekar sérlega víðum en áberandi stuttum stuttbuxum einum fata og þegar lögreglukonan spyr hann spurninga sem hann vill ekki svara lætur hann punginn gægjast eggjandi út um buxnaskálmina.
Ef þú ert að semja handrit að mynd eða þætti með yfirnáttúrulegu ívafi, má láta illan anda taka sér bólfestu í „vænum dreng“ og breyta honum í tálkarl. Sama hvernig persónan hegðar sér venjulega og sama hversu oft þú hefur notað þetta stílbragð áður, þá klikkar það aldrei að sýna andsetningu á eftirfarandi hátt: Láttu andsetna manninn horfa beint í myndavélina með seiðandi stút á vörunum og stökkva síðan á næstu manneskju, karl eða konu, og nudda sér upp við hana. Um leið skaltu láta hann tala fjálglega um hversu ánægður hann sé að fá loksins að vera slæmur strákur. Ef sá andsetni fær tækifæri til að skipta um föt eftir að illskan tekur sér bólfestu í honum skaltu gæta þess að fötin hylji ekki of mikið og dragi vel fram línurnar í klofinu.
Ef þú vilt láta einhvern reka andann út með illu eða finnst nauðsynlega þurfa að þjarma að andsetna tálkarlinum, er upplagt að læða að nokkrum bröndurum um að hann hafi nú alltaf fílað gróft kynlíf. Gleymdu ekki að láta hann stynja og hrista höfuðið á lostafullan hátt á meðan hann þjáist. Svo getur hann tekið sér stutt hlé til að mása. Svitastorkinn brjóstkassinn gengur þá upp og niður meðan hann horfir með þrá í augunum á hetjuna okkar.
#5 Nöldurseggurinn
Í myndinni þinni kunna stelpurnar svo sannarlega að skemmta sér en a.m.k. ein þeirra á mann sem er algjör félagsskítur. Þessi gaur æpir á hana að hún sé ábyrgðarlaus meðan hún horfir í átt til vinkvenna sinna og ranghvolfir augunum. Stundum eru stelpurnar að fremja glæpi en hann situr áhyggjufullur heima, viss um að þær náist. „Hvar varstu? Veistu hvað klukkan er orðin? Varstu að fremja glæp?“ æpir hann með tárin rennandi niður í skeggið. Hann er alltaf pirraður og óánægður með lífið því hann getur ekki skemmt sér jafn vel og upplifað sömu spennu og persónan sem fremur glæpi. Í raun þarf hann bara að læra að slaka á.

„Hvað munu nágrannarnir hugsa þegar þeir komast að því að þú ert að fremja glæpi, ha? Hefurðu hugsað út í það? Hugsarðu nokkurn tíma um einhvern annan en sjálfa þig?“
Einu sinni var þessi karakter kannski skemmtilegur, þegar hann var fyrst að kynnast aðalhetjunni. Núna er hann alltaf að dytta að húsinu, slá grasið og höggva í eldinn og velta fyrir sér hvort sparslið sem hann notaði á gifsvegginn líti nógu vel út. Alltaf þegar aðalsöguhetjan vill fara út að skemmta sér með vinkonum sínum, bendir hann á staflann af eldiviði sem hann hjó fyrir hana og kvartar undan að hún noti hann aldrei. Jafnvel þó konan hans sé að sinna ótrúlega mikilvægu starfi, eins og að vera ofurhetja eða gera innrás í land því hún er forseti, mun nöldrandi eiginmaðurinn væla í henni að verja meiri tíma með sér og hjálpa sér með gifsvegginn. Nöldurseggir bera ekkert skynbragð á forgangsröðun.

„Sprengjuhótun á þinni vakt? Skítt með það! Við þurfum að ræða hvar við eigum að stafla þessum bjálkum.“
Ef myndin er í alvarlegri kantinum má láta söguhetjuna hugsa til þess tíma þegar maðurinn hennar var yngri og skemmtilegri, var með síðara hár og meitlaðri magavöðva. Hún gæti jafnvel freistast til að halda framhjá honum með ungum þjóni á uppáhaldskaffihúsinu sínu. Þjóni með engan persónuleika en einstaka hæfileika til að daðra þegar söguþráðurinn krefst þess. Eitt skiptið hellir söguhetjan óvart latté í kjöltu þjónsins og fer hugsunarlaust að þurrka blettinn af buxunum. Þjónninn stamar þá bara og roðnar og þetta kemur af stað atburðarás sem endar í mikilli siðferðisklemmu. Sama hvernig hún leysir úr henni, þá mun hann verða sáttur. Hverjum er ekki sama hvaða áhrif þetta hefur á hann? Hann er hvort eð er bara prófraun.
#4. Verðlaunagripurinn
Muniði þegar við vorum unglingar og allar stelpurnar reyndu að fá aðalgæjann til að taka eftir sér? Á meðan stóðu aðrir strákar hlédrægir hjá og biðu eftir að einhver hugrökk gella ynni ástir þeirra. Það skortir sárlega Hollywoodmyndir með þessum skrautfjaðramönnum.
Þessi mikilvæga sögupersóna er vöðvafjall sem allar stelpurnar í skólanum vilja vera með, en annað hvort er hann nú þegar á föstu með vinsælustu stelpunni í skólanum (sem að sjálfsögðu leggur aðra í einelti) eða að hann fékk höfuðhögg við lestur á Grimmsævintýrum og er þess vegna aðeins fær um að byrja með fólki sem hefur leyst stórkostlega erfiðar þrautir til að vinna hönd hans.
Kvenhetjan okkar er hvorki sætasta pían í skólanum né sú sterkasta en þessi storkari örlaganna hefur útbúið áætlun sem nær engar líkur eru á að takist að framkvæma. Með aðstoð vinkvenna sinna ætlar hún að vinna hæfileikakeppnina eða blakmótið eða svínaræktunarverðlaunin eða einhverja aðra keppni sem allir í bænum hafa af óskiljanlegum ástæðum áhuga á.
Þegar hún hefur unnið (og þar með sigrað vinsælu, illa innrættu stelpuna í lokaviðureigninni) mun strákurinn sjálfkrafa byrja með henni. Það vita allir að flottir gaurar byrja sjálfkrafa með stelpum sem vinna keppnir alveg burtséð frá öðrum kostum þeirra. „Ég leit aldrei við þér áður af því þú ert rangeygð, með pirrandi hlátur og ert alltaf að segja rasistabrandara, en fjárinn hvað þú ert góð í svínarækt,“ segir hann um leið og hann faðmar hana að sér.
Þetta gildir líka um fullorðna. Segjum sem svo að kvenkyns hasarhetjan þín sé föst í ástlausu hjónabandi. Kannski drekkur hún of mikið, kannski kemur hún alltaf of seint heim, kannski fer hún of oft í skóverslanir, kannski heklar hún – þið vitið, eitthvað sem réttlætir að maðurinn hennar gefist upp á henni. Til allrar hamingju taka hryðjuverkamenn heilan skýjakljúf í gíslingu eða hakka sig inn í Pentagon eða eitthvað og hún bjargar öllum (vinsamlegast munið eftir að þakka mér í nafnalistanum ef þið notið einhverjar af frumsömdu hugmyndunum mínum í myndirnar ykkar, takk) og maðurinn hennar fellur aftur í faðm hennar þó hún hafi ekki breytt neinu af því sem gerði hann afhuga henni. Því karlar, eins og kaffisopinn, eru fyrir þá sem klára.
#3 Heiti, hýri skósveinninn

Karlmaður sem lifir fjölbreytilegu kynlífi hefur ekki fyrir því að vera í nærbol undir skyrtunni sinni.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að ekkert er meira örvandi en vopnlaus bardagi milli tveggja aðila af sama kyni. Rifin fötin, hás urrin, gripið í óþægilega staði, líkamar að veltast um í leðjunni, pungar að nuddast hvor við annan … vá! Þetta er heitt stöff. Endilega taktu þér hlé frá lestri til að létta á spennunni.
Sko. Við viljum sjá kærasta hetjunnar (Chris Hemsworth) fleygja sér í gólfið til að glíma við stæltan, hugsanlega tvíkynhneigðan skósvein (Justin Timberlake) illkvendisins. Það stirnir á regnvatnið á magavöðvum þeirra þar sem þeir eru hvor með klofið í andliti hins, eins og glímukappar í einhvers konar utandyra keppnisbúri. Við viljum ekki sjá nein hnefahögg eða neitt sem myndi afmynda meitluð andlit þeirra, ekki nema kannski örfáa blóðdropa á, segjum, vörum Justins Timberlake, sem hann myndi svo sleikja burt á eggjandi hátt áður en hann hendir sér aftur á Chris Hemsworth. Þess utan eiga þeir að einskorða sig við að rífa í hár hvor annars, stynja og emja í fangbrögðum, skalla klof hins með andlitinu og kalla hvor annan tíkur, alla vega þangað til einhver finnur upp karlkynsútgáfunna af orðinu „tík“. Á meðan þessu stendur verða þeir að gefa frá sér alls kyns lostahljóð sem eru engan vegin viðeigandi í baráttu upp á líf og dauða.

„Hnappurinn slitnaði af í bardaganum! Jæja, þá get ég alveg eins rifið mig bara alveg úr buxunum, þær flækjast bara fyrir mér núna.“
Hér væri ekki vitlaust að bæta inn kómísku augnabliki þar sem kvenhetjan og illkvendið taka sér stutt hlé frá einvígi sínu til að horfa á karlaslaginn. Annar glæsimannanna verður var við þetta, stoppar og gefur þeim illt auga og hinn hættir þá líka og spyr: „Væri ykkur sama?“ Þá ræskja stelpurnar sig vandræðalega og munda sverðin á ný.
Væntanlega viltu líka hafa atriði þar sem skósveinninn (Benedict Cumberbatch í þessu tilfelli) situr fyrir kærasta (Jon Hamm) hetjunnar í skuggasundi þar sem hann gengur í sakleysi sínu heim eftir góðan snókerleik. Skúrkurinn ógnar kærastanum til að hetjan hætti að rannsaka pýramídasvindl illkvendisins eða eitthvað. Hann þrýstir kærastanum upp að vegg, með andlitið nógu nálægt til að varir þeirra snertist, og nær líklega að koma að þríræðni um „kjuða“ og „kúlur“ á hátt sem felur í sér hótun, dulda kynferðislega tilvísun og vísun í snókerleikinn sem kærastinn var að ljúka. Þú munt þurfa besta samtalshöfund þinn í þessa senu.
#2 Gaurinn sem er alltaf að minna á að hann sé karl
Þessi gaur brýtur glergólfin hvar sem þau finnast. Hann stendur fastur fyrir og lætur engan segja sér fyrir verkum – hvorki karla né konur. Eftir að hafa rúllað upp atvinnuviðtalinu og vélritað hraðar en nokkur annar umsækjandi, rífur hann af sér fjólubláa sólhattinn og hyljandi hippamussuna til að afhjúpa að hann er í raun karl. Allir taka andköf, en það er ekki hægt að afneita niðurstöðunum – hann pikkaði 200 orð á mínútu.
Frá fyrsta vinnudegi slær hann á fingur allra sem vilja aðstoða hann við að stilla skjáinn eða læra á símkerfið. Hann kveðst ekki þurfa neina hjálp, karl ráði sko alveg jafn vel við þetta og kona. Í hvert einasta skipti sem hann afrekar eitthvað, minnir hann alla í herberginu á að hann sé karl með því að nota frakka frasa eins og „ef þú vilt að eitthvað sé gert almennilega, fáðu þá karlmann í það“. Ef einhver kona kemur í veg fyrir að hann setji blekduft í kaffivélina eða eitthvað, spyr hann: „Heldurðu að ég ráði ekki við þetta bara af því ég er með typpi?“. Ef hún kíkir niður, segir hann „Hey, andlitið á mér er hérna uppi!“ Hann gjammar á alla sem reyna að sýna honum vinsemd og sakar þau um að vilja bara komast í brækurnar hans. Þetta sýnir hversu sjálfstæður hann er og mun samstundis fá karlkyns áhorfendur til að samsama sig honum, því karlar eru alltaf taugastrekktir, órökréttir og óþolandi þegar þeir reyna að brjóta niður múrana og munu að sjálfsögðu halda með hverjum þeim sem hegðar sér eins.
Seinna mun hann samt trúa samúðarfullri samstarfskonu sinni fyrir því að hann sé einungis svona viðskotaillur því það sé svo erfitt að vera karl í kvennastétt. Allir gera ráð fyrir að hann sé hommi og reyna að koma honum á stefnumót með öðrum körlum og þegar yfirmennirnir klappa konunum á skrifstofunni á bossann þá er hann alltaf skilinn útundan. Honum hefur aldrei verið hótað uppsögn af því hann hafi neitað að sofa hjá framkvæmdastjóranum og enginn þiggur kaffið sem hann lagar.
Samstarfskonan hjálpar honum að hætta að vera svona viðskotaillur og leysir vandamál hans í vinnunni og þau ganga í hjónaband. Hann heldur áfram í starfi sínu eða segir því upp eða finnur annað starf, en hverjum er ekki sama? Hann fann réttu konuna og er genginn út. Það er það sem mestu máli skiptir.
#1. Þjónn framvindunnar
Það þykir léleg frásagnartækni að láta aðalsöguhetjuna lýsa því hversu frábær hún sé og eins er afleitt að láta aðrar sögupersónur telja upp mannkosti hennar. Góðir handritshöfundar eiga að sýna, ekki segja. Þess vegna er best að skreyta handritið með einum til tveimur karlkyns persónum sem geta sýnt okkur hvað í hetjunni býr. Þú þarft hvort eð er að troða einhverjum körlum í myndina. Það þarf að vera að minnsta kosti einn karl á auglýsingaplakatinu, annars gæti einhver haldið að öll þessi ofgnótt kvenkyns persóna væri lesbíur.
Í fyrstu gæti hegðun þess sem þjónar framvindu sögunnar virst áhorfendum ruglingsleg. Til dæmis gæti hann birst okkur fyrst þegar hann nálgast hetjuna okkar á krá. Hann sleikir viskíglasið sitt á tælandi hátt og hvíslar að henni að hann sé með tvo miða á „byssusýninguna“. Í næsta atriði kemur í ljós að hann á kærustu sem er líka stödd á kránni og svo fer hún allt í einu að snapa slagsmál við hetjuna meðan hann stendur glottandi úti í horni. Þessi gaur er svo óstöðugur að það mætti halda að handritshöfundarnir hafi skipt með sér línunum hans án þess að samræma nokkuð textann fyrr en eftir að tökur hófust. Skýringin er hins vegar sú að þjónn framvindunnar er í raun ekki sögupersóna. Hann er frekar eins og kynþokkafullur, vöðvastæltur vefstóll sem söguþræðir kvenpersónanna eru ofnir á. Jafnvel þó fleiri en einn af þessum þjónum framvindunnar sé í sama atriðinu (t.d. þegar þeir eru í veiðiferð eða jafnvel stríði) munu þeir samt eingöngu tala um konur, systur eða kærustur sínar. Á þennan hátt geta kvikmyndagerðarmenn laumast til að setja kjöt á bein þeirra sögupersóna sem virkilega skipta máli í myndinni.
Ef þú ert að semja handrit fyrir þátt í anda Game of Thrones eða True Blood, geturðu gengið enn lengra í því að nota „truflandi kynþokki til að fela leiðinlega framvindu“-aðferðina. Sem dæmi, þá gæti verið skot þar sem ein af aðalpersónunum talaði í löngu máli um barnæsku sína meðan tveir hálfnaktir skógarhöggsmenn sæjust strjúka skegg og bringuhár hvor annars í forgrunninum.
Ofangreind karlahlutverk ættu að koma þér nokkuð vel af stað í handritaskrifum. Sum ykkar eru hugsanlega að velta fyrir ykkur „en ef við bætum bara tvívíðum hlutgerðum karlahlutverkum við öll tvívíðu hlutgerðu kvenhlutverkin sem eru fyrir, verða þá kvikmyndirnar okkar ekki bara flatar og leiðinlegar?“ Jú, örugglega, ef þú vilt endilega líta á það þannig. En hvað annað er í boði? Að gera allar sögupersónurnar að fullmótuðum, flóknum manneskjum? Láttu ekki svona, þú getur ekki ætlast til þess að neinn leggi svo mikla vinnu á sig.
Það kemur fyrir, oftar en ekki, að hægt sé að finna Christina á Twitter og Facebook
C. Coville má leita uppi á Twitter
Greinin birtist upprunalega á cracked.com og er þýdd með góðfúslegu leyfi höfunda.
lol 😀
Enn eitt karlahlutverk sem konur fá aldrei:
http://community.feministing.com/2009/04/27/the_bumbling_man_reinforcing_m/
Þetta er áhugaverð grein, Siggi. Mér finnst reyndar sérstaklega áhugavert að höfundur hennar telur femínista ekki gagnrýna þessa karlstereótýpu nógu mikið. Þeir femínistar sem ég þekki láta ömurlegar karlstaðalímyndir fara í taugarnar á sér líka og gagnrýna þær opinberlega. Staðalímyndir feðraveldisins koma nefnilega niður á öllum. Staðalímyndin „Klaufalegir feður“ gerir lítið úr körlum og ýtir undir þá hugmynd að konur séu af náttúrunnar hendi hæfari til að sjá um heimili og börn. Allir tapa.
Hér er annars skemmtileg gagnrýni á þessa staðalímynd. Hún er skrifuð af femínista.
http://testudomeles.blogspot.com/2011/04/sitcom-dads-or-sexism-hurts-everyone-tv.html