Hugleiðing um kuntur

Stóran hluta eftirfarandi orða skrifaði ég fyrir nokkrum árum. Ég sat svo á þeim því mér fannst ég fara yfir strikið. Ég vissi ekki hvort fjölskylda mín yrði lögð í einelti, hvort ég fengi morðhótanir eða nafnlaus skilaboð í símann. Ég hef nefnilega skrifað greinar sem hafa valdið usla þrátt fyrir að vera blásaklausar baráttugreinar gegn kynferðisofbeldi. Viðbrögðin við þeim greinum komu mér í opna skjöldu því ég hélt í alvöru að allir væru á móti kynferðisofbeldi. Reyndar tel ég að allir séu á móti kynferðisofbeldi nema þegar yfirlýstir femínistar berjast gegn því. Þá helgar tilgangurinn ekki meðalið, því eins og helstu andstæðingar femínista fullyrða þá eru femínistar karlhatarar; einkum vegna þess að þeir setja baráttutækni sína fram á þann hátt að karlar verða í sviðsljósinu sem mögulegir gerendur. Af því er dregin sú ályktun að femínistar hati karlmenn og hati kynlíf, og talið er líklegt að þeir haldi að allt kynlíf sé nauðgun, sem er að mínu mati stórundarleg ályktun.

Ástæðan fyrir því að ég tengi baráttu femínista gegn kynferðisofbeldi við meint karla- og kynlífshatur femínista eru nokkur nafnlaus skilaboð sem ég fékk eftir að hafa skrifað nokkrar greinar um kynferðisofbeldi. Í þessum skilaboðum var ég kölluð eftirfarandi nöfnum: Sandpíka, femínistatussa og þurrkunta.

tumblr_static_the_vaginas_field_by_twitchkowitz-d47c2s7

Píkur, tussur, kuntur

Þessir heiti vöktu ekkert nema gleði hjá mér, þrátt fyrir að ég vissi að orðin merktu allt annað í huga sendanda en í mínum. Ástæðan fyrir því að ég varð hreinlega himinlifandi var að ég hafði nýlokið við að drekka í mig bókina Cunt eftir Inga Muscio.

Samkvæmt Muscio var orðið „kunta“ notað í fornöld sem heiti yfir sjálfstæðar konur sem samfélagið bar mikla virðingu fyrir. Í bókinni rekur höfundur á tilkomumikinn hátt hvernig merking orðsins breyttist frá því að vera heiðurstitill kvenna sem þóttu sýna mikið sjálfstæði og kjark, í að vera eitt grófasta skammaryrði sem hægt er að viðhafa um konu. Bókin er ákveðinn leiðarvísir til þeirra kvenna sem hafa það að markmiði að taka upp þetta valdeflandi orð, hefja það upp á sinn fyrri stall og gera jafnvel betur, því öflugra orð finnst varla, einmitt vegna þess að það er sveipað skugga skammar, viðbjóðs og óhugs.

Nafnlausu skilaboðin til mín voru ekki meint sem hrós heldur voru þau niðrandi athugasemd um mig sem konu, femínista og baráttukonu gegn kynferðisofbeldi. Í gegnum tíðina hafa þau orð sem lýsa kynfærum kvenna verið notuð sem gróf skammaryrði. Allar píkur, tussur og kuntur þessa heims hafa legið undir einhvers konar ámælum þegar er vísað til kvenna. Nýjasta tussan sem ég þekki til er reyndar karlmaður, en hann var kallaður tussa vegna þess að hann var að verja unglingsstúlkur fyrir ofbeldi. Það er mjög lítilsvirðandi að kalla karlmann kvenkyns kynfæranafni. Þú þarft ekki annað en að kalla mann konu eða kerlingu til að gera lítið úr honum. Hvernig ætli standi á því? Af hverju er það kvenlæga meira niðrandi en það karllæga? Fyrir því eru engin haldbær rök.

Karlmenn hafa typpi, skaufa, pung og hreðjar. Sjaldan eru þeir uppnefndir á niðrandi hátt sem typpi. „Þú ert nú meira typpið“ hljómar undarlega í eyrum okkar. Stundum er orðatiltækið „vertu með hreðjar“ notað sem lýsing á að sýna hugrekki, dug og þor. Sem er undarlegt í ljósi þess hversu viðkvæmt það líffæri er og flestir nota punghlífar í átaksíþróttum til að verja herlegheitin. Það er því ekki vegna lífeðlisfræðilegra þátta sem karlmannspungar eru taldir hugrakkir eða kuntur svo ómerkilegar. Merkingin er gildishlaðin af einhverju allt öðru.

betty-white-grow-some-ballsPíku- eða kuntuhlífar eru ekki til svo ég viti. Kannski vegna þess að þær eru miklu hæfari til að taka við höggum heldur en pungar eins og fræg leikkona sagði svo skemmtilega. Eina vörnin fyrir píkur eru hárin sem vaxa á þeim en flestar konur raka þau af. Það er undarlegt að mæta í sund nú á tímum þar sem hárlausar píkur á öllum aldri blasa við í sturtuklefunum. En sitt sýnist hverjum og líklega er píkurakstur smekksatriði og staðfesting á öflugu kynlífi viðkomandi konu, eða eins og einhver karl sagði í einhverju athugasemdarkerfi um daginn: „Það er betra að píkur séu hárlausar því það er ömurlegt að flossa um leið og maður stundar munnmök“. Það þýðir væntanlega að ekki sé hægt að stunda munnmök við hárugar píkur án þess að nota hárin sem tannþráð. Samkvæmt þessu er verið að verja bólfélaga sem hefur við okkur munnmök fyrir óæskilegum hárum, því ekki er verndin fyrir hárlausa píkuna.

Það er þrautin þyngri að fjarlægja skapahár. Það er mjög vont að fara í brasilískt vax, það gerir það enginn nema tilneyddur, ég hreinlega neita að trúa öðru. Sumar vinkonur mínar dæla í sig verkjalyfjum áður en farið er í vaxið, fara alls ekki á egglostímabili, fá sér nokkur hvítvínsglös og taka sér góðan tíma eftir vaxið til að jafna sig. Ávinningurinn er hárlaus píka eða pungur í 6 vikur. Síðan fara hárin aftur að vaxa og kláðinn er óbærilegur, eins og þú sért með kláðamaur. Þú getur náttúrulega rakað þig en þá er kláðinn enn verri og inngróin hárin verða bókstaflega eins og þú sért með hlaupabólu.

Einhver sagðist raka sig af hreinlætisástæðum og önnur bætti því við að rakstur skapahára hafi nánast útrýmt flatlús. Ég spyr mig hins vegar: ef tilgangur raksturs er að útrýma flatlús, af hverju skyldum við ekki alla til að raka af sér höfuðhárið og útrýma þar með lús? Við gætum t.d. mælst til þess að öll börn í leikskólum eigi hér eftir að vera sköllótt svo lúsin hverfi. Mig grunar reyndar að það séu ekki hreinlætisástæður sem stýra kynfærarakstri. Við höfum aldrei átt auðveldara með að nálgast böð, sundlaugar og sturtur. Umhverfið er orðið svo sterílt að við fáum kvef við minnstu snertingu.

Ég held að hárrakstursæðið sé tískufyrirbrigði og ekkert að því í sjálfu sér. Það er heldur ekkert að því að benda á fleiri möguleika svo að órakaðar kuntur og pungar geti borið sín djásn án augnagota og athugasemda um óhreinindi eða ásakana um að vera kyndilberar flatlúsarinnar.

gustave-courbet-origine-du-monde2
Gerðu það sem þú vilt en gerðu það á þínum forsendum. Rakaðu þig eða láttu pelsinn þinn vaxa og berðu hann með stolti. Hér er enginn að banna þér neitt heldur að frelsa þig frá áþján markaðsafla og hjarðhegðunar. Ég er sammála Caitlin Moran sem segir í bókinni: Að vera kona; Það er ótrúlegt að ástandið sé orðið þannig að það sé farið að kosta okkur að vera með píku. Við erum látnar borga fyrir umhirðu og viðhald þeirra eins og þær séu almenningsgarðar. Og allt er þetta í „boði“ Brasilíuvaxmeðferðarbransans sem veltir milljörðum á ári vegna hárlausrar kynfæraþráhyggju vestrænna landa.

En þú getur hætt að vaxa og látið hárin vaxa ef þig langar til þess. Stóri misskilningurinn um femínisma er að það sé kappsmál í öllum baráttumálum hans að banna eitthvað. Yfirleitt er bara verið að benda á aðra valmöguleika. Hvetja okkur til að hugsa, vera sjálfstæð, gagnrýnin og gefa okkur frelsi frá hjarðhegðun. Femínisminn hvetur okkur til að vera þessar kuntur sem sjálfstæðar konur voru kallaðar til forna. Því fátt er eins valdeflandi og að snúa við merkingu orða eða atvika sem eiga að vera niðrandi og bera þau með stolti og gera þau að sínum.

Ég á nokkrar vinkonur sem hafa verið kallaðar kuntur í gegnum tíðina. Þær eiga það sameiginlegt að vera áberandi, drífandi og hugrakkar konur. Þær synda á móti straumnum á margan hátt, eru beinskeyttar og láta heyra í sér. Ég ber því „meintu“ níðorðin til mín í nafnlausum skilaboðum með stolti. Ég er femínistatussa, þurrkunta og sandpíka og stolt af því.

Með kuntukveðjum,
Anna Bentína

4 athugasemdir við “Hugleiðing um kuntur

  1. Þó að Betty White sé óneitanlega skemmtileg eins og allir sem hafa séð Lake Placid geta vitnað til um þá sagði hún ekki þessi orð sem eru ranglega höfð eftir henni. Það var þeldökkur karlkyns standup grínisti sem ég hreinlega man ekki hvað heitir sem sagði þetta.

  2. Sæl Anna Bentína. Er það einhver míta eða bara grín að orðið ljósmóðir er kuntukafari á færeysku? Ef það er rétt sem ég hef aldrei fengið staðfestingu á, þá er ekkert skrýtið við það heiti heldur í raun og veru æði máttugt og dyggðutt!

  3. Nei, það er bara mýta. Síðast þegar ég vissi var ljósmóðir á færeysku „jarðarmóðir“ (frb. jaramóir). En þetta er gamall brandari.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.