Af mikilvægum og léttvægum femínískum baráttumálum

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Allri baráttu fylgir að fá á sig gagnrýni og barátta femínista er þar ekki undanskilin. Hversu sjálfsagt sem jafnrétti í einhverjum málaflokknum þykir í ákveðnu samhengi er næsta víst að málefnið hefur sætt gagnrýni einhvern tíma, einhvers staðar. Má skipta utanaðkomandi gagnrýni einkum í tvennt:

Mynd fengin af jezebel.com

Mynd fengin af jezebel.com

Femínistar vaða í villu og/eða ganga of langt

Femínistar eru reglulega taldir vaða í villu eða ganga of langt í baráttunni og beina sjónum að einhverju sem aðrir telja ekki vera vandamál, eða að minnsta kosti æði lítilvægt. Þetta er raunar algengasta gagnrýnin sem beitt er á femínista enda í eðli allrar baráttu gegn ríkjandi kerfi að einhverjum, jafnvel meirihlutanum, finnist ríkjandi fyrirkomulag í góðu lagi eða jafnvel hið besta af öllum mögulegum. Þannig þótti ýmsum barátta kvenna fyrir jöfnu aðgengi að menntun í kringum aldamótin 1900 ganga helst til of langt, eða eins og lýst er í greininni „Persónulegt frelsi“ (án höfundar) í kvennablaðinu Framsókn á Seyðisfirði 1897 (2. tbl, bls. 1):

En það er einkennilegt, að innanum allt frelsishjalið virðist brydda á römmustu apturhaldsskoðunum í ýmsu, og það kannske hjá þeim mönnum er þykjast vera sannir frelsispostular. Kemur þetta sjerstaklega í ljós, þegar um frelsi og menntun kvenna er að ræða. Allir þykjast vera sjálfkvaddir til að kveða dóm um það, hvað kvennfólk eigi að læra og megi læra, og eins að banna þeim að læra þetta eður hitt.

Núlifandi femínistar ganga líka reglulega of langt að mati margra. Eins og frægt er orðið hneyksluðust margir þegar Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi þá hefð á fæðingardeild Landspítalans að kyngreina nýfædd börn með klæðavali en eins og sjá má á umræðunum þótti þetta mál beinlínis hjákátlegt, líka í þingsölum. Sams konar öfgar og „vitleysu“ sáu margir í því framtaki Hildar Lilliendahl að safna karlrembulegum ummælum um konur í albúm en einnig þóttu Hildur og Helga Þórey Jónsdóttir fara offari í Jóns Baldvinsmálinu svokallaða.

Femínistar gera ekki nóg

Þó sjaldgæfara sé er einnig þónokkuð um það að femínistum sé legið á hálsi fyrir að gera ekki nóg í ákveðnum málaflokki. Oft, þó ekki alltaf, er þá um að ræða málefni þar sem hallar á karla. Sígilt dæmi um þetta er brottfall stráka úr menntakerfinu. Einnig má gera ráð fyrir því að einhverjum finnist ávallt gagnrýnivert ef ekki er gætt jafnræðis í umfjöllun um eitthvert málefni, eins og til að mynda ef kynferðis- eða heimilisofbeldi er rætt án þess að tekið sé fram að þótt konur séu í meirihluta þolenda séu líka tilfelli þar sem konur beita karla ofbeldi, eða þegar staða einstæðra mæðra er rædd án þess að tekið sé tillit til þeirra 10% einstæðra foreldra sem eru karlkyns. Þá má alltaf finna málefni sem femínistar hafa ekki beitt sér nægilega fyrir, að mati einhvers. Nýlega gagnrýndi prófessor í Háskóla Íslands femínista til að mynda fyrir að taka ekki nægilega á stöðu karla sem standa höllum fæti í samfélaginu.

Það er í eðli réttindabaráttu að mæta andstöðu, enda væri ekki um baráttu að ræða ef ekkert væri mótstöðuaflið. Vandinn er að mótstaðan kemur ekki bara að utan heldur líka að innan, því femínistar gagnrýna aðra femínista oft fyrir að hafa röng stefnumál eða vera ekki nógu miklir femínistar. Í þeim anda skrifaði Harpa Hreinsdóttir pistil árið 2012 undir yfirskriftinni „Er ég femínisti“, þar sem hún m.a. lýsti þeirri skoðun sinni að margt af því sem skrifað væri á Knúzinu væru „ómerkileg klögumál“ og margt mikilvægt væri hunsað af íslenskum femínistum. Þetta lýsir ákveðinni stigveldishugsun baráttumála, en sumum virðist þykja einfalt að raða femínískum baráttumálum upp í stiga eftir mikilvægi. Nýlegt dæmi um slíkt mátti sjá í kröfugöngunni á 1. maí þar sem hópur femínískra kvenna þrammaði undir kjörorðinu „Til fjandans með kynjakvóta, hættið að nauðga!“.

intersectionality

Mynd fengin af libcom.org

Auðvitað þarf femínisminn að vera sjálfsgagnrýninn svo hann geti sem best unnið að hagsmunum kvenna, sem eru jú mismunandi hvað varðar þjóðerni, stétt, menntun, kynhneigð, líkamlega getu og fleira og fleira. En  kynjakerfið snertir mismunandi konur að nokkru leyti á mismunandi hátt, þótt sameiginlegu fletirnir séu margir, og þess vegna gengur stigveldishugsunin ekki upp. Við þurfum að berjast gegn kynjakerfinu á öllum vígstöðvum og getum ekki verið að eyða orku í að gagnrýna hvert annað fyrir að leggja áherslur á önnur mál en við sjálf, auk þess sem ekkert okkar getur barist í öllum málaflokkum. Nýtum styrkleikana sem felast í því að vera margradda og þjónum ekki feðraveldinu með því að standa sjálf í niðurrífandi gagnrýni.

11 athugasemdir við “Af mikilvægum og léttvægum femínískum baráttumálum

 1. Varla er þó femínisminn yfir gagnrýni hafinn?

  Vissulega er ekki öll gagnrýni uppbyggileg og stundum á gagnrýni heldur ekki rétt á sér. En þessi grein virðist skrifuð út frá þeirri forsendu að engin gagnrýni eigi rétt á sér nema mögulega sjálfsgagnrýni femínismans.

  Gagnrýni getur verið bæði gagnleg og uppbyggileg, sé hún sett fram á réttum forsendum. Þær forsendur eru ekki *einungis* til staðar innan femínismans sjálfs… Oft verða fræðin samdauna og þá getur verið gott að fá ferskt sjónarmið.

  • Sælar,
   Þetta er mjög góður punktur enda er femínisminn síkvikt afl sem að hefur lært mikið af t.d. fötlunarfræðinni og hinseginfræðum ofl en með því að vera margradda hreyfing, samansett af fólki úr öllum áttum, ætti að verða gott flæði úr öðrum fræðum inn í femínísmann. Svo má velta því fyrir sér hvort að uppbyggileg gagnrýni, sem hefur það að markmiði að bæta femínismann, geti raunverulega komið utan frá eða hvort slíkt sé ekki alltaf líka femínísk gagnrýni…

 2. „Til fjandans með kynjakvóta, hættið að nauðga!“. Ég get ekki séð hvernig þessi setning þjónar feðraveldinu? eða hvernig sé hægt að upplifa hana sem niðurrif á feminískri baráttu? Eru ekki margir orðnir þreyttir á því að kynjakvótar eða jöfn launagjör taki svona mikið pláss í feminískri baráttu, ég er allavega orðin ansi þreytt á því.

  • Sælar,
   Stigveldishugsunin sem felst í þessu slagorði, að setja nauðganir ofar kynbundnum launamun sem baráttumál, er það sem ég er að gagnrýna. Það er ekki baráttunni til framdráttar að hugsa baráttumálin sem stigveldi, að mínu mati. Svo er ég ekki sammála því að launakjör og kynjakvótar taki of mikið pláss í femínískri baráttu, þessir málaflokkar gera það ekki hjá grasrótinni, þó þeir taki vissulega pláss í stefnumótun stjórnvalda enda þess eðlis. Ég nefni það reyndar ekki í pistlinum en það að setja þessi tilteknu tvö mál upp á móti hvor öðru fór sérlega fyrir brjóstið á mér því það er svo sterkt samband þarna á milli. Kynbundinn launamunur og kynbundið ofbeldi eru auðvitað afleiðingar sama hugmyndakerfis í fyrsta lagi, þar sem konur eru undirskipaðar körlum, en svo er líka samband á milli þessarrar tveggja forma kúgunar: Konur yrðu síður fyrir ofbeldi af hálfu karla td innan sambanda ef þær stæðu þeim efnahagslega jafnt. Kynbundinn launamunur þýðir til að mynda það að konur eiga fjárhagslega erfitt með að skilja, sérstaklega mæður.

   • Er ekki frekar verið að setja baráttuaðferðir í stigveldi með þessum frasa (til fjandans með kynjakvóta, hættið að nauðga) fremur en málefni? Ég sé alveg hvernig efnahagsleg afkoma og kynbundið ofbeldi tengjast en ég áskil mér engu að síður rétt til að krefjast þess fremur af körlum að þeir hætti að nauðga heldur en að fókusa á að koma sjálfri mér eða öðrum konum til metorða í rotinni samfélagsskipun sem mun aldrei bjóða upp á raunverulegt frelsi.

   • Sæl, Ég held frekar að það sé verið að setja málefnin í stigveldi. Þá á ég við að verið sé að setja þau í algilt stigveldi, í merkingunni að allir sannir femínistar hljóti að sjá að málefni a sé mikilvægara en málefni b. Augljóslega leggja svo femínistar áherslu á mismunandi baráttumál, og það er styrkur hreyfingarinnar að hver og ein/nn fókusi á einhver fá málefni, sem viðkomandi hefur þá líka sérþekkingu á.

   • Ókei, og á meðan þú rökstyður þá fullyrðingu ekkert frekar er enginn samræðugrundvöllur hér. Niðurstaðan er þá, rétt eins og kveikjan að greininni: femínistar eru ósammála.

 3. Það að fjalla um feminisma sem eitthvað eitt er ekki rétt, og það sama á um feminista. Feminismi er svo margskonar og ólíkur. Það hvernig feministar greina ójafnrétti og hvernig þeir vilja berjast gegn því er mjög misjafnt, þó oft á tíðum geta mismunandi feminista hópar komið saman og barist eða sýnt stuðning, og það er mjög fallegt. En oft eru feminista hópar bara alls ekkert sammála.
  Ég hef t.d. engan áhuga á að starfa með kapítalískum-feministum sem sækjast eftir peningum og völdum og finnst allt í lagi að nýta sér vinnuþrældóm annarra t.d. kvenna í láglaunastörfum. Og mundi þess vegna ekki gefa þeim samstöðu, en ég mundi t.d. sýna þolendum kynbundis ofbeldis samstöðu óháð pólitískri skoðun þeirra.

 4. Sælar,
  Ég sé hlutina aðeins öðru vísi: Að jafna stöðu kvenna í stjórnum fyrirtækja verður vonandi til þess að jafna stöðu kvenna alla leið niður, og kenningin er sú að ef að konur væru jafn áhrifamiklar og karlar væri ekki kynbundinn launamunur. Fyrir mér, snýst því kynjakvótamáliið ekki um að styðja við einhverjar kapítalískar píur í sínum frama, heldur allar konur. Jöfn efnahagsleg staða myndi svo þýða að staða kvenna væri betri en hún er í dag, sem aftur myndi þýða að þær væru ekki jafn efnahagslega háðar körlum. Þetta skiptir miklu máli.

  Varðandi kynbundinn launamun skiptir samt mestu máli að hækka laun í kvennastörfunum, umönnun, kennslu, þrif osfrv.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.