Litið um öxl: Þegar húsmæðraskólar voru femínískt mál

Höfundar: Þóra Kristín Þórsdóttir og Matthías Jochumsson

Kvennaskolinn_oldhouse

Kvennaskóli Húnvetninga, stofnaður 1879. Myndin er fengin af vef Textílseturs Íslands.

Á Íslandi hófst kvenfrelsisbaráttan upp úr miðri nítjándu öld og var líflega tekist á um ýmis baráttumál á síðum blaðanna. Ekki síst sést krafturinn í hreyfingunni í þeim fjölda kvennablaða sem sett voru á stokk. Þá voru þýddar greinar og fyrirlestrar erlendis frá og gefnar út, bæði í bókaformi sem og í blöðum. Menntun þjóðarinnar var mikið baráttumál á þessum tíma enda formleg menntun lítil, og ekki síst menntun kvenna, en baráttumálið sjálft breyttist þegar á leið. Fyrst var barist fyrir því að stofnaðir væru kvennaskólar sem sérhæfðu sig í hagnýtum undirbúningi fyrir húsmæður sem leiddi til stofnunar kvennaskóla víða um landið, t.d. tók Kvennaskólinn í Reykjavík til starfa 1875 og annar á Laugalandi í Eyjafirði 1877 (það er svo ekki fyrren á 20. öld sem hinir eiginlegu húsmæðraskólar eru stofnaðir sem reyndar sumir þróuðust út frá kvennaskólum 19.aldar). Má tengja þetta við áherslur sem lagðar voru í kvennahreyfingum víða annars staðar svo úr varð blómleg útgáfa bóka um heimilishald, t.d. í Bandaríkjunum. Á þessum snérist menntun kvenna ekki aðeins um þeirra hag heldur litu margar konur svo á að það að kenna konum réttara heimilishald (hvað varðar þrifnað, næringu og hagkvæmni) væri mikilvægt velferðarmál, bæði fyrir konurnar og börnin en einnig þjóðfélagið sem heild. Af klassískum bókum frá þessum tíma má nefna bækur Catherine Beecher  A Treatise on Domestic Economy og American Woman’s Home.

Síðar var farið að berjast fyrir jafnrétti í aðgengi að allri menntun, svo sem þess að opna Lærða skólann (síðar MR) fyrir konum en konur hafa mátt taka þar próf síðan 1886 og vera fullgildir nemendur síðan 1904. Þökk sé þessari baráttu fengust svo jöfn réttindi til menntunar og embætta árið 1911, og því hefur Háskóli Íslands verið opinn konum frá stofnun skólans.

Einn af þeim sem þátt tók í baráttunni var Matthías Jochumsson meðal annars þegar hann ritstýrði blaðinu Þjóðólfi. Hér á eftir er birt niðurlag greinar sem birt var í  Þjóðólfi, 27. Febrúar 1878 (8. Tölublaði, bls. 29 og 30).og er hér eignuð honum þar sem enginn annar er merktur sem höfundur. Stafsetning og leturbreytingar eru höfundar. Fyrr í greininni hefur hann farið yfir og lofað þá þrjá kvennaskóla sem þá höfðu verið stofnaðir. Athygli er sérstaklega vakin á því hvernig hann rökstyður nauðsyn kvennaskóla sem segir sitt ekki bara um viðhorf hans sjálfs heldur líka um það hvaða rök hann taldi myndu leggjast vel í lesendur blaðsins.

Hinir nýju kvennaskólar

Matthías Jochumsson

Kvennamenntunin er eitt hið allrahelgasta framfaramál lands og lýða. Því miður blindar vaninn og heimskan ekki einungis karla heldur og engu síður konurnar sjálfar, svo að það er líkast því, sem talaðar séu „framandi tungur“ fyrir mörgum, þegar talað er um menntunarleysi og undirokun kvenna. Menn gæta þess ekki, hvernig réttur hins sterkara hrópar til himins gegn karlkyninu gegnum alla sögu hins veikara kyns. Daglega drekka hinar fornu kvennkúgara-þjóðir af sínu illa og ódrengilega athæfi gegn mæðrum, konum, dætrum og ambáttum. Rödd réttlætisins lætur ekki að sér hæða, hún heyrist að lokum með skelfingu. Á Norðurlöndum (og einnig hér hjá oss) hefur kvennkynið átt að tiltölu við þolanleg kjör að búa, og um stórvægilega undirokun kvenna hjá oss er ekki rétt að tala, nema þegar menntunarspursmálið er dregið fram. Konur (þ.e. dætur manna) eiga fullkomlega sama rétt og tilkall til almennrar menntunar og bræður þeirra. En njóta konur eða hafa notið þessa réttar? Var ekki til skamms tíma lög og landsvenja, að systirin erfði hálfan hlut við bróðurinn? Eða er það ekki landsvenja enn, að eigurnar gangi til menntunar bræðrunum, en dæturnar fáí hvorugt, hvorki sinn hluta af fénu móti því, sem bræðurnir eyða, né heldur sinn hlut í menntun? Jú, þetta er landssiðurinn, með fáeinum undantekningum. En hvað sem réttinum viðvíkur, þá er hitt eins víst, að mannfélaginu er fullt eins nauðsynlegt og nytsamt að kona menntist eins og karlmaður – og eins og á stendur hjá oss- er almenn alþýðumenntun kvenna eflaust enn þá ómissanlegri en karla. Móðirin (fóstran) er fyrsti kennari flestra karla og kvenna sem á voru landi lifa, fyrsti, besti, dýrmætasti og drjúgasti. Konan er venjulega fædd fræðari og kennari, því skyldi henni þá sjálfri ekki eiga að kenna? Í hinum farsælustu ríkjum í Ameríku, er nú meiri hluti alls uppeldis og menntunar alþýðu komin í höndur kvenna, og er það einmæli, að slíkt hafi geysi-miklar og góðar afleiðingar. Réttindi kvenna til jafnrar menntunar er allt annað en þrefið um pólitísk réttindi kvenna, sem oss hvorki þarf né á við að koma. Það sem oss varðar um, það sem blessun lands og lýða er undir komin, það er, að dætur Íslands hefjist og fullkomnist að sama hlutfalli og eptir sama jafnaðarlögmáli og synir. Allir miklir menn hafa átt miklar mæður, segir orðtækið, og hver sá, sem ekki játar, hve dýrmætt sé að eiga góða og göfuga móður, og hver hefur átt betri vin en móður sína? Og hver mundi þá ekki vijla óska og unna sem flestum öðrum sömu hamingju með sér, að eiga ágæta móður? Nú er að vísu menntun nokkuð annað en móðurást og móðurágæti, en hver vill neita því, að menntunin sé mikilsverð, eða segja, að nokkur móðir þurfi hennar ekki við, eða eigi ekki skilið að verða hennar aðnjótandi? En vilji menn ekki þessu neita, eru menn þegar vel á veg komnir til þess að vilja styrkja vora kvennamenntun, enda er hún tímans krafa, sem með guðs hjálp ryður sér fyr en almenning varir til rúms hjá vorri gáfuðu þjóð.

Forsíðumyndin er úr leikfimistíma námsmeyja í Staðarfellsskóla 1939–1940 og er fengin af Sarpinum.

Ein athugasemd við “Litið um öxl: Þegar húsmæðraskólar voru femínískt mál

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.