Konur óttast ekki völd – Valdið óttast konur

Höfundur: Soraya Chemaly

 

Þegar ég las fréttir í gær [15. maí – innsk. þýðanda], um það að Jill Abramson hefði verið fyrirvaralaust vikið úr stóli aðalritstjóra The New York Times og að Natalie Nougayrède væri búin að segja af sér sem aðalritstjóri Le Monde fannst mér sem ég sæi bylgju kvenhaturs fara um loftið, eins og í hægmynd. Þetta minnti reyndar mjög á aðdraganda þess að ástralski forsætisráðherrann Julia Gillard var hrakin úr embætti. Sú atburðarás var líka hæg í fyrstu, en varð svo leifturhröð. Það er út í hött að einhverjum skuli þykja einboðið, þegar þessi atburðaferli hafa verið greind, að spyrja: „Óttast konur vald og velgengni?“  Þess í stað virðist mér mun eðlilegra að spyrja: „Hvers vegna vekja valdamiklar konur sem ná miklum frama í starfi svona djúpstæðan ótta?“

nyt mynd

Abramson and Nougayrède voru báðar brautryðjendur. Abramson varð fyrst kvenna til að taka við stjórnunarstöðu hjá The New York Times sem ritstjóri og Nougayrède var fyrsta konan sem varð bæði aðalritstjóri og forstjóri franska dagblaðsins Le Monde. Báðar þessar konur, sem nú hefur verið vikið úr starfi þegar skammt var liðið á ráðningartíma þeirra, gjalda fyrir afar kynbundnar hugmyndir okkar um vald og leiðtogafærni.  Abramson og Nougayrède eru kvenkyns og hafa því truflandi áhrif á samfélagsskipan okkar með því einu að fara á fætur á morgnana.

Þær eru holdgerving uppreisnar gegn ríkjandi menningu. Báðar eru þær reynslumiklar, hæfar, kraftmiklar, viljasterkar, skoðanafastar og ákveðnar og þær hafa sýnt af sér – hvort sem okkur þykir það aðlaðandi eða ekki – eiginleika sem við tengjum við leiðtogafærni. Báðar voru einangraðar, á þann hátt sem flestar konur í stjórnunarstöðu upplifa. Báðar þurftu að takast á við gríðarlegt álag í starfi og ögra um leið viðteknum hugmyndum allra – hvort sem það voru starfsmenn þeirra, yfirmenn þeirra eða fjölmiðlar – um það hvernig kynin eiga að haga sér; þær þóttu „hranalegar“ „frekar“ og „árásargjarnar“, málrómur þeirra og líkamstjáning sættu gagnrýni, metnaður þeirra og sjálfsöryggi einnig.  Þær meðvituðu aðferðir til að þrauka sem allar konur í leiðtogastöðu þurfa að beita í starfi  eru eðlisólíkar, og í hreinskilni sagt, talsvert meira íþyngjandi en aðferðirnar sem karlkyns kollegar þeirra þurfa að nota. Þó er konum sífellt sagt að til að ná árangri þurfi þær aðeins að fara að dæmi karlanna.

Ég gat því ekki stillt mig um að brosa kaldhæðnislega þegar ég las frétt á forsíðu The New York Times í dag um að „tilraunastofum væri nú gert að byrja að nota afbrigði sem hingað til hefði verið vanrækt: kvenkynið“, en sú frétt fjallaði um það hvernig vísindamenn sem stunda rannsóknir á sviði læknavísinda hafa fram til þessa hunsað konur og kvenlíkamann og einfaldlega gert að því skóna að konur myndu líka njóta góðs af hverju því sem kæmi körlunum vel. Alveg þori ég að veðja að fréttastjórarnir hjá Times gættu þess vel að orð eins og „hranaleg“, „frekja“ og „ráðrík“ kæmu hvergi fyrir í dálkunum, svona í ljósi frétta dagsins áður, en enginn þeirra virðist þó hafa áttað sig á því að „kvenkynið“ er auðvitað ekkert „tilbrigði“. Tilbrigði er frávik við það sem venjulegt telst og eðlilegt.

Fyrirsögnin varpaði ljósi á vandamál sem er ekki bara órjúfanlegur hluti af hugarfarinu hjá The Times heldur einnig viðtekin og almenn skoðun í samfélaginu: Við ætlumst ævinlega til þess að konur geri sér að góðu að þær séu álitnar frávik, eða tilbrigði við karlmenn, og að um þær sé fjallað sem slíkar. Þær tiltölulega fáu konur sem gegna leiðtogahlutverkum læra að aðlaga sig þessum takmörkunum, sem neyða þær til að hafna flestu því sem þeim var innrætt að gera, hugsa og upplifa sem konur. Flestar stúlkur, jafnvel stúlkur sem eiga jafnréttissinnaða foreldra, læra að setja hag annarra ofar sínum eigin, að hafa hljóð þegar hin ráðandi karlrödd talar á opinberum vettvangi, að láta eftir líkamlegt rými, að vera ekki truflandi. Á flestum karlstýrðum vinnustöðum þykja þetta hvorki eftirsóknarverðir eiginleikar né æskileg hegðun. Konum sem stíga út úr þeim ramma sem félagsmótunin setur þeim og sýna af sér valdsmannslega hegðun og krefjast áheyrnar er óhjákvæmilega refsað. Kona sem ekki sýnir af sér auðsveipni er svo óaðlaðandi.

Staðreyndin er sú að flestar stúlkur læra snemma að velferð þeirra og velgengni er nátengd því að vera aðlaðandi og ljúf. Þótt mörgum okkar þyki það skelfileg tilhugsun er það að vera „góð“ – sem er gríðarstórt hegðunar- og atferlismengi – sú aðferð sem við, stúlkur og konur, notum til að takast á við undirskipun okkar og aðlagast þeim aðstæðum að hafa ekki aðgang að öryggisráðstöfunum, úrræðum, aðföngum og valdi nema gegnum annan aðila, karlmanninn. Það lærða tungumál, hegðun, klæðaburður, notkun á líkamlegu rými, sem konur beita er ekki „kvenleiki“ heldur „valdaleysi“. Þess vegna eiga konur og einstaklingar úr minnihlutahópum í basli með að finna sig í „hlutverki stjórnandans“. Konur sem brjóta gegn þessum samfélagslegu viðmiðum eiga ekki heima í kynjamiðaðri samfélagsgerð okkar og menningu hennar.

Þetta sást berlega í tímariti The New York Times Magazine fyrr á þessu ár, þegar blaðið sýndi og sannaði að það er ófært um að birta konur í valdastöðu með myndrænum hætti. Forsíðumyndirnar af Hillary Clinton og Söruh Palin sýndu báðar líkamalaus höfuð sem svifu um í óreiðukenndum bakgrunni. Tímaritið brast hreinlega ímyndunarafl til að sýna konu sem valdatákn. Það sama gerist ítrekað í öðrum fjölmiðlum, þar sem konur og stúlkur sem hafa einhvers konar völd eru yfirleitt birtar sem ónáttúruleg, yfirnáttúruleg fyrirbæri, af svipuðum toga og nornir og vampírur, álfar eða hafmeyjur. Fast á hæla þessarar tilhneigingar, og enn og aftur bendi ég á The New York Times sem skýrt dæmi, er sú tilhneiging að aðeins sé hægt að fjalla um valdamiklar konur með því að setja þær í hlutverk „kvikindislegu stelpunnar“ („Mean Girl“). Í alvöru talað, svona rugl gæti maður ekki skáldað.

Þetta á rætur sínar í myndmáli menningar okkar og í tungumálinu. Orðin sem við tengjum við völd eru „karlkyns“ – ákveðinn, valdsmannslegur, afgerandi. Konurnar fá einkunnir eins og tík, rógtunga, nöldurskjóða, skrækróma, erfið, ósveigjanleg, ráðrík, tussa, herfa, árásargjöfn, uppstökk, frek og fleira miður skemmtilegt. Gleymdi ég nokkuð að nefna „hranaleg“? Æ, fyrirgefiði.

Félagsmótun barna fer fram samkvæmt skipulegu, tvíkynja kerfi. Þess vegna búum við nú, þrátt fyrir að hafa staðið okkur betur í skólanum en strákarnir í heila öld, enn í heimi sem karlar stjórna. Komur þurfa ekki að verða líkari körlum – en það er hertækni sem er notuð gegn þeim sem henni beita á hverjum degi . Við þurfum að gera vald kvenlegra, sem er aðferð sem heimurinn myndi allur njóta góðs af. Hér er ein hugsanleg flýtileið: Köllum allar konur með völd „karla“ og losnum við þessa leiðinda mismunun og þessar ósveigjanlegu staðalímyndir. Með því að kalla valdamiklar konur „karla“ plötum við heilabúið í okkur, sem er mettað af niðrandi kvenfyrirlitningarfrösum og staðalímyndum, rétt eins og manneskja sem hefur misst útlim getur notað spegil til að „plata“ líkamann og losna við draugaverkina. Og fyrst við erum byrjuð skulum við kalla alla karla sem sinna umönnunarstörfum „mæður“ og útrýma í einni svipan kerfislægum og augljóslega kynbundnum hindrunum á vinnumarkaðnum. Vanda sem Margaret Sullivan, sem sjálf er meðal ritstjóra hjá The New York Times, fjallaði um í nýlegri grein um tilfinnanlegan skort á konum í blaðamennsku.

Sumir halda að „kvennavandamálin,“ valdaójafnvægi og misrétti kynjanna séu „sögulegar leifar af mismunun kynjanna“. En þessar leifar umvefja okkur, reyra okkur niður og hefta okkur, uns við verðum eins og múmíur. Að missa þessar tvær konur úr sárlega fámennum hópi kvenna í stjórnunarstöðum í fjölmiðlum er gríðarlegur skaði, jafnvel þótt það marki mikilvæg og jákvæð tímamót að Dean Baquet skuli hafa verið ráðinn í stöðu Abramson. Margir telja að það hafi verið mistök að ráða Abramson til að byrja með og að Baquet hefði í raun verið rétti kandídatinn.

Það er alveg sérstaklega átakanlegt að þetta skuli hafa gerst minna en viku eftir andlát Judith Cummings (sem var fyrsta svarta konan sem var fréttaritstjóri hjá The Times).  Allt minnir þetta sérlega óþægilega á bandaríska sögu fyrir 19. stjórnarskrárbreytinguna, þegar kynþáttahatur og kvenhatur voru samþykkt og viðtekin viðhorf og hvítum konum og svörtum mönnum var gjarnan att saman á vígvelli staðalímyndanna. Og á meðan á þessu öllu gengur læðist að manni sá grunur að inni í hliðarherbergi sitji hvítu karlarnir með völdin og brosi í kampinn á meðan þeir púa vindil.

Þegar Julia Gillard var forsætisráðherra Ástralíu fengu fjölmiðlar um heim allan skyndilega áhuga á henni vegna ræðu sem hún hélt þar sem hún las öðrum stjórnmálamanni pistilinn fyrir að hafa sýnt af sér kvenhatur og kvenfyrirlitningu. Ræðan varð til þess að ritstjórar Macquarie-orðabókarinnar breyttu orðskýringunni fyrir orðið „kvenhatur“ úr því að merkja aðeins „hatur á konum“ yfir í að taka einnig til „rótgróinna fordóma gagnvart konum“. En hvaða skilgreiningu sem kosið er að nota og hvort sem hindranirnar þykja fela í sér beina eða óbeina mismunun er ljóst að kerfisbundin útilokun kvenna frá störfum og embættum sem fela í sér vald og stjórnun er eitt af því sem einna helst einkennir kvenhatur sem félagslegt fyrirbæri.

IMG_6088.jpg

Jill Abramson, með hranalegri framkomu sinni og frekjulátum, lagði meira af mörkum við að jafna leikstöðu kvenna hjá The New York Times en nokkur önnur kona hefur gert áður. Hún setti saman ritstjórnarteymi með jöfnum kynjahlutföllum og skapaði starfsumhverfi þar sem ungum konum fannst þær eiga betri möguleika á að vaxa og eflast í starfi. Hún vann áfangasigur í baráttunni við feðraveldið og birtingarmyndir þess um heim allan.

 

Soraya Chemaly er fjölmiðlarýnir og aðgerðasinni sem beinir sjónum sínum einkum að kvenréttindum, málfrelsi og mikilvægi kynhlutverka í stjórnjálum, trúarbrgöðum og dægurmenningu. Skrif hennar birtast reglulega í ýmsum fjölmiðlum, m.a. Salon, CNN, Huffington Post og The Guardian.

 

Þessi grein birtist fyrst hér. Halla Sverrisdóttir þýddi með góðfúslegu leyfi.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.