Höfundur: Sunna Kristín Hilmarsdóttir
„Það er ekki heil hugsun í hausnum á Kate Middleton.“ Vinur minn, sem hefur að flestu leyti sömu lífskoðanir og ég, lét þarna út úr sér setningu sem mér fannst svo full af kvenfyrirlitningu að ég hvæsti á hann: „Ég vissi ekki að þú værir svona mikil karlremba!“
Hann tók þá til að útskýra mál sitt og röksemdarfærslan var eitthvað á þessa leið: Hertogaynjan af Cambridge er ekki sjálfstæð kona. Hún hefur varla unnið ærið handtak um ævina og bjó alltaf heima hjá foreldrum sínum þangað til hún giftist prinsinum og flutti í höllina. Ég spurði vin minn þá hvort að þetta gerði hana heimska. Hann vildi nú ekki gangast við því að hafa kallað hana heimska en viðurkenndi fúslega að hann bæri minni virðingu fyrir henni af því að hún er ekki, það sem hann kallar, „sjálfstæð kona.“. Sú kona á starfsframa á eigin forsendum, hefur lært að standa á eigin fótum og lifir að sjálfsögðu ekki fyrir einhvern prins.
Ég skal viðurkenna að ég átti ekki til orð. Ég var nefnilega ekki viss um hvort ég væri kannski bara sammála vini mínum. Er Kate Middleton ekki ömurleg fyrirmynd þar sem hún er í raun ekki „sjálfstæð kona“? Svo hugsaði ég mig aðeins um og velti fyrir mér hver tilgangurinn væri eiginlega með jafnréttisbaráttunni, með femínisma? Eiga þær konur sem á einhvern hátt viðhalda kynjakerfinu minni virðingu skilda en hinar sem ögra því? Og hvað með þær konur sem lenda einhvern veginn á milli, eins og t.d. Margaret Thatcher? Hún var ekki mikill kvenréttindafrömuður en ögraði kynjakerfinu engu að síður með því að vera fyrsta og eina konan sem gegnt hefur stöðu forsætisráðherra í Bretlandi.
Í þessu samhengi er vert að minnast á að Kate Middleton hefur ekki farið varhluta af gagnrýni frá femínistum. Hún heur bæði verið kölluð útungarvél og dúkkulísa en eru þessi niðrandi uppnefni eitthvað svo langt frá þeim hlutverkum sem eru ætluð konum enn í dag? Eða er kannski samfélagslega pressan um að eignast mann og börn, líta vel út og borða lífrænt, bara ímyndun mín – einnar, einhleyprar, þrítugrar konu?
Ef ég ber mig saman við hertogaynjuna af Cambridge og skilgreiningu vinar míns á hugtakinu „sjálfstæð kona“ þá get ég reyndar með sanni sagt að ég sé akkúrat það: Ég flutti að heiman 23 ára, hef unnið mismunandi störf á mörgum stöðum og flutt til útlanda tvisvar, alein. Að sjálfsögðu á ég skilið mun meiri virðingu en þær konur sem t.d. ganga í klaustur eða eru heimavinnandi.
Kate Middleton verður líklegast seint kölluð feminískt íkon en ég velti því engu að síður fyrir mér hvort eitthvað hafi ekki glatast í áttinni að jafnrétti þegar minni virðing er borin fyrir þeim konum sem kjósa ekki „feminískt“ réttu leiðina í lífinu. Eða eru Kate Middleton og aðrar „ósjálfstæðar“ konur í raun að grafa undan baráttu þeirra sem á undan fóru, og þeirra sem berjast áfram í dag? Og má þá ekki segja það sama um allar mömmur í heiminum sem eru í hefðbundnasta kynhlutverki allra tíma, móðurhlutverkinu? Getur nokkur kona ögrað kynjakerfinu almennilega nema hún sleppi því einfaldlega að gerast útungarvél?
“ Að sjálfsögðu á ég skilið mun meiri virðingu en þær konur sem t.d. ganga í klaustur eða eru heimavinnandi.“
Þú ert að grínast, er það ekki?
Mér finnst nefnilega oft eins og hliðarverkun feministabaráttunar sé m.a. minni virðing fyrir heimavinnandi mæðrum og ‘undirgefnum’ konum sem ‘vita ekkert betur’. Þær eiga ekki minni virðingu skilið fyrir sínar lífsákvarðanir. Það eru ekkert allir til í að vera sjálfstæðir en það þýðir ekki að þau færa ekki fórnir sem eru minni en þeirra sem stunda sjálfbærni. Það að vera háð einhverjum fyrir uppihald er alveg svakaleg fórn í mínum augum t.d. en e.t.v. er það ásættanlegt fyrir aðra.
Það eru mismunandi konur til og sumar vilja vera heima í kjól og svuntu, en aðrar vilja klífa fjöll eða stjórna fyrirtækjum og það ætti allt að blessa. Feminisminn ætti að hjúfra um allar konur, ekki bara þær sem ögra staðalímyndum. Það myndi virkilega hjálpa öllum.
Jú, þetta er að sjálfsögðu kaldhæðni enda tel ég að virða eigi allar konur, óháð því hvort þær eru t.d. heimavinnandi eða forstjórar.
„Í þessu samhengi er vert að minnast á að Kate Middleton hefur ekki farið varhluta af gagnrýni frá femínistum.“ Hér mætti gjarna vísa í heimildir.
Ég hafði t.d. í huga ummæli rithöundana Joan Smith og Hilary Mantel. Það hefði jú vissulega verið betra að geta þeirra beint sem heimilda.
Takk fyrir góðan pistil.
Einhvern veginn finnst mér alveg vanta þann vinkil hér að margir eru bara einlæglega mótfallnir konungsveldi og því að það sé hægt að tilheyra einhverjum aðli sem eigi að vera öðru fólki merkilegri og lifa í vellystingum á annarra kostnað, alveg burtséð frá kyni. Kate er í svipuðu puntudúkkuhlutverki og karlinn hennar. Er ekki líka heldur langsótt að líkja henni við húsmæður?