„Kynlífsjákvæður femínismi“ annast skítverkin fyrir feðraveldið

Höfundur: Glosswitch

UntitledÍ augum kvenna sem hafa alist upp undir oki feðraveldisins getur femínismi verið ógnvekjandi. Konur eiga því að venjast að reglurnar séu fyrirfram ákveðnar og tiltölulega óbreytanlegar: Vertu óvirk, framkvæmdu vilja annarra, sýndu karllægu valdi virðingu, óttastu ofbeldi af hálfu karla, farðu ekki yfir mörkin. Þetta er dapurleg heimsmynd en kona veit þó að minnsta kosti að hverju hún gengur. Svo blandar femínisminn sér í málið og þá gufa þessi skýru mörk upp, eða þannig var það alla vega hér áður fyrr. Nú er þessu farið á annan veg.

Sú var tíðin að sjálft orðið – femínismi – var ögrandi. Nú orðið deplar fólk varla auga þegar það heyrir það nefnt. Það er eitthvað ömurlega kaldhæðnislegt við það að setningin „já, en ég er femínisti“ er orðin ein af kennisetningunum sem eru notaðar til að festa í sessi hið karllæga vald, með jákvæðum formerkjum. „En ég er femínisti, og mér finnst allt í lagi að vera hlutgerð/vinna ólaunaða vinnu/vera áreitt kynferðislega/vera kölluð tussa!“ Um leið er verið að segja okkur, að vísu undir rós, að við séum komin heilan hring hugmyndafræðilega. Femínisminn er búinn að taka fyrir og afgreiða öll hin meintu vandamál og hann, femínisminn, hefur komist að þeirri niðurstöðu að fullorðna fólkið hafi víst haft rétt fyrir sér allan tímann. Allt þetta dót sem við vorum alltaf að kalla kúgun og valdbeitingu? Við erum sko alveg orðnar sáttar og sælar með það núna.

Og víkur þá sögunni að „kynlífsjákvæðum femínisma“ – þetta afbrigði femínisma sem felur í sér, með því einu að vera til og vera kallað þessu heiti, þá fyrirfram gefnu skoðun að öll önnur afbrigði femínisma séu fyrir þrautleiðinlegar þurrkuntur og siðferðispostula sem þurfa í rauninni bara að láta ríða sér almennilega (og þá helst með typpi í píku-aðferðinni). Ég efast raunar ekki um að afbrigðið hafi upphaflega sprottið af góðum ásetningi og að undirrót þess hafi verið sú skiljanlega, ef gallaða, kenning að það sé ekki kynlíf sem slíkt sem þurfi að umbylta heldur umgjörð kynferðislegra samskipta undir oki feðravaldsins, og það er nálgun sem femínísk orðræða hefur ekki alltaf gefið nægilega mikið rými.

Hvað sem því líður og hverjar sem upprunalegu hvatirnar voru er málið þó komið á það stig að meintur kynlífsjákvæður femínismi er farinn að ganga erinda feðraveldisins, alveg óumbeðinn. Sjáið nú til – allar prúðu stúlkurnar sem ólust upp í þrúgandi ótta við að gera eitthvað sem ekki mætti samkvæmt óskráðum reglum hafa nú fundið leið til að gera nákvæmlega það sem til er ætlast af þeim án þess að gangast við áhrifunum sem það kann að hafa á líf annarra. Allar gömlu staðalímyndirnar eru á lífi og við hestaheilsu og þær njóta dyggilega stuðnings hugmyndafræðilegra meyja sem standa á því fastar en fótunum að þær séu algerar dræsur.

Það ætti að vera hægt að gagnrýna kynjapólitíkina sem kynlífssala undirbyggir án þess að vera umsvifalaust greindur með „hórufóbíu“. Það ætti að vera hægt að gagnrýna grímulausa hlutgervinguna á berbrjósta stelpunni á síðu 3 án þess að vera vænd um drusluskömmun. Það ætti að vera hægt að afþakka flaut og kynferðislega áreitni í munnlegu formi á götum úti án þess að sitja undir dylgjum um að vera haldin stéttarhroka, vera einfeldningsleg eða vera kynferðislega bæld. Það ætti að vera hægt að vera ósammála gildandi lögum um vændi og aðra sölu á kynlífsverkum án þess að sæta ásökunum um að valda meiri skaða en ofbeldisfullir kúnnar og nauðgarar. Til allrar ólukku virðist ekkert af þessu framkvæmanlegt í orðræðu samtímans og orsökin er fyrirbæri sem er hvorki sérstaklega kynlífsjákvætt né femínískt, en fullyrðir þó að það sé hvort tveggja. Í rauninni er þetta bara kjaftæði sem ýtir undir kynjamisrétti og dregur upp mynd af kynlífshegðun og kynverund sem byggir fyrst og fremst á framboði á konum og eftirspurn karla eftir þeim.

Grundvallarhugmyndin að baki kynlífsjákvæðum femínisma er bæði íhaldssöm og hugmyndafræðilega takmörkuð og hverfist um þann ótta að ef feðraveldið hopi af þeim vettvangi sem það er nú ráðandi á standi eftir kynlaust og ástríðulaust tóm. Og þó er sannleikurinn augljóslega sá að þau sem gagnrýna hlutgervingu eru síst af öllu haldinn einhverjum ótta við uppáferðir. Þeir femínistar eru óravegu frá þeim ímynduðu kerlingarteprum sem grípa skelfingu lostnar um perlufestarnar sínar og falla í yfirlið af minnsta tilefni, kerlum sem bæði kvenhatarar og kynlífsjákvæðir femínistar ímynda sér sem sinn höfuðóvin. Þeir femínistar hafa einfaldlega þróað jákvæðni gagnvart kynlífi einu skrefi lengra með því að gera sér ljóst að enginn tekur ákvarðanir í hugmyndafræðilegu og félagslegu tómi og að allir eiga að njóta virðingar sem sjálfstæð og sjálfráða kynferðislega virk manneskja. Það á við um þig en það á líka við um mig og milljarða annarra. Hér fer málið að vandast. Þetta snýst nefnilega ekki bara um þig. Og ekki heldur bara um mig. Við þurfum að skapa heim sem veitir svigrúm fyrir þarfir okkar allra, en til að skapa slíkan heim verða að eiga sér stað gagngerar breytingar á öllu orsakasamhengi ákvarðanatöku okkar í kynlífi.

Höfum nú eitt alveg á hreinu: Femínisminn vill feðraveldið feigt. Femínisminn ætlar hvorki að suða né biðja kurteislega. Femínisminn hefur ekki í hyggju að kenna konum að sætta sig við að lifa sem undirtyllur. Hann hefur ekki á verkefnalistanum að kenna okkur að svara munnlegri áreitni, káfi á rassinn eða tungu sem er troðið upp í okkur með hressilegu viðhorfi þeirrar sem lætur svona gaura ekkert angra sig, enn síður að bregðast við þukli eða nauðgun á „réttan hátt“. Og ef þú ert núna að hugsa „óttalega hljómar þetta eins og miklir fordómar“ segi ég þér hér og nú að ég skil það fullkomlega. Ég veit að hugtök eins og „feðraveldi“ og „yfirráð karla“ gera fólki órótt (ég myndi kalla það „femínistafóbíu“ ef mér þætti ekki kominn tími til að við hættum að sjúkdómsvæða óánægju okkar). Ég veit að til eru konur sem þjást af djúpstæðum ótta við þær breytingar sem femínisminn gæti orsakað á heimsmynd þeirra og kynferðislegri vitund og hegðun þeirra. Það er erfitt að styðja eitthvað sem hefur að lokamarkmiði að valda úrbótum fyrir alla – ekki bara fyrir þig sem slíka – en femínismi á ekki að snúast um að misnota orð (valdeflingu, val, frelsi) til að breiða yfir það sem við viljum helst ekki sjá eða vita af. Við komum hingað til að rífa húsið, ekki til að mála stofurnar upp á nýtt.

Ég dæmi sjálfa mig ekki fyrir kynlífssögu mína eða fyrir kynlífshegðun mína í dag. Ég dæmi aðrar konur ekki heldur fyrir þetta. Ég dæmi hins vegar félagslega samhengið sem við sem kynverur erum föst í og mér finnst það óheilbrigt samhengi. Ég ætlast ekki til þess að þú sért sammála mér en ég ætlast til þess að þú leyfir skoðun minni að heyrast, því annars verða aldrei neinar breytingar. Í Taming the Shrew? Choice feminism and the fear of politics lýsir Michaele L. Ferguson því hvernig óttinn við pólitískan femínisma veldur því að við sneiðum hjá greiningum á grunngerðum eða afgreiðum alla gagnrýni sem persónulegar og meiðandi:

[Valkostafemínismi] gefur villandi loforðum um að þar sem valkostir eru einstaklingsbundnir hafi þeir engar samfélagslegar afleiðingar; þannig losni konur við ábyrgðina sem fylgir því að taka tillit til hins stærra samhengis ákvarðanna sinna. […] Þar af leiðandi hefur valkostafemínismi mikil og afdrifarík áhrif á pólitíska hugsun kvenna: hann fælir okkur frá því að gangast við samfélagslegri ábyrgð okkar vegna ákvarðananna sem við tökum, hann þaggar niður gagnrýna umræðu um það hvaða valkostir teljast mikilvægir og hvaða valkostir eru í raun blekkingin ein, hann samþykkir og hampar neysluhyggjunni gagnrýnislaust og umræðulaust og það sem alvarlegast er fyrir framtíð femínismans: hann letur konur til virkrar stjórnmálaþátttöku […]

Ef okkur er ekki leyft að efast um réttmæti ákvarðanna okkar getum við ekki efast um feðraveldið eða neitt hinna stigveldanna sem skarast við feðraveldið. Án félagslegs samhengis eru okkur allar bjargir bannaðar. Við verðum á fá svigrúm til að kanna og ræða möguleikana sem gætu verið fyrir hendi til að gera hlutina öðruvísi, til að hugsa öðruvísi.

Slík könnun, slík orðræða gerir okkur ekki að fordómafullum eða teprulegum kerlingum með hórufóbíu. Hún gerir okkur heldur ekki óskeikular eða alvitrar. Hún gerir okkur að manneskjum sem setja sífellt spurningamerki við það sem er, var og verður, bæði hugmyndafræðilega og í verki. Hún gerir okkur að manneskjum sem eru tilbúnar til að óhreinka hendurnar. Það merkir að sama hvaðan við komum, sama hverjar við erum eða hver kynlífsreynslusaga okkar er, erum við ekki þær flekklausu.

Mig langar heldur ekki til að vera flekklaus og ég vil ekki hafa rétt fyrir mér í hvert skipti. Ég vil ekki að allar ákvarðanir verðir skoðaðar í einangrunarklefa, gerilsneyddar og lofttæmdar. Ég vil ekki að réttur minn til að fá að ríða sé háður því að einhver annar láti ríða sér. Það hlýtur að vera til einhver skárri aðferð við þetta.

—-

Pistillinn birtist fyrst hér, á síðu bloggskrifarans Glosswitch á vefsvæði dagblaðsins New Statesman. Halla Sverrisdóttir þýddi með góðfúslegu leyfi.

 

9 athugasemdir við “„Kynlífsjákvæður femínismi“ annast skítverkin fyrir feðraveldið

 1. Mér finnst þessi grein mjög vafasöm eins og allt annað sem segir konum hvernig þær eigi að haga sér innan hins „rétta“ feminisma. Það er ekkert að því að gagnrýna núverandi kerfi og mér finnst þessi grein bara svona 80% slæm, en öll orðræða sem snýst um það, beint eða óbeint, að konur eigi ekki bara að gera hvern andskotann sem þær vilja er vægast sagt vafasöm. Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta athugasemd við upprunalegu greininni á newstatesman.com frá Miriam Martin sem talar mjög til mín, þó ég ætli ekki að standa fast við síðustu 8 orðin:

  „It’s discouraging that you are taking the words/acts of one or a handful of people that you suggest have identified as sex positive, and then paint us all with the same brush. I find it humourous if not confusing that you would equate sex-positivism with conservatism. HUH!? Yeah, I think that there’s a whole variety of „healthy“ and normal sexualities that are stifled by patriarchy, and if it weren’t so, there would men and women with all kinds of likes and dislikes with respect to sex, and (shudder) some women will enjoy exhibitionism and/or voyeurism. How can you possibly call this conservative? Many sex-positive feminists, including myself, are actually fighting for a world without patriarchy, as well as fighting for harm reduction to improve the lives of women living in the real world today. I can’t think of any (serious) sex-positive feminists who would actually say that the „choice“ we envision and desire is accessible to us today. And that’s the whole point. We’re fighting for a different world, and in a world without patriarchy, women would be able to enjoy sex, promiscuous sex, exhibitionist sex, voyeurism, or celibacy without shame. So, I living in my post-post-modernist world consider my (sex-positive) vision to be infinitely more radical and progressive and revolutionary than any of your „radicals“ who frankly have become the new liberal feminists.“

  Já og ég bara verð að undirstrika það hvað mér finnst þessi lína hérna hræðileg og einfaldlega röng: „Grundvallarhugmyndin að baki kynlífsjákvæðum femínisma er bæði íhaldssöm og hugmyndafræðilega takmörkuð“
  HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA. Nei.

  • Kynlífsjákvæður femínismi svokallaður hefur kannski einhverja voðalega fallega hugmyndafræði. Ég hef samt aldrei séð það in action. Ég hef bara séð forréttindablindar konur rífast um að klám og vændi sé bara fínt því það eru einhverjir sem velji þetta, eins og það þurrki bara út ofbeldið sem viðgengst í þessum bransa. Þetta er svona pínu eins og að hlusta á fólk segja „hugsa jákvætt!“ þegar maður horfir framan í kerfi ofbeldis og kúgunar. Þetta er allt einhvernveginn centerað á einstaklinga án þess að horfa á the big picture. Kynlíf er sett á stall án þess að taka inn allt sem þarf að reikna inn í það með tilliti til forréttinda og ríkjandi kynjakerfis. Mér finnst mjög erfitt að hlusta alvarlega á hreyfingu sem virðist ofboðslega einstaklingsbundin.

   Mér finnst þessi grein einmitt frábær, því hún er reið, vond, sterk. Ég þoli illa þetta hugtak, því mér finnst það þrífast á hvítum sískynja forréttindum.

   Ég hef tvær greinar í viðbót við þessa sem mér finnst koma sterkt inná þetta undarlega viðhorf sem er sett á háan stall innan sex-positive femínisma.

   **TW því efni sem tengist þessu getur verið triggerandi**

   http://skepchick.org/2013/07/sex-negative/

   http://feministcurrent.com/8879/the-divide-isnt-between-sex-negative-and-sex-positive-feminists-its-between-liberals-and-radicals/

   Og aftur þessa (linkaði hana neðar á síðunni), því hún er frábær:

   http://thefeministwire.com/2013/10/sites-of-violence-why-our-notions-of-sex-positive-feminism-are-in-need-of-an-overhaul/

   • „Ég hef bara séð forréttindablindar konur rífast um að klám og vændi sé bara fínt því það eru einhverjir sem velji þetta, eins og það þurrki bara út ofbeldið sem viðgengst í þessum bransa.“

    Þú hefur þá ekkert verið að skoða argument frá konum sem vinna í „þessum bransa“ – eða eru þær líka bara forréttindablindar líka?

    Ég hef nefnilega bara séð forréttindablindar konur rífast yfir að klám og vændi sé bara allt hræðilegt og það þurfi að bjarga öllum sem þar vinna, burtséð frá því hvort að fólk vilji eitthvað láta bjarga sér.

    Það þrífst ofbeldi innan margra bransa – ég hef ekki séð neinn leggja til að það þurfi að leggja fata- eða snjallsímaframleiðslu af.

 2. Ég verð nú að segja að þetta virkar eins og svolítill strámaður. Held að flestir kynlífsjákvæðir femínistar sem ég kannast við sætti sig alls ekki við ríkjandi ástand og hvað þá kynferðislega áreitni eða stanslausa hlutgervingu kvenna. Enda margir tilheyrandi kynferðislegum minnihlutahópum.

  Útiloka auðvitað ekki að fólk beiti femínismanum fyrir sig til að afsaka ýmislegt óþægilegt en finnst kannski óþarfi að afskrifa hugtakið fyrir því.

  • Hæ Guttormur.

   Mér finnst svolítið undarleg rök að nota „ég þekki suma sem eru ekki svona“. Það sannar einfaldlega ekki neitt. Sex-positive hreyfingin hefur komið mjög illa við marga, og hefur verið sérstaklega gagnrýnd fyrir að vera forréttindablind hreyfing innan femínisma.

   Þessi grein kemur mjög sterkt inná af hverju þessi hreyfing er mikið gagnrýnd, ég mæli með því að þú eyðir smá tíma í að lesa þetta: http://thefeministwire.com/2013/10/sites-of-violence-why-our-notions-of-sex-positive-feminism-are-in-need-of-an-overhaul/

   Það eru auðvitað margar fleiri greinar sem koma inná þetta, það er mikið af góðum og málefnalegum greinum um þetta. Þessi er mjög in-your face, og ég fíla hana algjörlega í botn. Stundum verður maður bara þreyttur á að sykurhúða hlutina.

   En ég er alveg sammála því að það megi ekki bara afskrifa hugtakið algerlega. Það eru góðar hugmyndir sem koma þaðan eins og annarsstaðar. En þessi hreyfing þarfnast alvarlega að þeir sem aðhyllast þessa hugmyndafræði skoði aðeins sig og sín forréttindi og hvaða áhrif það hefur á þeirra sýn á þessi mál.

 3. Er algerlega sammála Sóley. Mér finnst þessi grein hræðileg. Ég er sjálf það sem myndi flokkast undir sex positive feminist og ég er enganvegin sammála meirihlutanum af þessum fullyrðingum greinahöfundar.

 4. Þetta er hressilega in-your-face grein þótt ég sé ekki sammála henni og finnist hún yfirfull af alls konar skrautlegum hugtökum raðað upp í ruglingslegar setningar. Þegar það gerist gruna ég alltaf viðkomandi um græsku að vera svokölluð pseudo-intellectual.

  Ég flokka mig með sex positive femínisma og ég get tekið undir þá gagnrýni að sú stefna á það til að vera of einstaklingsmiðuð og skorta að horfa á stóra samhengi hlutanna.
  En á sama tíma get ég gagnrýnt sex negative femínisma fyrir að einblína eingöngu á stóru myndina og búa ekki til rými fyrir alla þá mismunandi einstaklinga sem byggja upp samfélagið innan sinnar miklu hugmyndafræði.

  Það er einmitt þessi alltumlykjandi hugmyndafræði sex negative femínisma sem ég set varnagla við. Hún minnir mig ekki lítið á marxisma-lenínisma. Feðraveldið er orðið að eins stikkorði þar eins og kapítalismi var í denn. Feðraveldið er alpha og omega alls og ekkert reynt að skýra það nánar eða greina. Ef feðraveldið er alls staðar er það hvergi líka. Hugmyndafræði sem skýrir allt skýrir heldur ekki neitt.

 5. Bakvísun: Forréttindavændi og Femínismi | *knúz*

 6. Þessi grein er allt að því óhugnanleg… (eins og hún er nú innihaldslaust rant að mestu, sem gengur út á að gera þeim sem hún er ósammála upp alls kyns hvatir og óheilbrigð viðhorf án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt)

  Það helsta sem hún skilur eftir sig er það að konur megi ekki hegða sér eins og þeim sýnist í kynferðislegum efnum vegna þess að það gæti haft óbein áhrif á aðrar viðkvæmar og áhrifagjarnar konur sem kynnu að haga sér eins.

  Og já, vegna þess að þær eru í raun bara að fylgja utanaðkomandi stöðlum þó þær segist í raun og veru vilja haga sér svona – vegna þess að greinarhöfundur þekkir augljóslega betur en þær hvað þær vilja í raun.

  Svona mikil forsjárhyggja og heildarhyggja er eiginlega bara skuggaleg.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.