Er kvennaboltinn í ruslflokki?

Höfundur: Aron Bjarnason
Sum ykkar kannast kannski við að skoða íþróttasíður helstu fréttamiðlanna á klukkustundar fresti, bara til þess að vita örugglega um allt sem er að gerast í íþróttaheiminum. Ég er sjálfur mikill íþróttaáhugamaður og fylgist einmitt daglega með helstu íþróttasíðum landsins. Það fór því ekki fram hjá mér, og sennilega heldur ekki neinum sem skoðuðu íþróttafréttir í byrjun maí, að Pepsí-deild karla væri að fara í gang. Deildarkeppnin sjálf byrjaði 4. maí og nokkrum dögum áður skall á flóð af umfjöllun um allt sem viðkom karladeildinni. Stöð 2, sem er með sýningarréttinn á Pepsí-deildinni, var meðal annars með sérstakan upphitunarþátt, sem var einnig var birtur á http://www.visir.is, þar sem farið var yfir allt það helsta sem maður þurfti að vita um karladeildina á 70 mínútum. Eftir hverja umferð hjá körlunum er síðan Stöð 2 með samantektarþátt sem heitir Pepsí-mörkin, þar sem farið er yfir alla leiki karladeildarinnar í viðkomandi umferð, og sá þáttur er einnig tengdur inn á vefmiðilinn visir.is. Þessi umfjöllun er í sjálfu sér frábær og eiga íþróttasíður skilið klapp á bakið fyrir að fjalla vel og ítarlega um Pepsí-deild karla.

stjarnan íslandsmeistari pepsídeild kv 2013

Stjarnan varð Íslandsmeistari í Pepsí-deild kvenna 2013

Þann 13. maí hófst síðan keppni í Pepsí-deild kvenna. Það sem vakti athygli mína, og varð síðan ástæða þess að ég skrifa þennan pistil, var það að ég gat varla fundið nokkra frétt sem sneri að kvennadeildinni. Ég skannaði fréttayfirlit http://www.mbl.is og http://www.visir.is þann dag og sá að þar var sláandi munur á umfjöllun um Pepsí-deild karla og kvenna. Á fréttayfirliti Vísis yfir fréttir um íslenskan fótbolta birtust 25 leiðandi greinar. 24 þeirra voru tengdar karlaboltanum og þar af leiðandi fjallaði aðeins ein um kvennaboltann. Á fréttayfirliti Moggavefsins yfir fréttir um íslenskan fótbolta birtust 13 leiðandi greinar og voru 11 af þeim tengdar karlaboltanum en aðeins 2 fjölluðu um kvennaboltann. Stöð 2 gerði engan upphitunarþátt um Pepsí-deild kvenna, eins og gert var um Pepsí-deild karla, og einhverra hluta vegna er Pepsí-deild kvenna ekki til umfjöllunar í þættinum Pepsí-mörkin á Stöð 2, þar sem að aðeins er farið yfir leiki karlanna í þeim þætti og konurnar skildar út undan. Ætti þátturinn ekki frekar að heita Pepsí-mörk karla? Eins vel og þessir miðlar stóðu sig í umfjöllun og fréttaflutningi um Pepsí-deild karla þá stóðu þeir sig skammarlega illa í umfjöllun um Pepsí-deild kvenna. Hver er ástæða þess að munurinn á umfjöllun kynjanna er svona svakalega mikill? Ég held að það sé fyrst og fremst fordómar og rótgróin, úrelt viðhorf. Ég var sjálfur með mikla fordóma gagnvart kvennaboltanum þegar ég var yngri og fannst ekkert eðlilegra en að koma með kjánalegar staðhæfingar eins og að karlar væru betri en konur í fótbolta og fleira í þá áttina. Mér fannst fullkomlega eðlilegt að dæma allar íþróttakonur, og í þessu tilfelli fótboltakonur, sem verra íþróttafólk vegna þess að mér fannst og var kennt að við strákarnir værum bara svo miklu betri en stelpurnar í íþróttum, þrátt fyrir að hafa aldrei gefið þeim séns. Ég sé það í dag hvað þetta voru miklir fordómar hjá mér, enda hafði ég aldrei kynnt mér íþróttir kvenna og ekki urðu íþróttafréttir til að hjálpa mér að kynnast þeim. Ég hef sem betur fer þroskast upp úr þeim hugsunarhætti, ég fór að afla mér þekkingar og fór að horfa stöku sinnum á kvennaboltann. Og hvað haldið þið, mér fannst hann alveg jafn skemmtilegur og karlaboltinn! Hann var bara kynntur og markaðssettur sem eitthvað 2. flokks efni. Fordómafull umræða (eða engin umræða) einkenndi umfjöllunina sem kvennaboltinn fékk á sínum tíma og greinilega fær enn.

"Strákarnir að verða klárir í slaginn" - á forsíðu Fréttablaðsins 3. júní 2014. Í sama blaði er frétt um nýja rannsókn Þórhildar Ólafsdóttur íþróttafræðinema við HR, sem sýnir fram á gríðarlegan kynjahalla í fjölmiðlaumfjöllun um fótbolta.

„Strákarnir að verða klárir í slaginn“ – segir á forsíðu Fréttablaðsins 3. júní 2014. Í sama blaði er frétt um nýja rannsókn Þórhildar Ólafsdóttur íþróttafræðinema við HR, sem sýnir fram á gríðarlegan kynjahalla í fjölmiðlaumfjöllun um fótbolta.

Ég er ekki að segja að kvennaboltinn sé nákvæmlega eins og karlaboltinn, heldur að mér finnst kvennaboltinn ekki síðri, enda er markmiðið ekki endilega að gera hann eins. En með betri og aukinni umfjöllun og sanngjarnri markaðssetningu gætum við kynnt Íslendinga fyrir þeim mögnuðu fótboltakonum sem við eigum og í leiðinni byrjað að eyða fordómum gagnvart íþróttum kvenna. Ég tel einmitt að fjölmiðlar hafi það að miklu leyti á sínu valdi að skapa stemningu og áhuga fyrir leikjum. Þess vegna held ég það væri mun meiri eftirspurn og áhugi  á kvennaboltanum ef hann fengi jafn mikla umfjöllun og karladeildin. Ég vil líka taka skýrt fram að ég er ekki að setja út á umfjöllunina sem Pepsí-deild karla fær, hún má endilega halda áfram að vera svona góð, heldur er ég að gagnrýna vöntun á umfjöllun um Pepsí-deild kvenna og almennt á umfjöllun um íþróttir kvenna. Mér finnst rangt að vera að bera saman kvennaboltann og karlaboltann og halda því fram að einn sé betri en annar. Þannig munum við alltaf upphefja eitt á kostnað annars. Mér finnst þetta oft fara út í einhvern meting á milli kynjanna sem er í raun bara hallærislegur. Þó svo að einhver bendi á skort á umfjöllun um íþróttir kvenna er ekki verið að taka eitthvað frá umfjöllun um íþróttir karla! Þetta snýst um að bæta stöðu íþróttakvenna samhliða stöðu íþróttakarla, því bæði kynin eiga svo sannarlega skilið góða og jafna umfjöllun og markaðssetningu, sama hvor boltinn okkur finnst betri eða skemmtilegri. Erum við ekki öll sammála að það mætti bæta stöðu kvenna í íþróttafréttum? Ég hef tekið þá ákvörðun að fara ekki á neinn leik í Pepsí-deild karla í sumar, heldur ætla ég að styðja kvennaboltann í verki með því að mæta á völlinn og hætta að samþykkja það að kvennaboltinn og kvenkyns íþróttafólk sé almennt ekki metið til jafns við karlana, og fái að jafnaði miklu minni umfjöllun og athygli en karlaboltinn og karlkynsíþróttamenn. Ég hvet alla til þess að kynna sér Pepsí-deild kvenna í sumar og mæta á leikina hjá þeim líka! Áfram stelpur!

8 athugasemdir við “Er kvennaboltinn í ruslflokki?

 1. Jú, áhugaverðar pælingar. Egg og hænur. Hvort er svona lítil mæting á kvennaboltann vegna þess að kvennaboltinn fær svo litla umfjöllun í fjölmiðlum, eða er svona lítil umfjöllun um kvennaboltann vegna þess að mæting er svona slök?

  Síðan bætast við fleiri víddir eins og, hafa karlar meiri áhuga á íþróttum en konur? Og er karlabolti skemmtilegri en kvennabolti, t.d. í ljósi þess að hraðinn er meiri, tæknin betri, sem skýrast þá enn mögulega af því að mun fleiri karlar hafa atvinnu af því að spila fótbolta en konur, sem skýrir að hluta a.m.k. af hverju þeir eru betri. Þá spila einhverra hluta vegna mun fleiri karlar fótbolta en konur, sbr. fjölda liða í meistaraflokki sem og öðrum flokkum.

  Grunnspurningin er því þessi, er jafnmikið „pótensíal“ í kvennaboltanum og karlaboltanum? en kvennaboltanum hefur bara verið haldið niðri af hinum ýmsu birtingarmyndum feðraveldisins og því ekki fengið að blómstra, eða er hann einfaldlega ekki eins skemmtilegur, og konur einfaldlega minna áhugasamar um þátttöku í boltanum eða mætingu á völlinn en karlar, og því eingöngu um lélega samsæriskenningu að ræða meðal fórnarlambafemínista.

  Ekki veit ég svarið, en mig grunar að þetta sé blanda af báðu.
  Sjálfur hef ég sáralítinn áhuga á fótbolta, og finnst ekkert sérstakt gáfumerki að eltast við hann og finnst sérstaklega mikil tímaeyðsla að verja heilu klukkutímunum í að horfa á hann eða pæla í honum.

  Og varpa ég því fram síðustu tilgátunni sem er: Eru konur e.t.v. að jafnaði skynsamari en karlar? Og ef svo, er eftir einhverju meiriháttar að slægjast fyrir þær með því að forheimska sig niður á sama plan og þeir?

 2. Setjum þetta upp í dæmi:

  Fjölmiðlar setja inn greinar, með því markmiði að ná sem mestum lestri. Meiri lestur = fleiri flettingar = hærri auglýsingatekjur.

  Kostnaðurinn á móti eru laun fréttaritara. Fleiri greinar = fleiri vinnustundir = hærri launakostnaður.

  Er ekki rökrétt út frá rekstrarlegu sjónarmiði að nota tímann í greinar sem skila sem mestu til baka til fyrirtækisins?

  Það er nefnilega staðreynd að greinar um karlafótbolta eru margfalt meira lesnar en greinar um kvennafótbolta, og það er óvéfengjanleg staðreynd.

  Afhverju ættu 365 Miðlar, einkarekið fyrirtæki, að eyða tíma og fjármunum í að framleiða þætti um kvennafótbolta sem myndu fá lítið áhorf og skila litlu til baka? Ef að fyrirtæki framleiðir vöru sem selst illa og stendur ekki undir sér, þá er mjög eðlilegt að hætta framleiðslu á henni og einbeita sér að vinsælu vörunum.

  Economics 101, ekki kvenhatur eða fordómar.

  • Mér finnst samt skritið að þú skulir segja að það borgi sig ekki fjárhagslega fyrir miðlana að sýna frá kvennaíþróttum vegna lítils áhorfs. Það er erfitt að segja að það sé lítið áhorf þar sem það hefur ekki verið mikið sýnt frá íþróttum kvenna hér á landi. Kannski myndi vera mikið áhorf á það efni ef það væri sýnt, það er ekki hægt að dæma það fyrirfram.

 3. Fyrst og fremst þarf áhugi á fréttunum að vera til staðar. Ekki er það í verkahring gjaldþrota fjölmiðla að búa til umfjöllun sem fáir hafa áhuga á bara til að tryggja jafnrétti? Á meðan margir leikir í karlabolta eru trekkja að um og yfir 1000 manns á meðan rétt rúmlega 350 manns mættu á leik kvennaliðs Vals fyrr í vikunni. Ég styð karlalið um miðja 1. Deild og á leiki þess mæta svipað margir og á kvennaknattspyrnu. Enda er umfjöllun um leiki þeirra í svipuðu hlutfalli. Þetta fjallar bara um framboð og eftirspurn, ekki kvennfyrirlitningu.

 4. Gæti verið að munurinn eigi rætur sínar að rekja til áhuga og eftirspurnar?? Það er mér þó óskiljanlegt, eins og þú kemur sjálfur inná, afhverju í ósköpunum þeir sýna ekki frá Pepsí deild kvenna í Pepsí mörkunum!!!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.